Jólabjórrýni Feitabjarnar 2019
Góðir landsmenn, enn einu sinni er komið að skammdegisþunglyndinu. Þrátt fyrir allt tal um hamfarahlýnun fer veður kólnandi á Fróni, myrkrið er allsráðandi meirihluta sólarhringsins, djúpt, svart og miskunnarlaust eins og hjartað í kvótakóngi. Jólin nálgast með sínum organdi börnum, viðbrenndu piparkökum, uppseldum leikföngum og öðrum pirringi og vonbrigðum. Maður þorir varla að eyða krónu í nokkurn skapaðan hlut orðið því allskonar jólatónleikar, föndurdagar, hlaðborð og auðvitað bjórsmökkunarpartí éta upp það sem átti að fara í kalkúninn og gjafirnar. Ekki furða að febrúar sé orðinn mest kvíðavaldandi mánuðurinn þegar kortareikningarnir koma. Bah húmbúkk! segir Feitibjörn. Nú er kominn tími til að hlusta á ungu kynslóðina, hætta þessu eilífa neyslufylleríi og snúa sér að því sem skiptir máli í lífinu.
Sem er auðvitað bjór.
Innan um allan þann barlóm sem ætlar allt lifandi að drepa í þjóðfélagsumræðunni þessa dagana er gaman að upplýsa ykkur lömbin mín um að árið 2019 er gott jólabjórsár. Alveg rosalega gott, bæði er úrvalið meira en nokkru sinni fyrr og svo eru fleiri mjög góðir jólabjórar í ár en næstum því nokkurn tíma áður.
Það eru auðvitað nokkrir hundvondir eins og alltaf. Í ár er líka kominn á markað sá allra versti jólabjór sem hægt er að hugsa sér. Hann er svo vondur að hann ætti einna helst heima í skáldsögu eftir Douglas Adams. Hann er jafn vondur og ljóð eftir Vogona. Svo vondur að hann bragðast nánast - en ekki alveg - algerlega ekki eins og bjór.
En góðu fréttirnar eru sem sagt þær að það eru margir góðir jólabjórar sem ykkur mun bjóðast að hella í ykkur til að gleyma ömurlegheitum jólanna að þessu sinni. Við síðustu talningu leit út fyrir að fjöldi íslenskra jólabjóra væri kominn í heilar 39 sortir, en þær voru því miður ekki allar komnar í búðir þegar smökkun fór fram. Undanfarin ár hefur rignt skilaboðum, tölvupóstum, símtölum, föxum, sendibréfum, reykmerkjum og bréfdúfusendingum yfir Feitabjörn í aðdraganda aðventunnar frá fólki sem bíður í ofvæni eftir stóradómi. Það tekur tíma að drekka sig í gegnum þennan mikla fjölda og því fleiri sem bjórarnir eru, því erfiðara er líka að skrifa eitthvað vitrænt um þá. Feitibjörn hefur lagt nótt við dag undanfarið að koma hinum árlega pistli saman og gat því ómögulega verið að gefa þeim séns sem voru seinir í partíið.
En nú skulum við vinda okkur í þetta. Bjórarnir eru hér í nokkuð handahófskenndri röð nema samkvæmt hefð er sá besti geymdur þar til síðast.
Jóla Drangi
Ágætis byrjun! Það er vandvirkni og kærleikur í þessum bjór og þó að hann sé ekki með neina flugeldasýningu þá gerir hann vel það sem stóru gosverksmiðjurnar gera frekar illa. Hlýlegur og notalegur eins og hinn árlegi pakki frá gömlu frænku í útlöndum sem þú veist að inniheldur sams konar náttslopp og í fyrra og árið þar áður.
3 1/2*
Askasleikir
Ilmar vel en bragðið frekar óspennadi, ekki nándar nærri nógu mikið að gerast. Svona alveg jólalegur upp að vissu marki en of daufkenndur á heildina litið. Mætti vera meira kikk, eftirbragðið er nánast ekkert og mann langar ekki í annan, ekki sinu sinni í skóinn.
2*
Segull 67 jólabjór
Alveg frambærilegur þannig, en því miður ekkert sérstaklega mikill jólabjór beint, minnir á Viking Rökkr og gæti alveg virkað sem sumarbjór. Alveg ágætur sem slíkur og það má alveg slafra þessu í sig hvenær sem er ársins. Það er ekki það sem við erum að vinna með hér - heldur hvort þetta sé almennilegur jólabjór, sem hann er ekki.
2*
Jóla kaldi
Næs! með upphrópunarmerki eru fyrstu viðbrögð því þetta er bjór sem er ilmandi fínn og jólalegri en andskotinn. Bragðið ekki alveg í botn en ljúft og sætt án þess að vera væmið. Það væri mjög auðvelt að drekka svo marga af þessum að maður sæi eftir þvi næsta dag. Ekkert svakalegt í gangi en alveg solid jólabjór til að sulla í sig dagsdaglega - maður myndi samt fá sér eitthvað meira spennandi við sérstöku tækifærin.
3*
Jóla Gull
Sko. Ef þú ert týpan sem kaupir jólatré löngu fyrir jól og geymir það svo úti á svölum í hálfan mánuð í netinu, tekur það loks inn á þorláksmessu og setur á jólatrésfótinn, bara til að sjá að allar greinarnar benda næstum því beint upp í loft, þá er fátt betra en nokkrar dósir af Jóla Gulli - því umbúðirnar eru mjög vandaðar og jólalegar í ár - til að hengja á greinarnar svo þær breiði fallega úr sér og geri jólatréð fallegra. Bara alls ekki drekka bjórinn í dósunum.
0*
Viking Jóla Bock
Hér er eitthvað sem er ekki að virka en það er erfitt að setja puttann á nákvæmlega hvað það er. Jólakryddblandan hefur eitthvað mistekist þetta árið og gefur bjórnum þann óvenjulega brag að það er eitthvað yfirþyrmandi við hann sem maður veit samt ekki alveg hvað er. Svipað og að vakna í rúminu sínu heima, allt er á sínum stað, fötin snyrtilega samanbrotin á stól, enginn hausverkur eða ógleði en þú manst ekki hvernig gærkvöldið endaði og innst inni finnurðu á þér að þú hafir gert einhvern skandal.
1 1/2*
Einstök Doppelbock
Já, hér er gott dæmi um hvernig jólabjórlandslagið er í ár. Það sem áður þótti gott er ekki í sama áliti og öfugt. Bjórinn sem hefur verið go-to jólabjórinn í mörg ár líður nú fyrir að samkeppnin er orðin sterkari. Hann er bragðgóður, rennur ljúft niður og mundi alveg svínvirka með ísköldu jólaákavíti á kantinum. Nær ekki alveg sömu hæðum og oft áður með þessum óendanlegu árásum á bragðlaukana, núna rennur þetta meira saman í eitt þó þetta eina sé alveg fínt.
3 1/2*
Hóhóhó
Nú kemur þessi bara nokkuð sterkur inn - enda bæði með mikið áfengismagn og talsverða sætu, soldið eins og Stína á næsta borði sem á það til að blikka þig í starfsmannapartíum. Það er karamella og púðursykur á ferðinni, maður finnur ekki fyrir áfenginu í sopanum en veit af því þegar maður hefur fengið sér annan sopa. Hann getur læðst aftan að manni ef maður passar sig ekki og gæti alveg eyðilagt fyrir manni kvöld sem átti ekki að fara í rugl.
2 1/2*
Viking jólabjór
Nei og aftur nei. Þessi bjór er bragðlítill og eiginlega bara svona meh! Eiginlega algerlega misheppnaður, of bragðlítill, of venjulegur, of gosmikill - þetta eru vonbrigði í flösku.
1*
Jingle Balls
Það er ekki oft sem Feitibjörn fílar ekki skagfirsku sveifluna. Hér er mikið verið að reyna að vera jólalegur en það nær ekki að skína í gegn. Kannski væri þessi bjór betri drukkinn við hærra hitastig og sem aðdáandi brugghússins ætlar Feitibjörn að prófa það. Það á greinilega að tikka í öll jólalegu boxin en það tekst ekki þrátt fyrir góða viðleitni.
1 1/2*
Hóhóhólísjitt
Vá, þetta er alveg á öðru leveli en margt hér í kvöld. Geggjaður bjór og skemmtilega maltaður. Það er mikill sykur og líka ávaxtakeimur, smá töts af púrtvíni jafnvel og þessi bjór er afskaplega sterkur, næstum því níu prósent og kemur auk þess í mjög stórri og þungri flösku. Maður myndi geta notað hana sem barefli þegar maður væri búinn með bjórinn og kominn út í einhverja vitleysu.
4 1/2*
Hvít jól
Hressandi og frískur. Eiginlega meiri svaladrykkur en bjór - mandarínubragðið virðist vera búið til með efnafræðilegum hætti og þó maður tengi mandarínur við jólin þá virkar þessi bjór frekar eins og eitthvað sem maður myndi fá sér á heitum sumardegi. Alveg fínasti bjór í því samhengi en er ekki jólalegur.
2 1/2*
Segull 67 Snjókarl
Ekkert í gangi. Jólalegur? Ekki fyrir fimm aura. Alveg ævintýralega óspennandi, maður myndi í mesta lagi geta sullað þessu í sig með grænmetisréttinum á matsölustaðnum í IKEA. Trúið mér ekki? Þið skuluð samt ekki prófa.
1/2*
Eitthvað fallegt
Það eru til brugghús á Íslandi og svo eru til gosverksmiðjur. Hér er um brugghús að ræða og það er lögð mikil ástríða í bjórinn. Hann er gruggugur í glasinu, smá gönk í botninum og alls konar skemmtilegar tilraunir í gangi með bragðið. Grenigreinar, englahár og bilaðar jólaseríur hafa líklega verið nýttar í uppskriftina og þetta er að virka þrátt fyrir þann annmarka að vera frekar í fölari kantinum, þið vitið að Feitibjörrn vill hafa jólabjórana sína soldið dökka, eins og kaffið og karlmennina.
4*
Jóla Kaldi Súkkulaði Porter
Alveg hreint út sagt ekta jólabjór, það er jafnvægi í honum, lyktin platar mann reyndar aðeins, maður heldur að þessi verði ekkert spes en svo kemur bragðið á óvart. Hann er akkúrat á réttum stað á milli þess að vera sætur og bitur. Soldið eins og ónefnd fyrrverandi kærasta. Það verður samt að passa að kæla þennan bjór ekki, hann er langbestur við stofuhita og þá dettur manni í hug hvort hann gæti harrmónerað skemmtilega með ákavíti í frosnu glasi?
4*
Hurðaskellir
Æ, hér kemur eiginlega skellur ársins. Hurðaskellir hefur algerlega snýtt og skeint öðrum jólabjórum landsins síðustu tvö ár og nú átti að spila út trompi því hann er búinn að vera að þroska sig í rúgviskítunnu í heilt ár. Það var ekki góð hugmynd og því miður er viskíbragðið að drepa þennan bjór sem var svo svakalega góður. Hann er samt alveg betri en sumir, ekki misskilja, en ekki með sömu yfirburði og áður.
3*
Bjólfur grenibjór
Það eru greninálar í bjórnum en samt tekst honum að vera ekki jólalegur. Hvernig er það hægt? Þær koma einfaldlega ekki fram í bragðinu, bjórinn er ljós og léttur og alveg prýðilega góður. Bragðið frekar einfalt, ekki mikið krydd heldur gott maltbragð í grunninn. Vantar samt þennan X factor sem gerir jólabjór sérstakan.
3 1/2*
Viking Lite Epla og Kanil
Jahérnahér!!! Maður þarf alveg að anda í bréfpoka áður en maður tjáir sig. Hverjum datt þetta eiginlega í hug? Maður ímyndar sér að konur í þykkari kantinum sem vilja fá sér jólabjór en eru með áhyggjur af kaloríunum geti kannski látið plata sig til að kaupa þetta en þegar þær eru búnar að fá sér nokkra svona þá er ekki annað að gera en að hlaupa eins og fætur toga. Annar hópur sem gæti fallið fyrir þessu rugli eru miðaldra íþróttakennarar með afneitun yfir eigin vaxandi bumbu. Hvað sem því líður er blandan af megrunarbjór og gervi-epla-og-kanilbragði alveg skelfilega vond hugmynd, illa útfærð og engum til sóma. Versti jólabjór allra tíma.
-2*
Einstök Winter Ale
Já nú erum við að tala saman! Vetrarölið hefur haft tilhneigingu til að vera full afgerandi, sérstaklega hérna um árið þegar það kom í stóru flöskunum, en nú er búið að finna frábært jafnvægi og það liggur fyrir að þessi gæti skákað Doppelbock frænda sínum í keppninni um að fylgja með jóladagshangikjötinu. Sjúklega smooth - í staðinn fyrir flugeldasýninguna sem var er núna bara pínu keimur af viskíi og greninálum þarna á bak við. Alveg hreint þrusugóður.
4*
Thule jólabjór
Stendur alltaf undir þeim væntingum að hann valdi manni vonbrigðum. Það er eyja í Kyrrahafi sem heitir Disappointment, Feitabjörn hefur lengi langað til að fara þangað en óttast að hún standi ekki undir væntingum. Þannig er Thule jólabjór rétt lýst.
1*
Steðji almáttugur lakkrís porter
Það er margt og mikið í gangi hér, þótt bjórinn sé gríðarlega mjúkur á manninn. Maður gæti alveg fengið sér þrjá og fyrst maður hefur drukkið þrjá endar það líklega í fimm hvort sem er. Má ég fá meira? Það er hunang og lakkrís í bland og ýmislegt annað sem kitlar bragðlaukana, þótt maður vilji kannski sem minnst vita um nákvæmlega hvaðan það kemur. Má ég fá meira? Það er með ólíkindum hvað þessi bjór lætur mann langa í meira - við ætluðum aldrei að geta haldið áfram í næstu sortir, svei mér þá.
4*
Egils jóla malt
Já mikið óskaplega er þetta gott, amma mín! Æðislegur bjór, brjálæðislega jólalegur, gamla góða maltölið í sparifötunum, en samt ekki - hann er léttur og skemmtilegur eins og uppáhaldsfrænkan sem gaf þér alltaf nákvæmlega bókina sem þig langaði í í jólagjöf. Jólamaltið hreinlega klikkar ekki.
4 1/2*
Choc Ho Ho
Sko, fyrsti sopinn er alveg dásamlegur, þetta lofar góðu og maður verður alveg pínu spenntur - einhver kom og kleip þig í rassinn á barnum, þú snýrð þér við og þú bókstaflega sérð manneskjuna hverfa - gufa upp fyrir framan augun á þér. Bjórinn þessi er svipaður, bragðið fellur flatt, hverfur eins og dögg fyrir sólu. Þessi bjór er ekkert annað en glas af sviknum loforðum.
2*
Jólabóndi
Nú hættir þú durgurinn þinn! Það er til venjulegur bjór sem heitir Bóndi og þessi bragðast nákvæmlega eins. Samkvæmt miðanum á dósinni er hann með meira áfengisinnihald en venjulegi bóndinn en maður finnur það ekki - plús að það er ekki neitt jólalegt í gangi hér. Drasl.
0*
Jóla Kisi
Oj! Foj! Og Svei! Vont bragð af bjór er hér gert að sérstakri listgrein, hann segist vera IPA en það er ekkert humlabragð, bara einhver gerviávaxtakeimur sem á hvorki neitt skylt við jól né bjór. Hipsterarnir í 104 hverfinu verða líklega fúlir að heyra það því þetta brugghús er það besta sem slíkir dúddar vita. En þetta er bara vont. Oj!
0*
Jóla Tumi
Feitibjörn á erfitt með að vera dómharður í þessu tilviki en látum á það reyna. Þetta er bara fínasti IPA, ekkert brjálæðislega jólalegur en afar góður bjór verður maður að segja, þeir í Skagafirðinum kunna að finna réttu humlablönduna í bjórinn sinn. Gæðingur brugghús á það svo gersamlega inni að geta komið með besta jólabjór sem Ísland hefur alið en enn bíðum við samt eftir því.
3 1/2*
Leppur
Namminamm! Hér heppnast nokkurn veginn allt. Hann rokkar spikfeitt og grjóthart þessi bjór. Það var eitthvað frekar misheppnað við þennan bjór í fyrra en núna erum við algerlega með þetta. Hver einasti sopi kemur á óvart, fyrst er kaffi, svo saltkaramella og í þriðja sopanum eru einfaldlega jólin sjálf. Það er heimabruggsstemmning yfir honum, smá óhreinindi af þeirri gerð sem manni finnst viðeigandi.
4 1/2*
Djús Kristur
Æji, andskotinn hafi það, hvað eru menn að pæla hér? Jólabjór er þetta ekki fyrir fimm aura en alveg fínasta, fínasta súröl. Hressandi og frískandi og ætti alveg heima í góðu grillpartíi ef veðrið væri gott, en um jól? Gleymdu því. Eins og með kisann þá virðist vera að Malbyggarar ætli að treysta á sína hundtryggu aðdáendur sem muni ekki gera kröfu um jólalegheit í bjórnum, bara svona hipsterheit. En bara sorrí með okkur, við viljum jólabjór hér.
2 1/2*
Jóla Álfur
Oft hefur það nú verið sagt hér á þessum vettvangi að nýr jólabjór á markaðinn megi helst ekki vera misheppnaður, en hvað er að vera misheppnaður? Stundum er teflt djarft og tapað og stundum er ekki verið að taka neina sénsa og þá er niðurstaðan líka einskonar tap. Við erum ekki að marka okkur sérstakan sess hérna, þetta er miðjumoð, hálfdökkur bjór með einhverjum óljósum sítruskeim sem er eiginlega ekkert spes.
1 1/2*
Leiðindaskjóða
Frekar leiðinlegur bjór eins og nafnið gefur til kynna. Session IPA er afspyrnu slæm hugmynd þegar kemur að jólabjór, því eins og margoft hefur komið fram þá viljum við að jólabjórinn veiti manni extra birtu og yl - sem næst ekki með óvenjulega litlu áfengisinnihaldi. Leiðindaskjóða stendur undir nafni, það má þó gefa henni það.
1 1/2*
Giljagaur
Jibbí, þetta er alveg stöngin inn. Einn sopi slær mann létt utan undir, svo kemur annar og þá er manni orðið heitt í hamsi og farinn að komast í stuð. Á góðu kvöldi á aðventunni með réttum félagsskap þá klikkar þessi sko ekki. Það væri skynsamlegt að forðast að drekka of marga Giljagaura en hvern erum við að plata? Við munum alveg hella þeim í okkur og líklega sjá eftir sumum þeirra.
4*
Skyrjarmur
Svakalega skemmtilegur drykkur þó hann minni í rauninni ekkert á bjór, maður gæti alveg hrúgað svona í sig yfir eftirréttinum á jólahlaðborði - hann er léttur og bragðgóður og hefur þetta je ne sais quoi sem Hera Björk var að tala um í júróvisjónslagaranum sínum. Við tökum með í reikninginn að þessi drykkur kom inn af vinstri kanti nokkuð óvænt í fyrra og hefur af þeim sökum ekki sama sucker punch núna en helvíti er hann ljúffengur.
4*
Steðji Halelúja Jólabjór
Neeeeei, þetta er ekki áhugavert. Óspennandi bjór í alla staði, enginn hátíðarbragur, bara einhver smá karamella, Costco-maltbragð og tilfinningin að þú hefðir átt að senda fleira fólki jólakort. Það er þannig að fyrir fólk sem vill ekki að jólabjórinn sé of afgerandi væri þessi alveg kjörinn, því hann er bara frekar boring.
1 1/2*
Jólabjór ársins 2019 að mati Feitabjarnar, Koppa-Krissa og Immagaddusar er.....
Bjúgnakrækir
Loksins, loksins, loksins! Speki Feitabjarnar um að pale ale sé ekki jólalegur bjór er hér rekin lóðbeint ofan í kokið á honum. Hann vill hvorki neita því né staðfesta að honum þyki það gott. En bjórinn er algjör jólaveisla. Þetta er tilfinningin þegar einhver sem þú elskar meira en allt kemur þér brjálæðislega á óvart með jólagjöf sem þú hafðir ekki þorað að óska þér, jafnvel hafðir ekki komið í orð að þig langaði í. Þetta er tilfinningin þegar þú hefur staðið í lappirnar síðan tíu í morgun að bjástra við kalkúninn, strauja dúkinn, taka á móti gestunum, laumast í og úr jólasveinabúningnum, bera fram konfektið og koma krökkunum í rúmið, getur svo loksins sest niður og svalað þorstanum, hugsandi DJÖFULL á ég þetta nú skilið! Þetta er mómentið þegar það er hálf mínúta í að jólaklukkurnar hringi inn jólin í útvarpinu og þú stelst til að sturta í þig einum úrvalsgóðum og ísköldum bjór. Þetta er í senn tandurhreint og drulluskítuugt, frískandi ávaxtakeimur en um leið fjarlægt hint af reyk. Bjúgun sem var stolið voru auðvitað ljúffengari en nokkur bjúgu sem þú hefur smakkað og eftir að hafa sportrennt þeim er þetta akkúrat bjórinn til að slökkva þorstann.
Ummæli
kveðja
Stefán Hrafn