Mosi frændi vekur hörð viðbrögð

Síðan í menntó hef ég verið hluti af hljómsveit sem kallar sig því óvenjulega nafni Mosi frændi. Sumum finnst gaman að okkur og við náðum því sem fáum hefur tekist, að gefa sjálfir út lag og koma því í mikla útvarpsspilun og á vinsældalista, þegar tveir útgáfurisar voru nær einráðir á markaðnum og hleyptu bara þeim að sem voru "líklegir til vinsælda" - sem við vorum pottþétt ekki.

Lagið var gefið út á lítilli plötu sem er uppseld í dag og eintök skipta höndum fyrir frekar háar fjárhæðir á safnarasíðum.

Áratugum síðar gerðist það svo óvænt að gerð var netkönnun um hver væri besta smáskífa íslensku rokksögunnar. Nokkur hundruð manns tóku þátt og við sigruðum afgerandi. Spáðu í mig með Megasi var í öðru sæti. Spáðu í það!

En við höfðum líka alltaf einhvern veginn lag á að fara í taugarnar á fólki. Þóttum ekki nógu flinkir á hljóðfærin, vera með ágætar hugmyndir en ekki ráða við að útfæra þær, eiga okkur óraunhæfa drauma um vinsældir miðað við hvað við værum lélegir... og þannig mætti áfram telja.

Hér eru nokkur dæmi um það sem fólk hefur skrifað um okkur í fjölmiðla í gegnum tíðina. Þetta eru bara dæmin um það þegar fólk fann okkur allt til foráttu. Kannski verður seinna gerð samatekt á því þegar fólk var ánægt, hver veit?


Þjóðviljinn 6. desember 1987. Ævar Örn Jósepsson skrifar:

Eftir nokkra bið og annað vatnsglas stigu á stokk sjö ungmenni í ungmennafélaginu Mosi frændi. Lítillega hefur verið minnst á þann félagsskap á þessum síðum áður, en þá hafði ég aldrei séð þá í sínu rétta umhverfi. Það er skemmst frá því að segja að framganga þeirra var öll hin vasklegasta og ungmennafélagshreyfingunni til mikils sóma. Enginn þessara drengja virtist öðrum fremri hvað hljóðfæraleik snerti, nema ef vera skyldi trommarinn, og á- réttuðu þeir þannig mottó ungmennafélaganna um land allt; sigurinn er aukaatriði, það sem mestu skiptir er að vera með ... Og það voru þeir svo sannarlega. Margir helstu slagarar undangenginna ára, þeir sem hvað best hafa gengið á dansæfingum hreyfingarinnar, voru spilaðir af mikilli innlifun og tilfinningu svo unun var á að hlýða. Eða horfa öllu heldur. Því Mosi er mikiðfyrir augað, eiginlega meira fyrir augað en eyrað. En það er annað mál. Fyrir utan nokkra misheppnaða og barnalega neðanmittisbrandara voru þeir alveg bráðfyndnir og skemmtilegir. Minntu mig helst á þá tíð þegar ég eyddi verslunarmannahelgum mínum í Galtalækjarskógi. Eg er satt að segja sannfærður um að piltungar þessir eru framarlega í flokki Félags siðgæðis- og áfengisverndaráhugamanna í M.H.

Morgunblaðið 3. mars 1988. Ari Eldon skrifar:

Lokaatriði kvöldsins var drengjaflokkurinn Mosi frændi. Flokkurinn framkallaði með hljóð- færum sinum leiðan gný sem skar í eyru. Mosi frændi er ágætt nafn á hóp sem flytur nær eingöngu tónlist, eða tómlist, eftir hálf mosagróna tónlistarmenn og stóð þar ekkert uppúr. Þeir ættu að láta pað ógert að koma fram.

Þjóðviljinn 1. maí 1988. Rúnar Gestsson skrifar:

Hljómsveitin Katla kalda leikur popptónlist, oft kryddaða með gömlum íslenskum sveitaballa-slögurum. Aðal einkenni sveitarinnar er, að þeir kunna skemmtilega lítið að spila, ásanit því að vera frekar taktlausir. Allt þetta gerir hljómsveitina stöku sinnum frumlega og veldur því að maður brosir einstaka sinnum út í annað
Morgunblaðið 8. desember 1987. Árni Matthíasson skrifar:
Mosi frændi kom nú á svið með miklum fyrirgangi, enda voru sveitarmenn allir afkáralega klæddir og málaðir. Sveitin er sett saman til höfuðs öðrum hljómsveitum og poppstjörnuí- myndinni, sem er gott mál í sjálfu sér, en betra væri ef það hefði ekki skinið í gegn að með- limir Mosa frænda vildu ekkert frekar en verða stjörnur sjálfir. Aðal sveitarinnar er að leika lög eftir íslenskar poppstjörnur og erlendar og afskræma þau. Því til viðbótar lék sveitin eitt lag sem Violent Femmes lék inn á plötu og nú bar svo við að afskræmingin var ekki viljandi, heldur vegna getuleysis sveitarmanna. í því lagi, meðal annars, mátti glöggt greina hver draumur Mosa frænda er: að slá í gegn. Menn brostu að sveitinni í fyrsta laginu, brosið stirðnaði í því öðru og var horfið í því þriðja.

Morgunblaðið 10. maí 1988. Árni Matthíasson skrifar.

Fyrsta sveit á svið var Katla Kalda; sveit sem trauðla verður skilgreind. Segja má að Katla hafi hæglega skarað fram úr öðrum sveitum þetta kvöld hvað varðar frumleika í textum og tónlist, en úrvinnsla hugmynda var ekki eins góð. Þar stendur í veginum að enginn sveitarmanna virðist valda hljóðfæri sínu svo nokkru nemi. Þrátt fyrir þetta hefur Katla alla burði til þess að verða á meðal merkari neðansjávarsveita.


Fréttablaðið 2. nóvember 2010. Trausti Júlíusson skrifar:

Grámosinn gólar (snilldar titill!) er upptaka frá vel heppnuðum endurkomutónleikum hljómsveitarinnar Mosi frændi á Grand Rokki í fyrra. Sveitin tekur hér sín þekktustu lög (Ástin sigrar, Katla kalda (tvisvar hvort lag!), Geirþrúður …) auk slagara á borð við Wild Thing, Jenny Darling (Pelican), Sönn ást (Maggi Eiríks) og Poppstjarnan (Utangarðsmenn). Páll Óskar og Felix Bergsson heiðra sveitina með gestasöng. Þó að þessi plata eigi eingöngu erindi við heitustu aðdáendur Mosans þá er þessi útgáfa vel þegin!

Starafugl 1. nóvember 2017. Ingimar Bjarnason skrifar:

Nýlega kom út fyrsta breiðskífa hinnar fornfrægu pönkhljómsveitar Mosa frænda, Óbreytt ástand. Mosi frændi, sem er sjálfsagt þekktust fyrir lagið Katla kalda, lá lengi í dái en reis upp að nýju fyrir einhverjum árum síðan. Hljómsveitina skipa Aðalsteinn Þórólfsson (bassi og rödd), Ármann Halldórsson (trommur og söngur), Björn Gunnlaugsson (gítar, trommur, rödd og munnharpa), Gunnar Ólafur Hansson (hljómborð, básúna og söngur), Magnús J. Guðmundsson (gítar og söngur) og Sigurður H. Pálsson (söngur, gítar og klarinett). Meðlimir leggja flestir eitthvað til lagasmíða og svo eru tvær ábreiður að finna á plötunni. Upptökur voru í höndum Curvers Thoroddsens.  Einhvern tímann lýsti Björgvin Halldórsson því yfir að Sniglabandið væru Stuðmenn fátæka mannsins. Ef sú sýn hans stenst þá er Mosi frændi Stuðmenn öreigans. Það sem ég meina með því er að sem pönkhljómsveit, sem Mosi frændi þykist vera, er þessi hljómsveit í raun alveg handónýt. Þetta er hópur af gömlum menntskælingum sem hefur aldrei almennilega tekist að vaxa upp úr menntaskólahúmornum og telst frekar skemmtihljómsveit að upplagi, en geta bara ekki spilað eins vel eða samið jafngóð lög og Sniglar eða Stuðmenn.Þetta er hörð atlaga, ég geri mér grein fyrir því. En hún á rétt á sér. Mér er pönkið fyllsta alvara og mér finnst þessir gaukar ekki hafa neinn skilning á því hvað pönk er. Það skásta sem ég get sagt um Óbreytt ástand er að hún er sjálfsagt aðeins skárri en svanasöngur The Clash, Cut The Crap.Platan hefst svo sem þokkalega með laginu Ekkert hef ég lært. Textinn er ágætur og allt í lagi með þó óeftirminnilegt lagið. En strax í næsta lagi fara þeir alveg með það með því að gera framhald af Kötlu köldu þar sem Atli viðurkennir að vera sjálfur vinur sinn sem söng fyrra lagið. Nú er hann orðinn að illmenni sökum þess að Katla braut hjarta hans og stefnir á eyðileggingu heimsins. Hann er orðinn vondari en Voldemort og kaldari en Katla. Titillagið á ágæt móment, mér virðist það að nokkru byggt á lagi Neil Youngs, Cowgirl In The Sand en lagahöfundur bætir við sínum eigin hugmyndum sem stundum ganga upp og stundum ekki. Textinn er stundum góður og stundum ekki. Hann hefur talsvert til síns máls en svo hættir maður að trúa að þessum mönnum sé alvara með reiðinni þegar þeir ljúka laginu á því að vitna í auglýsingafrasa Jóhanns Péturs essasú. Andskotinn hafi það.Lögin Útrásavíkingurinn snýr aftur og Hanzki Kannski eru þannig gerð að manni dettur helst í hug að þar séu á ferðinni pönkparódíur. Í alvöru talað þá voru grínpönklög Ladda meira pönk en þetta. Það er skömm af þessu. Svo kemur meiri aulahúmor í titli lagsins Hversvegna eru stúlkur aldrei einar, Einar. Strákar þetta er ekkert fyndið. Verst finnst mér hvernig það er farið með ábreiðurnar tvær, Ó Reykjavík Vonbrigða og Creep Q4U. Málið er að ég get ekki verið viss um hvort þeim er alvara með meðferð sinni á lögunum eða ekki. Mér finnst alltaf hálfpartinn eins og þeir séu að grínast og mér hefur alltaf fundist mikilvægt að menn sýni verkum annara virðingu – annað er bara ódýrt flipp á kostnað annara, tónlistarlegt einelti kannski?Síðasta lag plötunnar, Prinsessan á Mars er líka besta lag hennar. Þ.e. þangað maður hlustar á textann. En hann er sunginn til einhvers sem höfundi þykir lítið til koma og til að styrkja þá skoðun sína bendir hann þeim sem hann hatar svo á að draumadísin hans kjósi frekar að vera með einhverjum sænskum ræfli með lítið typpi sem rétt passar í þrönga píkuna hennar. Ja hérna. Maður á bágt með að trúa að hér séu á ferð menn um fimmtugt.Mér finnst rosalega leiðinlegt að þurfa að skrifa svona neikvætt um þessa plötu. Mig langaði mikið til að þetta væri góð plata. Eintakið mitt af Kötlu köldu var ein af fáum vínylplötum sem komu með mér þegar ég flutti yfir hafið, þó þetta væri léttvægt lag þá bara gat ég ekki látið hana frá mér. En svona er þetta stundum og maður fær ekki alltaf það sem maður vill. Þrátt fyrir nokkrar ágætar hugmyndir nær Mosi frændi ekki að gera úr efniviðnum góða plötu og það skrifast helst á leiðinda grín sem verður til þess að hlustandinn getur alls ekki tekið hljómsveitina alvarlega.




Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu