22 nóvember 2016

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2016Það er sagt að hlutur sé orðinn að hefð þegar þú veist ekki lengur hvernig hann byrjaði. Ég get tekið undir það, því ég var hissa að finna í minningafídusnum á feisbúkk að ég hef sett þar inn umsagnir um jólabjóra árið 2009. Það kom mér á óvart, ég hélt ekki að ég hefði verið að þessu svona lengi. Satt best að segja veit ég ekki einu sinni hvort þetta var fyrsta tilraun sem ég fann þarna. Hefð skal það sem sagt heita og ég veit að fámennur en hundtryggur hópur lesenda bíður í ofvæni eftir pistlinum á hverju ári.

Á þessum árum hefur jólabjórgerð nánast orðið að einhverri báknkenndri stofnun. Fyrir ekki svo mörgum árum voru fáar tegundir í boði, ég man eftir að hafa býsnast yfir tölunni átján og fundist úrvalið vera orðið mikið. Núna eru hátt í fimmtíu jólabjórar í boði, sem er aukning frá síðasta ári. Mér er ennþá illt í lifrinni eftir jólabjórsmakk síðasta árs, enda þurfti ég þá að þræla mér einn og óstuddur í gegnum þetta þjóðþrifaverk vegna veikinda míns vanalega makkers. Hann hefur eflaust haft gott af að hvíla lifrina því hann var mættur til leiks í ár, tvíefldur og eiturhress. Það kom á daginn að það er mjög gagnlegt að hafa félaga með sér til að skiptast á skoðunum, bera saman og spekúlera.

Feitibjörn er ekkert unglamb lengur og hvort sem það skýrist af áðurnefndu lifrarmeini eða bara aldrinum, þá óx mér í augum að ráðast á þetta bjórfjall sem nú er í boði. Let’s face it, það er nú varla hægt að meta fjörutíu bjórtegundir með vitrænum hætti á sama kvöldinu. Þannig að í ár var tekin ákvörðun – að smakka einungis íslenska framleiðslu. Dásamleg tilhugsun að þurfa ekki að ganga í gegnum þá raun að smakka útþynnt danskt piss í dós, svo maður segi nú bara alveg eins og er. Blár og hvítur Royal Xmas eru sem sagt ekki með í ár, enda var maður eiginlega orðinn uppiskroppa með líkingamál sem gæti lýst því hvílíkur viðbjóður var þar á ferð. Að sama skapi verður ekkert fjallað um snobbið frá Mikkeller eða To öl. Reyndar smakkaði ég einn frá þeim síðarnefndu, mér til gamans, nú í gærkvöldi og get upplýst að hann bragðast eins og mysa.

Íslensk bjórframleiðsla hefur tekið gríðarlegum framförum á fáum árum og því vel við hæfi að hampa henni sérstaklega á þessum vettvangi, alla vega upp að því marki sem bjórarnir gefa tilefni til að vera hampað. Það er gott jólabjórár í ár, margir ágætir bjórar og slatti af nýjungum. Hins vegar þarf enginn að ótttast, það er líka alveg slatti af hreinum viðbjóði, svo lesturinn verður engin halelújasamkoma. Jesús elskar samt jólabjór.

Í fyrra var breytt til og hætt að smakka blint, sem virtist ekki hafa nein áhrif á niðurstöðurnar. Því var ákveðið að  hafa sama háttinn á, að bera fram einn bjór í einu með öllum upplýsingum um áfengismagn og verð, auk þess að geta virt fyrir sér flöskuna og spáð í hluti eins og framsetningu og grafíska hönnun. Reynt var að hafa aldrei of líka bjóra hvern á eftir öðrum. Allar tegundir voru keyptar í gleri og bornar fram í víðum bjórglösum til að lyktin fengi að njóta sín. Um það bil hálfri flösku var skipt í tvö glös til smökkunar en restin var sett til hliðar og geymd þangað til búið var að smakka allar tegundir og skrá niðurstöður. Þá var hægt að prófa aftur til staðfestingar og við það tækifæri voru um sex tegundir dæmdar nægilega vondar til að vera hellt í vaskinn án frekari smökkunar. En drífum nú í þessu:

Askasleikir (5,8% - 494kr)
Jájájájá, þetta byrjar bara helvíti vel. Askasleikir ber nafn með rentu því það er pínu reykjar- eða öskukeimur af bjórnum, sem lætur ekki mikið yfir sér til að byrja með en svo allt í einu blossar upp mjög hressandi bragð sem kemur manni í opna skjöldu eins og ókunnug manneskja vindi sér að manni  gamlárspartýi og reki tunguna upp í mann. Svo er það hins vegar búið. Eftirbragðið er dauft og bjórinn skilur ekkert eftir sig, frekar en sleikurinn.
3,5 *

Thule jólabjór (5,4% - 359kr)
Ég hef enn ekki áttað mig á tilganginum með Thule jólabjór. Af íslenskum lagerbjórum er Thule í raun einn sá skársti og því botna ég ekkert í því að reynt sé að sverta (geddit?) ímynd hans með vondum vörum sem bera sama nafn. Thule jólabjór er léleg eftirlíking af Tuborg jólabjór á margan hátt. Hann er verri á bragðið, inniheldur minna áfengi, er í ljótari umbúðum og tuttugu krónum ódýrari. Gerist ekki meira pointless. Óspennandi í alla staði.
1 *

Viking Yule Bock (6,2% - 429kr)
Bockinn hefur verið óútreiknanlegur jólabjór, stundum fínn en þess á milli alveg hroðalega misheppnaður. Núna er búið að gefa honum útlistyfirhalningu í stíl við frekar vanhugsaða tilraun Vífilfells til að láta sullið sitt líta út fyrir að vera vandaðra en það er. Þá á ég við að á þessu ári hafa komið á markaðinn nokkrar tegundir af Viking bjór með erlendum nöfnum í litríkum umbúðum sem virðast eiga að láta mann halda að hér sé á ferðinni nýtt míkróbrugg. Allt vont, trust me. Jólabock heitir sem sagt núna Yule Bock og er með röndóttan miða sem minnir á búningana hjá Stoke City. Maður veit ekki við hverju á að búast, verður þetta Atletico Madrid eða Sunderland? Jú, viti menn! Í ár er hann mjög góður, hlý og notaleg tilfinning með karamellukeim og vott af biturleika eins og ljóð í menntaskólablaði.
3,5 *

Boli Doppelbock (7,5% - 459kr)
Magnþrunginn ilmur úr glasinu, sterkt bragð eins og af brenndu flaueli. Áfengismagnið er töluvert svo það er eins og hestur slái mann í hausinn en það kemur ekki að sök því hesturinn er á flókainniskóm svo höggið er mjúkt og notalegt. Tilfinningin að vakna um morgun eftir að hafa sporðrennt þremur svona er hins vegar hvorki mjúk né notaleg en það er ekki það sem við erum að ræða hér. Við erum að ræða það að Boli er með betri jólabjórum ársins, munnfylli af nammi.
4 * 

Tuborg Julebryg (5,6% - 379kr)
Nú er kannski einhver hissa en ég komst sem sagt að því þegar grannt var skoðað að þessi bjór er íslensk framleiðsla og búinn til í Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Ætli það hafi verið þannig lengi? Kannski er hér komin skýring á tilvist Thule jólabjórsins, að vera svar Vífilfells við þessu drasli, hver veit? Sá dansk-íslenski er að þessu sinni seldur í blálitum glerflöskum, sem geta eflaust orðið ágætis kertastjakar heima hjá kjósendum Viðreisnar. Bjórinn sjálfur er tíðindalítill með afbrigðum, smá sætur keimur í fyrsta sopa sem á hins vegar ekki afturkvæmt og restin af bjórnum fer eiginlega framhjá manni.
1,5 *

Giljagaur (10% - 777kr)
Það er næstum því glæpsamlega ósanngjarnt að vera látinn opna flösku af Giljagaur, smakka hann og setja hann svo til hliðar og fara að drekka eitthvað annað. Dásamlegur bjór, betri en fótanudd og fatapóker til samans. Stefán Máni á frábæran sprett í einhverri bókinni sinni þegar hann segir frá tilraun fyllibyttu til að ná tökum á drykkjunni með því að drekka alltaf bara helminginn af hverjum bjór og hella restinni. Sú tilraun endar kostulega þegar byttan klárar óvart fimmta bjórinn og fer samstundis á barin og heimtar bjór, skot og sígarettupakka. Nú efast ég um að ég muni nokkurn tímann prófa þetta en ef ég geri það vil ég Giljagaur þegar ég fell.
4,5 *

Jólagull (5,4% - 369kr)
Ekki er það nú merkilegt. Einhvern veginn hélt ég að jafnvel svona bjórlíkisverksmiðja myndi að minnsta kosti reyna að lesa eins og einn IKEA-bækling til að fara í smá jólastemmningu en því er ekki að heilsa. Lyktarlítill, bragðlitill og áhugalítill eru orð sem lýsa þessu fyrirbæri ágætlega. Það væri sennilega hægt að hella þessu í jólatrésfótinn án þess að trénu yrði meint af.
0,5 *

Steðji Almáttugur jólaöl (5,7% - 458kr)
Það er undiralda í þessum bjór. Fyrir tveimur árum kom hann svo sterkur inn að Feitibjörn valdi hann besta jólabjórinn og svo voru keyptar heilmiklar birgðir. Hann var hins vegar svo afgerandi að undir það síðasta fannst mér hann bara vondur. Leist ekkert á hann í fyrra. Hann hefur ennþá þennan lúmska lakkrískeim en hann er alls ekki jafn yfirþyrmandi og því finnst manni hann bara hið besta mál. Gæti alveg slafrað einum í sig með jólamatnum og jafnvel öðrum í desert. Svona voða hófstilltum og penn orðinn. Samt. Maður er hálfpartinn vantrúaður, eins og þegar frændi manns hefur farið í fjórðu meðferðina og gengur svona rosa vel. Maður er bara að bíða eftir að hann fari aftur að sýna sitt rétta andlit.
3 *

Jóla Kaldi (5,4% - 389kr)
Nei og aftur nei! Misheppnuð vonbrigði! Það þýðir ekki að lifa á fornri frægð. Algjörlega vonlaus jólabjór. Sko: Maður vill helst að jólabjór heilsi manni fjórum sinnum, með ilmi, fyrsta bragði, aðalbragði og eftirbragði. Þessi fer beint í aðalbragðið. Og það er vont. Og lifir lengi. Allt of lengi. Skammarlegt.
0 *

Jóla Kaldi súkkulaði porter (6,5% - 453kr)
Ég er ekki svo góður með mig að ég viðurkenni ekki mistök, þótt ég sé óumdeilanlega mesti jólabjórsérfræðingur sem Ísland hefur alið. Þannig varð mér það á í fyrra að dæma þennan súkkulaðisnúð fullharkalega fyrir að standast ekki mínar ýtrustu væntingar, sem auðvitað voru allt of miklar. Mér barst ábending frá góðum vini þess efnis að ef til vill ætti ég að huga að hitastigi bjórsins, porter ætti ekki að drekka of kaldan. Og viti menn, við 7-8°C snarskánaði hann og mér fannst hann svo góður að ég endaði með því að drekka einhverja 30-40 svona á aðventunni í fyrra. Nú í ár ætlaði ég ekki að gera sömu mistök og passaði mig að taka hann snemma úr kæliskápnum svo hann yrði alveg við kjöraðstæður, nú yrði hann sko góður og jösses hvað ég peppaði mig upp í væntingum...... sem hann stóð svo auðvitað ekki undir.
Í stuttu máli er hann aðeins of léttur, vantar aðeins uppá fyllinguna og boddíið. alls ekki vondur bjór en nær ekki að uppfylla mínar ströngustu kröfur. Heyrðu, bíddu aðeins...!
2 *

Fagnaðarerindið (6,5% - 1498kr)
Ókei, fyrir það fyrsta þá er svindl að setja bjór í 750cl flösku. Allir vita að þegar maður er kominn ofan í botn í einni slíkri þá er manni farið að finnast bjórinn góður, sama hvers konar sull hann er. En gefum þessu séns. Bryggjan brugghús er fínasti bar og þar er bruggaður fínasti bjór. Myndi ekki tíma að borða þar en það er ekki til umræðu hér. Maður fagnaði því að þessi nýherji á markaði ætlaði að marka sér sess og það verður að gefa þeim að bjórinn kemur að mörgu leyti skemmtilega á óvart. Eiginlega kemur hann fáránlega sterkur inn í fyrstu, með miklu bragðlaukakitli í allar áttir og ilmi sem heldur manni spenntum. Bara alger hugljómun, en því miður fellur hann á því að freyða fullmikið (kannski nauðsyn í stóru flöskunni, hver veit?) og fær við það hálfsápukennt yfirbragð. Einnig vantar soldið jólastemmningu í bragðlaukakitlið. Fínn bjór samt, allavega þegar maður er langt kominn með hann. Hikk!
3,5 *

Viking jólabjór (5% - 335kr)
Vitið þið hvað, þetta er bara alveg í lagi. Ekkert sérlega áhugaverður, en bara þokkalega vel heppnaður fjöldaframleiðslujólabjór. Hann sneiðir hjá skítaremmubragðinu sem einkennir Tuborg og Thule, en er ekki jafnbragðlaus og Jólagull (enda þyrfti hann þá í rauninni að vera vatnsglas) - þannig að þetta sleppur eiginlega alveg. Þokkalega frambærilegur bjór, sem myndi fá B mínus í nýju námsmati grunnskóla. Ég hugsa að ég muni kaupa slatta af þessum handa konunni minni, sem er alls ekki sama snobbhænsnið og ég í bjórmálum og finnst krefjandi bjórar bara rugl.
2,5 *

Heims um bjór (5% - 439kr)
Hvað er málið með Selfoss? Ef góður jólabjór er John Grant eða Leonard Cohen þá er þessi svarið við spurningunni hvað færðu út ef þú parar saman Einar Ágúst og Ingó veðurguð. Hér hefur verið veðjað á hnetukeim til að búa til jólastemmninguna en því miður hefur einhver ruglast í innkaupum og keypt allt of mikið af heslihnetum þegar möndlur hefðu verið málið. Svo er heitið á bjórnum alveg kapítuli út af fyrir sig. Hvers konar orðaflipp á þetta að fyrirstilla? Heims um fokking bjór? Sorrí, en það er ekki að gera sig. Þessi bjór liggur meinvillímyrkrunum í mínum bókum.
0,5 *

24 (10% - 789kr)
For helvede, nú fer ég bara að verða reiður. Selfoss aftur og nú skortir ekki metnaðinn, það á að reyna sig við byggvín (eins og Giljagaur) en hér er kappið svo sannarlega að bera fegurðina ofurliði. Þetta lyktar og bragðast allt of furðulega, minnir helst á kryddjurtablöndu sem keypt er í Tiger eða ilmolíu úr 1001 nótt sem stelpur notuðu í gamla daga í staðinn fyrir ilmvatn. Alveg hrikalega rangt í öllum skilningi. Að drekka þennan bjór er eins og að fara niður á hippastelpu sem aldrei hefur skipt um nærbuxur á ævinni.
1 *

Einstök Doppelbock (6,7% - 469kr)
Ómægodómægodómægodómægodómægodómægodómægod þetta er allt annað! Unaðslega góður og skemmtilega krefjandi bjór sem slær mann á kinnarnar til skiptis eins og fisksalinn í Ástríksbókunum. Fyrsta bragðið fær mann til að langa til að syngja eins og Óðríkur Algaula og svo kemur næsta bylgja í hausinn á manni eins og Steinríkur dúndri mann með bautasteini. Sæluvíman sem hellist yfir mann jafnast á við besta galdraseyði Sjóðríks... you get the picture. Alveg stórkostlega góður bjór eins og ævinlega. Einstök er í mínum huga kannski pínu vanmetið brugghús því Gæðingur býr til betri IPA og Borg býr til betri dökkan bjór, en hvorugt þeirra hefur nokkurn tíma komist með tærnar þar sem Einstök hefur hælana þegar kemur að jólabjórgerð.
4,5 *

Steðji Frelsarinn (5,6% - 393kr)
Það er eitthvað við Steðja sem ég treysti ekki. Er hvalasæði í bjórnum? Mun hann læðast aftan að mér og hefna sín grimmilega fyrir eitthvað sem ég gerði ekki? Af hverju er miðinn svona skærlitaður og hvað er jarðarberjabjór? Þannig að ég nálgast þennan nýja jólabjór þeirra með ugg í hjarta. En kemst svo að því að hann er eiginlega frekar óspes. Ljós bjór í grunninn, sem er alltaf slæm hugmynd í jólabjórgerð, en þó kryddaður eins og um væri að ræða dökkan jólabjór dauðans - negull, kanill og allt sem því fylgir. Gallinn er að ljósi bjórinn nær ekki að bera þessa kryddviðbót, svo hann nær ekki að heilla.
1 *

Egils Malt jólabjór (5,6% - 389kr)
Ömmuknús. Jólapeysa. Kattartungur. Sveskjuterta. Möndlugrautur. Þorláksmessa. Borgardætur. Skinkuhorn. Englahár. Jólaandakt. Skrítna pappahúsið hulið bómullarsnjó með rauðri ljósaperu inní sem var notað sem jólaskraut á æskuheimili mínu. Hefðir eru fallegar. Jólamalt: Ég hef elskað þig frá okkar fyrstu kynnum.
3,5 *

Segull 67 jólabjór (5,4% - 399kr)
Siglfirðingar ríða nú á vaðið með sinn fyrsta jólabjór og tekst bara bærilega upp, en kannski ekkert mikið meira en það. Hann er vel samsettur, með góðri froðu og fyllingu og alveg prýðilega drekkanlegur, en bragðið er ekki alveg nógu fjölskrúðugt, eiginlega frekar einhæft. Þokkalegasta öl en hefði alveg mátt setja töluvert meiri metnað í uppskriftina.
2,5 *

Jólabjór ársins 2016 að mati Feitabjarnar:


Einstök Winter Ale (8% - 888kr)
Látið ekki verðið fæla ykkur frá því þessi kemur í hálfslítraflöskum. Og jeremías minn hvað hann er góður. Það er eins og sjálfur prófessorinn, forsöngvarinn í Funkstrasse, grípi mann uforvarendes og dragi mann út á dansgólf á ruddalegan en í senn æsandi hátt. Eða eins og maður sé allt í einu kúrandi í sófanum klæddur í slopp sem ástvinur er nýbúinn að gefa manni í jólagjöf, með fangið fullt af konfektmolum með framandi útliti. Sá fyrsti bragðast eins og hunang, sá næsti eins og jólatré og sá þriðji eins og þrjátíu ára gamalt viskí. Allt í einu er búið að kveikja á kerti á sófaborðinu. Einhver hellir smá djús yfir ís. Þetta gæti orðið erfið nótt.
Gleðileg jól öll sömul!
5 *

Engin ummæli: