39

Þrjátíu og níu í dag, og er við hestaheilsu, fyrir utan minn gamla veikleika, og andlega hef ég ekki ástæðu til að ætla annað en ég sé ... á öldutoppnum eða þar um bil. Minntist þessara skelfilegu tímamóta án viðhafnar á Vínbarnum, eins og á undanförnum árum. Ekki sála. Sat fyrir framan arininn með lokuð augu og greindi kjarnann frá hisminu. Hripaði nokkur minnisatriði aftan á umslag. Gott að vera aftur heima, í gömlu druslunum. Var að enda við, því miður, að éta þrjá banana og varð að beita mig hörðu til að hætta við þann fjórða. Lífshættulegir hlutir fyrir mann með mína heilsu. Sleppa þeim!

Nýja ljósið fyrir ofan borðið mitt er til mikilla bóta. Með allt þetta myrkur í kringum mig finnst mér ég síður einn.
Á vissan hátt.
Mér þykir gott að standa upp og ganga um gólf í því og síðan aftur hingað ... til mín.
Krapps.
Kjarninn, hvað skyldi ég nú annars hafa meint með því, ég meina ... ég býst við ég meini þá hluti sem einhvers virði eru þegar allt hismið - þegar allt mitt hismi er fallið til jarðar. Ég loka augunum og reyni að ímynda mér þá.

Einstök þögn þetta kvöld, ég sperri eyrun en heyri ekki nokkurt hljóð. Gamla jómfrú McGlone syngur alltaf á þessum tíma. En ekki í kvöld. Æskusöngva sína, segir hún. Erfitt að hugsa sér hana sem stúlku. Samt er hún afbragðskona. Frá Connaught, ímynda ég mér.
Ætli ég syngi þegar ég er kominn á hennar aldur, ef ég kemst það nokkurn tíma? Nei.
Söng ég þegar ég var drengur? Nei.
Söng ég nokkurntíma? Nei.

Var að hlusta á gamalt ár, kafla af handahófi. Ég bar þá ekki saman við bókina, en þetta hlýtur að hafa verið fyrir einum tíu tólf árum. Um það leyti minnir mig að ég hafi enn búið öðru hverju með Bíönku í Kedarstræti. Sloppinn úr því, jesús já. Vonlaust mál.
Ekki mikið um hana nema smálof um augun. Mjög hlýleg. Ég sá þau allt í einu aftur.
Óviðjafnanleg!
O jæja ...
Þessar gömlu dánarminningar eru hryllilegar, en mér finnst oft að þær hjálpi áður en ráðist er í nýja ... upprifjun. Erfitt að trúa því að ég hafi nokkurn tíma verið þessi ungi hvolpur. Röddin! Jesús! Og langanirnar! Haha! Og áformin! Haha! Að drekka minna, alveg sérstaklega. Tölfræði. Sautján hundruð klukkustundum af alls átta þúsund, sóað á öldurhúsunum einum saman. Meira en tuttugu prósent, segjum fjörutíu prósent af vöku hans.
Ráðagerðir um ... umfangsminna kynlíf. Banalega föður hans. Vanmátta leit að hamingjunni. Ólæknandi hægðastífla. Hæðist að því sem hann kallar æsku sína og þakkar guði fyrir að hún skuli liðin.
Falskur tónn þar.
Fyrir bregður opus ... magnum. Endar á því að - haha - veina að forsjóninni. Hahahaha. Hvað er orðið eftir af allri þessari eymd. Stúlka í þvældri grænni kápu á brautarpalli? Nei.

Þegar ég lít til baka yfir liðið ár, með því sem ég vona að sé kannski glampi í því gamla auga sem koma skal, þá er það auðvitað húsið við skurðinn þar sem móðir mín lá fyrir dauðanum, síðla hausts, eftir sitt langa ekkjustand og bekkurinn hjá stíflunni, þaðan sem ég gat séð gluggann hennar. Þar sat ég, í nístandi norðanáttinni, og óskaði þess að hún væri farin.
Varla nokkur sál, fáeinir langsetumenn, barnfóstrur, börn, gamalmenni, hundar; ég kynntist þeim mjög vel - oh, í sjón, auðvitað, á ég við. Einnar dökkleitrar ungrar fegurðardísar minnist ég sérstaklega; öll hvít og stífuð, óviðjafnanlegur barmur, og stór svartur barnavagn með skermi, ákaflega jarðarfararlegur gripur. Alltaf þegar ég leit í áttina til hennar hvíldu augu hennar á mér. Og samt, þegar ég varð nógu frakkur að tala við hana, án þess að hafa verið kynntur fyrir henni áður, hótaði hún að kalla á lögregluna. Eins og ég hefði í hyggju að spilla henni. Haha.
Andlit hennar. Augun. Eins og ... krísólít.
O jæja.
Ég sat þarna þegar tjaldið var dregið fyrir, eitt af þessum skítugu brúnu rúllutjöldum, og var þá stundina að kasta bolta fyrir lítinn hvítan hund. Mér varð litið upp og þá var það komið. Allt búið og gert, loksins. Ég sat kyrr stundarkorn með boltann í hendinni og hundinn geltandi og krafsandi í mig.
Stundir. Stundir hennar. Stundir mínar.
Stundir hundsins.
Að lokum rétti ég honum boltann og hann tók hann í kjaftinn, mjúklega. Lítinn, gamlan, svartan, harðan gúmmíbolta.
Ég mun finna hann í hendi mér til dauðadags.
Ég hefði getað átt hann.
Ég gaf hann hundinum.

O jæja.

Ár andlegrar fátæktar og algjörs þunglyndis fram að hinni minnisstæðu nótt í mars í ýlfrandi vindinum fremst á bryggjuhausnum, þegar ég sá allt í einu hvernig í öllu lá. Loksins kviknaði ljós. Þetta er sennilega það sem ég þarf einkum að skrásetja í kvöld, til þess dags þegar verki mínu er lokið og enginn staður verður kannski eftir í minni mínu, hlýr eða kaldur, fyrir kraftaverkið ... fyrir bálið sem það tendraðist af. Það sem ég skildi allt í einu var, að sú trú, sem ég hafði vaðið í allt mitt líf, nefnilega ...

... miklu granítklettar, með löðurtungurnar upp í geislann frá vitanum og vindmælinn eins og rellu, varð mér það loksins ljóst að myrkrið, sem ég hef alltaf barist við að halda í skefjum er mitt ...

... órjúfandi sálufélag, uns sundurgreining mín á stormi og nótt með ljósi skilningsins og eldsins ...

... vatnið efra með flatbytnuna á floti við bakkann, ýttum síðan út í strauminn og létum reka. Hún lá endilöng á botnfjölunum með hendurnar undir hnakkanum og augun lokuð. Sól í heiði, svolítill andvari, vatnið gott og gárað. Ég tók eftir rispu á öðru læri hennar og spurði hvernig hún hefði fengið hana. Við að tína stöngulber, sagði hún. Ég endurtók að mér fyndist vonlaust og þýðingarlaust að halda áfram, og hún samþykkti án þess að opna augun -
- ég bað hana að horfa á mig og eftir stundarkorn -
- eftir stundarkorn gerði hún það, en það rifaði aðeins í augu hennar vegna sólarljóssins. Ég beygði mig yfir hana til að varpa á þau skugga og þau opnuðust.
Hleyptu mér inn fyrir.
Okkur rak inn í störina og festi. Hvernig hún svignaði undan stefninu með andvarpi.
Ég lagðist yfir hana með andlit mitt í brjóstum hennar og hönd mína á henni. Við lágum þarna hreyfingarlaus. En undir okkur var allt á hreyfingu og hreyfði okkur ljúflega upp og niður og til hliðanna.

Komið fram yfir miðnætti. Hef aldrei kynnst annarri eins þögn. Jörðin hefði getað verið óbyggð.

Hér enda ég þessa spólu. Askja - þrjú - spóla - fimm.
Ef til vill eru bestu ár mín liðin, þegar enn var von um hamingju. En ég vildi ekki lifa þau aftur. Ekki með það bál sem brennur í mér núna. Nei, ég vildi ekki lifa þau aftur.

Ummæli

Friðþjófur sagði…
Hvað varstu að segja þarna fyrst um góða andlega heilsu? (já, ég las alla færsluna!)
Unknown sagði…
parkett bekkett krappes
já til hamingju annars.
andskotans 39 nálgast mig líka eins og óð fluga.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu