Færslur

Sýnir færslur frá janúar, 2009

Er Mánagatan að seljast? - 13. kafli

Skrifuðum undir kaupsamning í morgun. Leigjendurnir flytja út í næstu viku og þá verður eignin afhent og bróðurpartur kaupverðs greiðist til okkar. Nei, reyndar til að vera með þetta rétt þá greiðist kaupverðið til Kaupthings hins nýja, sem notar peninginn til að greiða upp lánin okkar á eigninni. Afsal er ráðgert um mánaðamótin febrúar-mars. Watch this space!

Málþroski barna

Jæja, þá er litla svínið búið að læra tvö fyrstu orðin. "Mamma" og "datt" Kemur sér vel ef ég verð einhverntímann kærður fyrir heimilisofbeldi.

Krabbamein

Hún er með æxli í heila, enda hefur hún ekki hugsað heila hugsun í háa herrans tíð. Hann er með æxli í vélinda, enda hefur ekki verið hægt að toga bofs af viti upp úr honum í manna minnum.

Fyrirsjáanlegt?

Þingfundi aflýst í dag. Spurning hvort þingmenn séu strax komnir í páskafrí eða hvort þeir séu smám saman að fatta að sterkasti leikurinn í stöðunni er að fara strax á eftirlaun meðan díllinn er enn svona góður. Eitt samt: Geir og allir hinir vitleysingarnir hafa mikið talað um að ekki hafi verið hægt að sjá hrunið fyrir. Hvernig stendur þá á því að maður les í blöðunum að í látunum í gær hafi þingmenn getað komist undan með því að fara um neðanjarðargöng út úr Alþingishúsinu? Viðbyggingin var reist í miðju góðæri og ráðamenn hljóta að hafa lagt fram einhverjar óskir um útfærslu. Ef ráðamenn láta búa til neðanjarðargöng út af vinnustað sínum, er það þá ekki merki um að þeir búist við að þeir þurfi að nota þau einhverntímann, til að komast heim í Garðabæinn?

Mótmælandi skríll

Skrapp að gamni niður að Alþingishúsi í gær. Þar var samankomið allmargt ógæfufólk - ég taldi tólf fastagesti Grand Rokk í þvögunni - og reyndar líka alls konar venjulegt fólk sem barði potta og pönnur og var með læti. Mér fannst stemmningin fáránlega róleg miðað við ástandið og ófyrirleitni þeirra sem sátu inni í húsinu, en það færðist víst eitthvað fútt í þetta þegar leið á daginn. Ég frétti það á götunni að Ingibjörg Sólrún lægi fyrir dauðanum, fundist hefðu þrjú alvarleg meinvörp í höfði hennar þarna í Svíþjóð. Sem sannar að það er krabbameinsvaldandi að sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þegar ég svo heyrði að fyrsta mál á dagskrá Alþingis væri ekki efnahagsástandið, mótmælin, Icesave, atvinnuleysi né þingrof og boðun kosninga, heldur færsla á sölu áfengis inn í smásölubúðir Baugs, ákvað ég að láta þetta nægja og gefa mönnunum frið til að ræða þetta mikilvæga mál.

Grandarar

Í fyrradag var ég á Grand Rokk einu sinni sem oftar. Sá að von var á almenningsvagni sem myndi keyra mig heim svo ég labbaði út á stoppistöð. Og beið. Og beið. Og beið. Svo kom Arnar vinur minn, sem var líka að fara að nota almenningssamgöngur til að komast í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Nema hann ætlaði að taka leið 1 til Hafnarfjarðar. Og ég beið. Og beið. Loks gafst ég upp. Sagði Arnari að vagninn hlyti að hafa verið á undan áætlun (ekki í fyrsta sinn sem það hefði gerst) og að ég sæi mér þann kost vænstan að fara aftur á barinn og fá mér einn og taka svo næsta vagn heim. Labbaði inn á barinn og pantaði bjór. Barþjónninn byrjaði að hella í hann en þurfti frá að hverfa því síminn hringdi. Barþjónninn lagði bjórinn minn hálffylltan frá sér og svaraði símanum. Lagði á skömmu síðar og sagði mér að þetta hefði verið Arnar að láta vita að ellefan hefði verið að koma!

Er Mánagatan að seljast? - 12. kafli

Nú hefur lán að upphæð ca. 900.000 kr. verið greitt upp. Hvað ætlar Kaupthing Bank að gera næst til að leggja stein í götu okkar sem viljum bara fá að selja íbúð sem við þurfum ekki lengur? Watch this space! Fasteignasalinn ætlar nebbla að tilkynna Kappaflingfling á morgun að íbúðin sé seld og ég er viss um að John Cleese verður ekki hress.

Úpps!

Eins og fram hefur komið er ég búinn að bóka mér far til Manchester um mánaðamótin febrúar-mars til að horfa á fótboltaleik. Komst hins vegar að því í dag að ef Manchester United vinnur leik sinn gegn Derby County annað kvöld komast þeir í úrslitaleik deildabikarsins sem haldinn er þessa sömu helgi ... á Wembley-leikvanginum í London! Og leiknum í Manchester verður þar af leiðandi frestað. Aldrei slíku vant mun ég því vonast eftir tapi minna manna annað kvöld. Sjitt!

Er Mánagatan að seljast? - 11. kafli

Jæja, nú hefur kaupandi fengið vilyrði fyrir láni hjá Íbúðalánasjóði en þeir eru óhressir með hvað mikið hvílir á íbúðinni - burtséð frá því að kaupandi hyggst ekki yfirtaka lánin. Þannig að: nú þurfum við að nurla saman peningum til að greiða upp eitt lán áður en af kaupunum getur orðið. Liðlegheitin í bankakerfinu á Nýja Íslandi eru ekki meiri en svo. Auðvitað ætluðum við allan tímann að nota kaupverðið til að borga öll lánin upp, þannig að þetta skiptir í raun litlu, en samt... Watch this space!

Jújú, það er lítið að gera í vinnunni...

Sem getur verið ágætt, nema að maður er skyldugur til að vera á staðnum í ákveðinn tíma. Og ég get ekki eytt deginum á Feisbúkk því ég er ekki á feisbúkk. Jæja, allavega leikur í kvöld, verður gaman að sitja í sófanum heima með franskar í annarri og kokkteil í hinni... ...nei, ég má það víst ekki sagði hjartalæknirinn. Fæ mér bara einn kokkteil og sleppi frönskunum.

Ég skal vera Grýla

Mynd
Nuff said.

Kreppa Schmeppa

Var að bóka mér far til Manchester í lok febrúar, vetrarfrí sko. Kíki á leik með United og drekk almennilegan bjór for a change.

Hjá hjartalækni

Mynd
Var hjá lækni áðan, að skoða hvort eitthvað væri að hjartanu. Búinn að vera eitthvað máttlaus síðan rétt fyrir jól, vildi tékka á þessu. Kemur á daginn að það er ekki rassgat að mér. Var ekki einu sinni bannað að drekka bjór. Skál fyrir því!

Er Mánagatan að seljast? - 10. kafli

Kaupthing vill ekki leyfa neinum að yfirtaka lánin okkar að því er virðist. Nokkuð ljóst að ef okkur tekst einhverntímann að losna við þessa eign verður snarlega hætt í viðskiptum við þann glæpabanka. Nú á að reyna við Íbúðalánasjóð með allskonar tilfæringum, hækka kaupverðið svo gaurinn fái 80% lán og gefa svo afslátt á kaupverði svo hann geti notað allt lánið til að ganga frá kaupunum. Watch this space!

Aftur til starfa

Þurfti að vakna kl 6 í morgun, fara á fætur, fá mér hafragraut og taka strætó borgina á enda til að komast í vinnuna. Mætti síðast í vinnu snemma í júní 2008. Þetta voru svolítil viðbrigði, sérstaklega þar sem litla svínið var ekki með þessa breytingu á hreinu og var á öskrunum fram eftir nóttu. Enda er ég nú soldið þreyttur. Vinnudagurinn var sem betur fer nokkuð meinlaus, allavega framan af. En endaði í löngum og leiðinlegum tuðfundi. Sem ég gafst upp á kl. hálffjögur og tók strætó heim. Heim? Auðvitað ekki. Þurfti nauðsynlega að koma við á heimleiðinni, fá mér einn bjór (í einu) og fara í bónus. En ég fer alveg að drífa mig heim.

Er Mánagatan að seljast? - 9. kafli

Fengum tilboð í dag sem við samþykktum. Kaupandi fer í greiðslumat á mánudaginn, segist ætla að taka yfir lánin og færa um leið viðskipti sín í Kaupthing til þess að reyna að hafa þá góða. Niðurstaða greiðslumats ætti að liggja fyrir í vikunni og þá (ef vel gengur) verður gengið frá kaupsamningi. Watch this space!

Jól á Miðbraut

Mynd

Bleikt fréttablað

Blaðið kom inn um lúguna í morgun. Ég sótti það og bar inn í eldhús. Skellti því á borðið, kveikti ljós og náði mér í djús í ísskápinn. Sneri mér aftur að borðinu og hló. Það leit út eins og ég væri með Viðskiptablaðið á borðinu hjá mér. Á þessum viðurstyggilega laxableika pappír hvers tilgang ég hef aldrei skilið. "Noh!" hugsaði ég, "Viðskiptablaðið farið á hausinn, prentsmiðjan full af laxableikum pappír, annað hvort að selja hann fisksölum eða nýta hann." Hló aðeins. Hvarflaði ekki að mér að þetta væri tilfellið samt. Hugasði sem svo að það hlyti að vera einhver önnur skýring á þessu. Ekki er V-dagurinn í dag, þetta með brjóstakrabbann er líka búið... Mér datt samt ekkert annað í hug. Kíkti svo á vísipunkturis. Þar var frétt um að Fréttablaðið yrði á laxapappírnum næstu daga svo ekki þyrfti að henda honum. Kreppan heldur áfram!

Bókadómur - Land tækifæranna eftir Ævar Örn Jósepsson

Fín.