Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022
Heimur versnandi fer.
Það er ekki laust við að almenningur sé pínu sleginn nú í lok þessa herrans árs tvö þúsund tuttugu og tvö. Við vorum rétt skriðin upp úr umgangspestinni með sínum takmörkunum, valdboðuðu sprautum og innilokunum. Voru fleiri en Feitibjörn sem héldu að nú tæki við betri tíð með blóm í haga?
Það var nú meiri djöfuls barnaskapurinn. Hvað fengum við? Jú, eitt viðbjóðslegt stríð til dæmis. Og við klöppum okkur á bakið fyrir það hvað við séum góð að taka á móti fáeinu fólki á flótta úr þessu stríði en á sama tíma erum við enn að senda sakleysingja út í óvissuna ef þau eru öðruvísi en við á litinn og trúa á annan guð. Mjög jólalegt. Nú er meiraðsegja verið að draga fólk upp úr hjólastólum til að henda því úr landi. En við eigum ekki að kvarta, við höfum það jú svo ofboðslega gott á þessu frábæra landi, sjáiði til dæmis bara hvað það gekk vel að selja pabba fjármálaráðherrans banka?
Helvítis fokking fokk.
En árið er senn á enda og búðirnar fyllast af jólabjórum enn eina ferðina. Í fyrsta sinn í mörg ár hefur heildarfjöldi íslenskra bjórtegnunda dregist örlítið saman en það er líklega vegna þess að eitt borgfirskt brugghús fór á hausinn á árinu. Pælum aðeins í því krakkar. Þetta samfélag okkar er svona ofboðslega vel rekið að það er ekki einu sinni hægt að draga fram lífsviðurværi með því að brugga bjór og selja. Það á bókstaflega ekki að vera hægt, vitið þið hvað hráefnið í einn bjór kostar? Og hafið þið séð hvað einn bjór kostar í dag, hvort sem er í búð, netverslun eða á bar? Nei, það á ekki að vera hægt að fara á hausinn með fyrirtæki sem bruggar og selur bjór.
Feitibjörn veit hvað það er einfalt að brugga bjór því hann hefur sjálfur prófað að búa til bjór. Jólabjór meiraðsegja. Sá bjór var reyndar mjög vondur en það er önnur saga. Feitibjörn þarf ekki að geta bruggað góðan bjór til að geta haft skoðun á bjór en höfum eitt á hreinu: Skoðanir þær sem hér eru settar fram, tja, eigum við að segja að ferlið sem kallaði þær fram eigi meira skylt við list en vísindi?
Feitibjörn hefur sem sagt ekkert vit á þeirri fagmennsku sem þarf til að búa til bjór. Bjór er hins vegar hugbreytandi efni og Feitibjörn er hrifnæmur með afbrigðum, þannig að bjórar kalla fram hjá honum upplifanir og hughrif sem eru svo sett fram í texta. Sumum finnst þetta fyndið, öðrum alls ekki. So be it.
Smökkum fór fram í nóvembermánuði árið 2022 og tók svo að segja allan þann mánuð eins og hann leggur sig. Feitibjörn naut sem áður dyggrar aðstoðar bæði frá sinni ektakvinnu sem og frá þeim félögum Koppa-Krissa og Immagaddusi. Sem fyrr fékk þetta fólk að smakka með Feitabirni, skiptast á skoðunum við hann um kosti og galla, blæbrigði og smekksatriði, en Feitibjörn ber alla ábyrgð bæði á umsögn og einkunn.
Þá er oss ekki til setunnar boðið, hér á eftir fer jólabjórrýni Feitabjarnar 2022. Bjórarnir eru í handahófskenndri röð fyrir utan þá hefð að bjórinn sem telst bestur er nefndur alveg í lokin. Hlaðið nú batteríin í lesbrettunum ykkar, komið ykkur þægilega fyrir með drykk í hönd, hlustið á jólabjórlagið og kynnið ykkur niðurstöður.
Smellið hér til að hlusta á jólabjórlagið "Hvað segir Feitibjörn?" með Mosa frænda
-----------------------------------------------------------------------------------
Ketkrókur
8%
1111 kr.
Já nei. Hér á nú greinilega aldeilis að sniðuga yfir sig. Bjór með jólaglöggbragði, það er bara ekkert annað. Hugmyndafundurinn þar sem þetta varð niðurstaðan hefur nú líklega ekki verið langur. Ef Feitabjörn langar í jólaglögg þá fær hann sér bara jólagjögg. Eflaust má með þolinmæði og þjálfun ná upp færni í að kunna að meta svona fínerí en Feitibjörn nennir því ekki. Hann vill jólabjór sem er góður strax.
1 *
Hnetubrjótur
5.6%
849 kr.
Það er ekki mikið hægt að kvarta þegar bjór er svona mildur, ljúfur og góður. Hnetukeimurinn gerir hann alveg þokkalega jólalegan og hann fer alls ekki í þessa átt sem margir dökkir jólabjórar gera, að sökkva sér ofan í drunga og myrkur. Jú, hann er vissulega með myrkrinu í liði en ber með sér þá tilfinningu að það sé ljós við endann á skammdeginu. Bökunarvörur í jólabjór er alltaf pínu áhætta en hér tekst að sneiða hjá því að það verði of mikill Hérastubbur bakari. Stöngin inn!
3½ *
Afsakið myndina en framleiðandi virðist ekki hafa skilað ljósmynd til birtingar á vef Vínbúðarinnar en myndefni er fengið þaðan alla jafna.
Hafnarfjarðarlager
5%
495 kr.
Stórundarleg lykt stígur upp úr glasinu, þetta er ekki bjór, heldur einhvers konar galdradrykkur. Eða það heldur maður. Það er erfitt að setja fingurinn á það hvað veldur þessari undarlegu angan en svo er bragðað á drykknum og maður er bara hissa. Hvaða furðujurtir er búið að sækja bak við fjöllin sjö og strá yfir þetta sull? Svo til að rugla mann enn meira í ríminu fær bjórinn þetta allsendis ójólalega nafn. Feitibjörn segir nei takk!
½ *
Santa’s Blue Balls
4.7%
749 kr.
Þetta er undarleg hugmynd og útkoman er í einu orði sagt hræðileg. Bleiklitað sull sem virðist eiga að minna á drykk sem maður gæti keypt sér í ísbúð. Hver fer í ísbúð á jólunum!? Það átti að koma með bjór í þetta partí.
½ *
Gluggagægir
9%
919 kr.
Það er óþægileg tilfinning að standa á baðherbergisgólfinu að þurrka sér eftir sturtu og sjá andlit á glugga. Gluggagægir kemur álíka harkalega á óvart en á jákvæðari hátt. Þessum gluggagægi myndi maður alveg bjóða inn í kaffi, jafnvel bjóða honum upp á einhvers konar bakkelsi með og jafnvel ekki hleypa honum heim aftur fyrr en í fyrsta lagi næsta dag.
4 *
Hvít jól
5%
419 kr.
Eins og tryggir og trúfastir lesendur Feitabjarnar hafa líkast til áttað sig á með árunum getur hann stundum verið undarleg blanda af snobbhænsni og plebba. Stundum má bara syngja með Sniglabandinu og það þarf ekkert að skammast sín fyrir það, þótt Sinatra og púrtvín við kertaljós sé auðvitað smartara. Hvít jól fellur í fyrrnefnda flokkinn, sauðsvartur almúgabjór þó hvítur sé og bara anskotans nógu góður ef tilefnið er ekki þeim mun hátíðlegra. Léttur, sætur og reyndar kannski aðeins of mikið hveiti en sleppur alveg til.
2½ *
Leiðindaskjóða
5.3%
499 kr.
Það sem í grunninn gæti verið skítsæmilegt rauðbrúnt öl er eyðilagt með römmum andfýlukeim sem er yfirþyrmandi óþægilegur og vondur. Manni líður eins og bjórglasið sé orðið að manneskju sem hefur króað mann af úti í horni í veislu, segjandi samhengislausar sögur af frændfólki sem þú manst ekki eftir að hafa heyrt minnst á, hvað þá hitt, þangað til eina leiðin út úr prísundinni er að hella meiri andfýlubjór upp í ginið þangað til allt hverfur í móðu.
1 *
Grýla
5.2%
533 kr.
Blessuð kerlingin hún Grýla, hún hræðir nú ekki börnin mikið í dag. Bragðið sveiflast á milli sítrus og reykjarkeims, sem fer ekki beint vel saman enda dó sú gamla við að róla sér á róluvelli var það ekki? Hræðileg er þessi Grýla ekki en frekar lítið fútt í henni.
2½ *
Dimmuborgir
8%
943 kr.
Drungalegur eins og tónlist hljómsveitarinnar sem deilir nafninu. Ef dauðarokkarar vissu nú um jólasveinatenginguna! Bragðgóður er bjórinn en áfengið skín of mikið í gegn, spírabragð yfirgnæfir púðursykurinn og maður fær hreinlega smá brjóstsviða.
1½ *
Skreppur
6.5%
499 kr.
Það er þrennt athugavert við þennan bjór. Í fyrsta lagi er fáránlega beiskt og biturt eftirbragð sem kemur í veg fyrir að maður sé strax tilbúinn í næsta sopa. Í öðru lagi er flóðbylgja af súru bragði sem lætur manni líða eins og þegar maður fattar að allt of dýra jólagjöfin mun þrátt fyrir allt ekki vekja gleði. Í þriðja lagi er skrítinn gerkeimur sem veldur vægri velgju. Að öðru leyti alveg fínn bjór og ef maður kemst í gegnum þann fyrsta án þess að ákveða að hætta að drekka gæti kvöldið alveg endað vandræðalega.
2½ *
Segull 67 jólabjór
5.4%
448 kr.
“Þetta er nú aldeilis gott kaffi!” segja miðaldra gallajakkaklæddir menn þegar þeir heyra graðhestarokk sem höfðar til þeirra. Einhver slappasta útfærsla á kaffi sem til er var í ungdæmi Feitabjarnar kallað “hitaveitunesari” en það er sem sagt instant kaffiduft sem er hrært út í vatn úr heita krananum af því að maður nennir ekki að bíða eftir uppáhellingunni. Þannig er þessi bjór, meinlaus reyndar, en bragðlaus og vonlaus.
½ *
Hátíð í bæ
5.5%
576 kr.
OKbæ.
Þetta er nú bara voðalega venjulegur og hversdagslegur bjór, ekkert sem í raun gerir hann öðruvísi en hvaða sull sem er annað. Tilfinningin er eins og að opna jólapakka frá allra sérstökustu manneskjunni í lífi manns og finna þar viskustykki.
2 *
Festivus
7.2%
1001 kr.
Oj!
Hvað eru menn að spá hér?
Yfirþyrmandi sterkt óbragð ræðst að manni algerlega að óvörum, alsaklausum. Hver sem getur klárað svona bjór án þess að snúa sér að heimilisofbeldi á skilið að fá verðlaun. Var þetta gerjað með nóroveiru?
0 *
Eitthvað fallegt
5%
499 kr.
Léttur og frekar bragðlítill pale ale með frekar misheppnuðum biturleika, allir fá þá eitthvað fallegt segir í kvæðinu en þegar bjórinn bragðast eins og límbandið sem þú notar til að pakka inn jólagjöfunum styttist í að þú hættir að nenna að pakka inn og þetta helvítis lið getur bara átt sig og fær enga jólagjöf. Bitur? Ég er nú hræddur um það!
1½ *
Jólabóndi
6%
449 kr.
Ef ætlunin er að muna ekki á morgun hvað gerðist i kvöld er þetta líklega bjór sem þjónar þeim tilgangi. Hann er svo rammur að helstu vonbrigði síðustu ára rifjast upp við fyrsta sopannn og hjartað fyllist af depurð, sem eingöngu annar sopi og svo annar og einn til, geta slegið á. Bjór fyrir fólk sem drekkur til að gleyma og býr við svo margvísleg tilfinningaleg vandamál tengd jólahátíðinni að það þarf að tryggja að hægt sé að drekka til að gleyma bókstaflega öllu.
1½ *
Grýluhor
Hér er leikin jafnvægislist og heppnast vel, bjórinn er sætur en með smá undirtón, frískandi en með mikla fyllingu, mjúkur og vinalegur í fyrstu en getur laumast aftan að þér ef þú passar þig ekki. Vandaður og sannfærandi bjór og þótt hann virðist í fyrstu ekki ætla að heilla þig upp úr skónum veistu ekki af fyrr en þú ert á sokkaleistunum.
3½ *
Viking jólabjór
5%
359 kr.
Það heyrist sífellt minna í þeim samanskreppandi hópi fólks sem finnst slæmt að skólar sjái ekki um þá þjónustu fyrir foreldra að draga börnin þeirra í kirkjur fyrir jólin, helst með þeim málflutningi að “þeim verði nú ekki meint af þessu greyjunum,” eins og að það eigi að vera þröskuldurinn - við erum til í að gera hvað sem er, bara ef það beinlínis skaðar ekki börnin. Svipað mætti segja um Viking jólabjór, það verður svosem enginn veikur af því að drekka hann. Bragðdaufur er hann en sé hann vel kældur má eflaust sporðrenna nokkrum án þess að kenna sér meins.
2 *
ORA jólabjór
5.2%
499 kr.
Maður segir ekki sama brandarann tvisvar, sögðu þeir Botnleðjumenn um árið. Þeir höfðu komist hársbreidd frá því að taka þátt í því sem hefði verið stysta Eurovision keppni allra tíma. Ástæðan? Ísland var fyrst á svið þetta árið og ef Eurovísa hefði verið framlag Íslands hefðu hin löndin einfaldlega gefið keppnina strax. En það fór því miður ekki þannig heldur sendum við húsvíska barbídúkku og það fór eins og það fór.
Þetta með að segja sama brandarann aftur var sem sagt svar við spurningu um hvort Botnleðja ætlaði að reyna aftur. Pollapönk kom auðvitað löngu seinna en afstaðan var virðingarverð, við höfðum ekki erindi sem erfiði og við það situr.
Grænubauna- og rauðkálsbjórinn er hins vegar einmitt það, tilraun til að segja sama brandarann aftur. Nema núna, í ljósi þess hvað stórkostlega vel heppnuð markaðssetning plataði margt fólk til að kaupa þennan bjór í hrönnum í fyrra, þá á eftir að koma í ljós hvort fólk láti plata sig aftur. Feitibjörn spáir því að svo verði ekki.
1 *
Jólakaldi Súkkulaði Porter
6.5%
529 kr.
Jújú, þetta er alveg þokkalegur jólabjór, nær að fanga þessa dökku og sætu stemmningu en fer kannski ekkert sérlega langt með hana. Rennur ljúflega niður en það vantar aðeins þennan vá-faktor sem maður vill helst finna í bestu jólabjórunum.
3 *
JólaBjössi
5.8%
449 kr.
Vá! Það er ekkert verið að grínast hér, Bjössi mætir með ofboði í jólaveisluna, veltir jólatrénu, leysir svuntuna af pabba og sturtar í sig sósukoníakinu áður en hann er svo mikið sem búinn að segja gleðilega hátíð. Enda er hann ekkert sérstaklega hátíðlegur, þótt hann kunni að segja dónalega brandara og gefi börnunum sleikjó. Bragðmikill, bosmamikill, áfengismikill og stórhættulegur, það er Bjössi!
3 *
Jólasopi
4.2%
626 kr.
Hér gæti verið ljómandi góður bjór á ferðinni en að mati Feitabjarnar er gengið aðeins of langt í að létta bjórinn, draga úr áfengismagni og um leið bragðinu, sem er bara helvíti fínt í grunninn. Það er vissulega stundum ágætt að passa sig að verða ekki of blekaður yfir hátíðarnar en hér hefði verið gaman að hafa bjórinn eilítið karlmannlegri og þá bara í minni dós í staðinn.
3 *
Hurðaskellir
11.5%
1290 kr.
Hvílík dásemd! Arineldur, kertaljós, úti kyngir niður snjónum en það er hlýtt inni. Langþráð einverustund með elskunni þinni og þið ákveðið að skipta einum á milli ykkar. Hellið honum í tvö koníaksglös og setjið Hauk Morthens jólaplötu á fóninn. Bjór fyrir allra bestu stundir lífsins. Eftir einn sopa er maður aftur kominn með lífsviljann, næsti sopi skapar trú á mannkynið og sá þriðji lætur þig sjá út fyrir endimörk alheimsins.
4½ *
Viking lite jól
4.4%
325 kr.
Jæja elskan mín, hversu mikil er þín sjálfsfituskömmun ef þú leggst svo lágt að setja þetta inn fyrir þínar varir? Ertu að fá þér bragðlaust léttöl án glútens og nánast án áfengis en kemst í jólaskap af því að það er vottur af piparkökubragði sem er svo lítill að þú veist ekki hvort þú ert að ímynda þér hann? Bjórinn er nánast algerlega bragðlaus, eplabragð er eins og síðustu leifum af Svala hafi verið hellt í bruggið og kanil varla til staðar, hvað þá bjórbragð. Drasl!
0 *
Hóhóhó
6.8%
579 kr.
Maður verður pínu smeykur að smakka bjór sem lítur út eins og aldagamalt skólpvatn í glasinu og ilmurinn eftir því. Bragðið er beiskt, áferðin þykk og munnvikin færast ósjálfrátt niður á við. Þá er annað hvort að harka af sér og klára úr glasinu eða laumast til að hella þessu í jólatrésfótinn.
1 *
Ris a la sour
4.7%
749 kr.
Bleikur litur gefur fyrirheit um eitthvað öðruvísi og spennó, lyktin er samt eins og upp úr krukku af kokteilberjum en svo kemur bragðið og þá er þetta búið. Eins og unglingur að fótóbomba Instagramstjörnu í Kringlunni er bragðið óþarflega stuðandi en sem betur fer horfið áður en maður veit af.
1 *
Jingle Balls
5%
393 kr.
Feitibjörn er hrifinn af góðum bjór. Margir bjórar höfða ekki til hans en þá reynir hann að minnsta kosti að búa til lýsingu á bjórnum út frá sinni upplifun. Stundum dettur sú lýsing út í hótfyndni. Það er bara svolítið erfitt að segja eitthvað sniðugt um svona “meh!” bjór. Í grunninn er þetta einn af þessum fjölmörgu brúnu bjórum sem á að bragðbæta með einhverju jólalegu án þess að ganga svo langt að þetta verði einhver lúxuseftirréttur í glasi. Hér er einhver skrýtinn sveitakeimur í gangi, smá eins og hrossakjöttkraftur hafi verið leyndarmálið í uppskriftinni.
1 *
Hellisálfur
11%
999 kr.
Góðir gestir, við bjóðum velkominn leynigest kvöldsins, gefið honum gott klapp! Allur tilfinningaskalinn er spannaður í einu ógnvegkjandi svörtu bjórglasi. Bjórinn er stórkostlega bragðmikill, eins og konfektmoli með áfengi og lætur sæluhroll hríslast niður eftir hryggstykkinu. Það eru verðlaun út af fyrir sig að smakka svona dásamlegan bjór og það þótt hann sé talsvert bitur á bragðið - hann bara nær að vera það án þess að vera fráhrindandi. Algjört lúxusnammi.
4½ *
Jóla Skarfur
6.9%
680 kr.
Nokkuð lúmskur bjór hér á ferð, rennur ljúflega niður án þess að maður fatti að í honum er allt, allt of mikið áfengi. Hann lætur ekki mikið yfir sér, helst er þarna vel placerað eftirbragð af súkkulaði og salti. Enjoy responsibly sjáum við stundum þegar verið er að auglýsa bjór á fótboltaleikjum (reyndar ekki núna á aðventunni) en með þennan bjór segir Feitibjörn bara: Fat chance! Gemmér annan!
3 *
Jóla Kaldi
5.4%
399 kr.
Æji, þetta er nú bara hálf dapurlegt, nánast niðurdrepandi. Fallega litaður og freyðandi bjór í glasi en bragðið er hreinlega dáíð. Það minnir á lyktina sem kæmi úr þvottavélinni þegar þú ætlaðir að hafa tímann fyrir þér og þvoðir rúmfötin viku fyrir jól en gleymdir svo að opna þvottavélina og ýldulyktin fyllir húsið á aðfangadag.
1 ½ *
JólaTumi
5%
498 kr.
Það er aldrei gaman að gefa jólagjöf sem ekki hittir í mark, sérstaklega ef maður sér vonbrigðin þótt reynt sé að fela þau. Að sama skapi er ekki gaman að fá sér jólabjór sem er eins slappur og Tumi litli, sem fer eiginlega aldrei á fætur. Ef þetta væri eini bjórinn í húsinu og maður hálfþunnur væri svo sem hægt að stúta einum í hallæri en það á ekki að vera hallæri um jólin.
1 *
Jóla Drangi
4.4%
519 kr.
Sumum finnst jólabjór þurfa að vera höfugur, framandi og flippaður. Öðrum finnst fínt að hann sé eins og sullið sem maður drekkur allan ársins hring, bara aðeins dekkri. Þessi bjór fer glæsilegan milliveg þar á milli þannig að útkoman er annað hvort nýstárleg útfærsla af ósköp venjulegum bjór eða metnaðarbjór í mildari kantinum. Alls ekki illa heppnað.
2 *
Thule jólabjór
5.2%
359 kr.
Feitibjörn mun aldrei geta skilið pointið með Thule jólabjór. Það eina sem skilur hann að frá venjulegum Thule (og það er rannsóknarefni fyrir mannfræðinga hvers konar fólk leggur enn áherslu á að eiga skilið að fá Thule) er að út í fimm þúsund lítra dunkinnn hefur verið bættt einni teskeið af púðursykri og matskeið af sósulit. Það eina sem gæti gert þennan bjór áhugaverðan væri að setja út í hann ofskynjunarsveppi.
0 *
Gull lite.jól
4.4%
369 kr.
Bjór sem er ekki nægilega bragðlítill, hvernig hljómar það? Einmitt. Léttbjórar eiga ekkert erindi á jólavertíðinni frekar en sykurlausar smákökur eða óreykt hangikjöt. Þunnildi með nánast engu bragði væri svo sem meinlítið en þá er reynt að jóla þetta upp með einhverjum gervibragðefnum sem eiga að minna á karamellu og ávexti. Alls ekki gott.
½ *
Romm í jól
6.3%
799 kr.
Nei, þetta gengur ekki upp. Kúbanskt romm getur auðvitað verið mjög gott en það á ekki að blanda því saman við bjór og drekka svo í gegnum lakkrísrör. Útkoman er meira í ætt við landa í pepsi max en eitthvað sem þú vilt vera að fá þér til hátíðabrigða.
1 *
Litli jólabjórinn
5%
495 kr.
Þessi er góður í jólahlaðborðið með vinnufélögunum ef þú hefur í hyggju að barna Dóru á símanum því hann rennur svo hratt niður að þú veist ekki fyrr en kippan er búin. Smá óvenjulegt twist á pale ale að hafa hann í sætari kantinum í staðinn fyrir að humla of mikið þannig að hann verði ekki bitur. Fylling í bragðinu er talsverð og þig langar strax í meira.
3 *
Svartálfur Potato Porter
5%
499 kr.
Miðað við loforð um kartöflur í dökkum bjór er þetta nú hálfgert frat. Maður átti von á einhvers konar Guiness-kjötkássu en bjórinn er full léttur á bragðið og það hverfur fljótt út í sortann. Gleymist á tungunni og skilur lítið eftir sig. Svartálfur slær alls ekki í gegn því miður.
2 *
Beljandi Fönn jólabjór
5.5%
498 kr.
Hér kemur nýr bjór inn með skemmtilegum látum, skemmtilegur lakkrískeimur ofan í annars bara nokkuð basic millidökkan bjór. Þetta þarf ekki að vera flókið og í þessu tilviki heppnast þetta einfalda twist bara ljómandi vel. Hátíðlegur er hann kannski ekki beint en munnvikin síga upp í móti eftir því sem meira hverfur úr glasinu og fyrir það eitt eigum við að vera þakklát.
3½ *
Skyrjarmur
4.3%
545 kr.
Það er fátt sem ekki er hægt að gera með svona nammigóðan bjór við höndina. Hann er algjörlega það góður krakkar. Sætur og hressandi, léttur og leikandi, þú getur marinerað jólakalkúninn í þessu svei mér þá. Alger dillandi dásemd og maður heyrir bara halelúja þegar glasið klárast. Var ekki örugglega til meira?
4½ *
Frostrósir
4.5%
425 kr.
Þetta er nú meira helvítis þunnildið. Vatnskennt bragð, ljós litur, lyktarlaust… er þetta einu sinni bjór? Var einhver að taka til í stofunni og hellti vatni úr blómavasa í glasið mitt? Því það er einhver fjarlægur blómakeimur í gangi þarna sem Feitibjörn er ekki viss um að hann kunni að meta.
1 *
JólaGull
5.4%
369 kr.
Fyrir nokkru sat Feitibjörn á bar, aldrei slíku vant. Inn kom ungur maður ásamt vini sínum sem spurði vin sinn hvað mætti bjóða honum. Á barnum var úrvalið ekkert yfirþyrmandi mikið en þó einhverjar tíu til tólf sortir sem voru í boði. Ungi maðurinn horfði á bjórlistann, hummaði með sjálfum sér dágóða stund og tvísté. Sagði að nú væri erfitt að ákveða sig en hann ætlaði að skella sér á… Gull!
Feitibjörn grét ofan í bjórglasið sitt. Er virkilega til svona fólk? Fer einhver á Þrjá Frakka, grandskoðar matseðilinn og biður svo um soðningu, helst með bráðnu Ljóma smjörlíki? Jæja, ef svo er þá er hér kominn nógu döngunarlítill jólabjór fyrir þau.
1 *
Jóla Jóra
9.2%
1048 kr.
Jólin eru tími til að fara út fyrir kassann og prófa nýjar leiðir til að hafa það gott og njóta. Þá dettur einhverjum kannski í hug að búa til súperhátíðlegan jólabjór og bragðbæta hann með bókstaflega öllu úr bökunarvöruskúffunni í eldhúsinu. Hér er engifer og kanill, negull og hjartarsalt, kökuskraut og tvær rúllur af álpappír. Allt of mikið í gangi og manni fallast bara hendur. Þegar maður telur líklegt að bjórinn renni betur niður með Jægermæsterbombu er fokið í flest skjól.
½ *
Haltu á jólaketti
5.5%
699 kr.
Feitibjörn er nógu gamall til að muna þá tíð að munaðurinn um jólahátíðina var ekki eins yfirgengilegur og í dag. Ávextir í niðursuðudós og þeyttur rjómi voru einu sinni meiriháttar trít en í dag nennir enginn að gera sér glaðan dag nema fljúga að minnsta kosti suður fyrir miðbaug. Helst í einkaþotu. Pakkið sem hefur ekki efni á því má drekka Snjókarl mandarínuöl í eldhúsinu hjá sér við batterídrifin kertaljós frá IKEA.
En þetta er lúxusdrykkur fyrir okkur sem munum eftir því þegar dagamunur var alvöru tilbreyting hjá þeim sem gátu lagt á sig að hafa fyrir honum.
3½ *
Leppur
6.2%
499 kr.
Kolsvartur og þunglyndislegur bjór sem ber með sér allt skammdegisþunglyndið sem við erum að reyna að gleyma þegar við svífum á vit algleymis með allt of marga bjóra í maganum og allt og mikil vandræði á samviskunni. “Forgive me father, for I have sinned… a lot!” Heyrir maður nánast hvíslað þegar glasið er borið upp að vörum. Sopinn rennur svo niður vélindað og það er eins og maður geti skynjað myrkrið læsast inn í háræðarnar um allan líkamann. Dimmt er á fjöllum, kalt er í Eyjum. Skelltu þessu í þig og reyndu að gleyma. Hættu svo að væla. Svarthol í glasi.
3½ *
Ölvisholt jólabjór reyktur bock
7.2%
655 kr.
Það hlýtur að hafa orðið einhvers konar óhapp þegar þessi bjór var búinn til, því það getur ekki verið að hann eigi að vera svona á bragðið. Mögulega hefur tunnan oltið og bjórinn farið í gólfteppið. Þá eru nú góð ráð dýr, ekki hægt að láta alla framleiðsluna fara til spillis. Þannig að líklega hefur verið náð í stóra tröllskessu sem gat tekið gólfteppið upp og undið það yfir tunnunni svo bjórinn bjargaðist. Eða… þið vitið, bjargaðist kannski ekki alveg.
1 *
Ekkert sérstaklega jólaleg jól
5.2%
487 kr.
Eitt af því skemmtilegasta við gömlu Andrésblöðin á dönsku voru hinar mjög svo skrautlegu upphrópanir sem gripið var til við hin ýmsu tækifæri. Ef Andrés þyrfti að smakka þennan bjór kæmi bara eitt til greina: BVADR! Þetta er súrt og rammt eins og greipaldinbörkur og óbragðið er lengi að hverfa. Allt of lengi.
½ *
Askasleikir
5.8%
494 kr.
Líklega væri Öskubakkasleikir réttara nafn á þetta frat. Hundvont alveg hreint. Súrt og flatt eins og staðið hland. Vélindabakflæði og legslímuflakk saman í pakka. Foj!
0 *
Svört jól
7%
728 kr.
Hér sprettur ósjálfrátt fram á varir upphrópun: VÁ!!! Hér kemur allt heim og saman. Bjórinn hreinlega skítlúkkar í glasinu, dökkur og dularfullur með þykkri froðu, svo er ilmurinn svo lokkandi að það liggur við að maður óttist að vera búinn að missa sig í væntingar en nei - þrátt fyrir að vera mjög sætur á bragðið er hann á nákvæmlega réttum stað. Sælgæti í glasi og ekki orð um það meir. Black lives matter og svört jól eru málið!
4½ *
Hel vetraröl
7%
849 kr.
Vid erum stundum minnt á það í aðdraganda jólanna að víða í heiminum er fólk sem hefur það ekki eins gott og við heppna fólkið í ríku löndunum. Einu sinni voru gerð jólalög sem gerðu hungursneyðir að umfjöllunarefni, vissulega í þeim göfuga tilgangi að fá fólk til að láta gott af sér leiða en maður fékk samt alltaf pínu óbragð í munninn að heyra jólalag spilað yfir myndband af flugu að skríða yfir andlit deyjandi barns. Þessi bjór fangar nákvæmlega það sama óbragð.
½ *
Jóla hvað?
5%
498 kr.
Piparkökur eru fínar og mikið étnar á heimili Feitabjarnar en það eru þær sem eiga að þjóna sínum tilgangi, ekki einhver jólabjór sem bragðast eins og piparkökudeigi hafi verið breytt í vökva með því að sveifla töfrasprota nógu helvíti oft í gegnum það. Ekki förum við að baka smákökur sem bragðast eins og bjór, er það nokkuð? Eða er það kannski hugmynd?
1½ *
Jóla Magnús frúktús
6.1%
595 kr.
Bjór fyrir bjórþekkjara. Hér tekst eflaust að ganga í augun á hipsterum, snobbhænsnum og connoiseurum miðborgarinnar og auðvitað fíla þeir það frábærlega. Feitibjörn er stundum alveg til í snobb og stæla en hér er gengið of langt. Niðurstaðan er eitthvað sem minnir á Bacardi Breezer með fótsveppabragði.
½ *
Bjúgnakrækir
5.2%
696 kr.
Hér er bjór sem hefur oft verið góður en nú er hann ekki að virka. Bjúgnabragðið minnir frekar á bjúgaldin. Hann er súr þegar maður vill að hann sé reyktur. Það vantar í rauninni bæði bjúgað og krókinn. Auðvitað þarf að passa sig á væntingum en þetta er eins og daman sem blikkar þig á barnum og reynist svo bara vera að vinna þarna.
2 *
Jólaálfur
5.4%
449 kr.
Það er hægt að búa til jólabjór með stælum og svo er hægt að gera það bara á sem einfaldastan hátt. Hér er léttur, ljós og lifandi bjór sem býður upp á ríkulegt og ferskt bragð. Feitibjörn er yfirleitt alls ekki hrifinn af lagerbjórum en þetta hér er bara algert eðalstöff af þeirri gerð. Alveg hægt að missa sig í alltof mörgum svona.
4 *
Einstök Doppelbock
6.7%
509 kr.
Það er gaman þegar væntingar eru uppfylltar, sérstaklega þegar þær voru miklar. Sem fyrr er Einstök gamli góði jólabjórinn í hæsta gæðaflokki, fjölskrúðugt og seiðandi bragð sem er jafn frábært við flest jólatækifæri - hangikjöt og snafs, bakstur og gjafainnpökkun. Enn og aftur með allra bestu jólabjórunum, vel gert!
4½ *
Þriðji í jólum
8.5%
795 kr.
Flestum þykir jólalegt að kaupa risastóra makkintosdós og hafa hana opna á aðventu og yfir hátíðirnar. Molarnir í dósinni eru margskonar eins og Forrest Gump benti okkur á um árið, eins og í lífinu veit maður aldrei á hverju er von. Súkkulaði stundum, nú eða karamella, jafnvel einhvers konar ávaxtakrem. Það er hér eins og með makkintosið að molarnir eru misgóðir. Það vantar ekki árásirnar á bragðlaukana úr öllum áttum og sumt af því er býsna gott.
3 *
Egils Malt Jólabjór
5.6%
389 kr.
Gamla góða maltið svíkur engan, frekar en sódavatnið á Akureyri sem Kolbeinn kafteinn hrósaði svo mjög eftir að hafa hellt flösku af Loch Lomond út í það. Það má alltaf fá sér malt á jólunum, jafnvel út í appelsín og ekki er hægt að segja að það valdi vonbrigðum. Hér ætlar Feitibjörn samt að kasta fram viðskiptahugmynd til gosverksmiðjunnar:
Malt er gott - malt með meira áfengi er mjög gott.
Malt og appelsín er gott - malt með meira áfengi og appelsín er eflaust ágætt.
Af hverju í ósköpunum hafið þið ekki prófa að framleiða Malt&Appelsín sem er með sama áfengismagn og jólamaltið?
3 *
Vetrarævintýri
7%
775 kr.
Safarík og bragðgóð humlaveisla sem hreinlega daðrar við bragðlaukana, hvetur þig til að fá þér eitthvað reykt eða saltað að maula með þessum eðalbjór og áður en þú veist ertu farinn að velta því fyrir þér hvort það þyrfti ekki smá ákavíti með just to make it interesting. Góður með smákökunum, góður með hangiketinu, góður með hreindýrapaté og alveg fáránlega góður einn og sér. Með ákavíti samt.
3½ *
Jólakisi
7%
950 kr.
Oj barasta!
Alltaf sama helvítis kattahlandið. Allt of mikið áfengisbragð. Allt of súrt bragð og hverjum dettur í hug að kalla þetta IPA bjór? Ud til höjre!
0 *
Segull 67 Hátíðar original
5%
399 kr.
Þeir eru af ýmsu tagi eiginleikarnir sem geta prýtt góðan jólabjór - eða góðan bjór yfirhöfuð. Einn þeirra er að bjórinn sé hressandi, geri mann glaðan eða láti manni líða betur en án hans. Hér er kominn bjór sem einkennist umfram allt af því að maður finnur að afskaplega tært og hreint íslenskt vatn er notað í hann. Bjórbragðið sjálft leggst einhvern veginn mjúklega ofan á kristalklárt vatnið og veldur því að vellíðan hríslast um líkamann. Frískandi og fjörugur drykkur með góða skapið í fyrirrúmi.
3 *
Djús Kristur
5.6%
849 kr.
Dæs.
Nú er Feitibjörn enginn róni en ef hann verður það einhvern daginn, drekkur of mikið af kardimommudropum og drukknar í eigin ælu er þetta bragðið sem hann tekur með sér yfir móðuna miklu.
½ *
Jóla Naddi
5.2I’m %
524 kr.
Það vantar ekki metnaðinn og miðað við textann á dósarmiðanum telur framleiðandinn sig hafa náð frábærum árangri. Bragðið er vissulega ríkulegt, bjórinn fallegur í glasinu og eitt og annað í gangi. Það er kannski helst eftirbragðið sem dregur bjórinn niður því það er afskaplega rammt og verður til þess að maður kvíðir næsta sopa. Sagt er að of mikil drykkja geti verið kvíðavaldandi en er ekki full mikið að maður nái ekki að klára úr glasinu áður en það gerist?
2 *
Snjókarl mandarínuöl
4.2%
399 kr.
Jól í skókassa er fallegt verkefni þar sem íslensk börn setja dót í skókassa og senda til útlanda. Verkefnið gefur börnum í stríðshrjáðum löndum tækifæri til að upplifa dýrð drottins í verki samkvæmt því sem kemur fram á vefsíðu samtakanna sem standa að verkefninu. Þar eru tilgreindir nokkrir hlutir sem ekki mega fara í skókassann, eins og leikfangabyssur, spilastokkar og þessi bjór. Enda er hann hræðilegur á bragðið, Feitibjörn skilur þetta vel.
½ *
Jólaböl
8%
850 kr.
Svona á að gera þetta! Ljúffengur og pínu gruggugur í glasinu, mikið humlabragð með rétta jafnvægið á milli remmu og ávaxtar, áfengismagnið mjög mikið en þú finnur ekki fyrir því en fólkið í kringum þig á ekki eftir að láta það fara fram hjá sér. Eftir tvo sopa ertu farinn að segja sögur, áður en glasið klárast koma ástarjátningar og þú munt pottþétt taka þá óskynsamlegu ákvörðun að panta strax annan svona.
4 *
Tveir vinir og annar í jólum
5%
409 kr.
Það er allavega ekki verið að flækja hlutina of mikið. Þetta er bjór af algengustu gerð en með appelsínuberki. Fyrir svona öld eða tæplega það þurfti ekki nema eina appelsínu til að poppa rækilega upp fábrotið líf hins íslenska alþýðumanns. Manns já, því á þeim árum voru bara til menn. Sætir ávextir voru fylgifiskar hátíðanna áratug eftir áratug. Heima hjá feitabirni í æsku hans voru bakaðar smákökur skreyttar með appelsínusúkkulaði. Skítsæmilegur bjór er gjarnan bragðbættur með appelsínusneið til að breiða yfir mestu vonbrigðin. Þið sjáið hvert verið er að fara?
2 *
Einstök Winter Ale
8%
609 kr.
Jólalegt í meira lagi, tekur úr þér mesta hrollinn áður en þú leggur í Kringluna á þorláksmessu, virkar vel með hangikjötinu og hangikjötstartalettunum, eflaust afbragðsgóður meðan þú skýtur upp flugeldunum á gamlárs og ef þú ert ekki genginn í bindindi á þrettándanum má taka einn svona með sér á brennuna. Hjartaræturnar hlýna og stressið líður úr manni, sálin á sárinni gróa og lífið virðist þess virði að halda áfram.
4 *
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Besti jólabjórinn árið 2022 að mati Feitabjarnar:
Skyrjarmur skyrjarmur
8%
1111 kr.
Ó íslenska þjóð! Vesæla, þjáða þrælaþjóð sem ert sjálfri þér verst!
Í þúsund ár og rúmlega það höfum við þurft að horfa upp á að níutíu og átta prósent okkar mega éta það sem úti frýs á meðan örfáir einstaklingar sem eiga það ekki skilið að neinu leyti fá að maka krókinn. Við norpum í kuldanm á meðan yfirborðskenndir fjölmiðlar kjósa að búa til fréttir um áferð gólfflísanna í allt of stóru einbýlishúsi í Garðabæ.
Skammt frá einbýlishúsinu norpa hálffrosin og hálfgerjuð bláber í óbyggðu hrauni. Hrauni sem er óbyggt vegna þess að engin efnuð fjölskylda hefur sinnt því að kaupa hektarana sem hraunið þekur til þess að geta grætt á þeim. Ekki ennþá.
Á meðan mektarbokkarnir sjá ekki til enda eru þeir allir að stara á sína eigin veislu, læðupokast upplitsdjarfur alþýðupiltur um hraunið með berjatínu og poka. Hann kemst undan með töluvert af áfengum bláberjum. Úr þeim ætlar hann að gera svo göróttan hátíðardrykk að hann mun lina þjáningar þjóðarinnar allrar og fá hana til að gleyma áþján sinni.
Það er líka ekkert vit í öðru á jólunum en að reyna allt til þess að gleyma áþján og óhamingju lífsins og hér er kominn drykkurinn sem hjálpar til við það. Berin sætu eru aldeilis komin í sparifötin og ætla að bjóða þér að halla þér aftur, loka augunum og trúa því í eitt augnablik að það sé allt í lagi.
Þetta verður allt í lagi elskurnar mínar. Sólin kemur upp á morgun, augnabliki fyrr en í gær. Áður en við vitum af verða komin bláber í móa. Gleðileg jól og umfram allt: Eru ekki allir í stuði?
Ummæli