Jólabjórrýni Feitabjarnar 2017

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2017




Já börnin mín góð. Við lifum á áhugaverðum tímum. Þegar þetta er skrifað er nýbúið að birta níu ára gamalt leyndósímtal Davíðs og Geirs um hvernig væri gáfulegast að koma af stað efnahagshruni, skatta-Kata er gengin í björg og við erum að horfa upp á langdregið dauðastríð Sjálfstæðisflokksins sem virðist vera að takast að draga nokkurn veginn alla aðra stjórnmálaflokka landsins niður með sér. Í svona aðstæðum er aðeins eitt ráð og það er að drekka frá sér ráð og rænu, helst daglega og jafnvel oftar en einu sinni á dag.

Það skiptir engu máli hvort lifrin bilar því það er hvort sem er ekkert heilbrigðiskerfi lengur, menntakerfið er í þvílíkri rúst að ég fór áðan í fjórar matvörubúðir en hvergi var hægt að fá stafapasta, Glitnir HoldCo munu að öllum líkindum setja lögbann á jólabjórrýni Feitabjarnar fljótlega og Vottar Jehóva voru að hringja. Í þetta sinn er þeim alvara sögðu þeir. Það ER að koma heimsendir.

Það er því ekkert vitrænt í stöðunni næstu vikur annað en að reyna að vera sem oftast og sem lengst án meðvitundar vegna drykkju. Jólabjórinn datt í búðir í vikunni og nú getið þið, kæru landsmenn, notið leiðsagnar sérfræðings um það hvað sé best að nota til að slæva hugann fram yfir stjórnarmyndun, jól, áramót og næstu kosningar, sem verða líklega uppúr miðjum janúar.

Á þessu herrans ári er úrvalið af íslenskum jólabjórum meira en nokkru sinni fyrr og munurinn á gæðum hefur að sama skapi sjaldan verið jafnmikill. Heilar tuttugu tegundir fást í Vínbúðum ríkisins og fleiri er að fá á öldurhúsum. Meðan þetta er skrifað situr skítsæmilegur belgískur dubbel í glasi og bíður þess að ná drekkanlegu hitastigi. Fagnaðarerindið heitir bjórinn og fæst á Bryggjunni. Annar fékkst á Microbar í vikunni og kom frá Vestmannaeyjum, kallaður Andrés utangátta. Hann var fínn. En hér verður sem sagt bara fjallað um þær tegundir sem hægt er að kaupa í þartilgerðum verslunum og taka með sér heim áður en drukkið er.  Ef heimurinn ferst ekki er reyndar alveg líklegt að sú frjálslyndis- og framfarastjórn sem þrír framsóknarflokkar eru að reyna að mynda, verði búin að aflétta ríkiseinokun á bjórsölu og maður geti keypt jólabjórinn 2018 í Bónus.

Djók!

Jólabjórsmökkun Feitabjarnar og Koppa-Krissa fór fram með þeim hætti að bjórunum var skipt í fimm flokka þar sem reynt var að grúppa saman áþekkum bjórum. Smakkaðar voru fimm tegundir í senn, ein úr hverjum flokki og svo pása á milli. Af fenginni reynslu var ekki mikið lagt upp úr því að smökkurum væri ókunnugt um hvaða bjórar voru smakkaðir hverju sinni, en til að tryggja hlutlaus úrslit voru fimm stigahæstu tegundirnar blindsmakkaðar í lokin. Þá kom upp óvænt staða því bjórinn  með þriðja hæsta stigafjölda varð hlutskarpari en sá sem hafði verið næstefstur.  Stigagjöf var löguð að þessum úrslitum og bjórarnir tveir látnir vera jafnir í öðru til þriðja sæti með jafnmörg stig.

Úrslitin voru hins vegar mjög afgerandi hvað varðar efsta sætið, eins og koma mun í ljós áður en lestri lýkur.

Hér á eftir fara þá umsagnir um bjórana í handahófskenndri röð, nema hvað besti jólabjórinn er geymdur þar til í lokin. Verði ykkur að góðu.




Jóla kaldi – 5,4% - 399 kr.

Ekki byrjar það neitt sérstaklega illa í ár. Vinir mínir á Árskógssandi hafa átt það til undanfarin ár að klúðra jólabjórnum sínum illilega en þessi er bara alveg prýðilegur sem slíkur. Léttur og hressandi með mjúkri karamelluslikju og þetta ramma skítaeftirbragð sem hefur stundum plagað Kalda er ekki til staðar í ár. Kannski þeir hafi skúrað hjá sér, hver veit? Í flokki fjöldaframleiðslubjóra fyrir almúgann kemur þessi sterkur inn og það er alveg hægt að sökkva þó nokkrum svona á góðu kvöldi.

2 ½ *



Askasleikir – 5,8% - 484 kr.

Jólabjór síðasta árs frá Borg brugghúsi er snúinn aftur og nú aðeins fáanlegur í dós. Hver fékk þessa hugmynd og hvar er sá aðili núna kominn með vinnu? Jólalegi reykjarkeimurinn frá í fyrra er á bak og burt og eftir stendur ávaxtabragð sem minnir óþyrmilega á Egils appelsín. Það endist ekki lengi og þótt bragðið sé hressandi í fyrstu þá súrnar gamanið fljótt eins og óviðeigandi brandari innan um penar og dannaðar samstarfskonur í drögtum.

2 *



Ölvisholt 24 Barley Wine – 10% - 798 kr.

Ef maður á að reyna að vera jákvæður þá er allavega ekki hægt að halda því fram að það sé ekki verið að reyna. Það þarf metnað til að ráðast í að búa til barley wine og þar sem Giljagaur hefur nokkurn veginn masterað þann markað þá veltir maður því fyrir sér afhverju Selfoss er að þessu. Þetta er algjörlega glatað! Allt of væmið bragð, eins og kaka í glasi nema kökur geta stundum verið góðar á bragðið. Þessi bjór minnir á fulla miðaldra konu sem hefur sett á sig allt of mikið ilmvatn, svo mikið að maður fær tár í augun, án þess þó að henni hafi heppnast að breiða yfir súra líkamslyktina.ðar ﷽﷽﷽﷽﷽﷽r geta stundum verið gerið ger algjörlega glatað! Allt of væmið bragð, eins og kaka

½ *



Bara kíló pipar – 5,8% - 499 kr.

Stolnar piparkökur eru vondar á bragðið segir Hérastubbur bakari. Ég kannast ekki við að hafa borgað neitt minna en fullt verð fyrir þetta rugl en bjórinn verður ekkert betri samt. Hann byrjar á gríðarlega sterkri negullykt sem er ekki alslæm en svo kemur bragð sem er langt frá því sem nokkur maður getur viljað. Minnir einna helst á rúllupylsu. Bjórinn er svo útúrkryddaður og bragðmikill að það er hreinlega erfitt að kyngja honum. Eina ráðið til að koma honum niður er að þamba hann en það er ekki gott heldur því þá hellist yfir mann kanilbragð og engifer og manni líður eins og verið sé að lemja mann í hausinn með óhreinu kökukefli.

1 ½ *



Thule jólabjór – 5,4% - 377 kr.

Það eru ekki allir sem eru hrifnir af jólabjór og hér er kominn jólabjór fyrir þá sem eru það ekki. Hann skartar nákvæmlega engu af því sem gerir jólabjór jólalegan, nema kannski fáeinum snjókornum á umbúðunum. Eilítið dekkri á litinn en standard útgáfan af Thule og með góðum vilja má skynja að hann er bragðbættur með þeim hætti sem líklegastur er til að stuða sem fæsta. Pínu vottur af hunangi til að hann sé ögn sætari en það er allt og sumt. Einhvers staðar er samt til óspennandi fólk sem birtir mynd af Thule jólabjór á Instagram.

2 *



Jóla Kaldi súkkulaði porter – 6,5% - 464 kr.

Einu sinni varð Feitibjörn fyrir þeirri lífsreynslu á hommabar að risavaxinn þelþökkur maður spurði kurteislega hvort bjóða mætti koss. Í sumum kringumstæðum er slík kurteisisframkoma einfaldlega ekki málið. Kaldi súkkulaði porter væri eflaust mun betri ef hann þyrði að vera það sem hann þykist vera. Fyrsti sopinn er mjúkur og sætur, ekki beint súkkulaði heldur frekar kaffi og kanill. Svo bíður maður eftir að hann færi sig upp á skaftið en í staðinn kemur gamalkunnugt Kalda-eftirbragð eins og blökkumaðurinn hafi gleymt að bursta tennurnar.

3 *


Egils malt – 5,6% - 389 kr.

Á jóladag er Feitibjörn vanur að borða hangikjöt. Tvisvar. Fyrst heima hjá mági sínum fljótlega upp úr hádegi. Sá er vanur að sjóða hangikjötið á beini upp á gamla mátann og hefur stálheiðarlegt meðlæti með: Uppstúf, grænar og gular baunir úr dós, rauðbeður, asíur og dijon sinnep. Svo um kvöldið er mamma gamla vön að hafa tvær sortir af hangikjöti, úrbeinuðu og vandlega sneiddu. Með því er kartöflusalat, pikkles og súrsuð hvítlauksrif ásamt sinnepssmjöri. Í báðum tilvikum er boðið upp á jólabjór og ákavíti. Gera má ráð fyrir að Egils malt sé hinn fullkomni drykkur á þessum degi, því Egils malt stendur við gefin loforð, án þess þó að gera neinar sérstakar rósir.

3 ½ *



Steðji Special Almáttugur jólaöl – 6% - 432 kr.

Hér er á ferðinni alveg einstaklega vel heppnaður jólabjór. Strax og hann er kominn í glasið sér maður að hann langar í þig jafn mikið og þig langar í hann. Hann er froðumikill og kallar á mann með jólalegri angan. Bragðið er svo ekki síðra og maður missir út úr sér eitt “VÁ!” við fyrsta sopann. Þarna er púðursykur, smá kanill og í lokin vottar fyrir múskati. Kryddbragðið er létt og leikandi, alls ekki aggressívt heldur nákvæmlega rétt stillt upp á jólafíling. Geggjaður bjór.

4 *



Viking jólabjór – 5% - 352 kr.

Hér er bókstaflega ekkert að frétta. Þessi bjór er ekki bragðmikill, hvorki sætur né beiskur, það er ekki mikil fylling í honum, lyktin er lítil, hann freyðir frekar lítið og skilur lítið eftir sig. Líklegast mætti alveg sleppa því að drekka hann án þess að maður yrði var við það. Ævintýralega óspennandi. Honum tekst eiginlega ekki einu sinni að vera almennilega vondur.

1 *



Viking Yule Bock – 6,2% - 450 kr.

Í verslunarleiðangri Feitabjarnar fengust þær upplýsingar að ein bjórtegund sem stóð til að yrði á boðstólum í fyrsta sinn hefði verið innkölluð af framleiðanda. Ekki veit maður nákvæmlega hver kann að vera skýring á því en það má gera ráð fyrir að það hafi haft eitthvað með gæði framleiðslunnar að gera. Brugghúsið hefur áttað sig á því að það gæti haft slæm áhrif á bissniss til lengri tíma litið að bjóða upp á misheppnaðan jólabjór í fyrstu tilraun. Sé það skýringin þá mega bjórgerðarmennirnir sem bjuggu til þetta sull taka það sér til fyrirmyndar. Þetta er flatur og óspennandi dökkur jólabjór sem býr ekki yfir neinni spennu né kikki. Það er helst að froðan í glasinu veki væntingar áður en smakkað er en hún er ekki einu sinni góð, heldur fær maður á tilfinninguna að dassi af uppþvottalegi hafi verið bætt í kútinn í örvæntingarfullri tilraun til að gæða hann lífi.

1 ½ *



Bjólfur Grenibjór – 5,2% - 491 kr.

Hvað vorum við að tala um? Fyrsta tilraun til að koma sér inn á jólabjórmarkaðinn má ekki klikka. Austri er reyndar fínasta brugghús og það sem hefur komið frá þeim hingað til hefur alltaf verið gott. Líklega má gefa þeim prik fyrir hugrekki en grenibjór er alveg nýtt konsept í huga Feitabjarnar. Fyrstu kynni lofa samt ekki góðu, það er eins og maður sé staddur í Blómavali þegar glasið er borið upp að vitum. Bragðið er síðan mjög… óvanalegt skulum við segja. Svo óvanalegt að Koppa-Krissi fór að rifja upp gömlu dagana í mótorhjólagenginu þegar einhverjum datt í hug manndómsvígsluaðferð sem er of ógeðsleg til að henni verði lýst hér. Sú aðferð náði sem betur fer ekki hylli og það gerir þessi bjór ekki heldur.

0 *



Einstök Doppelbock – 6,7% - 492 kr.

Þetta er almennilegt! Það er allskonar í ilminum sem fær mann til að hlakka til að smakka. Þá er maður heldur ekki svikinn því bjórinn hefur margslungið bragð sem grípur í bragðlaukana og dregur þá um krókótta stíga eins og góður gestgjafi í framandi borg sem þekkir alla bestu staðina. Einstök bregst aldrei. Ómissandi hluti af jólahátíðinni eins og alltaf og það er gaman að segja frá því að í blindsmökkun náði þessi gamla vinkona að mjaka sér upp um eitt sæti í stigagjöfinni.

4 ½ *



Jólagull – 5,4% - 379 kr.

Jólabjór fátæka mannsins. Samt er hann túkalli dýrari en Thule sullið. Þunnur og lyktarlítill, sama gamla bragðlausa gutlið með smá sítrónukeim sem á líklega að gera hann auðdrekkanlegan. Nei, það er ekki auðvelt að drekka þennan bjór. Það er líka sjaldan auðvelt að hella bjór í vaskinn en hér er komin undantekning frá þeirri reglu. Það virðist vera sú mikla nýlunda hér á ferð að bætt er teskeið af kanil í uppskriftina til að keyra jólastemmninguna upp. Fyrir þá viðleitni sleppur hann við núllið.

½ *



Boli Doppelbock jólabjór – 7,5% - 469 kr.

Góður. Höfum það á hreinu og þeir hafa meira að segja náð að bæta hann síðan síðast, þegar það var sterkur áfengiskeimur sem var akkilesarhællinn. Núna er mikið að gerast í bragðinu, bæði kaffi og lakkrís og karamella. Sterkur er hann líka svo manni hýrnar strax í skapi og allt verður einhvern veginn jákvæðara. Soldið eins og þybbna stelpan á skrifstofunni birtist óvænt og vilji vanga. Hún er þá kannski bara frekar sæt eftir allt saman? Boli fellur hins vegar á mikilvægu atriði, sem er eftirbragðið. Það er einfaldlega ekki til staðar og því hverfur jákvæðnin eins og dögg fyrir sólu. Vangafélaginn skreppur á klóið og á meðan tekur maður sönsum og drífur sig heim.

3 *



Giljagaur – 10% - 777 kr.

Það verða eiginlega engin jól nema Feitibjörn fái sér að minnsta kosti einn Giljagaur. Það má hins vegar helst ekki fá sér nema einn. Þá meina ég að þessu sinni ekki að það eigi að drekka einn í einu, heldur að það sé ekki ráðlegt að drekka fleiri en einn Giljagaur þessi jólin yfirhöfuð. Það þarf að velja rétta augnablikið því það er svo margt í gangi í þessum bjór að það er nánast einsdæmi. Eiginlega aðeins of mikið í gangi svo maður segi nú alveg eins og er. Þessi eini gæti átt heima í stórhríðinni milli jóla og nýjárs þegar börnin eru sofnuð og draugamynd í sjónvarpinu. Það væri gott. Verra væri ef það væri á sunnudagseftirmiðdegi í aðventunni þegar fótboltinn er búinn og fjölskyldan bíður eftir að maður komi heim og búi til kvöldmat.

3 *



Segull 67 jólabjór – 5,4% - 399 kr.

Nú eru tvö ár liðin síðan Feitibjörn smakkaði Royal Xmas bjór því sú happadrjúga ákvörðun var tekin í fyrra að halda sig eingöngu við íslenska framleiðslu. Frændur vorir á Siglufirði telja greinilega þjóðþrifaverk að halda merkjum vondra jólabjóra á lofti og bjóða hér upp á íslenska útgáfu af ógeðinu sem sameinar allt það versta í vondum jólabjór. Hann er rammur, flatur, súr og skólpkenndur.

0 *


Einstök Winter ale – 8% - 888 kr.

Ó já! Svona á að gera þetta. Loksins almennilegur metnaður og hér er nostrað við smáatriðin. Það eru ekki bara greninálar sem bragðbæta bjórinn, heldur hand-tíndar greninálar. Það er skemmtilegur keimur af viskí sem lætur sæluhroll hríslanst niður eftir bakinu. Vindurinn má hamast á rúðunni og landinn má hamast á kommentarkerfunum. Með einn svona í glasi getur ekkert raskað ró manns. Allt verður yndislegt og maður veltir því fyrir sér eitt augnablik hvað maður hafi gert til að verðskulda þessa sælu. Svo hættir maður að pæla í því.

4 ½ *



Ölvisholt Heims um bjór hátíðaröl – 5% - 444 kr.

Svei! Og oj! Þetta er alls ekki gott. Það er eitthvað verið að reyna að vinna með mandarínur en afleiðingin er bara sú að maður finnur fyrir ólgu í magasýrunum. Sko. Gott jólapartí getur alveg haft í för með sér að maður fái pínu gubbubragð í munninn – daginn eftir! Feitibjörn þekkir meira að segja tilvik þar sem gott jólapartí setti fólk í þá aðstöðu að vera með ungbarnagubbulykt í kringum sig ári síðar. En maður á helst ekki að leiða hugann að gubbi þegar fyrsti sopinn af bjór er tekinn.

1 *



Steðji engifer blessaður jólabjór – 5,5% - 399 kr.

Já nei. Vertu blessaður. Hittir alls ekki í mark þrátt fyrir viðleitni sem mætti túlka á jákvæðan hátt. Smá keimur af furunálum í glasinu áður en maður sýpur en sjálfur bjórinn er einstaklega óspennandi. Eða það heldur maður til að byrja með. Svo kemur þetta engifer-eftirbragð sem erfitt er að skilja. Hverjum datt í hug að það væri sniðugt að búa til bragðdaufan bjór og lauma svo í hann kryddi sem lætur mann svíða pínulítið í munninn á eftir?

½ *

Besti jólabjór ársins 2017 að mati Feitabjarnar og Koppa-Krissa: 


Hurðaskellir – 11,5% - 1290 kr.

Hó, hó, hó og herregud i himlen, hvað þetta er mikil snilld. Hurðaskellir heilsar hlæjandi og hamingjan hellist yfir hal og sprund. Það er allt rétt, satt, gott og siðsamlegt við þennan fáránlega flotta bjór. Hann lítur vel út í glasinu með mikla froðu og öflugan haus. Ilmurinn er algerlega dásamlegur og svo kemur bragðið.
Ó mæ god, skiluru!
Bragðið er alger dásemd og himnasæla. Sterk karamella (þessi sem sumir kalla butterscotch), smá viskíkeimur, svo kemur kaffi, því næst eik og einhvers staðar í bakgrunninum er pínkuponsulítill lakkrís. Maður horfir á glasið og trúir því varla hvað það þurfti lítinn sopa til að kalla fram þetta sjúklega æði. Það er nóg eftir, best að fá sér annan sopa!
Dömur mínar og herrar, þetta er ekki bara besti jólabjórinn á Íslandi árið 2017, það er óhætt að halda því fram að hér sé einfaldlega besti jólabjór sem Ísland hefur alið. Þó víðar væri leitað, ekkert höfðatölukjaftæði. Drífið ykkur út í búð og kaupið eins marga og þið hafið efni á.
Gleðileg jól elskurnar.

5 *



Ummæli

naglinn sagði…
Góð rýni að vanda, ég bíð spenntur eftir henni til að vita hvaða jólabjór ég á að kaupa hverju sinni :)

Kveðja
Elli
falconnjacquetta sagði…
Ceramic vs Titanium Curling Iron - TITANIAN ART
Ceramic vs Titanium Curling Iron. The traditional brass core is used to anchor the head of the earpiece, allowing titanium jewelry piercing you welding titanium to croc titanium flat iron adjust titanium vs platinum the angle of titanium dioxide formula

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu