Jólabjórrýni Feitabjarnar 2020
Besti jólabjór ársins 2020 að mati Feitabjarnar er:
Froðusleikir. 0.5%. 269 kr. í Krónunni.
Hvít jól White ale. 5.0%. 399kr.
Bragðgóður og hressandi ljós og sakleysislegur bjór sem er enginn vandi að drekka langt fram á kvöld og jafnvel fram eftir morgni, það er hvort sem er niðamyrkur úti. Sérstaklega jólalegur er hann nú ekki en það veitir ekki af smá birtu þessa dagana svo hann fær séns.
3*
Lady Brewery Tomorrow's Dreams NEIPA. 6.4%. 633kr.
Til hvurs í ósköpunum? Jú, þetta er í raun alveg skítsæmilegur pale ale en hann hefði getað komið út í apríl eða júlí mín vegna. Það er ekkert spes eða jólalegt að gerast. Bjórinn er heldur ekki nógu mikið left field til að neinn nema algjör hipsteranúbbi kunni að meta þetta. Ekki vondur bjór en misheppnuð tilraun til jólabjórs. Væntingarnar draga einkunnina niður.
1.5*
Viking jólabjór. 5.0%. 399kr.
Þeir hjá Vífilfelli þurfa eitthvað að fara að skoða öryggis- og hreinlætismálin í verksmiðjunni hjá sér. Það er engu líkara en að bruggmeistarinn hafi misst logandi sígarettu út í bjórinn. Feitibjörn er löngu hættur að reykja svo þetta var nú ekki til að auka tiltrú hans á annars hundvondum bjór.
0.5*
Austri Romm í jól hátíðarporter. 6.3%. 786kr.
Romm er auðvitað frábært en hvernig það kemur þessum bjór við liggur ekki fyrir. Hann einkennist mun frekar af jólalegum kryddum á borð við negul og kanil frekar en rommi. Það er líka smá brunakeimur af honum, sem er ekki gott. Áferðin er heldur ekki nógu góð, því bjórinn klístrast við tennurnar og maður þarf eiginlega að fá sér romm og kók til að losna við það.
1.5*
Jóla Álfur Lager. 5.4%. 430kr.
Lageraður í tvo mánuði stendur á umbúðunum og það virðist hafa drepið allt kvikt í þessum bjór. Hann er því miður ekkert meira en allt í lagi og ekkert spes. Bragðlaus, glær og skilur lítið eftir sig.
1*
Skyrjarmur blueberry sour. 4.3%. 545kr.
Brautryðjandinn í flokki jólasúrbjóra náði mikilli hylli fyrir tveimur árum með því að beita því einfalda bragði að vera ekki alvöru súrbjór. Nú er hins vegar búið að taka boxhanskana af og komið alvöru punch í okkar mann. Þá er engum blöðum að fletta um það að úr verður alveg dásamlega ljúffengur bjór, þótt jólalegheitum sé kannski ekki fyrir að fara. Við fyrirgefum því þetta er bara svo andskoti mikið nammi. Og hvað er jólalegra en nammi?
4.5*
Heilög eilífð barrel aged pastry stout. 10.0%. 1290kr.
Það vantar ekki metnaðinn hér, ef lýsingin á umbúðunum er eitthvað til að fara eftir. Hvaða tunna var notuð til að þroska þennan bjór er hins vegar vafaatriði, en hafa ber í huga að brugghúsið er staðsett nálægt Reykjavíkurhöfn og því ekki ólíklegt að um lýsistunnu hafi verið að ræða. Bjórinn er magnaður og sterkur, það vantar ekki, enda hefur hann verið duglegur að taka lýsið sitt, en því miður er bragðið pínu einhæft og nær ekki að fanga mann. Bjórinn er svo sætur að hann minnir á púrtvín. Feitibjörn fær sér gjarnan púrtvín yfir hátíðarnar og þarf því ekki á þessum bjór að halda.
2*
Svartálfur potato porter. 6.4%. 699kr.
Porter eða dökkur bjór er ekki írsk uppfinning en við tengjum slíka bjóra óneitanlega við Írland. Það sama á við um kartöflur því hver kannast ekki við hina hræðilegu hungursneyð sem skall á Írum þegar kartöfluuppskeran brást? Hér er á ferðinni bjór sem hefði fáum mannslífum bjargað í þeirri neyð. Það þarf eiginlega að hella honum upp í nefið til að finna lykt og að djöflast með hann í munninum eins og Listerine til að finna nokkurt bragð. Misheppnað að öllu leyti.
0.5*
Giljagaur barley wine. 10.0%. 868kr.
Það er kannski ósanngjarnt að dæma þennan bjór núna því samkvæmt því sem mestu bjórnördarnir segja er Giljagaur týpa sem verður betri með árunum. Eflaust verður hér orðinn til massívur konfektmoli eftir þrjú ár eða svo en eins og er minnir þetta helst á austur-evrópskan snafs unninn úr broddgaltareistum.
0.5*
Jólagull. 5.4%. 399kr.
Þeir þurfa nú eitthvað að fara að halda trúnaðarmannafund þarna hjá Ölgerðinni og ræða álag á starfsfólk. Það bendir allt til þess að einhver starfsmaður hafi ekki fengið pásu og því neyðst til að pissa út í bjórinn. Hann hefur nú örugglega verið vondur fyrir eins og bregst ekki með Gullið, en þetta hjálpar nú ekki.
0*
Hurðaskellir imperial stout. 11.5%. 1290kr.
Hér er ekki verið að grínast. Kaffi, súkkulaði, viskí, vindlingar og villtar meyjar. Algjör negla eins og oftast áður, eiginlega verður að segja að Hurðaskellir hefur varla verið mikið betri en þetta. Hann veður upp að þér, sleikir á þér eyrnasnepilinn en laumast á meðan í úlpuvasann og stelur símanum þínum. Notar hann svo alla nóttina til að hlaða niður klámi á þinn reikning og svo máttu fá hann aftur því hver græðir á að stela símum nútildags.
4.5*
Kominn loksins aftur frá Svíþjóð eins og segir á miðanum. Þar hefur hann að því er virðist legið innan um Covidsýkt gamalmenni og safnað í sig ilmefnum. Ef maður ætti að segja eitthvað jólalegt um þennan bjór þá væri það helst að hann lyktar eins og hangikjöt en bragðast eins og skata.
0.5*
Ölvisholt jóla jóra 9.2%. 1048kr.
Heiðarleg tilraun til að gera dökkan, kryddaðan og metnaðarfullan kolsvartan jólaskammdegisbjór. Hann gefur í skyn að það kunni að heppnast en svo kemur þetta svakalega fúla eftirbragð sem er eins og nashyrningur hafi prumpað framan í mann. Fram að því var hann næstum því góður og með því betra sem Ölvishyltingar hafa gert.
2*
Bjúgnakrækir pale ale. 5.2%. 696kr.
Besti jólabjór síðasta árs kemur óneitanlega sterkur inn í ár en landslagið er hins vegar óneitanlega breytt. Muniði hvað allt var einfaldara 2019? Það er bara ekki þannig lengur. Bjórinn sem gnæfði himinhátt yfir alla samkeppnina fyrir ári síðan er núna mjög góður í talsvert fjölbreyttari hópi þar sem dökkir bjórar yfirgnæfa markaðinn aðeins og hinir og þessir súrbjórar eru með stæla. Það breytir þó ekki því að hér er á ferð undursamlega jólalegur pale ale sem hægt er að drekka endalaust af. Ekki bestur en verður tíður gestur á heimili Feitabjarnar á aðventunni.
4*
Ris a la sour. 4.7%. 699kr.
Kirsuberjasósa er eiginlega aldrei annað en gervileg. Danir eru víst hrifnir af því að bragðbæta möndlugrautinn sinn með svoleiðis sulli. Gott og vel. Það má alveg reyna sig við þá hugmynd að búa til bjór sem er á bragðið eins og nítjándu aldar danskur jólaforréttur. Það hlýtur þá að vera gengið út frá því sem vísu að enginn sé að fá sér þann forrétt, heldur sé bjórinn að koma í staðinn fyrir hann. Því svona afgerandi hrísgrjónapungsúrt sull með dísætum gervikirsuberjum, það getur auðvitað ekki gengið ef maður er að borða mat sem er eins á bragðið. Og þá er ekki nema von að maður spyrji: Hefði ekki verið sniðugra að búa til góðan jólabjór?
1.5*
Santa's blue balls. 4.7%. 666kr.
Nú er einhver að grilla í manni. Bjór sem segist vera IPA en er litaður eins og Bacardi Breezer með túrtappabragði. Ókei, hugsar maður, þú ert kannski að reyna að ögra mér og ætlar að mæta með einhverja stæla, hvað ertu með? Svo smakkar maður og það er bara frekar lítið í gangi. Ekki bragðsterkur né bragðgóður, ekki einu sinni sannfærandi vondur. Hundleiðinlegur bjór.
0.5*
Askasleikir amber ale. 5.8%. 494kr.
Það er ekki verið að hika við að byggja upp væntingar, það freyðir fallega í glasinu þegar bjórnum er hellt, hann ilmar dásamlega og fyllingin í sopanum er alveg eins og maður hefði vonað. Bjórinn er frískur og lifandi og í bragðinu er blanda af… mandarínu og hangikjöti! Óvenjuleg blanda og ekki alveg að gera sig en samt alls ekki slæmur bjór.
3*
Einstök doppelbock. 6.7%. 499kr.
Jólabjór þarf að vera jólalegur og hér klikkar það ekki frekar en fyrri daginn. Það er hins vegar þannig með þennan oft frábæra bjór, svolítið svipað og með sterk fíkniefni, að hann virkar aldrei jafn vel og í fyrsta skammti. Þetta er alveg stöndugur jólabjór með fínu eftirbragði sérstaklega, en nú þarf maður eiginlega að þamba alla flöskuna í einum teyg til að fá gamla kikkið.
3*
Leiðindaskjóða. 4.6%. 398kr.
Ekki gefa bjórnum þínum nafn sem bendir til þess að hann sé boring. Sérstaklega ekki ef hann er svo frekar óspennandi og leiðinlegur. Það skásta sem hægt er að segja um Leiðindaskjóðu er að hún er ekki spennandi vondur bjór.
1.5*
Snjókarl mandarínuöl. 4.2%. 367kr.
Nei og aftur nei. Hræðilega gervileg blanda af pilsner og diet appelsíni. Svo fattaði bruggarinn að það þarf áfengi í jólabjór svo það var ákveðið að nýta örlítið af gríðarlegum birgðum landans af sótthreinsunarspritti. Ógeðslega vont.
0.5*
Jóla Drangi. 5.6%. 498kr.
Hress og kátur jólabjór sem er ekki með neina stæla, bara fer í beisikkina og dúndrar dágóðum skammti af karamellu inn í nokkuð hefðbundinn millidökkan bjór. Í raun ekki svo frábrugðinn dóti á borð við Thule og Tuborg nema hér er til staðar það sem svoleiðis piss skortir og það er kærleikur og vandvirkni í vinnubrögðum.
3*
Eftir sex wild brett amber. 5.2%. 1190kr.
Meh! Það kannast margar konur við að fara á ball eða árshátíð, fá sér aaaaðeins og mikið hvítvín og finnast einhver lúði allt í einu vera árennilegur af því að hann er í svo fínum jakkafötum. Það myndi eflaust hjálpa í slíkum aðstæðum ef gaurinn skartaði klámstjörnunafni á borð við Wild Brett Amber. Hér er bjór sem skartar kampavínstappa en það er því miður ekkert ljóð skrifað á hann. Bjórinn sjálfur alveg la la en ekkert meira en það, hann er búinn áður en maður myndar sér skoðun á bragðinu.
2*
Jóla Magnús Frúktús. 6.3%. 595kr.
Það er auðvelt að klúðra jólabjór með því að reyna að gera of margt. Hér á að bjóða upp á kirsuber og kardimommu, vanillu fleira en það er svo margt í gangi að þetta fer að minna á grænmetissönginn í Dýrunum í Hálsaskógi. Sérstaklega súr er bjórinn svo ekki en eins og fram kemur annars staðar í þessari rýni þá er sú stefna að halda súrleika jólabjórs í skefjum nú cancelled.
2*
Eitthvað fallegt. 5.0%. 499kr.
Jaaaaáááá.... sko... nei. Því miður. Eins og þessi bjór hefur verið góður áður þá er núna eins og hann vanti allt kikk. Ilmurinn er indæll, en bragðið ekki eftir því. Bruggarinn varð frægur fyrir það að setja heilt jólatré út í kútinn þegar bjórinn var skapaður. Nú veltir maður því fyrir sér hvort hann sé enn að vinna með þetta sama tré tveimur árum síðar, því bragðið af bjórnum er illu heilli ekkert spennandi og ekki jólalegt heldur.
1.5*
Ölvisholt heims um bjór. 5.0%. 498kr.
Úff! Hvað er í gangi? Manni krossbregður við að setja þetta inn fyrir sínar varir. Hann er gallsúr og gerir árás á úfinn sem engum finnst gott eftir fjögur ár af Trump.
0*
Hnetubrjótur hazelnut milk stout. 5.6%. 798kr.
Sko, þettta er ekki vondur bjór sem slíkur en á bara ekki mikinn séns innan um alla þessa svakalega mörgu stout bjóra sem eru að keppa í ár. Ef það væri enginn annar svartur gúmmulaðibjór að keppa þá myndi maður hrósa þessum, en hann má ekki við margnum og hverfur í fjöldann.
1.5*
Viking jólabóndi IPA. 6.0%. 435kr.
Svona bjór má nú alltaf slafra í sig. Hann er minna humlaður en bóndinn á næsta bæ sem ekki er kenndur við jól, en í staðinn er einhver smá greninálapæling þarna lengst á bak við, án þess að verða of afgerandi. Ekki svo afleitt en hefði mátt leggja sig betur fram.
2.5*
Steðji almáttugur jólaöl. 6.0%. 458kr.
Vúhú!!! Það er stuð og fjör í gangi hér, diskótek á bragðlaukunum. Saltlakkrís og malt detta í skemmtistaðasleik - auðvitað með sóttvarnargrímu samt - og maður er bara hress. Ljómandi fínn og til þess fallinn að koma manni í vandræði.
3*
Gull lite jól white ale. 4.4%. 349kr.
Hverjum datt þetta í hug? Við kaupum okkur kort í ræktina í janúar, reynum að vera edrú framan af febrúar en á aðventunni erum við ekki að fokking reyna að megra okkur. Þar sem þessi bjór má ekki innihalda neinar hitaeiningar bragðast hann eins og allt við hann sé úr gerviefnum. Glútenlausar karamellur? Nei takk.
0*
Egils malt jólabjór. 5.6%. 369kr.
Það er eitthvað rangt við þetta. Maltinn á að vera sætur og sakleysislegur eins og alzheimerveik amma sem veit hvorki í þennan heim né annan og brosir út í tómið í sérrímarineraðri jólagleði. Þessi bjór er aðeins of bitur til að púlla það.
1.5*
Ekkert sérstaklega jólaleg jól lime IPA. 5.2%. 483kr.
Jólabjór er auðvitað hönnunarvara og það þarf skapandi hugsun til að búa til vel heppnaðan jólabjór. En eins og allir hönnuðir og fólk í skapandi greinum gerir sér grein fyrir eru sumar hugmyndir best geymdar í stílabókinni. Þennan bjór hefði aldrei átt að búa til og hans eina raison d'etre er að hipsterar munu vilja segja frá því að hafa smakkað hann. Þegar maður fær slæmt harðlífi verður manni líka stundum á að segja frá því, kannski í vinnunni, en maður sér svo eftir því.
0.5*
Ölvisholt 24 barley wine. 10.0%. 1290kr.
Bjór sem bragðast eins og táfýla og blautur þvottur, það held ég nú að slái í gegn. Öllum jólatengdum kryddtegundum er hrúgað hér saman eins og oft áður en ef þú blandar saman of mörgum litum verður útkoman bara kúkabrún.
0.5*
Og Natura Jóló stout. 8.0%. 899kr.
Sætur og ljúfur jólabjór með skemmtilegum kryddkeim og hint af einhverjum jurtum, samt ekki bláberjunum sem sagt er frá á umbúðunum. Hann er alveg prýðilegur sem slíkur en býður ekki upp á neina flugeldasýningu. Feitibjörn getur alveg hugsað sér að eiga einn svona til að komast í gegnum innpökkun gjafa.
3*
Choc ho ho peanut butter chocolate milk stout. 4.7%. 666kr.
Eins ólíklega og það kann að hljóma þá er þessi jarðhnetu-kókómjólkur-stout ekki yfirþyrmandi á bragðið. Hann er bara drullugóður og hægt að setja sig í þau spor að drekka hann í eldhúsinu meðan verið er að troða kalkúninn, baka piparkökurnar og eiga leynilegt samtal við makann um hvað eigi að vera í möndlugjöf. Bjórinn er sætur, mjúkur, ljúfur og kurteis, ólíkt því sem maður kannski býst við af svona miklum konfektmola.
3.5*
Thule jólabjór. 5.4%. 399kr.
Undanfarin ár hefur verið hefð fyrir því að byrja jólabjórsmökkun Feitabjarnar á þessu helvíti. Það hefur í raun ekki verið meðvituð ákvörðun, meira svona að það sé nú vitað að best sé að byrja á einhvers konar núllpunkti og þá liggur Thule ávallt í augum uppi. Í ár er engin breyting á því að hér er á ferðinni bjór sem gerir það að listgrein að vera óspennandi.
1*
Jóla Kaldi. 5.4%. 414kr.
Alltaf sama sagan með þetta drasl. Lúkkar vel í glasi, ilmar eins og arineldur í bjálkakofa en stendur svo undir öllum neikvæðu væntingunum með því að bjóða upp á svo rammt bragð að það hlýtur að hafa kviknað í kornristavélinni.
1*
Jóla Kaldi súkkulaði porter. 6.5%. 499kr.
Svakalega mikið sælgæti, mann langar svo í annan og þriðja... Áfengisinnihaldið er talsvert en maður finnur lítið fyrir því enda slatti af súkkulaði til að plata mann. Passar með hangikjötinu, meðan verið er að skreyta jólatréð, með bakstrinum - sérstaklega með bakstrinum! Alveg ljómandi fínn bjór og jólalegri en fjandinn.
3.5*
Grýluhor eikaður dökkur lager. 6.0%. 570kr.
Ljómandi! Gæðingur hefur átt inni fyrir frábærum jólabjór í áraraðir og nú er hann kominn. Strangheiðarlegur almúgajólabjór með karamellubragði, litlu gosi, nettu áfengismagni og bragði sem býr strax til löngun í meira. Eins og Páll Óskar syngur þegar enginn heyrir til: Djöfull er þessi bjór góður!
4*
Frostrósir. 4.5%. 425kr.
Gleðilega aðventu! Hér er á ferðinni einhver mest jólalega útlítandi bjór sem Feitibjörn man eftir að hafa séð í glasi. Froðan leit bókstaflega út eins og skeggið á jólasveininum. Því miður var svo nákvæmlega ekkert að frétta í bragðinu svo maður situr eftir með ýmsar spurningar. Til dæmis: Til hvers er þessi bjór?
1.5*
Hátíðar Púki sweet stout. 4.5%. 519kr.
Þegar það eru svona margir dökkir jólabjórar á markaði þá er auðvitað óumflýjanlegt að einhver þeirra verði alveg misheppnaður. Hér er sá bjór kominn. Hann er of gosmikill fyrir stout, of kryddaður til að maður geti drukkið nema smáræði af honum og þegar völ er á tylft betri dökkra jólabjóra þá skulum við bara gleyma þessum.
1*
Malbygg Jólakisi IPA. 7.0%. 899kr.
Nú er best að segja ekki margt. Bjórnördar elska Malbygg og Feitibjörn hefur á árinu sopið allnokkra Hazy Bastard frá þeim þegar samnefndur bar hefur verið sá eini á landinu sem er bæði opinn og selur bjór sem er ekki ógeð. En... Kettir eru sögð þrifaleg dýr en þessi bjór bragðast eins og hann sé nýbúinn að vera að þrífa á sér rassgatið með tungunni.
0*
Viking Tveir vinir og annar í jólum appelsínulager. 5.0%. 399kr.
Hræðilega gervilegt appelsínubragð yfir allt of ramman lagerbjórgrunn gerir þetta að bjór sem enginn vill smakka framar. Eyðum ekki orðum í þetta rusl. Næsti!
0.5*
Ölvisholt Hel vetraröl porter. 7.0%. 600kr.
Á miðanum er fræðandi texti um að sóttdauðir og ellidauðir fóru til Heljar samkvæmt trú manna í gamla daga. Þessi bjór er sóttdauður og bragðast eins og að vangadansa við sjórekið lík.
1*
Steðji Halelúja svartbjór. 5.2%. 393kr.
Æji nei, ekki bjóða okkur upp á svona svindl. Laumulega mjúkur á manninn í fyrstu en þegar maður er búinn að kyngja sopanum stekkur fram óvænt eftirbragð sem er eins og að fara í sleik við stelpu sem var að æla.
0.5*
Gluggagægir DIPA. 9.0%. 655kr.
Vá! Ofboðslegur bjór, alveg stórkostlega mikið að gerast og kemur dásamlega á óvart. Það munaði mjóu að þessi tæki titilinn í ár og í venjulegu árferði hefði hann líklega sigrað. Þettta er dekurbjór dauðans, sætur og súr á sama tíma, ekki eins og kínverskar djúpsteiktar rækjur heldur eins og sítrónu-ostakaka. Lífið getur verið svo erfitt stundum, ekki síst á þessu hræðilega ári sem er að líða, en það eru ekki til þeir erfiðleikar í lífinu sem ekki er hægt að lækna með ostaköku. Eða bjór. Hvað þá bjór sem bragðast svo vel að manni finnst maður vera að fá sér ostaköku. Með bjór. Alger negla, alger bomba, alger snilld.
4.5*
Jóla Tumi IPA. 5.0%. 472kr.
Við erum ekki alveg að dansa hérna, því miður. Frískandi pale ale svo sem og smá jólatréskeimur til að jóla hlutina upp en nær hvorki að vera hressandi ljóskeila inn í myrkrið né nístandi ísnál í hjartað.
2*
Segull 67 jóla bjór. 5.4%. 448kr.
Jesús Pétur og andskotinn sjálfur hvað þetta er mikill viðbjóður! Nú fer Feitibjörn að halda að það séu grimmar iðnaðarnjósnir stundaðar á Siglufirði og að einhver hafi hakkað sig inn á innra netið hjá Royal brugghúsinu í Danmörku - sem einmitt framleiðir versta jólabjór í heimi. Blái kubburinn í hlandskálinni myndi ekki gera þennan bjór verri.
0*
Viking lite jóla. 4.4%. 299kr.
Nú gerumst við heimspekileg. Bjór sem kom inn með látum í fyrra og hlaut titilinn versti jólabjór allra tíma er nú með einhverjum hætti enn verri og þó búinn að tapa þeim vafasama titli að vera verstur. Það er búið að bæta allt of miklum kanil út í sem gerir hann verri. Hann er þar með ekki eins mikið vatnsgutl og gegnsætt metnaðarleysi, sem gerir hann… líka verri.
0*
EInstök Winter Ale. 8.0%. 599kr.
Það þarf að passa sig að falla ekki fyrir smjaðrinu í fólki sem vill koma manni í klandur. Það þarf líka að passa sig á vetrarölinu því það er tilbúið að sparka í punginn á hverjum sem er og brosa út að eyrum á meðan. Ljúffengur bjór og lútsterkur þótt maður finni ekki fyrir því. Þannig að varúð skal höfð í nærveru öls af þessu tagi, annars endar maður kvöldið á trúnó við mömmu sína.
3.5*
Gæðingur Jingle Balls. 5.0%. 445kr.
Það má alveg þræla þessu ofan í sig - hann er með smá lakkrísblæti en það er af sætari gerðinni, rennur ljúflega niður og þó hann sé ekki of ágengur veit maður að hann er að meina þetta.
2.5*
Hó hó hó brown ale. 8.0%. 574kr.
Þetta er hreint ekki gott. Í glasinu virðist þetta áferðarfallegur og lokkandi bjór en svo kemur í ljós að hann er flatur, pínu súr og smakkast eins og timburmenn morgundagsins.
1*
Malbygg Djús Kristur sour ale. 5.6%. 798kr.
Það eru nokkrir súrir bjórar á markaði í ár og sumir þeirra heppnast vel. Því er ekki að heilsa hér, það er lofað vanillu og mandarínu súröli en það er ekki nóg af neinu. Súrbjór sem er ekki nógu súr er eitthvað það dapurlegasta sem til er. Bjór má alveg vera basic en þessi súrbjór er basískur.
1*
Leppur milk stout. 6.5%. 599kr.
Alveg þokkalega bragðgóður og skemmtilegur bjór, sætur og ljúfur í glasi. Jólalegur og alltaf þannig að maður sé til í hann. Hann virkar, það er ekki hægt að segja annað. Leikur við bragðlaukana og kemur manni í rétta skapið.
3*
En þá er komið að því!
Besti jólabjór ársins 2020 að mati Feitabjarnar er:
Þriðji í jólum belgian tripel. 8.5%. 795kr.
Eigum við að ræða þetta eitthvað? Alveg dúndursterkur ilmur, bragð sem rokkar eins og Pétur heitinn Kristjánsson á góðum degi og það sem betra er... það heldur bara áfram og áfram og áfram að gefa og gefa og gefa. Svona bjór þarf að gefa sér góðan tíma til að njóta því eftirbragðið er svo þrálátt í unaðslegheitum sínum að maður þarf ekki annan sopa nærri strax. Næsti sopi þarf heldur ekki að vera nema pínulítill til að viðhalda dásemdinni. Eins gott að passa sig að detta ekki alveg í eitthvert núvitundar-nirvana því þá verður bjórinn bara volgur og flatur. Hann væri samt örugglega ennþá helvíti góður þannig.
5*
Gleðilega hátíð elskurnar mínar, ég myndi segja gangið hægt um gleðinnar dyr en þetta helvítis ár þarf að klárast og koma aldrei aftur. Sjáumst hinum megin!
Ummæli
Takk fyrir þetta dásamlega framlag!