Þrjátíu og níu í dag, og er við hestaheilsu, fyrir utan minn gamla veikleika, og andlega hef ég ekki ástæðu til að ætla annað en ég sé ... á öldutoppnum eða þar um bil. Minntist þessara skelfilegu tímamóta án viðhafnar á Vínbarnum, eins og á undanförnum árum. Ekki sála. Sat fyrir framan arininn með lokuð augu og greindi kjarnann frá hisminu. Hripaði nokkur minnisatriði aftan á umslag. Gott að vera aftur heima, í gömlu druslunum. Var að enda við, því miður, að éta þrjá banana og varð að beita mig hörðu til að hætta við þann fjórða. Lífshættulegir hlutir fyrir mann með mína heilsu. Sleppa þeim! Nýja ljósið fyrir ofan borðið mitt er til mikilla bóta. Með allt þetta myrkur í kringum mig finnst mér ég síður einn. Á vissan hátt. Mér þykir gott að standa upp og ganga um gólf í því og síðan aftur hingað ... til mín. Krapps. Kjarninn, hvað skyldi ég nú annars hafa meint með því, ég meina ... ég býst við ég meini þá hluti sem einhvers virði eru þegar allt hismið - þegar allt mitt hismi er falli...