19 janúar 2009

Grandarar

Í fyrradag var ég á Grand Rokk einu sinni sem oftar. Sá að von var á almenningsvagni sem myndi keyra mig heim svo ég labbaði út á stoppistöð. Og beið.

Og beið. Og beið.

Svo kom Arnar vinur minn, sem var líka að fara að nota almenningssamgöngur til að komast í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Nema hann ætlaði að taka leið 1 til Hafnarfjarðar.

Og ég beið. Og beið.

Loks gafst ég upp. Sagði Arnari að vagninn hlyti að hafa verið á undan áætlun (ekki í fyrsta sinn sem það hefði gerst) og að ég sæi mér þann kost vænstan að fara aftur á barinn og fá mér einn og taka svo næsta vagn heim.

Labbaði inn á barinn og pantaði bjór. Barþjónninn byrjaði að hella í hann en þurfti frá að hverfa því síminn hringdi. Barþjónninn lagði bjórinn minn hálffylltan frá sér og svaraði símanum.

Lagði á skömmu síðar og sagði mér að þetta hefði verið Arnar að láta vita að ellefan hefði verið að koma!

Engin ummæli: