30 nóvember 2017

Mosi frændi vekur hörð viðbrögð

Síðan í menntó hef ég verið hluti af hljómsveit sem kallar sig því óvenjulega nafni Mosi frændi. Sumum finnst gaman að okkur og við náðum því sem fáum hefur tekist, að gefa sjálfir út lag og koma því í mikla útvarpsspilun og á vinsældalista, þegar tveir útgáfurisar voru nær einráðir á markaðnum og hleyptu bara þeim að sem voru "líklegir til vinsælda" - sem við vorum pottþétt ekki.

Lagið var gefið út á lítilli plötu sem er uppseld í dag og eintök skipta höndum fyrir frekar háar fjárhæðir á safnarasíðum.

Áratugum síðar gerðist það svo óvænt að gerð var netkönnun um hver væri besta smáskífa íslensku rokksögunnar. Nokkur hundruð manns tóku þátt og við sigruðum afgerandi. Spáðu í mig með Megasi var í öðru sæti. Spáðu í það!

En við höfðum líka alltaf einhvern veginn lag á að fara í taugarnar á fólki. Þóttum ekki nógu flinkir á hljóðfærin, vera með ágætar hugmyndir en ekki ráða við að útfæra þær, eiga okkur óraunhæfa drauma um vinsældir miðað við hvað við værum lélegir... og þannig mætti áfram telja.

Hér eru nokkur dæmi um það sem fólk hefur skrifað um okkur í fjölmiðla í gegnum tíðina. Þetta eru bara dæmin um það þegar fólk fann okkur allt til foráttu. Kannski verður seinna gerð samatekt á því þegar fólk var ánægt, hver veit?


Þjóðviljinn 6. desember 1987. Ævar Örn Jósepsson skrifar:

Eftir nokkra bið og annað vatnsglas stigu á stokk sjö ungmenni í ungmennafélaginu Mosi frændi. Lítillega hefur verið minnst á þann félagsskap á þessum síðum áður, en þá hafði ég aldrei séð þá í sínu rétta umhverfi. Það er skemmst frá því að segja að framganga þeirra var öll hin vasklegasta og ungmennafélagshreyfingunni til mikils sóma. Enginn þessara drengja virtist öðrum fremri hvað hljóðfæraleik snerti, nema ef vera skyldi trommarinn, og á- réttuðu þeir þannig mottó ungmennafélaganna um land allt; sigurinn er aukaatriði, það sem mestu skiptir er að vera með ... Og það voru þeir svo sannarlega. Margir helstu slagarar undangenginna ára, þeir sem hvað best hafa gengið á dansæfingum hreyfingarinnar, voru spilaðir af mikilli innlifun og tilfinningu svo unun var á að hlýða. Eða horfa öllu heldur. Því Mosi er mikiðfyrir augað, eiginlega meira fyrir augað en eyrað. En það er annað mál. Fyrir utan nokkra misheppnaða og barnalega neðanmittisbrandara voru þeir alveg bráðfyndnir og skemmtilegir. Minntu mig helst á þá tíð þegar ég eyddi verslunarmannahelgum mínum í Galtalækjarskógi. Eg er satt að segja sannfærður um að piltungar þessir eru framarlega í flokki Félags siðgæðis- og áfengisverndaráhugamanna í M.H.

Morgunblaðið 3. mars 1988. Ari Eldon skrifar:

Lokaatriði kvöldsins var drengjaflokkurinn Mosi frændi. Flokkurinn framkallaði með hljóð- færum sinum leiðan gný sem skar í eyru. Mosi frændi er ágætt nafn á hóp sem flytur nær eingöngu tónlist, eða tómlist, eftir hálf mosagróna tónlistarmenn og stóð þar ekkert uppúr. Þeir ættu að láta pað ógert að koma fram.

Þjóðviljinn 1. maí 1988. Rúnar Gestsson skrifar:

Hljómsveitin Katla kalda leikur popptónlist, oft kryddaða með gömlum íslenskum sveitaballa-slögurum. Aðal einkenni sveitarinnar er, að þeir kunna skemmtilega lítið að spila, ásanit því að vera frekar taktlausir. Allt þetta gerir hljómsveitina stöku sinnum frumlega og veldur því að maður brosir einstaka sinnum út í annað
Morgunblaðið 8. desember 1987. Árni Matthíasson skrifar:
Mosi frændi kom nú á svið með miklum fyrirgangi, enda voru sveitarmenn allir afkáralega klæddir og málaðir. Sveitin er sett saman til höfuðs öðrum hljómsveitum og poppstjörnuí- myndinni, sem er gott mál í sjálfu sér, en betra væri ef það hefði ekki skinið í gegn að með- limir Mosa frænda vildu ekkert frekar en verða stjörnur sjálfir. Aðal sveitarinnar er að leika lög eftir íslenskar poppstjörnur og erlendar og afskræma þau. Því til viðbótar lék sveitin eitt lag sem Violent Femmes lék inn á plötu og nú bar svo við að afskræmingin var ekki viljandi, heldur vegna getuleysis sveitarmanna. í því lagi, meðal annars, mátti glöggt greina hver draumur Mosa frænda er: að slá í gegn. Menn brostu að sveitinni í fyrsta laginu, brosið stirðnaði í því öðru og var horfið í því þriðja.

Morgunblaðið 10. maí 1988. Árni Matthíasson skrifar.

Fyrsta sveit á svið var Katla Kalda; sveit sem trauðla verður skilgreind. Segja má að Katla hafi hæglega skarað fram úr öðrum sveitum þetta kvöld hvað varðar frumleika í textum og tónlist, en úrvinnsla hugmynda var ekki eins góð. Þar stendur í veginum að enginn sveitarmanna virðist valda hljóðfæri sínu svo nokkru nemi. Þrátt fyrir þetta hefur Katla alla burði til þess að verða á meðal merkari neðansjávarsveita.


Fréttablaðið 2. nóvember 2010. Trausti Júlíusson skrifar:

Grámosinn gólar (snilldar titill!) er upptaka frá vel heppnuðum endurkomutónleikum hljómsveitarinnar Mosi frændi á Grand Rokki í fyrra. Sveitin tekur hér sín þekktustu lög (Ástin sigrar, Katla kalda (tvisvar hvort lag!), Geirþrúður …) auk slagara á borð við Wild Thing, Jenny Darling (Pelican), Sönn ást (Maggi Eiríks) og Poppstjarnan (Utangarðsmenn). Páll Óskar og Felix Bergsson heiðra sveitina með gestasöng. Þó að þessi plata eigi eingöngu erindi við heitustu aðdáendur Mosans þá er þessi útgáfa vel þegin!

Starafugl 1. nóvember 2017. Ingimar Bjarnason skrifar:

Nýlega kom út fyrsta breiðskífa hinnar fornfrægu pönkhljómsveitar Mosa frænda, Óbreytt ástand. Mosi frændi, sem er sjálfsagt þekktust fyrir lagið Katla kalda, lá lengi í dái en reis upp að nýju fyrir einhverjum árum síðan. Hljómsveitina skipa Aðalsteinn Þórólfsson (bassi og rödd), Ármann Halldórsson (trommur og söngur), Björn Gunnlaugsson (gítar, trommur, rödd og munnharpa), Gunnar Ólafur Hansson (hljómborð, básúna og söngur), Magnús J. Guðmundsson (gítar og söngur) og Sigurður H. Pálsson (söngur, gítar og klarinett). Meðlimir leggja flestir eitthvað til lagasmíða og svo eru tvær ábreiður að finna á plötunni. Upptökur voru í höndum Curvers Thoroddsens.  Einhvern tímann lýsti Björgvin Halldórsson því yfir að Sniglabandið væru Stuðmenn fátæka mannsins. Ef sú sýn hans stenst þá er Mosi frændi Stuðmenn öreigans. Það sem ég meina með því er að sem pönkhljómsveit, sem Mosi frændi þykist vera, er þessi hljómsveit í raun alveg handónýt. Þetta er hópur af gömlum menntskælingum sem hefur aldrei almennilega tekist að vaxa upp úr menntaskólahúmornum og telst frekar skemmtihljómsveit að upplagi, en geta bara ekki spilað eins vel eða samið jafngóð lög og Sniglar eða Stuðmenn.Þetta er hörð atlaga, ég geri mér grein fyrir því. En hún á rétt á sér. Mér er pönkið fyllsta alvara og mér finnst þessir gaukar ekki hafa neinn skilning á því hvað pönk er. Það skásta sem ég get sagt um Óbreytt ástand er að hún er sjálfsagt aðeins skárri en svanasöngur The Clash, Cut The Crap.Platan hefst svo sem þokkalega með laginu Ekkert hef ég lært. Textinn er ágætur og allt í lagi með þó óeftirminnilegt lagið. En strax í næsta lagi fara þeir alveg með það með því að gera framhald af Kötlu köldu þar sem Atli viðurkennir að vera sjálfur vinur sinn sem söng fyrra lagið. Nú er hann orðinn að illmenni sökum þess að Katla braut hjarta hans og stefnir á eyðileggingu heimsins. Hann er orðinn vondari en Voldemort og kaldari en Katla. Titillagið á ágæt móment, mér virðist það að nokkru byggt á lagi Neil Youngs, Cowgirl In The Sand en lagahöfundur bætir við sínum eigin hugmyndum sem stundum ganga upp og stundum ekki. Textinn er stundum góður og stundum ekki. Hann hefur talsvert til síns máls en svo hættir maður að trúa að þessum mönnum sé alvara með reiðinni þegar þeir ljúka laginu á því að vitna í auglýsingafrasa Jóhanns Péturs essasú. Andskotinn hafi það.Lögin Útrásavíkingurinn snýr aftur og Hanzki Kannski eru þannig gerð að manni dettur helst í hug að þar séu á ferðinni pönkparódíur. Í alvöru talað þá voru grínpönklög Ladda meira pönk en þetta. Það er skömm af þessu. Svo kemur meiri aulahúmor í titli lagsins Hversvegna eru stúlkur aldrei einar, Einar. Strákar þetta er ekkert fyndið. Verst finnst mér hvernig það er farið með ábreiðurnar tvær, Ó Reykjavík Vonbrigða og Creep Q4U. Málið er að ég get ekki verið viss um hvort þeim er alvara með meðferð sinni á lögunum eða ekki. Mér finnst alltaf hálfpartinn eins og þeir séu að grínast og mér hefur alltaf fundist mikilvægt að menn sýni verkum annara virðingu – annað er bara ódýrt flipp á kostnað annara, tónlistarlegt einelti kannski?Síðasta lag plötunnar, Prinsessan á Mars er líka besta lag hennar. Þ.e. þangað maður hlustar á textann. En hann er sunginn til einhvers sem höfundi þykir lítið til koma og til að styrkja þá skoðun sína bendir hann þeim sem hann hatar svo á að draumadísin hans kjósi frekar að vera með einhverjum sænskum ræfli með lítið typpi sem rétt passar í þrönga píkuna hennar. Ja hérna. Maður á bágt með að trúa að hér séu á ferð menn um fimmtugt.Mér finnst rosalega leiðinlegt að þurfa að skrifa svona neikvætt um þessa plötu. Mig langaði mikið til að þetta væri góð plata. Eintakið mitt af Kötlu köldu var ein af fáum vínylplötum sem komu með mér þegar ég flutti yfir hafið, þó þetta væri léttvægt lag þá bara gat ég ekki látið hana frá mér. En svona er þetta stundum og maður fær ekki alltaf það sem maður vill. Þrátt fyrir nokkrar ágætar hugmyndir nær Mosi frændi ekki að gera úr efniviðnum góða plötu og það skrifast helst á leiðinda grín sem verður til þess að hlustandinn getur alls ekki tekið hljómsveitina alvarlega.
19 nóvember 2017

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2017

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2017
Já börnin mín góð. Við lifum á áhugaverðum tímum. Þegar þetta er skrifað er nýbúið að birta níu ára gamalt leyndósímtal Davíðs og Geirs um hvernig væri gáfulegast að koma af stað efnahagshruni, skatta-Kata er gengin í björg og við erum að horfa upp á langdregið dauðastríð Sjálfstæðisflokksins sem virðist vera að takast að draga nokkurn veginn alla aðra stjórnmálaflokka landsins niður með sér. Í svona aðstæðum er aðeins eitt ráð og það er að drekka frá sér ráð og rænu, helst daglega og jafnvel oftar en einu sinni á dag.

Það skiptir engu máli hvort lifrin bilar því það er hvort sem er ekkert heilbrigðiskerfi lengur, menntakerfið er í þvílíkri rúst að ég fór áðan í fjórar matvörubúðir en hvergi var hægt að fá stafapasta, Glitnir HoldCo munu að öllum líkindum setja lögbann á jólabjórrýni Feitabjarnar fljótlega og Vottar Jehóva voru að hringja. Í þetta sinn er þeim alvara sögðu þeir. Það ER að koma heimsendir.

Það er því ekkert vitrænt í stöðunni næstu vikur annað en að reyna að vera sem oftast og sem lengst án meðvitundar vegna drykkju. Jólabjórinn datt í búðir í vikunni og nú getið þið, kæru landsmenn, notið leiðsagnar sérfræðings um það hvað sé best að nota til að slæva hugann fram yfir stjórnarmyndun, jól, áramót og næstu kosningar, sem verða líklega uppúr miðjum janúar.

Á þessu herrans ári er úrvalið af íslenskum jólabjórum meira en nokkru sinni fyrr og munurinn á gæðum hefur að sama skapi sjaldan verið jafnmikill. Heilar tuttugu tegundir fást í Vínbúðum ríkisins og fleiri er að fá á öldurhúsum. Meðan þetta er skrifað situr skítsæmilegur belgískur dubbel í glasi og bíður þess að ná drekkanlegu hitastigi. Fagnaðarerindið heitir bjórinn og fæst á Bryggjunni. Annar fékkst á Microbar í vikunni og kom frá Vestmannaeyjum, kallaður Andrés utangátta. Hann var fínn. En hér verður sem sagt bara fjallað um þær tegundir sem hægt er að kaupa í þartilgerðum verslunum og taka með sér heim áður en drukkið er.  Ef heimurinn ferst ekki er reyndar alveg líklegt að sú frjálslyndis- og framfarastjórn sem þrír framsóknarflokkar eru að reyna að mynda, verði búin að aflétta ríkiseinokun á bjórsölu og maður geti keypt jólabjórinn 2018 í Bónus.

Djók!

Jólabjórsmökkun Feitabjarnar og Koppa-Krissa fór fram með þeim hætti að bjórunum var skipt í fimm flokka þar sem reynt var að grúppa saman áþekkum bjórum. Smakkaðar voru fimm tegundir í senn, ein úr hverjum flokki og svo pása á milli. Af fenginni reynslu var ekki mikið lagt upp úr því að smökkurum væri ókunnugt um hvaða bjórar voru smakkaðir hverju sinni, en til að tryggja hlutlaus úrslit voru fimm stigahæstu tegundirnar blindsmakkaðar í lokin. Þá kom upp óvænt staða því bjórinn  með þriðja hæsta stigafjölda varð hlutskarpari en sá sem hafði verið næstefstur.  Stigagjöf var löguð að þessum úrslitum og bjórarnir tveir látnir vera jafnir í öðru til þriðja sæti með jafnmörg stig.

Úrslitin voru hins vegar mjög afgerandi hvað varðar efsta sætið, eins og koma mun í ljós áður en lestri lýkur.

Hér á eftir fara þá umsagnir um bjórana í handahófskenndri röð, nema hvað besti jólabjórinn er geymdur þar til í lokin. Verði ykkur að góðu.
Jóla kaldi – 5,4% - 399 kr.

Ekki byrjar það neitt sérstaklega illa í ár. Vinir mínir á Árskógssandi hafa átt það til undanfarin ár að klúðra jólabjórnum sínum illilega en þessi er bara alveg prýðilegur sem slíkur. Léttur og hressandi með mjúkri karamelluslikju og þetta ramma skítaeftirbragð sem hefur stundum plagað Kalda er ekki til staðar í ár. Kannski þeir hafi skúrað hjá sér, hver veit? Í flokki fjöldaframleiðslubjóra fyrir almúgann kemur þessi sterkur inn og það er alveg hægt að sökkva þó nokkrum svona á góðu kvöldi.

2 ½ *Askasleikir – 5,8% - 484 kr.

Jólabjór síðasta árs frá Borg brugghúsi er snúinn aftur og nú aðeins fáanlegur í dós. Hver fékk þessa hugmynd og hvar er sá aðili núna kominn með vinnu? Jólalegi reykjarkeimurinn frá í fyrra er á bak og burt og eftir stendur ávaxtabragð sem minnir óþyrmilega á Egils appelsín. Það endist ekki lengi og þótt bragðið sé hressandi í fyrstu þá súrnar gamanið fljótt eins og óviðeigandi brandari innan um penar og dannaðar samstarfskonur í drögtum.

2 *Ölvisholt 24 Barley Wine – 10% - 798 kr.

Ef maður á að reyna að vera jákvæður þá er allavega ekki hægt að halda því fram að það sé ekki verið að reyna. Það þarf metnað til að ráðast í að búa til barley wine og þar sem Giljagaur hefur nokkurn veginn masterað þann markað þá veltir maður því fyrir sér afhverju Selfoss er að þessu. Þetta er algjörlega glatað! Allt of væmið bragð, eins og kaka í glasi nema kökur geta stundum verið góðar á bragðið. Þessi bjór minnir á fulla miðaldra konu sem hefur sett á sig allt of mikið ilmvatn, svo mikið að maður fær tár í augun, án þess þó að henni hafi heppnast að breiða yfir súra líkamslyktina.ðar ﷽﷽﷽﷽﷽﷽r geta stundum verið gerið ger algjörlega glatað! Allt of væmið bragð, eins og kaka

½ *Bara kíló pipar – 5,8% - 499 kr.

Stolnar piparkökur eru vondar á bragðið segir Hérastubbur bakari. Ég kannast ekki við að hafa borgað neitt minna en fullt verð fyrir þetta rugl en bjórinn verður ekkert betri samt. Hann byrjar á gríðarlega sterkri negullykt sem er ekki alslæm en svo kemur bragð sem er langt frá því sem nokkur maður getur viljað. Minnir einna helst á rúllupylsu. Bjórinn er svo útúrkryddaður og bragðmikill að það er hreinlega erfitt að kyngja honum. Eina ráðið til að koma honum niður er að þamba hann en það er ekki gott heldur því þá hellist yfir mann kanilbragð og engifer og manni líður eins og verið sé að lemja mann í hausinn með óhreinu kökukefli.

1 ½ *Thule jólabjór – 5,4% - 377 kr.

Það eru ekki allir sem eru hrifnir af jólabjór og hér er kominn jólabjór fyrir þá sem eru það ekki. Hann skartar nákvæmlega engu af því sem gerir jólabjór jólalegan, nema kannski fáeinum snjókornum á umbúðunum. Eilítið dekkri á litinn en standard útgáfan af Thule og með góðum vilja má skynja að hann er bragðbættur með þeim hætti sem líklegastur er til að stuða sem fæsta. Pínu vottur af hunangi til að hann sé ögn sætari en það er allt og sumt. Einhvers staðar er samt til óspennandi fólk sem birtir mynd af Thule jólabjór á Instagram.

2 *Jóla Kaldi súkkulaði porter – 6,5% - 464 kr.

Einu sinni varð Feitibjörn fyrir þeirri lífsreynslu á hommabar að risavaxinn þelþökkur maður spurði kurteislega hvort bjóða mætti koss. Í sumum kringumstæðum er slík kurteisisframkoma einfaldlega ekki málið. Kaldi súkkulaði porter væri eflaust mun betri ef hann þyrði að vera það sem hann þykist vera. Fyrsti sopinn er mjúkur og sætur, ekki beint súkkulaði heldur frekar kaffi og kanill. Svo bíður maður eftir að hann færi sig upp á skaftið en í staðinn kemur gamalkunnugt Kalda-eftirbragð eins og blökkumaðurinn hafi gleymt að bursta tennurnar.

3 *


Egils malt – 5,6% - 389 kr.

Á jóladag er Feitibjörn vanur að borða hangikjöt. Tvisvar. Fyrst heima hjá mági sínum fljótlega upp úr hádegi. Sá er vanur að sjóða hangikjötið á beini upp á gamla mátann og hefur stálheiðarlegt meðlæti með: Uppstúf, grænar og gular baunir úr dós, rauðbeður, asíur og dijon sinnep. Svo um kvöldið er mamma gamla vön að hafa tvær sortir af hangikjöti, úrbeinuðu og vandlega sneiddu. Með því er kartöflusalat, pikkles og súrsuð hvítlauksrif ásamt sinnepssmjöri. Í báðum tilvikum er boðið upp á jólabjór og ákavíti. Gera má ráð fyrir að Egils malt sé hinn fullkomni drykkur á þessum degi, því Egils malt stendur við gefin loforð, án þess þó að gera neinar sérstakar rósir.

3 ½ *Steðji Special Almáttugur jólaöl – 6% - 432 kr.

Hér er á ferðinni alveg einstaklega vel heppnaður jólabjór. Strax og hann er kominn í glasið sér maður að hann langar í þig jafn mikið og þig langar í hann. Hann er froðumikill og kallar á mann með jólalegri angan. Bragðið er svo ekki síðra og maður missir út úr sér eitt “VÁ!” við fyrsta sopann. Þarna er púðursykur, smá kanill og í lokin vottar fyrir múskati. Kryddbragðið er létt og leikandi, alls ekki aggressívt heldur nákvæmlega rétt stillt upp á jólafíling. Geggjaður bjór.

4 *Viking jólabjór – 5% - 352 kr.

Hér er bókstaflega ekkert að frétta. Þessi bjór er ekki bragðmikill, hvorki sætur né beiskur, það er ekki mikil fylling í honum, lyktin er lítil, hann freyðir frekar lítið og skilur lítið eftir sig. Líklegast mætti alveg sleppa því að drekka hann án þess að maður yrði var við það. Ævintýralega óspennandi. Honum tekst eiginlega ekki einu sinni að vera almennilega vondur.

1 *Viking Yule Bock – 6,2% - 450 kr.

Í verslunarleiðangri Feitabjarnar fengust þær upplýsingar að ein bjórtegund sem stóð til að yrði á boðstólum í fyrsta sinn hefði verið innkölluð af framleiðanda. Ekki veit maður nákvæmlega hver kann að vera skýring á því en það má gera ráð fyrir að það hafi haft eitthvað með gæði framleiðslunnar að gera. Brugghúsið hefur áttað sig á því að það gæti haft slæm áhrif á bissniss til lengri tíma litið að bjóða upp á misheppnaðan jólabjór í fyrstu tilraun. Sé það skýringin þá mega bjórgerðarmennirnir sem bjuggu til þetta sull taka það sér til fyrirmyndar. Þetta er flatur og óspennandi dökkur jólabjór sem býr ekki yfir neinni spennu né kikki. Það er helst að froðan í glasinu veki væntingar áður en smakkað er en hún er ekki einu sinni góð, heldur fær maður á tilfinninguna að dassi af uppþvottalegi hafi verið bætt í kútinn í örvæntingarfullri tilraun til að gæða hann lífi.

1 ½ *Bjólfur Grenibjór – 5,2% - 491 kr.

Hvað vorum við að tala um? Fyrsta tilraun til að koma sér inn á jólabjórmarkaðinn má ekki klikka. Austri er reyndar fínasta brugghús og það sem hefur komið frá þeim hingað til hefur alltaf verið gott. Líklega má gefa þeim prik fyrir hugrekki en grenibjór er alveg nýtt konsept í huga Feitabjarnar. Fyrstu kynni lofa samt ekki góðu, það er eins og maður sé staddur í Blómavali þegar glasið er borið upp að vitum. Bragðið er síðan mjög… óvanalegt skulum við segja. Svo óvanalegt að Koppa-Krissi fór að rifja upp gömlu dagana í mótorhjólagenginu þegar einhverjum datt í hug manndómsvígsluaðferð sem er of ógeðsleg til að henni verði lýst hér. Sú aðferð náði sem betur fer ekki hylli og það gerir þessi bjór ekki heldur.

0 *Einstök Doppelbock – 6,7% - 492 kr.

Þetta er almennilegt! Það er allskonar í ilminum sem fær mann til að hlakka til að smakka. Þá er maður heldur ekki svikinn því bjórinn hefur margslungið bragð sem grípur í bragðlaukana og dregur þá um krókótta stíga eins og góður gestgjafi í framandi borg sem þekkir alla bestu staðina. Einstök bregst aldrei. Ómissandi hluti af jólahátíðinni eins og alltaf og það er gaman að segja frá því að í blindsmökkun náði þessi gamla vinkona að mjaka sér upp um eitt sæti í stigagjöfinni.

4 ½ *Jólagull – 5,4% - 379 kr.

Jólabjór fátæka mannsins. Samt er hann túkalli dýrari en Thule sullið. Þunnur og lyktarlítill, sama gamla bragðlausa gutlið með smá sítrónukeim sem á líklega að gera hann auðdrekkanlegan. Nei, það er ekki auðvelt að drekka þennan bjór. Það er líka sjaldan auðvelt að hella bjór í vaskinn en hér er komin undantekning frá þeirri reglu. Það virðist vera sú mikla nýlunda hér á ferð að bætt er teskeið af kanil í uppskriftina til að keyra jólastemmninguna upp. Fyrir þá viðleitni sleppur hann við núllið.

½ *Boli Doppelbock jólabjór – 7,5% - 469 kr.

Góður. Höfum það á hreinu og þeir hafa meira að segja náð að bæta hann síðan síðast, þegar það var sterkur áfengiskeimur sem var akkilesarhællinn. Núna er mikið að gerast í bragðinu, bæði kaffi og lakkrís og karamella. Sterkur er hann líka svo manni hýrnar strax í skapi og allt verður einhvern veginn jákvæðara. Soldið eins og þybbna stelpan á skrifstofunni birtist óvænt og vilji vanga. Hún er þá kannski bara frekar sæt eftir allt saman? Boli fellur hins vegar á mikilvægu atriði, sem er eftirbragðið. Það er einfaldlega ekki til staðar og því hverfur jákvæðnin eins og dögg fyrir sólu. Vangafélaginn skreppur á klóið og á meðan tekur maður sönsum og drífur sig heim.

3 *Giljagaur – 10% - 777 kr.

Það verða eiginlega engin jól nema Feitibjörn fái sér að minnsta kosti einn Giljagaur. Það má hins vegar helst ekki fá sér nema einn. Þá meina ég að þessu sinni ekki að það eigi að drekka einn í einu, heldur að það sé ekki ráðlegt að drekka fleiri en einn Giljagaur þessi jólin yfirhöfuð. Það þarf að velja rétta augnablikið því það er svo margt í gangi í þessum bjór að það er nánast einsdæmi. Eiginlega aðeins of mikið í gangi svo maður segi nú alveg eins og er. Þessi eini gæti átt heima í stórhríðinni milli jóla og nýjárs þegar börnin eru sofnuð og draugamynd í sjónvarpinu. Það væri gott. Verra væri ef það væri á sunnudagseftirmiðdegi í aðventunni þegar fótboltinn er búinn og fjölskyldan bíður eftir að maður komi heim og búi til kvöldmat.

3 *Segull 67 jólabjór – 5,4% - 399 kr.

Nú eru tvö ár liðin síðan Feitibjörn smakkaði Royal Xmas bjór því sú happadrjúga ákvörðun var tekin í fyrra að halda sig eingöngu við íslenska framleiðslu. Frændur vorir á Siglufirði telja greinilega þjóðþrifaverk að halda merkjum vondra jólabjóra á lofti og bjóða hér upp á íslenska útgáfu af ógeðinu sem sameinar allt það versta í vondum jólabjór. Hann er rammur, flatur, súr og skólpkenndur.

0 *


Einstök Winter ale – 8% - 888 kr.

Ó já! Svona á að gera þetta. Loksins almennilegur metnaður og hér er nostrað við smáatriðin. Það eru ekki bara greninálar sem bragðbæta bjórinn, heldur hand-tíndar greninálar. Það er skemmtilegur keimur af viskí sem lætur sæluhroll hríslanst niður eftir bakinu. Vindurinn má hamast á rúðunni og landinn má hamast á kommentarkerfunum. Með einn svona í glasi getur ekkert raskað ró manns. Allt verður yndislegt og maður veltir því fyrir sér eitt augnablik hvað maður hafi gert til að verðskulda þessa sælu. Svo hættir maður að pæla í því.

4 ½ *Ölvisholt Heims um bjór hátíðaröl – 5% - 444 kr.

Svei! Og oj! Þetta er alls ekki gott. Það er eitthvað verið að reyna að vinna með mandarínur en afleiðingin er bara sú að maður finnur fyrir ólgu í magasýrunum. Sko. Gott jólapartí getur alveg haft í för með sér að maður fái pínu gubbubragð í munninn – daginn eftir! Feitibjörn þekkir meira að segja tilvik þar sem gott jólapartí setti fólk í þá aðstöðu að vera með ungbarnagubbulykt í kringum sig ári síðar. En maður á helst ekki að leiða hugann að gubbi þegar fyrsti sopinn af bjór er tekinn.

1 *Steðji engifer blessaður jólabjór – 5,5% - 399 kr.

Já nei. Vertu blessaður. Hittir alls ekki í mark þrátt fyrir viðleitni sem mætti túlka á jákvæðan hátt. Smá keimur af furunálum í glasinu áður en maður sýpur en sjálfur bjórinn er einstaklega óspennandi. Eða það heldur maður til að byrja með. Svo kemur þetta engifer-eftirbragð sem erfitt er að skilja. Hverjum datt í hug að það væri sniðugt að búa til bragðdaufan bjór og lauma svo í hann kryddi sem lætur mann svíða pínulítið í munninn á eftir?

½ *

Besti jólabjór ársins 2017 að mati Feitabjarnar og Koppa-Krissa: 


Hurðaskellir – 11,5% - 1290 kr.

Hó, hó, hó og herregud i himlen, hvað þetta er mikil snilld. Hurðaskellir heilsar hlæjandi og hamingjan hellist yfir hal og sprund. Það er allt rétt, satt, gott og siðsamlegt við þennan fáránlega flotta bjór. Hann lítur vel út í glasinu með mikla froðu og öflugan haus. Ilmurinn er algerlega dásamlegur og svo kemur bragðið.
Ó mæ god, skiluru!
Bragðið er alger dásemd og himnasæla. Sterk karamella (þessi sem sumir kalla butterscotch), smá viskíkeimur, svo kemur kaffi, því næst eik og einhvers staðar í bakgrunninum er pínkuponsulítill lakkrís. Maður horfir á glasið og trúir því varla hvað það þurfti lítinn sopa til að kalla fram þetta sjúklega æði. Það er nóg eftir, best að fá sér annan sopa!
Dömur mínar og herrar, þetta er ekki bara besti jólabjórinn á Íslandi árið 2017, það er óhætt að halda því fram að hér sé einfaldlega besti jólabjór sem Ísland hefur alið. Þó víðar væri leitað, ekkert höfðatölukjaftæði. Drífið ykkur út í búð og kaupið eins marga og þið hafið efni á.
Gleðileg jól elskurnar.

5 *22 nóvember 2016

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2016Það er sagt að hlutur sé orðinn að hefð þegar þú veist ekki lengur hvernig hann byrjaði. Ég get tekið undir það, því ég var hissa að finna í minningafídusnum á feisbúkk að ég hef sett þar inn umsagnir um jólabjóra árið 2009. Það kom mér á óvart, ég hélt ekki að ég hefði verið að þessu svona lengi. Satt best að segja veit ég ekki einu sinni hvort þetta var fyrsta tilraun sem ég fann þarna. Hefð skal það sem sagt heita og ég veit að fámennur en hundtryggur hópur lesenda bíður í ofvæni eftir pistlinum á hverju ári.

Á þessum árum hefur jólabjórgerð nánast orðið að einhverri báknkenndri stofnun. Fyrir ekki svo mörgum árum voru fáar tegundir í boði, ég man eftir að hafa býsnast yfir tölunni átján og fundist úrvalið vera orðið mikið. Núna eru hátt í fimmtíu jólabjórar í boði, sem er aukning frá síðasta ári. Mér er ennþá illt í lifrinni eftir jólabjórsmakk síðasta árs, enda þurfti ég þá að þræla mér einn og óstuddur í gegnum þetta þjóðþrifaverk vegna veikinda míns vanalega makkers. Hann hefur eflaust haft gott af að hvíla lifrina því hann var mættur til leiks í ár, tvíefldur og eiturhress. Það kom á daginn að það er mjög gagnlegt að hafa félaga með sér til að skiptast á skoðunum, bera saman og spekúlera.

Feitibjörn er ekkert unglamb lengur og hvort sem það skýrist af áðurnefndu lifrarmeini eða bara aldrinum, þá óx mér í augum að ráðast á þetta bjórfjall sem nú er í boði. Let’s face it, það er nú varla hægt að meta fjörutíu bjórtegundir með vitrænum hætti á sama kvöldinu. Þannig að í ár var tekin ákvörðun – að smakka einungis íslenska framleiðslu. Dásamleg tilhugsun að þurfa ekki að ganga í gegnum þá raun að smakka útþynnt danskt piss í dós, svo maður segi nú bara alveg eins og er. Blár og hvítur Royal Xmas eru sem sagt ekki með í ár, enda var maður eiginlega orðinn uppiskroppa með líkingamál sem gæti lýst því hvílíkur viðbjóður var þar á ferð. Að sama skapi verður ekkert fjallað um snobbið frá Mikkeller eða To öl. Reyndar smakkaði ég einn frá þeim síðarnefndu, mér til gamans, nú í gærkvöldi og get upplýst að hann bragðast eins og mysa.

Íslensk bjórframleiðsla hefur tekið gríðarlegum framförum á fáum árum og því vel við hæfi að hampa henni sérstaklega á þessum vettvangi, alla vega upp að því marki sem bjórarnir gefa tilefni til að vera hampað. Það er gott jólabjórár í ár, margir ágætir bjórar og slatti af nýjungum. Hins vegar þarf enginn að ótttast, það er líka alveg slatti af hreinum viðbjóði, svo lesturinn verður engin halelújasamkoma. Jesús elskar samt jólabjór.

Í fyrra var breytt til og hætt að smakka blint, sem virtist ekki hafa nein áhrif á niðurstöðurnar. Því var ákveðið að  hafa sama háttinn á, að bera fram einn bjór í einu með öllum upplýsingum um áfengismagn og verð, auk þess að geta virt fyrir sér flöskuna og spáð í hluti eins og framsetningu og grafíska hönnun. Reynt var að hafa aldrei of líka bjóra hvern á eftir öðrum. Allar tegundir voru keyptar í gleri og bornar fram í víðum bjórglösum til að lyktin fengi að njóta sín. Um það bil hálfri flösku var skipt í tvö glös til smökkunar en restin var sett til hliðar og geymd þangað til búið var að smakka allar tegundir og skrá niðurstöður. Þá var hægt að prófa aftur til staðfestingar og við það tækifæri voru um sex tegundir dæmdar nægilega vondar til að vera hellt í vaskinn án frekari smökkunar. En drífum nú í þessu:

Askasleikir (5,8% - 494kr)
Jájájájá, þetta byrjar bara helvíti vel. Askasleikir ber nafn með rentu því það er pínu reykjar- eða öskukeimur af bjórnum, sem lætur ekki mikið yfir sér til að byrja með en svo allt í einu blossar upp mjög hressandi bragð sem kemur manni í opna skjöldu eins og ókunnug manneskja vindi sér að manni  gamlárspartýi og reki tunguna upp í mann. Svo er það hins vegar búið. Eftirbragðið er dauft og bjórinn skilur ekkert eftir sig, frekar en sleikurinn.
3,5 *

Thule jólabjór (5,4% - 359kr)
Ég hef enn ekki áttað mig á tilganginum með Thule jólabjór. Af íslenskum lagerbjórum er Thule í raun einn sá skársti og því botna ég ekkert í því að reynt sé að sverta (geddit?) ímynd hans með vondum vörum sem bera sama nafn. Thule jólabjór er léleg eftirlíking af Tuborg jólabjór á margan hátt. Hann er verri á bragðið, inniheldur minna áfengi, er í ljótari umbúðum og tuttugu krónum ódýrari. Gerist ekki meira pointless. Óspennandi í alla staði.
1 *

Viking Yule Bock (6,2% - 429kr)
Bockinn hefur verið óútreiknanlegur jólabjór, stundum fínn en þess á milli alveg hroðalega misheppnaður. Núna er búið að gefa honum útlistyfirhalningu í stíl við frekar vanhugsaða tilraun Vífilfells til að láta sullið sitt líta út fyrir að vera vandaðra en það er. Þá á ég við að á þessu ári hafa komið á markaðinn nokkrar tegundir af Viking bjór með erlendum nöfnum í litríkum umbúðum sem virðast eiga að láta mann halda að hér sé á ferðinni nýtt míkróbrugg. Allt vont, trust me. Jólabock heitir sem sagt núna Yule Bock og er með röndóttan miða sem minnir á búningana hjá Stoke City. Maður veit ekki við hverju á að búast, verður þetta Atletico Madrid eða Sunderland? Jú, viti menn! Í ár er hann mjög góður, hlý og notaleg tilfinning með karamellukeim og vott af biturleika eins og ljóð í menntaskólablaði.
3,5 *

Boli Doppelbock (7,5% - 459kr)
Magnþrunginn ilmur úr glasinu, sterkt bragð eins og af brenndu flaueli. Áfengismagnið er töluvert svo það er eins og hestur slái mann í hausinn en það kemur ekki að sök því hesturinn er á flókainniskóm svo höggið er mjúkt og notalegt. Tilfinningin að vakna um morgun eftir að hafa sporðrennt þremur svona er hins vegar hvorki mjúk né notaleg en það er ekki það sem við erum að ræða hér. Við erum að ræða það að Boli er með betri jólabjórum ársins, munnfylli af nammi.
4 * 

Tuborg Julebryg (5,6% - 379kr)
Nú er kannski einhver hissa en ég komst sem sagt að því þegar grannt var skoðað að þessi bjór er íslensk framleiðsla og búinn til í Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Ætli það hafi verið þannig lengi? Kannski er hér komin skýring á tilvist Thule jólabjórsins, að vera svar Vífilfells við þessu drasli, hver veit? Sá dansk-íslenski er að þessu sinni seldur í blálitum glerflöskum, sem geta eflaust orðið ágætis kertastjakar heima hjá kjósendum Viðreisnar. Bjórinn sjálfur er tíðindalítill með afbrigðum, smá sætur keimur í fyrsta sopa sem á hins vegar ekki afturkvæmt og restin af bjórnum fer eiginlega framhjá manni.
1,5 *

Giljagaur (10% - 777kr)
Það er næstum því glæpsamlega ósanngjarnt að vera látinn opna flösku af Giljagaur, smakka hann og setja hann svo til hliðar og fara að drekka eitthvað annað. Dásamlegur bjór, betri en fótanudd og fatapóker til samans. Stefán Máni á frábæran sprett í einhverri bókinni sinni þegar hann segir frá tilraun fyllibyttu til að ná tökum á drykkjunni með því að drekka alltaf bara helminginn af hverjum bjór og hella restinni. Sú tilraun endar kostulega þegar byttan klárar óvart fimmta bjórinn og fer samstundis á barin og heimtar bjór, skot og sígarettupakka. Nú efast ég um að ég muni nokkurn tímann prófa þetta en ef ég geri það vil ég Giljagaur þegar ég fell.
4,5 *

Jólagull (5,4% - 369kr)
Ekki er það nú merkilegt. Einhvern veginn hélt ég að jafnvel svona bjórlíkisverksmiðja myndi að minnsta kosti reyna að lesa eins og einn IKEA-bækling til að fara í smá jólastemmningu en því er ekki að heilsa. Lyktarlítill, bragðlitill og áhugalítill eru orð sem lýsa þessu fyrirbæri ágætlega. Það væri sennilega hægt að hella þessu í jólatrésfótinn án þess að trénu yrði meint af.
0,5 *

Steðji Almáttugur jólaöl (5,7% - 458kr)
Það er undiralda í þessum bjór. Fyrir tveimur árum kom hann svo sterkur inn að Feitibjörn valdi hann besta jólabjórinn og svo voru keyptar heilmiklar birgðir. Hann var hins vegar svo afgerandi að undir það síðasta fannst mér hann bara vondur. Leist ekkert á hann í fyrra. Hann hefur ennþá þennan lúmska lakkrískeim en hann er alls ekki jafn yfirþyrmandi og því finnst manni hann bara hið besta mál. Gæti alveg slafrað einum í sig með jólamatnum og jafnvel öðrum í desert. Svona voða hófstilltum og penn orðinn. Samt. Maður er hálfpartinn vantrúaður, eins og þegar frændi manns hefur farið í fjórðu meðferðina og gengur svona rosa vel. Maður er bara að bíða eftir að hann fari aftur að sýna sitt rétta andlit.
3 *

Jóla Kaldi (5,4% - 389kr)
Nei og aftur nei! Misheppnuð vonbrigði! Það þýðir ekki að lifa á fornri frægð. Algjörlega vonlaus jólabjór. Sko: Maður vill helst að jólabjór heilsi manni fjórum sinnum, með ilmi, fyrsta bragði, aðalbragði og eftirbragði. Þessi fer beint í aðalbragðið. Og það er vont. Og lifir lengi. Allt of lengi. Skammarlegt.
0 *

Jóla Kaldi súkkulaði porter (6,5% - 453kr)
Ég er ekki svo góður með mig að ég viðurkenni ekki mistök, þótt ég sé óumdeilanlega mesti jólabjórsérfræðingur sem Ísland hefur alið. Þannig varð mér það á í fyrra að dæma þennan súkkulaðisnúð fullharkalega fyrir að standast ekki mínar ýtrustu væntingar, sem auðvitað voru allt of miklar. Mér barst ábending frá góðum vini þess efnis að ef til vill ætti ég að huga að hitastigi bjórsins, porter ætti ekki að drekka of kaldan. Og viti menn, við 7-8°C snarskánaði hann og mér fannst hann svo góður að ég endaði með því að drekka einhverja 30-40 svona á aðventunni í fyrra. Nú í ár ætlaði ég ekki að gera sömu mistök og passaði mig að taka hann snemma úr kæliskápnum svo hann yrði alveg við kjöraðstæður, nú yrði hann sko góður og jösses hvað ég peppaði mig upp í væntingum...... sem hann stóð svo auðvitað ekki undir.
Í stuttu máli er hann aðeins of léttur, vantar aðeins uppá fyllinguna og boddíið. alls ekki vondur bjór en nær ekki að uppfylla mínar ströngustu kröfur. Heyrðu, bíddu aðeins...!
2 *

Fagnaðarerindið (6,5% - 1498kr)
Ókei, fyrir það fyrsta þá er svindl að setja bjór í 750cl flösku. Allir vita að þegar maður er kominn ofan í botn í einni slíkri þá er manni farið að finnast bjórinn góður, sama hvers konar sull hann er. En gefum þessu séns. Bryggjan brugghús er fínasti bar og þar er bruggaður fínasti bjór. Myndi ekki tíma að borða þar en það er ekki til umræðu hér. Maður fagnaði því að þessi nýherji á markaði ætlaði að marka sér sess og það verður að gefa þeim að bjórinn kemur að mörgu leyti skemmtilega á óvart. Eiginlega kemur hann fáránlega sterkur inn í fyrstu, með miklu bragðlaukakitli í allar áttir og ilmi sem heldur manni spenntum. Bara alger hugljómun, en því miður fellur hann á því að freyða fullmikið (kannski nauðsyn í stóru flöskunni, hver veit?) og fær við það hálfsápukennt yfirbragð. Einnig vantar soldið jólastemmningu í bragðlaukakitlið. Fínn bjór samt, allavega þegar maður er langt kominn með hann. Hikk!
3,5 *

Viking jólabjór (5% - 335kr)
Vitið þið hvað, þetta er bara alveg í lagi. Ekkert sérlega áhugaverður, en bara þokkalega vel heppnaður fjöldaframleiðslujólabjór. Hann sneiðir hjá skítaremmubragðinu sem einkennir Tuborg og Thule, en er ekki jafnbragðlaus og Jólagull (enda þyrfti hann þá í rauninni að vera vatnsglas) - þannig að þetta sleppur eiginlega alveg. Þokkalega frambærilegur bjór, sem myndi fá B mínus í nýju námsmati grunnskóla. Ég hugsa að ég muni kaupa slatta af þessum handa konunni minni, sem er alls ekki sama snobbhænsnið og ég í bjórmálum og finnst krefjandi bjórar bara rugl.
2,5 *

Heims um bjór (5% - 439kr)
Hvað er málið með Selfoss? Ef góður jólabjór er John Grant eða Leonard Cohen þá er þessi svarið við spurningunni hvað færðu út ef þú parar saman Einar Ágúst og Ingó veðurguð. Hér hefur verið veðjað á hnetukeim til að búa til jólastemmninguna en því miður hefur einhver ruglast í innkaupum og keypt allt of mikið af heslihnetum þegar möndlur hefðu verið málið. Svo er heitið á bjórnum alveg kapítuli út af fyrir sig. Hvers konar orðaflipp á þetta að fyrirstilla? Heims um fokking bjór? Sorrí, en það er ekki að gera sig. Þessi bjór liggur meinvillímyrkrunum í mínum bókum.
0,5 *

24 (10% - 789kr)
For helvede, nú fer ég bara að verða reiður. Selfoss aftur og nú skortir ekki metnaðinn, það á að reyna sig við byggvín (eins og Giljagaur) en hér er kappið svo sannarlega að bera fegurðina ofurliði. Þetta lyktar og bragðast allt of furðulega, minnir helst á kryddjurtablöndu sem keypt er í Tiger eða ilmolíu úr 1001 nótt sem stelpur notuðu í gamla daga í staðinn fyrir ilmvatn. Alveg hrikalega rangt í öllum skilningi. Að drekka þennan bjór er eins og að fara niður á hippastelpu sem aldrei hefur skipt um nærbuxur á ævinni.
1 *

Einstök Doppelbock (6,7% - 469kr)
Ómægodómægodómægodómægodómægodómægodómægod þetta er allt annað! Unaðslega góður og skemmtilega krefjandi bjór sem slær mann á kinnarnar til skiptis eins og fisksalinn í Ástríksbókunum. Fyrsta bragðið fær mann til að langa til að syngja eins og Óðríkur Algaula og svo kemur næsta bylgja í hausinn á manni eins og Steinríkur dúndri mann með bautasteini. Sæluvíman sem hellist yfir mann jafnast á við besta galdraseyði Sjóðríks... you get the picture. Alveg stórkostlega góður bjór eins og ævinlega. Einstök er í mínum huga kannski pínu vanmetið brugghús því Gæðingur býr til betri IPA og Borg býr til betri dökkan bjór, en hvorugt þeirra hefur nokkurn tíma komist með tærnar þar sem Einstök hefur hælana þegar kemur að jólabjórgerð.
4,5 *

Steðji Frelsarinn (5,6% - 393kr)
Það er eitthvað við Steðja sem ég treysti ekki. Er hvalasæði í bjórnum? Mun hann læðast aftan að mér og hefna sín grimmilega fyrir eitthvað sem ég gerði ekki? Af hverju er miðinn svona skærlitaður og hvað er jarðarberjabjór? Þannig að ég nálgast þennan nýja jólabjór þeirra með ugg í hjarta. En kemst svo að því að hann er eiginlega frekar óspes. Ljós bjór í grunninn, sem er alltaf slæm hugmynd í jólabjórgerð, en þó kryddaður eins og um væri að ræða dökkan jólabjór dauðans - negull, kanill og allt sem því fylgir. Gallinn er að ljósi bjórinn nær ekki að bera þessa kryddviðbót, svo hann nær ekki að heilla.
1 *

Egils Malt jólabjór (5,6% - 389kr)
Ömmuknús. Jólapeysa. Kattartungur. Sveskjuterta. Möndlugrautur. Þorláksmessa. Borgardætur. Skinkuhorn. Englahár. Jólaandakt. Skrítna pappahúsið hulið bómullarsnjó með rauðri ljósaperu inní sem var notað sem jólaskraut á æskuheimili mínu. Hefðir eru fallegar. Jólamalt: Ég hef elskað þig frá okkar fyrstu kynnum.
3,5 *

Segull 67 jólabjór (5,4% - 399kr)
Siglfirðingar ríða nú á vaðið með sinn fyrsta jólabjór og tekst bara bærilega upp, en kannski ekkert mikið meira en það. Hann er vel samsettur, með góðri froðu og fyllingu og alveg prýðilega drekkanlegur, en bragðið er ekki alveg nógu fjölskrúðugt, eiginlega frekar einhæft. Þokkalegasta öl en hefði alveg mátt setja töluvert meiri metnað í uppskriftina.
2,5 *

Jólabjór ársins 2016 að mati Feitabjarnar:


Einstök Winter Ale (8% - 888kr)
Látið ekki verðið fæla ykkur frá því þessi kemur í hálfslítraflöskum. Og jeremías minn hvað hann er góður. Það er eins og sjálfur prófessorinn, forsöngvarinn í Funkstrasse, grípi mann uforvarendes og dragi mann út á dansgólf á ruddalegan en í senn æsandi hátt. Eða eins og maður sé allt í einu kúrandi í sófanum klæddur í slopp sem ástvinur er nýbúinn að gefa manni í jólagjöf, með fangið fullt af konfektmolum með framandi útliti. Sá fyrsti bragðast eins og hunang, sá næsti eins og jólatré og sá þriðji eins og þrjátíu ára gamalt viskí. Allt í einu er búið að kveikja á kerti á sófaborðinu. Einhver hellir smá djús yfir ís. Þetta gæti orðið erfið nótt.
Gleðileg jól öll sömul!
5 *

18 nóvember 2015

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2015
Gleðilega hátíð elsku vinir og vandamenn. Nú styttast dagarnir og kólnar í veðri og landinn fer að finna fyrir kvíða gagnvart kreditkortareikningi febrúarmánaðar. Eins og áður tekur Feitibjörn að sér að forða ykkur frá óþarfa fjárútlátum með því að fórna eigin fjármunum, heilsu og lifurendingu. Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikil þörf fyrir þetta þjóðþrifaverk eins og í ár því þrátt fyrir að veruleikafirrtir milljarðamæringar reyni að telja okkur trú um að kaupmáttur hafi aldrei áður og hvergi annars staðar verið meiri en hér og nú er alveg öruggt að mörg veltum við hverri krónu áður en henni er eytt og höfum ekki efni á því að eyða súrt-samanspöruðum skildinum í vondan bjór, hvað þá á sjálfri aðalbjórhátíð ársins, jólunum.

Því miður verð ég að tilkynna ykkur að nú í ár þarf að hugsa vel og lengi um hverja einustu krónu sem eytt er í jólabjór og það er ekki bara vegna þess að milljarðamæringarnir ljúga og við höfum það alls ekki eins gott og þeir halda. Það er ekki heldur vegna þess að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin og þetta verði hin hinstu jól áður en við sökkvum til botns í eilíft Ramadan-hald eins og fávísir flugvallarvinir vilja að við höldum. Nei, nú í ár er lífsspursmál að verja krónunum skynsamlega í jólabjórkaup einfaldlega vegna þess að árið 2015 er eitthvert slappasta jólabjórár sem Feitibjörn man eftir. Hugsanlega mun þeirra verða minnst í framtíðinni sem nördabjórajólanna því það er ekki laust við að almenn tilgerð og stælar einkenni ýmislegt af því sem er í boði. Það á við um skárri bjórana en þeir vondu eru hins vegar lausir við alla tilgerð í ömurleika sínum. Soldið eins og framsóknarþingmenn hvað það varðar.

Ekki það að það sé sterkasta hlið Feitabjarnar að muna í smáatriðum afleiðingar bjórdrykkju sinnar, en það er önnur saga.

Það er best að drífa í að útskýra hvernig jólabjórrýni Feitabjarnar var framkvæmd á þessu herrans ári. Undanfarin nokkur skipti hef ég notið góðs af aðstoð míns hundtrygga sædkikks sem Kristófer heitir og kennir sig við Kopp. Að þessu sinni þurfti hann frá að hverfa sakir flensuskíts og var ég því einn á báti. Aðrar aðstæður höguðu því þannig að ekki reyndist unnt að ljúka jólabjórsmökkun á einu kvöldi líkt og venja hefur verið heldur dreifðist smökkun yfir heila fimm daga.

Sú breyting var gerð nú í ár að heiti björanna sem smakkaðir voru var ekki á huldu líkt og nokkur síðustu ár og reyndist það þegar upp var staðið ekki hafa sérlega mikil áhrif á niðurstöður. Dreifingin mikla varð hins vegar til þess að samanburður var öllu erfiðari – hvort er þessi bjór sem ég smakka á mánudegi eilítið betri eða verri en annar sem ég smakkaði síðastliðinn föstudag? Því var brugðið á það ráð í lokin að blindsmakka fjórar tegundir sem framarlega stóðu og þóttu jafnar.

Niðurstaðan liggur nú fyrir og best að eyða ekki tímanum í innantómt mas heldur vinda sér beint í umsagnir og einkunnagjöf. Þar sem nýtt námsmat hefur enn ekki verið formlega innleitt í grunnskólum landsins verður eftir sem áður notast við fimm stjörnu kerfi. Við sjáum svo til hvort á næsta ári verði gefnar einkunnir í bókstöfum, með eða án plúsa og mínusa. Bjórarnir eru taldir upp í þeirri röð sem þeir voru smakkaðir, fyrir utan þá hefð að besti jólabjór ársins að mati Feitabjarnar er nefndur síðastur.

Því miður var vínbúðavefurinn með leiðindi þegar reynt var að sækja myndir af bjórunum svo þið verðið bara að leggja nöfnin á minnið. Allar tegundir sem yfirhöfuð fást í flösku voru smakkaðar þannig en ekki í dós – eingöngu Royal og Albani voru smakkaðir úr álumbúðum.

Kaldi súkkulaði porter          (6%, 429 kr.)
Bragðgóður en óþægilega gosmikill. Frekar rammur eins og reyndar ýmsir bjórar í ár og ber ekki mikið á súkkulaðinu. Gosið yfirgnæfir næstum því bragðið stundum og því er það frekar lengi að koma fram. Stendur ekki undir frekar ósanngjörnum og óraunhæfum væntingum sem sköpuðust þegar tilkynnt var með miklum látum að hér væri á ferð einhver mesta snilld sem Árskógsströnd hefur fært heiminum.
4*

Royal Xmas White     (5,6%, 279 kr.)
Fyrsta skynjunin er lykt eins og súr gubbufýla. Gallsúr eins og síðustu krampakenndu tilraunir deyjandi líkama að losa sig við eitur. Upp rifjast erfiðustu nóróveirusýkingar sem yfir mann hafa dunið, þegar allur vökvi líkamans er þrotinn, kókið og maltið í kælinum gera ekkert gagn lengur, þegar vonin um dauðann ein er eftir. Í þokkabót er svo af þessu yfirgnæfandi spírabragð. Algjört ógeð eins og venjulega.
0*

Giljagaur         (10%, 767 kr.)
Þessi bjór kom á markað fyrir þremur árum og er æði, eins og að upplifa heila fimm rétta kvöldmáltíð með eðalvínum og gullbrydduðum eftirmat, allt í einum sopa. Hlýjan blossar upp innra með manni og þó maður sitji bara í IKEA eldhússtól líður manni eins og einhver hafi laumað arineldi í gang og vafið mann inn í feld af nýslátruðum Yak-uxa.
Þess má geta að fyrir tveimur árum var boðið upp á tunnulegna útgáfu af Giljagaur sem hafði legið í koníaksámu í heilt ár. Hann var mjög góður. Nú í ár var hægt að kaupa sér fyrir álíka pening og maður myndi eyða í jólakjól á elstu dótturina afganginn af þessari tunnulegnu framleiðslu, sem nú hefur fengið að vaxa og dafna í flöskunni í tvö ár til viðbótar. Það hefði verið ósanngjarnt að veita slíkri munaðarvöru keppnisrétt í jólabjórrýni Feitabjarnar og því var það ekki gert. Hugsanlega kom líka til sú ástæða að ég tímdi aðeins að kaupa eina flösku og ætla ekki að opna hana fyrr en í fyrsta lagi á þollák.
4 ½ *

Pottaskefill     (6,2%, 525 kr.)
Jólabjór númer fimm í röðinni frá Borg brugghúsi ber nafn með rentu því það er frekar brennt bragð af honum, eins og möndlugrauturinn hafi gleymst meðan maður kláraði bjórinn og þurfi að þrífa pottinn í dauðans ofboði áður en gestirnir koma og hafi ekki önnur áhöld en tunguna. Það er frostkaldur baðstofukeimur af þessum bjór og hann kemur sterklega til greina ásamt hangiketi og ákavíti. Að bjórnum loknum væri maður eflaust til í að skríða undir voð og finna sér einhvern til að ylja.
3 ½ *

Jóla Kaldi        (5,4%, 399 kr.)
Skólp, málmur og sígarettuaska eru bragðtegnundirnar sem koma upp í hugann. Ferlega vondur og sennilega versti Kaldi allra tíma. Það er allavega ekki hægt að segja að þessi bjór sé óspennandi eða lítið að gerast en það sem er að gerast er viðbjóðslegt.
1*

Ölvisholt jólabjór       (5%, 439 kr.)
Hei, þessi er nú barasta alveg frambærilegur. Á ári hinna tilgerðarlegu nördajólabjóra sem margir hverjir eru að reyna of margt eða mikið þá fer þessi bara einföldu leiðina. Þetta er basic jólabjór með smá karamellu, smá reyk og smá sítruskeim og það má hafa hann við hendina við jólabaksturinn jafnt sem í innkaupunum. Hér tekst þeim Árnesingum að taka formúluna sem notuð er í fjöldaframleiðslujólabjórana sem kenndir eru við víkinga, gull, túle og túborg og hreinlega snýta samkeppninni. Eða skeina henni réttara sagt.
3 ½ *

Egils jólamalt             (5,6%, 379 kr.)
Jólamaltið svíkur sjaldan og í ár er það gott en því miður ekki frábært. Lyktin er kunnugleg og nostalgían hellist yfir mann. “Amma, af hverju drekkurðu svona mikið malt?” Hins vegar er bragðið ekki alveg nógu afgerandi, mætti vera meira malt í þessu. Vantar alveg þennan þykka filing sem maður fékk alltaf af maltextrakt, sem gaf hraustlegt og gott útlit, muniði? Nær ekki alveg sínum vanalegu hæðum að þessu sinni en er samt góður.
3 ½ *

Steðji jólabjór             (5,3%, 395 kr.)
Hér er eitthvað verulega undarlegt á seyði. Fyrst áttar maður sig ekki almennilega á bragðinu því gosið er svo mikið en svo læðist það aftan að manni þannig að maður fær smá hroll. Hugurinn fer á flug og lætur sér detta í hug allskonar óviðeigandi stöff sem gæti verið nýtt til að bragð”bæta” bjórinn – af hverju þarf að bæta bragðið af bjór? Bragðið af bjór er yfirleitt mjög gott! Með fleiri sopum verður bragðið smám saman kunnuglegra og reynist vera frekar daufur lakkrískeimur. Misheppnað.
1 ½ *

Tuborg julebryg        (5,6%, 369 kr.)
Oj! Ertu að grínast? Á foraðventunni þetta árið höfum við fengið kröftuga áminningu um getu mannsandans til að sýna af sér vonsku en þetta gengur lengra en ég átti von á. Myndin sem kemur upp í hugann er af honum þarna ógeðslega Nestlé kallinum sem í þessu tilviki segir í myndatexta að góður jólabjór teljist ekki til mannréttinda. Þessi bjór er svo vondur að hann á hvergi heima nema á kommentakerfunum.
0*

Viking jóla bock         (6,2%, 429 kr.)
Dásamleg dönsk bjórlykt fyllir vitin áður en fyrsti sopinn kemur á óvart með smá remmu og talsvert mikilli fyllingu í bragði. Einn af fáum bjórum sem nær að fylla upp í munninn á manni án þess að maður kúgist. Bragðið er kröftugt án þess að vera yfirþyrmandi og helst lengi í munni, nánast gælir við bragðlaukana eins og langur, ástríðufullur koss. En auðvitað koss sem á sér stað eftir talsvert mikla bjórdrykkju beggja aðila. Því það er mikið bjórbragð af honum.
3 *

Steðji Almáttugur jólaöl        (6%, 534 kr.)
Aftur þetta mikla gosmagn. Hvað er að frétta? Það truflar bragðskynjunina en bragðið er annars áhugavert, ákveðið og afgerandi með óvæntum saltkeim. En allt kemur fyrir ekki – þetta er ekki að virka. Á einhvern veginn hvergi við í jólastemmningunni. Óvenjulegur bjór, það má hann eiga, en einfaldlega ekki sérstaklega góður.
1 ½ *

Thule jólabjór                        (5,4%, 359 kr.)
Þetta er nú ekki merkilegur jólabjór. Fyrir utan hvað það hefur alla tíð verið vandræðalega augljóst að hér er verið að stæla Tuborginn – og tuborginn er ógeðslega vondur! – þá er núna búið að fara alla leið og herma eftir frægri Tuborg jólabjórauglýsingu. Þar mætir trukkur og keyrir yfir jólasveininn á sleðanum, sem er kannski ekki alveg málið ef maður ætlar að koma sér í jólaskap. Þessi bjór bragðast enda eins og að verða fyrir bíl.
1*

Ris a la m’ale              (8%, 849 kr.)
Er hægt að ganga lengra? Á þessum nördabjórajólum er hér kominn Mikkeller – uppáhald hipsteranna, með einhvers konar bastarð á milli jólabjórs og möndlugrauts. Það eru hrísgrjónaflögur í bjórnum. Hann er bragðbættur með kirsuberja-essens. Ég elska reyndar gervikirsuberjabragð og Cherry 7-up er uppáhalds gosdrykkurinn minn svo ég fell fyrir þessu. Þetta er gott en á sama tíma eitthvað svo rangt. Soldið eins og að vera nauðgað í munninn. Þegar maður hefur komist yfir aulahrollinn og kyngt fyrsta súra sopanum, þá er þetta prýðilegur bjór. En ég efast um að ég fái mér annan á ævinni. Og þó…  
4*

Viking jólabjór           (5%, 335 kr.)
Í fyrra hélt ég samkvæmi fyrir vinnufélaga mina þar sem allir áttu að koma með jólabjór að eigin vali og við ætluðum að smakka og koma okkur saman um hver væri bestur og verstur. Sú skemmtilega staða kom upp að einni í hópnum láðist að hugsa út í að um jólabjórsmökkun væri að ræða og kom hún því með hinn klassíska gyllta Viking bjór. Ég gerði mikið grin að því þá en sé eftir því núna því Viking jólabjór bragðast eiginlega alveg eins og gylltur Viking. 
1*

Gæðingur jólabjór     (4,7%, 394 kr.)
Einu sinni reyndi ég að brugga mitt eigið öl en skorti þolinmæði og því varð drykkur sá nær allsendis ódrekkandi. Lyktin var ferleg í minningunni og rifjaðist upp fyrir mér þegar Gæðingur var borinn upp að vörum. En sem betur fer er bjórinn frá skagfirska efnahagssvæðinu betur unninn en sullið sem ég bjó til í denn. Hann sver sig í ætt við marga af jólabjórum ársins – dökkleitur, með talsvert mikilli fyllingu í bragði og áberandi remmu. Með þeim betri í ár en samt ekki frábær.
3 ½  *

Royal Xmas Blue        (5,6%, 279 kr.)
Loksins fatta ég út á hvað blái liturinn gengur. Lyktin upp úr glasinu minnir sterklega á hlandskál á sóðalegum rónabar. Menn hafa látið sér detta í hug ýmislegt til að poppa upp bjór og kalla hann jóla. Þetta er í eina skiptið sem blái kubburinn úr hlandskálinni virðist hafa verið notaður til þess. En fyrir utan þessa afar ógeðfelldu lykt er bjórinn ekki eins slæmur og við var að búast. Hann er vissulega vondur á bragðið og maður er lengi að losna við bragðið, svipað eins og jólakoss frá tannlausri langömmu. Ekki svo slæmur? Það sést hvaða væntingar eru hér uppi!
½ *

Red Hook Winterhook          (6%, 481 kr.)
Njeee… það er eins og þessi viti ekki hvort hann ætlar að vera – dökki rammi jólabjórinn með fyllinguna eða karamellubrúni basic jólabjórinn sem allir geta drukkið. Niðurstaðan er að hann sameinar það versta úr hvoru tveggja – er rammur og með frekar leiðinlegt eftirbragð en skortir allan karakter og er frekar einhæfur og óspennadi.
2*

Albani julebryg          (7%, 329 kr.)
Hryllingur í einu orði sagt. Bragðast eins og magasýra úr stressuðum ræstitækni sem sagt var upp störfum í íslensku ráðuneyti í kjölfar síðustu hryðujuverka.. Sennilega hefur vesalings konan fengið kassa af þessu ógeði í kveðjugjöf frá vinnuveitandanum. Bara svona til að hann gæti verið viss um að sparka í liggjandi konu. 
0*

Föröya jólabryggj      (5,8%, 361 kr.)
Nú er ég hissa. Hér er kominn bragðgóður jólabjór frá frændum okkar við austfirsku landamærin. Neftóbak! Engin spíralykt! Engin remma heldur frekar í sætari kantinum. Það er hér með yfirlýst markmið að taka eitt kvöld á aðventunni og klára að minnsta kosti kippu af þessari snilld og hlusta á meðan á síversnandi færeyska tónlist: Eivör fyrstu tvo bjórana, svo Týr, loks Jógvan áður en móðan mikla tekur við…
2 ½ *

Boli jólabjór                (7,5%, 449 kr.)
Það vakna blendnar tilfinningar við neyslu þessa bjórs. Hann er afar bragðgóður, með akkúrat réttu remmunni, ekki of sterkri og kemur manni beint í hýrt jólaskap. Hins vegar er hann rammsterkur og áfengið snarsvífur á mann. Áður en maður veit af eru þrír búnir og dómgreindin farin út í veður og vind. Alls konar ummæli eru látin flakka, bældar tilfinningar láta á sér kræla og maður er vís til að gera eitthvað heimskulegt af sér. Áfengisbragðið er reyndar ábernadi sterkt svo það er ekki eins og maður hafi ekki verið varaður við, en ef maður lætur sig hafa það að klára fyrsta glasið þá hættir það að skipta máli og voðinn er vís.
3*

N’Ice Chouffe             (10%, 999 kr.)
Hér sameinast metnaður ársins í gerð jólabjóra í einu stóru faili. Allt of gosmikill, allt of bitur á bragðið – minnir næstum því á Fernet Branca – og það eina góða er að hann er fljótur að hverfa af tungunni og eftirragðið er sem betur fer fljótt að gleymast. Yfirleitt vill maður langt og fjölskrúðugt eftirbragð því partur af pointinu með jólabjór er að við erum að njóta, tríta okkur, treina hvern sopa í smástund áður en sá næsti tekur við. En nei, hér er blessunarlega laust við það.
Samt svosem alveg vandaður bjór en ekki mikið fyrir þennan mikla pening.
2*

Jólagull           (5,4%, 359 kr.)
Nei og aftur nei. Svona er ekki hægt að bjóða manni upp á. Egils gull er svo sem einhver glataðasti bjór sem um getur svo maður ætti ekki að vera hissa. Þessi bjór er vondur. Súr eins og hnefafylli af mandarínuberki, flatur eins og einhver annar hafi drukkið hann í gær. Svo langt frá því að koma manni í jólastemmningu að maður er líklegastur til að fara með seríurnar aftur inn í geymslu og gefa skit í þetta allt saman.
½ *

 Jólabjórinn 2015:


Einstök doppel bock             (6,7%, 449 kr.)
Hrikalega góður. Á jólabjórári þar sem fátt var um fína drætti er sem betur fer einn sem fer með himinskautum. Það var ljóst í fyrri smökkun að hér væri á ferð sterkur kandídat að sigra þetta árið og þegar kom að blindprófun þá einfaldlega rúllaði hann samkeppninni upp. Bragðið er í senn milt, stillt og villt og ekki skaðar að prófa að hella honum í glas með breiðu opi sem gefur lyktinni færi á að njóta sín. Hangikjöt, jólabakstur, gjafainnkaup og þessi síðasti á þorláksmessukvöld sem þú áttar þig á yfir kalkúnafyllingunni næsta morgun að hefði mátt missa sín – Einstök er ávallt einstök.
5 *