19 nóvember 2018

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2018


Kæru landsmenn til sjávar og sveita, senn líður að jólum og nú eru jólabjórarnir komnir í búðir og á bari, okkur öllum til hugdeyfandi heilla. Íslenskt sem alþjóðlegt þjóðfélagsástand hefur sjaldan verið jafn ömurlegt og þar sem Engeyjarættin hefur ekki (ennþá) komist yfir einkarétt á ópíumskyldum verkjalyfjum þarf sauðsvartur almúginn að halda aftur af örvæntingunni með áfengi. Þetta er sérstaklega í brennidepli um jólahátíðina, því á þeim árstíma hefur uppsöfnuð gremja ársins tilheigingu til að brjótast upp á yfirborðið innan um leiðinlegar bækur, vondar smákökur og forljót bindi. Við eyðum peningum sem við eigum ekki til að kaupa handa fólki sem við þolum ekki drasl sem það vill ekki.

Nú ætla ég ekki að hlífa ykkur við hinum óþægilega sannleik: Árið 2018 er grútslappt jólabjórár. Úrvalið er meira og breiðara en áður, en að sama skapi eru fleiri vondir bjórar en nokkru sinni fyrr og þeir sem eru góðir, ja það eru bara þeir sem eru alltaf góðir. Ekkert nýtt sem kemur á óvart, engin ljóstýra í myrkrinu, aðeins vonbrigði, brostnar væntingar og óvænt óbragð í munni. Ég vona að þið þakkið mér og handlöngurum mínum fyrir að við skulum leggja á okkur það erfiði og þjáningu að drekka okkur í gegnum tuttugu og sjö íslenskar jólabjórtegundir. Tuttugu og sjö! Bara til þess að geta varað ykkur við allra versta sullinu og forðað ykkur frá hjartasorg þeirri sem ávallt fylgir því að fá sér bjór og komast svo að því að hann sé vondur.

Handlangarar í fleirtölu segi ég já, því auk míns sauðtrygga aðstoðarmanns Koppa-Krissa var í ár leitað liðsinnis hjá öðrum góðum vini og fylgdarmanni gegnum ýmsa lífsins brimskafla, sem gengur undir því forna og ógagnsæja nafni Immagaddus. Aðkoma hans reyndist vera heillaspor fyrir okkur hina, því með lúmskum húmor sínum og vel útilátnum veitingum tókst honum að gera okkur streðið nánast bærilegt. Immagaddus, við þökkum þér fyrir og þú mátt sjá um veitingar í erfidrykkjunni minni.

Aðeins um aðferðafræðina, en eins og tryggir lesendur Feitabjarnar vita, þá er smökkurum engin miskunn sýnd þegar smakka skal jólabjór. Allar tegundirnar eru bornar fram í eins glasi, flestar vel kældar en þær dekkri fá að nálgast stofuhita áður en törnin hefst. Smakkaðar voru þrjár tegundir í beit með nánast engu hléi (nema til að skola kverkar með vatni) – en eftir hverja þrjá bjóra var tekin smá pása og spjallað um daginn og veginn, til að hvíla bæði bragðlauka og lifur. Já og í ljósi gæðastandardsins í ár, einnig til að reyna að fyrirbyggja uppgjöf gagnvart verkefninu. Við hverja smökkun var skipst á skoðunum og athugasemdir skráðar niður í svokallaða fartölvu, ásamt stjörnugjöf sem ekki var skráð fyrr en allir þrír voru sáttir með niðurstöðuna, en þannig sköpuðust stundum heitar umræður.

Svo er rétt að taka fram að einhverjar sortir komu seinna í verslanir en svo að hægt væri að bíða eftir þeim, t.d. Skyrjarmur, sem er víst einhvers konar bastarður bláberjaskyrs og bjórs. Það verður að hafa það, maður segir nú bara ekki meira en það.

Hér á eftir fara sem sagt niðurstöður Feitabjarnar, Koppa-Krissa og Immagaddusar, um jólabjóra ársins 2018 á landi okkar Ísa. Bjórarnir eru hér taldir upp í handahófskenndri röð en samkvæmt hefð er endað á þeim sem þótti (lang)bestur og er verðugur jólabjór ársins.

Gjöriði svo vel:
Viking jólabjór – 5% / 359 kr.
Lífsreynslan að smakka Viking jólabjórinn 2018 er nokkuð lýsandi fyrir árferðið í heild sinni. Búið er að breyta miðanum og uppskriftinni, eða að minnsta kosti vatnsmagninu. Þetta skapar væntingar um að bjórinn verði öðruvísi en við er búist. Hann stendur að sjálfsögðu ekki undir þeim væntingum. Bragðlítið en óspennandi og mig langar ekki í fleiri. Hundómerkilegur bjór sem er eins og gamall vinur sagði oft, bara fyrir kellingar og nýbúa. 

2 *

_______________________________________________________________________________

Jóla Huml IPA – 6% / 469 kr. 
Strax mikið skárra, hér er skemmtileg ávaxtalykt og bjórinn er humlaður í döðlur. Maður er ekki viss um hvort þarna sé bragð af mangó eða passionfruit? Er þetta hveitibjór eða pale ale? Helsti gallinn er hvað bjórinn er sumarlegur og lítil jólastemmning í honum. Samt kemur hann að takmörkuðu leyti skemmtilega á óvart því þessir svokölluðu kraftabjórar frá Viking hafa hingað til ekki verið að gera gott mót. Oft þegar slíkir bjórar koma í búðir finnst manni það eins og SS sé að reyna að koma með frumlega pulsu.

3 *

 ______________________________________________________________________
Leppur – 6,5% / 658 kr.
Nú þarf maður alvarlega að hugleiða hvar mörkin liggja, því ákveðið var fyrir nokkrum árum að takmarka jólabjórrýni Feitabjarnar við íslenska bjóra. Eiga Vestmannaeyjar að teljast til Íslands? Ef maður spyr Eyjamenn er svarið oftast í takt við hvað þeim hentar hverju sinni. Hér er farið af stað með meira kappi en forsjá og fyrsta einkenni Lepps er megn gerlykt eins og gæti stafað upp úr sameiginlegri þvottakörfu vistmanna á elliheimili. Gerð er tilraun með kaffibragð, en það er því miður eins og staðið kaffi síðan í gær. Kemur ógleðisbragði af stað í munninum. Ég vil aldrei í lífinu smakka þetta aftur.

0,5 *

 ______________________________________________________________________


Röndólfur jólabjór – 5% / 498 kr.
Því er ekki að neita að hér er verið að vinna með jólastemmningu fyrir allan peninginn. Því miður er það hins vegar ekki að heppnast nógu vel. Notast er við nokkrar þekktar tegundir af jólakryddi, sem er afar vandmeðfarin leið til að búa til góðan jólabjór, trust me! Of mikið krydd gerir bjórinn að fljótandi piparköku og sem betur fer sneiðir Röndólfur hjá þeirri gildru því það er verið að reyna að stilla kryddmagninu í hóf. Þrátt fyrir ágætis viðleitni missir kryddið marks og útkoman er pínu eins og magameðal. 

1,5 *


 ______________________________________________________________________


Hvít jól mandarínu white ale – 5% / 449 kr. 
Þrátt fyrir litla tiltrú á handverksbjórlínunni frá Viking þá er ekki laust við að maður hrífist af þessum gæja. Það er verið að vinna með gamla klassíska hvítölið sem var svo vinsælt á bjórbannsárunum og nú er það bragðbætt með mandarínum. Útkoman er ekki sem verst, þetta er bragðlítið eins og ég veit ekki hvað, lyktar vel og er hressandi. Á vorum tímum er auðvitað ágætt að koma með jólaöl sem er líka gott fyrir vegan fólk. Mandarínan gerir þetta jólalegt þótt uppskriftin sé sumarleg. Gengur með matnum hvort sem það er kalkúnn, hangikjöt eða hamborgarhryggur.

3,5 *

 ______________________________________________________________________


Egils malt jólabjór – 5,6% / 399 kr. 
Ahhh!!!!! Nú er bara farið aftur í grundvallaratriðin. Þetta bragð sem við elskum, sem stundum hefur verið fullmikið fiktað með er núna bara standard issue. Tvímælalaust besta jólamalt sem komið hefur í nokkur ár. Maður gæti keypt þetta fyrir konuna sem ekki drekkur áfengi og laumað þessu í blandið hjá henni án þess að hún tæki eftir, reynt svo við hana seinna um kvöldið og séð hvað gerist. 

4 *

  ______________________________________________________________________
Steðji blessaður jólabjór – 5% / 393 kr.
Andskotinn, einmitt þegar þetta var farið að líta sæmilega út. Djöfulsins drullupollavatn. Engin lykt af bjórnum, sem eru beinlínis vörusvik. Það væri heiðarlegra að lyktin væri jafn vond og bragðið. Það þyrfti að merkja þetta stórum stöfum ÓHÆFT TIL MANNELDIS. Þetta er ekki einu sinni BARA vont, heldur er þetta vont á fjölbreyttan hátt. Fyrsti sopinn lætur manni bregða því hann er svo bitur, þá tekur við óskiljanlegt tannínbragð eins og af vondu rauðvíni.  
Eftirbragðið er svo eins og af klór- eða flúorblönduðu kranavatni í útlöndum.

0,5 *

 ______________________________________________________________________


Jóla kaldi – 5,4% / 399 kr. 
Hefur oft verið verri. Getur það talist vera hrós? Jóla kaldi er ekki vondur en alls ekki sérlega góður heldur, meira svona hvorki né. Lykt og gosmagn í lagi og samanborið við Viking er hann aðeins með meira boddí. Alveg hægt að svolgra honum í sig og jafnvel tveimur ef veðrið er verra en félagsskapurinn.

2,5 *

 ______________________________________________________________________


Ölvisholt 24 Barley Wine – 10% / 812 kr. 
Úff!
Oj! 
Svei!
Svona byggvín á bara við undir alveg sérstökum kringumstæðum og í þessu tilviki þyrftu þær kringumstæður að vera mjööööög sérstakar. Eins og til dæmis að manni væri hótað af araba með beinasög og þyrfti að drekka þessa fljótandi ávaxtaköku til að bjarga lífi sínu. Það er allt of mikið í gangi og allar þessar mismunandi árásir á bragðlaukana eru allt of harkalegar. Í skammdeginu vill maður fá að njóta og hafa það huggulegt. Þetta sem var í öllum lífsstílstímaritum muniði, og var að dönskum sið kallað hygge. Það er ekkert hyggeligt við þennan bjór, manni líður eins og ódauðlegri sál manns hafi verið kastað á eld. Arineld reyndar, með ísbjarnarfeldi fyrir framan, en á feldinum liggur áðurnefnd beinasög.

1 *

 ______________________________________________________________________


Segull 67 Jóla Bjór – 5,4 % / 399 kr. 
Sjitt, það er annað hvort í ökkla eða eyra. Annað hvort fylla bjórarnir í ár hugskot manns af martraðarkenndum órum, eða þá að það er barasta ekkert að frétta. Þeir ná þessu aldrei á Sigló virðist vera, því hver jólin á eftir öðrum er boðið upp á jólabjór sem er kannski ekki hryllingur, en á hinn bóginn hvorki góður, hlýr, jólalegur né eftirminnilegur heldur. 

1,5 *

 ______________________________________________________________________Tuborg julebryg – 5,6% / 399 kr. 
Túborginn fær sem fyrr að fljóta með þótt um danskt vörumerki sé að ræða því hann er bruggaður hér á landi. Þeir eru nokkrir jólabjórarnir sem hafa sterka markaðsráðandi stöðu og því er ekki að neita að Tuborg Julebryg kvöldið þegar samnefndur bjór kemur í fyrsta sinn á kranana á den Danske Kro er orðið að menningarviðburði sem lætur engan ósnortinn sem þangað kemur. Eða svo hefur heyrst, auðvitað mætir Feitibjörn ekki á svoleiðis plebberí. Gallinn hefur oft verið sá að þessi íslenska framleiðsla á danskri menningu hefur gjarnan mistekist álíka hrapallega og þegar Jónas ætlaði að laumast fullur í rúmið án þess að vekja neinn hér um árið. Að því sögðu þá er 2018 árgangurinn barasta skítsæmilegur, rennur nokkuð ljúflega niður og stuðar ekki mikið með meðalmennsku sinni.

2 *

 ______________________________________________________________________

Askasleikir amber ale – 5,8% / 494 kr.
Væntingar eru að verða pínu þema hér í ár. Bjór frá Borg á að vera góður. Þessi er ekki vondur en maður myndi ekki fara fram úr fyrir hann. Hann verður eitthvað pínu sjoppulegur við að vera seldur í dós og væri eflaust betri í gleri, af hverju að skemma þetta með áli? Maður fær bæði verra bragð í munninn og svo umhverfis-samviskubit í ofanálag. Það get ég fullyrt, að utan Fjarðabyggðar er varla til sá Íslendingur sem kemst í jólaskap við að hugsa um báxítnámur.

2,5 *

 ______________________________________________________________________


Jólakisi – 7% / 895 kr.
Nei, nei, nei og aftur nei.  Þetta væri vondur bjór á sumrin en að minnsta kosti myndi maður skilja pælinguna að einhverju leyti. Suðrænt en pínu gervilegt bragð sem yfirgnæfir humlana og gerir að verkum að þessi jólakisi bragðast eins og kattahland. Hrikalegt

0 *

 ______________________________________________________________________


Einstök doppelbock – 6,7% / 499 kr. 
Það verða ekki mikil jól heima hjá Feitabirni árið sem Einstök klikkar á þessum bjór. Ár eftir ár stendur hann undir ýtrustu væntingum og svíkur aldrei. Alltaf ljúfur, alltaf margslunginn, alltaf með þennan hæfileika að fylla upp í eitthvert tóm í sálarlífinu sem maður hafði ekki einu sinni tekið eftir. Röflið í ættingjum, örtröðin í Kringlunni, kortareikningurinn í febrúar, allt verður þetta viðráðanlegt með einum Einstök doppelbock. Eða öllu heldur þremur, að minnsta kosti. Hér er að vissu leyti búið að setja efri viðmiðunarmörk um gæði íslenskra jólabjóra. Þeir sem geta gert betur eru frábærir, þeir sem komast nálægt snilldinni eru góðir, aðrir falla í skuggann. Dásemdin ein.

4,5 *

 ______________________________________________________________________

Fagnaðarerindið – 5,5% / 720 kr.
Soldið eins og malt og appelsín, voru fyrstu viðbrögðin. Bara næs að mörgu leyti, frekar í sætari kantinum fyrir jólabjór. Nema manni finnist maltasín vera jólalegra en jólabjór, það eru kannski enn einhverjir sem eru á þeirri skoðun. Fagnaðarerindið er bara til í dós í búðinni svo maður fer kannski einstöku sinnum á aðventunni út á Granda og smakkar þetta beint af spenanum, það hefur oft verið verri ástæða til þess. 

3 *

 ______________________________________________________________________


Boli Doppelbock jólabjór – 7,5% / 469 kr.
Þessi boli er sko enginn asni, en hann sparkar eins og múldýr. Mikið malt bragð og afar öflug fylling í bragði en samt er hann einhvern veginn léttur og hressandi, að minnsta kosti sá fyrsti. Reynslan er sú að maður ætti að fara varlega í númer tvö og þrjú, því Boli er fílsterkur og maður getur fljótt orðið sauðdrukkinn. Jólalegur bjór og passar einna helst í alvöru gamaldags jólafyllerí.

3,5 *

 ______________________________________________________________________Thule jólabjór – 5,4% / 392 kr. 
Meh – það er orðin gömul tugga en hver er tilgangurinn með þessum bjór? Hann bætir nákvæmlega engu við flóruna, sker sig ekki úr að neinu leyti, býður ekki upp á neitt öðruvísi eða nýtt, bara nauðavenjulegt semi-dökkt bjórsull sem bragðast eins og Tuborg Classic. Sem er svo sem allt í lagi bjór fyrir venjulegt fólk allt árið um kring, en álíka mikil jólastemmning og kók og prins.

1,5 *

 ______________________________________________________________________


Jóla Kaldi súkkulaði porter – 6,5% / 466 kr. 
Nammimamm. Nú er verið að tríta sig, þetta er bjór sem hentar í jólabaksturinn. Þykkt og almennilegt bragð, súkkulaðibragðið temmilega beiskt svo þetta verður ekki bara eins og makkintoss í glasi, maður verður hins vegar að passa sig að kæla þennan bjór helst ekki neitt. Drukkinn við stofuhita er hann eins og notaleg kvöldstund í uppáhalds hægindastólnum með einhverjum sem þér þykir ennþá vænt um eftir öll þessi ár, konfekt í skál, súkkulaðibjór í belgvíðu glasi og jafnvel púrtvínsglas í laumi á meðan hundslappadrífan hamast á stofuglugganum.

4 *

 ______________________________________________________________________
Rúdolf Heslihnetubrúnöl – 4,8% / 449 kr.
Af öllum hnetutegundum, þurfti að velja heslihnetur?? Möndlur eru jólalegar út af gjöfinni og grautnum. Valhnetur eru jólalegar út af Waldorf-salatinu sem Feitibjörn náði einu sinni næstum að kveikja í húsinu sínu með. Pecan-hnetur eru ómissandi í kalkúnafyllinguna og kastaníuhnetur koma fyrir í þekktu jólalagi. En heslihnetur? Og svona mikið af þeim? Tilfinningin er eins og að vera bundinn við tannlæknastól í heilan sólarhring með enga deyfingu meðan herra Hnetusmjör pússar tannglerunginn í þér með naglaþjöl. You must be nuts to drink this, sagði Koppa-Krissi í léttum dúr, en okkur hinum var ekki hlátur í hug. 

0,5 *

 ______________________________________________________________________


Jólagull – 5,4% / 389 kr. 
Hvað getur maður sagt þegar bjór hefur þau áhrif á mann að mann langar ekki í fleiri bjóra í kvöld? Metnaðarleysið er hér algert, það hefur verið veðjað á að öllum sem á annað borð geta hugsað sér að drekka það sull sem heitir Egils Gull sé hvort sem er skítsama um hvort jólabjórinn undir sama nafni sé eitthvað sem skipti máli. Jú, hann er eilítið dekkri á litinn en venjulegt Gull. Jú, hann býr yfir eilítið meiri fyllingu en venjulegt Gull. En það er soldið eins og að hrósa Gillzenegger fyrir að vera ekki eins yfirborðskenndur og Kim Kardashian. Ég er ekki einu sinni viss um að hann sé það. Glatað!

1 *

 ______________________________________________________________________


Einstök Winter Ale – 8% / 595 kr.
Fleiri mættu nú tileinka sér þennan metnað og það er alveg lykilatriði að taka hér fram að ákvörðunin um að hætta að tappa þessu dásamlega öli á stórar hálfslítraflöskur er af hinu góða. Þessi bjór er megn, áfengur, sterkur, öflugur, kraftmikill, hispurslaus og hiklaus. Ekki alveg hikstalaus samt, hikk! En það var að vissu leyti oft aðeins of mikið að sturta í sig fimmtíu sentilítrum af ölinu þótt gott væri. Skipting í minni skammt, það er bara til þess að auka ánægjuna og auðvitað drekkur maður þá bara tvo í staðinn fyrir einn, eða þrjá í staðinn fyrir tvo og svo framvegis. 

4,5 *

 ______________________________________________________________________


Viking Jóla Bock – 6,2% / 459 kr. 
Hér er eitt og annað að gerast. Bockinn er frískandi og glaðbeittur, með sítruskeim í byrjun sem stekkur svo yfir í lakkrís – sem er ansi stórt stökk – án þess að það sé yfirþyrmandi. Akkilesarhællinn er sá að bragðið lifir varla svo lengi að maður geti nefnt það og eftirbragðið er ekki bara óspennandi, það er nánast ekki fyrir hendi. Þetta er mun skárra en margt af því ógeði sem boðið er upp á þetta árið en á móti kemur að það eru aðrir bock bjórar mun betri.

2,5 *

 ______________________________________________________________________

Giljagaur – 10% / 797 kr. 
Já... veistu.... nei. Hér er verið að vinna með vandasama hluti og þeir ganga hreinlega ekki nógu vel upp. Það er of margt og mikið í gangi í einu þarna og áreitið hreinlega gengur fram af manni. Talandi um væntingar þá býst maður alltaf við ákveðnum standard hjá Borg brugghúsi (veit að þetta er ekki í eina skiptið sem það kemur fram hér) og að þessu sinni verður bara að segjast að þær miklu væntingar sem reynslan hefur kennt manni að hafa, reynast vera of miklar. Þetta er ekki sá lúxusverðlaunagripur sem manni finnst maður eiga skilið eftir að hafa stritað í eldhúsinu allan aðfangadag með handlegginn upp að olnboga inni í dauðum fugli. 

1,5 *

 ______________________________________________________________________


Leiðindaskjóða – 5% / 497 kr. 
Ömurlegt. Vond og frekar súr lykt og humlanotkun úr hófi, sem gerir bragðið biturt og fráhrindandi. Einhver hópur bjórnörda kann eflaust að meta þetta en að láta sér detta í hug að kalla þetta jólalegt er út úr kú.

0 *

 ______________________________________________________________________Steðji almáttugur jólaöl – 6% / 432 kr.
Jú, þetta gæti alveg sloppið sem síðasti bjór kvöldsins (eða dagsins) eða eitthvað til að brjóta upp úrvalið af skárri bjórum meðan verið er að baka smákökurnar, pakka inn jólagjöfunum eða kannski helst að sjóða hangikjötið. Það er talsverð mýkt í þessum bjór en ansi mikill lakkrískeimur sem gerir líklega að verkum að það verður lítið stuð fyrir því að fá sér strax annan eins. Þannig að þetta er ekki vondur bjór sem slíkur, gæti alveg dottið inn sem wild card ef stemmning kvöldsins er að smakka nokkrar sortir, en einn síns liðs... Varla.

2,5 * 

 ______________________________________________________________________


Ölvisholt Heims um bjór Hátíðaröl – 5% / 448 kr.
Ha? Er metnaðurinn ekki meiri en þetta? Ætlum við að búa til jólabjór frá uppáhaldsbrugghúsi allra sköllóttra hipstera og hafa hann nokkurn veginn alveg eins og Jóla Gull? Enginn karakter, engin jólastemmning, engin minnsta tilraun til að reka það slyðruorð af Selfossi að þar snúist lífið um strípur, brúnkukrem og spoilerkit á Imprezu. Alveg ömurlega glataður bjór, ekki einu sinni svo vondur að það sé hægt að búa til brandara um timburmenn, ölvunarmistök eða magasýrur. Bara alveg hreint.... ekki neitt.

1 *

 ______________________________________________________________________

VIÐBÓT: Bjór sem ekki var kominn í verslanir þegar smökkun fór fram.


Skyrjarmur - 4,3% / 535 kr. 
Það hefur ekki verið venjan að gefa bjórum séns ef þeir eru ekki til sölu þegar Feitibjörn fer í ríkið en að þessu sinni verður gerð undantekning. Þetta er..... mjööööööög spes. En á góðan hátt.
Talandi um nördabjóra fyrir bjóranörda þá er þetta alveg svoleiðis, en samt ekki. Skyrjarmur er súröl með bláberjabragði, sem er auðvitað eins mikið hipsterarúnk og hugsast getur. Maður ætti ekki að mega drekka þennan bjór nema vera með alskegg niður á maga, klæddur í dress frá Guðsteini (af því að hann er ennþá meira authentic en Kormákur og Skjöldur), hlustandi á sjaldgæfa sjötommu með Múm. En viti menn - sem súröl er þetta alls ekki það sem til er ætlast. Hann er bara bragðgóður og ljúfur. Meiraðsegja frú Feitibjörn fékk sér annan sopa. Bláberjabragðið er afar afgerandi og maður hugsar með sér að maður myndi nú ekki drekka meira en einn svona. Til dæmis þegar maður er að pakka inn jólagjöfunum. Og með eftirmatnum á aðfangadag. Og meðan við skreytum jólatréð. Og yfir jólakortaskrifunum. Og bakstrinum. Og í staðinn fyrir tónleika með Borgardætrum, sem því miður verða ekki í ár, en engar áhyggjur, Skyrjarmur reddar kvöldinu.
Væri jólabjór ársins, nema fyrir tvennt: a) kom of seint (og maður fær ekki tíu ef maður er með S í kladdanum), b) Hurðaskellir er ósigrandi.

4.9 * 

______________________________________________________________________

 Jólabjór ársins 2018 - með (að mestu leyti) miklum yfirburðum:Hurðaskellir Imperial Porter – 11,5% / 1290 kr. 
Halelúja!
Það er von eftir allt saman. Á slöppu jólabjórári kemur besti bjórinn frá í fyrra og snýtir samkeppninni. Um hann sagði Feitibjörn fyrir ári að hér væri kominn besti jólabjór sem Ísland hefði alið og sem betur fer vorum við svo heppin að hann var framleiddur aftur, sem er alls ekki gefið mál þegar Borg brugghús er annars vegar. 
Hann er dýr, en hverrar krónu virði.
Hann er lútsterkur, en maður finnur ekkert fyrir því.
Hann er svo fjölskrúðugur að það er nóg að drekka einn á kvöldi.
Hann er besti bjór í heimi akkúrat núna.
Hann er Hurðaskellir.

Gleðileg jól og allt það!

30 nóvember 2017

Mosi frændi vekur hörð viðbrögð

Síðan í menntó hef ég verið hluti af hljómsveit sem kallar sig því óvenjulega nafni Mosi frændi. Sumum finnst gaman að okkur og við náðum því sem fáum hefur tekist, að gefa sjálfir út lag og koma því í mikla útvarpsspilun og á vinsældalista, þegar tveir útgáfurisar voru nær einráðir á markaðnum og hleyptu bara þeim að sem voru "líklegir til vinsælda" - sem við vorum pottþétt ekki.

Lagið var gefið út á lítilli plötu sem er uppseld í dag og eintök skipta höndum fyrir frekar háar fjárhæðir á safnarasíðum.

Áratugum síðar gerðist það svo óvænt að gerð var netkönnun um hver væri besta smáskífa íslensku rokksögunnar. Nokkur hundruð manns tóku þátt og við sigruðum afgerandi. Spáðu í mig með Megasi var í öðru sæti. Spáðu í það!

En við höfðum líka alltaf einhvern veginn lag á að fara í taugarnar á fólki. Þóttum ekki nógu flinkir á hljóðfærin, vera með ágætar hugmyndir en ekki ráða við að útfæra þær, eiga okkur óraunhæfa drauma um vinsældir miðað við hvað við værum lélegir... og þannig mætti áfram telja.

Hér eru nokkur dæmi um það sem fólk hefur skrifað um okkur í fjölmiðla í gegnum tíðina. Þetta eru bara dæmin um það þegar fólk fann okkur allt til foráttu. Kannski verður seinna gerð samatekt á því þegar fólk var ánægt, hver veit?


Þjóðviljinn 6. desember 1987. Ævar Örn Jósepsson skrifar:

Eftir nokkra bið og annað vatnsglas stigu á stokk sjö ungmenni í ungmennafélaginu Mosi frændi. Lítillega hefur verið minnst á þann félagsskap á þessum síðum áður, en þá hafði ég aldrei séð þá í sínu rétta umhverfi. Það er skemmst frá því að segja að framganga þeirra var öll hin vasklegasta og ungmennafélagshreyfingunni til mikils sóma. Enginn þessara drengja virtist öðrum fremri hvað hljóðfæraleik snerti, nema ef vera skyldi trommarinn, og á- réttuðu þeir þannig mottó ungmennafélaganna um land allt; sigurinn er aukaatriði, það sem mestu skiptir er að vera með ... Og það voru þeir svo sannarlega. Margir helstu slagarar undangenginna ára, þeir sem hvað best hafa gengið á dansæfingum hreyfingarinnar, voru spilaðir af mikilli innlifun og tilfinningu svo unun var á að hlýða. Eða horfa öllu heldur. Því Mosi er mikiðfyrir augað, eiginlega meira fyrir augað en eyrað. En það er annað mál. Fyrir utan nokkra misheppnaða og barnalega neðanmittisbrandara voru þeir alveg bráðfyndnir og skemmtilegir. Minntu mig helst á þá tíð þegar ég eyddi verslunarmannahelgum mínum í Galtalækjarskógi. Eg er satt að segja sannfærður um að piltungar þessir eru framarlega í flokki Félags siðgæðis- og áfengisverndaráhugamanna í M.H.

Morgunblaðið 3. mars 1988. Ari Eldon skrifar:

Lokaatriði kvöldsins var drengjaflokkurinn Mosi frændi. Flokkurinn framkallaði með hljóð- færum sinum leiðan gný sem skar í eyru. Mosi frændi er ágætt nafn á hóp sem flytur nær eingöngu tónlist, eða tómlist, eftir hálf mosagróna tónlistarmenn og stóð þar ekkert uppúr. Þeir ættu að láta pað ógert að koma fram.

Þjóðviljinn 1. maí 1988. Rúnar Gestsson skrifar:

Hljómsveitin Katla kalda leikur popptónlist, oft kryddaða með gömlum íslenskum sveitaballa-slögurum. Aðal einkenni sveitarinnar er, að þeir kunna skemmtilega lítið að spila, ásanit því að vera frekar taktlausir. Allt þetta gerir hljómsveitina stöku sinnum frumlega og veldur því að maður brosir einstaka sinnum út í annað
Morgunblaðið 8. desember 1987. Árni Matthíasson skrifar:
Mosi frændi kom nú á svið með miklum fyrirgangi, enda voru sveitarmenn allir afkáralega klæddir og málaðir. Sveitin er sett saman til höfuðs öðrum hljómsveitum og poppstjörnuí- myndinni, sem er gott mál í sjálfu sér, en betra væri ef það hefði ekki skinið í gegn að með- limir Mosa frænda vildu ekkert frekar en verða stjörnur sjálfir. Aðal sveitarinnar er að leika lög eftir íslenskar poppstjörnur og erlendar og afskræma þau. Því til viðbótar lék sveitin eitt lag sem Violent Femmes lék inn á plötu og nú bar svo við að afskræmingin var ekki viljandi, heldur vegna getuleysis sveitarmanna. í því lagi, meðal annars, mátti glöggt greina hver draumur Mosa frænda er: að slá í gegn. Menn brostu að sveitinni í fyrsta laginu, brosið stirðnaði í því öðru og var horfið í því þriðja.

Morgunblaðið 10. maí 1988. Árni Matthíasson skrifar.

Fyrsta sveit á svið var Katla Kalda; sveit sem trauðla verður skilgreind. Segja má að Katla hafi hæglega skarað fram úr öðrum sveitum þetta kvöld hvað varðar frumleika í textum og tónlist, en úrvinnsla hugmynda var ekki eins góð. Þar stendur í veginum að enginn sveitarmanna virðist valda hljóðfæri sínu svo nokkru nemi. Þrátt fyrir þetta hefur Katla alla burði til þess að verða á meðal merkari neðansjávarsveita.


Fréttablaðið 2. nóvember 2010. Trausti Júlíusson skrifar:

Grámosinn gólar (snilldar titill!) er upptaka frá vel heppnuðum endurkomutónleikum hljómsveitarinnar Mosi frændi á Grand Rokki í fyrra. Sveitin tekur hér sín þekktustu lög (Ástin sigrar, Katla kalda (tvisvar hvort lag!), Geirþrúður …) auk slagara á borð við Wild Thing, Jenny Darling (Pelican), Sönn ást (Maggi Eiríks) og Poppstjarnan (Utangarðsmenn). Páll Óskar og Felix Bergsson heiðra sveitina með gestasöng. Þó að þessi plata eigi eingöngu erindi við heitustu aðdáendur Mosans þá er þessi útgáfa vel þegin!

Starafugl 1. nóvember 2017. Ingimar Bjarnason skrifar:

Nýlega kom út fyrsta breiðskífa hinnar fornfrægu pönkhljómsveitar Mosa frænda, Óbreytt ástand. Mosi frændi, sem er sjálfsagt þekktust fyrir lagið Katla kalda, lá lengi í dái en reis upp að nýju fyrir einhverjum árum síðan. Hljómsveitina skipa Aðalsteinn Þórólfsson (bassi og rödd), Ármann Halldórsson (trommur og söngur), Björn Gunnlaugsson (gítar, trommur, rödd og munnharpa), Gunnar Ólafur Hansson (hljómborð, básúna og söngur), Magnús J. Guðmundsson (gítar og söngur) og Sigurður H. Pálsson (söngur, gítar og klarinett). Meðlimir leggja flestir eitthvað til lagasmíða og svo eru tvær ábreiður að finna á plötunni. Upptökur voru í höndum Curvers Thoroddsens.  Einhvern tímann lýsti Björgvin Halldórsson því yfir að Sniglabandið væru Stuðmenn fátæka mannsins. Ef sú sýn hans stenst þá er Mosi frændi Stuðmenn öreigans. Það sem ég meina með því er að sem pönkhljómsveit, sem Mosi frændi þykist vera, er þessi hljómsveit í raun alveg handónýt. Þetta er hópur af gömlum menntskælingum sem hefur aldrei almennilega tekist að vaxa upp úr menntaskólahúmornum og telst frekar skemmtihljómsveit að upplagi, en geta bara ekki spilað eins vel eða samið jafngóð lög og Sniglar eða Stuðmenn.Þetta er hörð atlaga, ég geri mér grein fyrir því. En hún á rétt á sér. Mér er pönkið fyllsta alvara og mér finnst þessir gaukar ekki hafa neinn skilning á því hvað pönk er. Það skásta sem ég get sagt um Óbreytt ástand er að hún er sjálfsagt aðeins skárri en svanasöngur The Clash, Cut The Crap.Platan hefst svo sem þokkalega með laginu Ekkert hef ég lært. Textinn er ágætur og allt í lagi með þó óeftirminnilegt lagið. En strax í næsta lagi fara þeir alveg með það með því að gera framhald af Kötlu köldu þar sem Atli viðurkennir að vera sjálfur vinur sinn sem söng fyrra lagið. Nú er hann orðinn að illmenni sökum þess að Katla braut hjarta hans og stefnir á eyðileggingu heimsins. Hann er orðinn vondari en Voldemort og kaldari en Katla. Titillagið á ágæt móment, mér virðist það að nokkru byggt á lagi Neil Youngs, Cowgirl In The Sand en lagahöfundur bætir við sínum eigin hugmyndum sem stundum ganga upp og stundum ekki. Textinn er stundum góður og stundum ekki. Hann hefur talsvert til síns máls en svo hættir maður að trúa að þessum mönnum sé alvara með reiðinni þegar þeir ljúka laginu á því að vitna í auglýsingafrasa Jóhanns Péturs essasú. Andskotinn hafi það.Lögin Útrásavíkingurinn snýr aftur og Hanzki Kannski eru þannig gerð að manni dettur helst í hug að þar séu á ferðinni pönkparódíur. Í alvöru talað þá voru grínpönklög Ladda meira pönk en þetta. Það er skömm af þessu. Svo kemur meiri aulahúmor í titli lagsins Hversvegna eru stúlkur aldrei einar, Einar. Strákar þetta er ekkert fyndið. Verst finnst mér hvernig það er farið með ábreiðurnar tvær, Ó Reykjavík Vonbrigða og Creep Q4U. Málið er að ég get ekki verið viss um hvort þeim er alvara með meðferð sinni á lögunum eða ekki. Mér finnst alltaf hálfpartinn eins og þeir séu að grínast og mér hefur alltaf fundist mikilvægt að menn sýni verkum annara virðingu – annað er bara ódýrt flipp á kostnað annara, tónlistarlegt einelti kannski?Síðasta lag plötunnar, Prinsessan á Mars er líka besta lag hennar. Þ.e. þangað maður hlustar á textann. En hann er sunginn til einhvers sem höfundi þykir lítið til koma og til að styrkja þá skoðun sína bendir hann þeim sem hann hatar svo á að draumadísin hans kjósi frekar að vera með einhverjum sænskum ræfli með lítið typpi sem rétt passar í þrönga píkuna hennar. Ja hérna. Maður á bágt með að trúa að hér séu á ferð menn um fimmtugt.Mér finnst rosalega leiðinlegt að þurfa að skrifa svona neikvætt um þessa plötu. Mig langaði mikið til að þetta væri góð plata. Eintakið mitt af Kötlu köldu var ein af fáum vínylplötum sem komu með mér þegar ég flutti yfir hafið, þó þetta væri léttvægt lag þá bara gat ég ekki látið hana frá mér. En svona er þetta stundum og maður fær ekki alltaf það sem maður vill. Þrátt fyrir nokkrar ágætar hugmyndir nær Mosi frændi ekki að gera úr efniviðnum góða plötu og það skrifast helst á leiðinda grín sem verður til þess að hlustandinn getur alls ekki tekið hljómsveitina alvarlega.
19 nóvember 2017

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2017

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2017
Já börnin mín góð. Við lifum á áhugaverðum tímum. Þegar þetta er skrifað er nýbúið að birta níu ára gamalt leyndósímtal Davíðs og Geirs um hvernig væri gáfulegast að koma af stað efnahagshruni, skatta-Kata er gengin í björg og við erum að horfa upp á langdregið dauðastríð Sjálfstæðisflokksins sem virðist vera að takast að draga nokkurn veginn alla aðra stjórnmálaflokka landsins niður með sér. Í svona aðstæðum er aðeins eitt ráð og það er að drekka frá sér ráð og rænu, helst daglega og jafnvel oftar en einu sinni á dag.

Það skiptir engu máli hvort lifrin bilar því það er hvort sem er ekkert heilbrigðiskerfi lengur, menntakerfið er í þvílíkri rúst að ég fór áðan í fjórar matvörubúðir en hvergi var hægt að fá stafapasta, Glitnir HoldCo munu að öllum líkindum setja lögbann á jólabjórrýni Feitabjarnar fljótlega og Vottar Jehóva voru að hringja. Í þetta sinn er þeim alvara sögðu þeir. Það ER að koma heimsendir.

Það er því ekkert vitrænt í stöðunni næstu vikur annað en að reyna að vera sem oftast og sem lengst án meðvitundar vegna drykkju. Jólabjórinn datt í búðir í vikunni og nú getið þið, kæru landsmenn, notið leiðsagnar sérfræðings um það hvað sé best að nota til að slæva hugann fram yfir stjórnarmyndun, jól, áramót og næstu kosningar, sem verða líklega uppúr miðjum janúar.

Á þessu herrans ári er úrvalið af íslenskum jólabjórum meira en nokkru sinni fyrr og munurinn á gæðum hefur að sama skapi sjaldan verið jafnmikill. Heilar tuttugu tegundir fást í Vínbúðum ríkisins og fleiri er að fá á öldurhúsum. Meðan þetta er skrifað situr skítsæmilegur belgískur dubbel í glasi og bíður þess að ná drekkanlegu hitastigi. Fagnaðarerindið heitir bjórinn og fæst á Bryggjunni. Annar fékkst á Microbar í vikunni og kom frá Vestmannaeyjum, kallaður Andrés utangátta. Hann var fínn. En hér verður sem sagt bara fjallað um þær tegundir sem hægt er að kaupa í þartilgerðum verslunum og taka með sér heim áður en drukkið er.  Ef heimurinn ferst ekki er reyndar alveg líklegt að sú frjálslyndis- og framfarastjórn sem þrír framsóknarflokkar eru að reyna að mynda, verði búin að aflétta ríkiseinokun á bjórsölu og maður geti keypt jólabjórinn 2018 í Bónus.

Djók!

Jólabjórsmökkun Feitabjarnar og Koppa-Krissa fór fram með þeim hætti að bjórunum var skipt í fimm flokka þar sem reynt var að grúppa saman áþekkum bjórum. Smakkaðar voru fimm tegundir í senn, ein úr hverjum flokki og svo pása á milli. Af fenginni reynslu var ekki mikið lagt upp úr því að smökkurum væri ókunnugt um hvaða bjórar voru smakkaðir hverju sinni, en til að tryggja hlutlaus úrslit voru fimm stigahæstu tegundirnar blindsmakkaðar í lokin. Þá kom upp óvænt staða því bjórinn  með þriðja hæsta stigafjölda varð hlutskarpari en sá sem hafði verið næstefstur.  Stigagjöf var löguð að þessum úrslitum og bjórarnir tveir látnir vera jafnir í öðru til þriðja sæti með jafnmörg stig.

Úrslitin voru hins vegar mjög afgerandi hvað varðar efsta sætið, eins og koma mun í ljós áður en lestri lýkur.

Hér á eftir fara þá umsagnir um bjórana í handahófskenndri röð, nema hvað besti jólabjórinn er geymdur þar til í lokin. Verði ykkur að góðu.
Jóla kaldi – 5,4% - 399 kr.

Ekki byrjar það neitt sérstaklega illa í ár. Vinir mínir á Árskógssandi hafa átt það til undanfarin ár að klúðra jólabjórnum sínum illilega en þessi er bara alveg prýðilegur sem slíkur. Léttur og hressandi með mjúkri karamelluslikju og þetta ramma skítaeftirbragð sem hefur stundum plagað Kalda er ekki til staðar í ár. Kannski þeir hafi skúrað hjá sér, hver veit? Í flokki fjöldaframleiðslubjóra fyrir almúgann kemur þessi sterkur inn og það er alveg hægt að sökkva þó nokkrum svona á góðu kvöldi.

2 ½ *Askasleikir – 5,8% - 484 kr.

Jólabjór síðasta árs frá Borg brugghúsi er snúinn aftur og nú aðeins fáanlegur í dós. Hver fékk þessa hugmynd og hvar er sá aðili núna kominn með vinnu? Jólalegi reykjarkeimurinn frá í fyrra er á bak og burt og eftir stendur ávaxtabragð sem minnir óþyrmilega á Egils appelsín. Það endist ekki lengi og þótt bragðið sé hressandi í fyrstu þá súrnar gamanið fljótt eins og óviðeigandi brandari innan um penar og dannaðar samstarfskonur í drögtum.

2 *Ölvisholt 24 Barley Wine – 10% - 798 kr.

Ef maður á að reyna að vera jákvæður þá er allavega ekki hægt að halda því fram að það sé ekki verið að reyna. Það þarf metnað til að ráðast í að búa til barley wine og þar sem Giljagaur hefur nokkurn veginn masterað þann markað þá veltir maður því fyrir sér afhverju Selfoss er að þessu. Þetta er algjörlega glatað! Allt of væmið bragð, eins og kaka í glasi nema kökur geta stundum verið góðar á bragðið. Þessi bjór minnir á fulla miðaldra konu sem hefur sett á sig allt of mikið ilmvatn, svo mikið að maður fær tár í augun, án þess þó að henni hafi heppnast að breiða yfir súra líkamslyktina.ðar ﷽﷽﷽﷽﷽﷽r geta stundum verið gerið ger algjörlega glatað! Allt of væmið bragð, eins og kaka

½ *Bara kíló pipar – 5,8% - 499 kr.

Stolnar piparkökur eru vondar á bragðið segir Hérastubbur bakari. Ég kannast ekki við að hafa borgað neitt minna en fullt verð fyrir þetta rugl en bjórinn verður ekkert betri samt. Hann byrjar á gríðarlega sterkri negullykt sem er ekki alslæm en svo kemur bragð sem er langt frá því sem nokkur maður getur viljað. Minnir einna helst á rúllupylsu. Bjórinn er svo útúrkryddaður og bragðmikill að það er hreinlega erfitt að kyngja honum. Eina ráðið til að koma honum niður er að þamba hann en það er ekki gott heldur því þá hellist yfir mann kanilbragð og engifer og manni líður eins og verið sé að lemja mann í hausinn með óhreinu kökukefli.

1 ½ *Thule jólabjór – 5,4% - 377 kr.

Það eru ekki allir sem eru hrifnir af jólabjór og hér er kominn jólabjór fyrir þá sem eru það ekki. Hann skartar nákvæmlega engu af því sem gerir jólabjór jólalegan, nema kannski fáeinum snjókornum á umbúðunum. Eilítið dekkri á litinn en standard útgáfan af Thule og með góðum vilja má skynja að hann er bragðbættur með þeim hætti sem líklegastur er til að stuða sem fæsta. Pínu vottur af hunangi til að hann sé ögn sætari en það er allt og sumt. Einhvers staðar er samt til óspennandi fólk sem birtir mynd af Thule jólabjór á Instagram.

2 *Jóla Kaldi súkkulaði porter – 6,5% - 464 kr.

Einu sinni varð Feitibjörn fyrir þeirri lífsreynslu á hommabar að risavaxinn þelþökkur maður spurði kurteislega hvort bjóða mætti koss. Í sumum kringumstæðum er slík kurteisisframkoma einfaldlega ekki málið. Kaldi súkkulaði porter væri eflaust mun betri ef hann þyrði að vera það sem hann þykist vera. Fyrsti sopinn er mjúkur og sætur, ekki beint súkkulaði heldur frekar kaffi og kanill. Svo bíður maður eftir að hann færi sig upp á skaftið en í staðinn kemur gamalkunnugt Kalda-eftirbragð eins og blökkumaðurinn hafi gleymt að bursta tennurnar.

3 *


Egils malt – 5,6% - 389 kr.

Á jóladag er Feitibjörn vanur að borða hangikjöt. Tvisvar. Fyrst heima hjá mági sínum fljótlega upp úr hádegi. Sá er vanur að sjóða hangikjötið á beini upp á gamla mátann og hefur stálheiðarlegt meðlæti með: Uppstúf, grænar og gular baunir úr dós, rauðbeður, asíur og dijon sinnep. Svo um kvöldið er mamma gamla vön að hafa tvær sortir af hangikjöti, úrbeinuðu og vandlega sneiddu. Með því er kartöflusalat, pikkles og súrsuð hvítlauksrif ásamt sinnepssmjöri. Í báðum tilvikum er boðið upp á jólabjór og ákavíti. Gera má ráð fyrir að Egils malt sé hinn fullkomni drykkur á þessum degi, því Egils malt stendur við gefin loforð, án þess þó að gera neinar sérstakar rósir.

3 ½ *Steðji Special Almáttugur jólaöl – 6% - 432 kr.

Hér er á ferðinni alveg einstaklega vel heppnaður jólabjór. Strax og hann er kominn í glasið sér maður að hann langar í þig jafn mikið og þig langar í hann. Hann er froðumikill og kallar á mann með jólalegri angan. Bragðið er svo ekki síðra og maður missir út úr sér eitt “VÁ!” við fyrsta sopann. Þarna er púðursykur, smá kanill og í lokin vottar fyrir múskati. Kryddbragðið er létt og leikandi, alls ekki aggressívt heldur nákvæmlega rétt stillt upp á jólafíling. Geggjaður bjór.

4 *Viking jólabjór – 5% - 352 kr.

Hér er bókstaflega ekkert að frétta. Þessi bjór er ekki bragðmikill, hvorki sætur né beiskur, það er ekki mikil fylling í honum, lyktin er lítil, hann freyðir frekar lítið og skilur lítið eftir sig. Líklegast mætti alveg sleppa því að drekka hann án þess að maður yrði var við það. Ævintýralega óspennandi. Honum tekst eiginlega ekki einu sinni að vera almennilega vondur.

1 *Viking Yule Bock – 6,2% - 450 kr.

Í verslunarleiðangri Feitabjarnar fengust þær upplýsingar að ein bjórtegund sem stóð til að yrði á boðstólum í fyrsta sinn hefði verið innkölluð af framleiðanda. Ekki veit maður nákvæmlega hver kann að vera skýring á því en það má gera ráð fyrir að það hafi haft eitthvað með gæði framleiðslunnar að gera. Brugghúsið hefur áttað sig á því að það gæti haft slæm áhrif á bissniss til lengri tíma litið að bjóða upp á misheppnaðan jólabjór í fyrstu tilraun. Sé það skýringin þá mega bjórgerðarmennirnir sem bjuggu til þetta sull taka það sér til fyrirmyndar. Þetta er flatur og óspennandi dökkur jólabjór sem býr ekki yfir neinni spennu né kikki. Það er helst að froðan í glasinu veki væntingar áður en smakkað er en hún er ekki einu sinni góð, heldur fær maður á tilfinninguna að dassi af uppþvottalegi hafi verið bætt í kútinn í örvæntingarfullri tilraun til að gæða hann lífi.

1 ½ *Bjólfur Grenibjór – 5,2% - 491 kr.

Hvað vorum við að tala um? Fyrsta tilraun til að koma sér inn á jólabjórmarkaðinn má ekki klikka. Austri er reyndar fínasta brugghús og það sem hefur komið frá þeim hingað til hefur alltaf verið gott. Líklega má gefa þeim prik fyrir hugrekki en grenibjór er alveg nýtt konsept í huga Feitabjarnar. Fyrstu kynni lofa samt ekki góðu, það er eins og maður sé staddur í Blómavali þegar glasið er borið upp að vitum. Bragðið er síðan mjög… óvanalegt skulum við segja. Svo óvanalegt að Koppa-Krissi fór að rifja upp gömlu dagana í mótorhjólagenginu þegar einhverjum datt í hug manndómsvígsluaðferð sem er of ógeðsleg til að henni verði lýst hér. Sú aðferð náði sem betur fer ekki hylli og það gerir þessi bjór ekki heldur.

0 *Einstök Doppelbock – 6,7% - 492 kr.

Þetta er almennilegt! Það er allskonar í ilminum sem fær mann til að hlakka til að smakka. Þá er maður heldur ekki svikinn því bjórinn hefur margslungið bragð sem grípur í bragðlaukana og dregur þá um krókótta stíga eins og góður gestgjafi í framandi borg sem þekkir alla bestu staðina. Einstök bregst aldrei. Ómissandi hluti af jólahátíðinni eins og alltaf og það er gaman að segja frá því að í blindsmökkun náði þessi gamla vinkona að mjaka sér upp um eitt sæti í stigagjöfinni.

4 ½ *Jólagull – 5,4% - 379 kr.

Jólabjór fátæka mannsins. Samt er hann túkalli dýrari en Thule sullið. Þunnur og lyktarlítill, sama gamla bragðlausa gutlið með smá sítrónukeim sem á líklega að gera hann auðdrekkanlegan. Nei, það er ekki auðvelt að drekka þennan bjór. Það er líka sjaldan auðvelt að hella bjór í vaskinn en hér er komin undantekning frá þeirri reglu. Það virðist vera sú mikla nýlunda hér á ferð að bætt er teskeið af kanil í uppskriftina til að keyra jólastemmninguna upp. Fyrir þá viðleitni sleppur hann við núllið.

½ *Boli Doppelbock jólabjór – 7,5% - 469 kr.

Góður. Höfum það á hreinu og þeir hafa meira að segja náð að bæta hann síðan síðast, þegar það var sterkur áfengiskeimur sem var akkilesarhællinn. Núna er mikið að gerast í bragðinu, bæði kaffi og lakkrís og karamella. Sterkur er hann líka svo manni hýrnar strax í skapi og allt verður einhvern veginn jákvæðara. Soldið eins og þybbna stelpan á skrifstofunni birtist óvænt og vilji vanga. Hún er þá kannski bara frekar sæt eftir allt saman? Boli fellur hins vegar á mikilvægu atriði, sem er eftirbragðið. Það er einfaldlega ekki til staðar og því hverfur jákvæðnin eins og dögg fyrir sólu. Vangafélaginn skreppur á klóið og á meðan tekur maður sönsum og drífur sig heim.

3 *Giljagaur – 10% - 777 kr.

Það verða eiginlega engin jól nema Feitibjörn fái sér að minnsta kosti einn Giljagaur. Það má hins vegar helst ekki fá sér nema einn. Þá meina ég að þessu sinni ekki að það eigi að drekka einn í einu, heldur að það sé ekki ráðlegt að drekka fleiri en einn Giljagaur þessi jólin yfirhöfuð. Það þarf að velja rétta augnablikið því það er svo margt í gangi í þessum bjór að það er nánast einsdæmi. Eiginlega aðeins of mikið í gangi svo maður segi nú alveg eins og er. Þessi eini gæti átt heima í stórhríðinni milli jóla og nýjárs þegar börnin eru sofnuð og draugamynd í sjónvarpinu. Það væri gott. Verra væri ef það væri á sunnudagseftirmiðdegi í aðventunni þegar fótboltinn er búinn og fjölskyldan bíður eftir að maður komi heim og búi til kvöldmat.

3 *Segull 67 jólabjór – 5,4% - 399 kr.

Nú eru tvö ár liðin síðan Feitibjörn smakkaði Royal Xmas bjór því sú happadrjúga ákvörðun var tekin í fyrra að halda sig eingöngu við íslenska framleiðslu. Frændur vorir á Siglufirði telja greinilega þjóðþrifaverk að halda merkjum vondra jólabjóra á lofti og bjóða hér upp á íslenska útgáfu af ógeðinu sem sameinar allt það versta í vondum jólabjór. Hann er rammur, flatur, súr og skólpkenndur.

0 *


Einstök Winter ale – 8% - 888 kr.

Ó já! Svona á að gera þetta. Loksins almennilegur metnaður og hér er nostrað við smáatriðin. Það eru ekki bara greninálar sem bragðbæta bjórinn, heldur hand-tíndar greninálar. Það er skemmtilegur keimur af viskí sem lætur sæluhroll hríslanst niður eftir bakinu. Vindurinn má hamast á rúðunni og landinn má hamast á kommentarkerfunum. Með einn svona í glasi getur ekkert raskað ró manns. Allt verður yndislegt og maður veltir því fyrir sér eitt augnablik hvað maður hafi gert til að verðskulda þessa sælu. Svo hættir maður að pæla í því.

4 ½ *Ölvisholt Heims um bjór hátíðaröl – 5% - 444 kr.

Svei! Og oj! Þetta er alls ekki gott. Það er eitthvað verið að reyna að vinna með mandarínur en afleiðingin er bara sú að maður finnur fyrir ólgu í magasýrunum. Sko. Gott jólapartí getur alveg haft í för með sér að maður fái pínu gubbubragð í munninn – daginn eftir! Feitibjörn þekkir meira að segja tilvik þar sem gott jólapartí setti fólk í þá aðstöðu að vera með ungbarnagubbulykt í kringum sig ári síðar. En maður á helst ekki að leiða hugann að gubbi þegar fyrsti sopinn af bjór er tekinn.

1 *Steðji engifer blessaður jólabjór – 5,5% - 399 kr.

Já nei. Vertu blessaður. Hittir alls ekki í mark þrátt fyrir viðleitni sem mætti túlka á jákvæðan hátt. Smá keimur af furunálum í glasinu áður en maður sýpur en sjálfur bjórinn er einstaklega óspennandi. Eða það heldur maður til að byrja með. Svo kemur þetta engifer-eftirbragð sem erfitt er að skilja. Hverjum datt í hug að það væri sniðugt að búa til bragðdaufan bjór og lauma svo í hann kryddi sem lætur mann svíða pínulítið í munninn á eftir?

½ *

Besti jólabjór ársins 2017 að mati Feitabjarnar og Koppa-Krissa: 


Hurðaskellir – 11,5% - 1290 kr.

Hó, hó, hó og herregud i himlen, hvað þetta er mikil snilld. Hurðaskellir heilsar hlæjandi og hamingjan hellist yfir hal og sprund. Það er allt rétt, satt, gott og siðsamlegt við þennan fáránlega flotta bjór. Hann lítur vel út í glasinu með mikla froðu og öflugan haus. Ilmurinn er algerlega dásamlegur og svo kemur bragðið.
Ó mæ god, skiluru!
Bragðið er alger dásemd og himnasæla. Sterk karamella (þessi sem sumir kalla butterscotch), smá viskíkeimur, svo kemur kaffi, því næst eik og einhvers staðar í bakgrunninum er pínkuponsulítill lakkrís. Maður horfir á glasið og trúir því varla hvað það þurfti lítinn sopa til að kalla fram þetta sjúklega æði. Það er nóg eftir, best að fá sér annan sopa!
Dömur mínar og herrar, þetta er ekki bara besti jólabjórinn á Íslandi árið 2017, það er óhætt að halda því fram að hér sé einfaldlega besti jólabjór sem Ísland hefur alið. Þó víðar væri leitað, ekkert höfðatölukjaftæði. Drífið ykkur út í búð og kaupið eins marga og þið hafið efni á.
Gleðileg jól elskurnar.

5 *