Jólabjórrýni Feitabjarnar 2014


Almáttugur, hvað þetta var erfitt! 

Ég hef áður gert það að umtalsefni hversu fórnfús ég sé að leggja á mig þetta erfiði, að þræla mér í gegnum alla jólabjórana svo þið, kæru vinir, þurfið ekki að verða fyrir vonbrigðum eftir ferð í ríkið eða ef þið freistist til að kíkja á pöbbann í jólainnkaupunum.

En þetta hefur aldrei verið jafn krefjandi verkefni og nú í ár. Síðastliðin tvö ár hafa jólabjórarnir sem ná inn í rýni hjá mér (útskýri reglur eftir smá) verið átján talsins en núna í ár voru þeir tuttugu og fjórir. Eins gott að ég fékk ríflega skuldaleiðréttingu, þótt ég skuldi varla neitt!

Svo ég útskýri aðeins nánar: til þess að komast í bjórrýni hjá mér þarf bjórinn að vera fáanlegur í þeirri vínbúð sem ég kýs að heimsækja daginn sem ég ákveð að kýla á þessa smökkun. Svo vildi til að á föstudaginn var átti ég leið framhjá lítilsigldri vínbúið við Borgartún og sá að þar var verið að raða bjórum í hillur. Ég rak inn nefið til að telja og þóttist ég sjá fjórtán tegundir. Spurði út í eina eða tvær sem ég saknaði og fékk þau svör að þær væru uppseldar - eftir að hafa komið í hús þann sama morgun! 

Leiðin lá þessvegna út á Eiðistorg þar sem ég fékk báðar þessar uppseldu tegundir og keypti þess vegna allar sem til voru og kom heim með sautján sortir. Enn fannst mér eina vanta svo ég hringdi upp í Heiðrúnu og fékk þar einstaklega góða þjónustu í gegnum síma, upplýsingar um hvaða sortir væru til og hvernig ég gæti tjekkað á birgðastöðu á laugardagsmorgni til að fara nú örugglega í rétta búð til að nálgast það sem upp á vantaði. Með dyggri aðstoð sex ára dóttur minnar Gullu (hún þarf að æfa sig að skrifa tölustafina, fyrir skólann!) útbjó ég dálítið handskrifað excelskjalslíki og samkvæmt því var öruggasti kostur að bruna í Kringluna. Þar gat ég nálgast sjö sortir til viðbótar og þá var ekki annað en að kalla til minn trausta makker og vinda sér í þetta.

Auk þess ljáði elskuleg eiginkona mín okkur hjálparhönd með því að skenkja bjórunum í handahófskenndri röð, fjórum í einu, svo við höfðum aldrei minnstu hugmynd um hvað við vorum að smakka. Og það hafði fáein óvænt úrslit í för með sér. Síðast voru bjórar smakkaðir þrír í senn og alltaf áþekkir saman, en nú voru þeir gjörólíkir í hverju holli.

Áður en hafist er handa við hina eiginlegu stjörnugjöf er rétt að útlista aðeins hvað góður jólabjór þarf að hafa til að bera að mínu mati til að geta hlotið náð. Í fyrsta lagi þarf hann að vera öðruvísi en það sull sem maður drekkur dags daglega. Nú hef ég á seinni misserum nánast alveg hætt að drekka venjulegan lagerbjór og er orðinn hálfgerður IPA-hipster en jólabjór þarf að mínu mati að skera sig úr og vera soldið hátíðlegur. Bragðbæting má alveg bera keim af einhverju sem maður tengir jólum: sítrusávextir, kanill, negull, reykur og þess háttar. Svo er ekki verra að bjórinn sé áfengismeiri en það sem maður á að venjast, til að fleyta manni í gegnum sárasta skammdegið, en þetta er vandmeðfarið, því það má ekki bara vera spírabragð af bjórnum.

Það sem var einna ánægjulegast við bjórsmökkunina í ár var að óvenju margir bjórar voru virkilega, virkilega góðir, þannig að ekki örvænta þótt einhver sort seljist upp. Alls voru fimm bjórar sem hefðu fyllilega getað staðið uppi sem jólabjór ársins, sá besti verður nefndur í lokin en hinir eru rauðmerktir sérstaklega í þessari... löngu upptalningu sem nú hefur allt of langan inngang. Og sæt i gang!



Thule jólabjór - (5,4%, 385 kr)  
Ekki byrjar það neitt sérstaklega vel. Bjórinn sem reynir að líta út eins og Tuborg, með þeim afleiðingum að menn taka feil í ríkinu og fara með málið í fjölmiðla. Hann er ekki sérlega spennandi, rétt svo kannski fyrsti sopinn sem er sæmilegur, það er lítil lykt, smá sítrusbragð og sætur keimur en svo bara leiðindi. Auk þess er hann í stórri dós, sem mun seint hafa góð áhrif á bragðið. 
1,5*


Harboe Julebryg - (5,7%, 269 kr) 
Fyrsti sopinn af þessum bjór framkallaði smá panik: Er ég búinn að missa bragðskynið? Hann er eiginlega nákvæmlega eins og sá fyrrnefndi (Thule, þeir eru hér settir fram í sömu röð og þeir voru smakkaðir) svona pínu ferskur í byrjun, málmbragð af dósinni, en verður strax bragðlítill og óintressant, 1,5*


Einstök Doppel Bock - (6,7%, 439 kr) 
Nú erum við að dansa. Það er sem sagt ekkert að mér, heldur voru þetta bara svona dæmalaust glataðir bjórar sem riðu á vaðið í ár. Þetta er einn þeirra sem hefði alveg getað unnið á hvaða ári sem er en eins og áður segir er gott jólabjórár í ár. Hér er allt til staðar: góð lykt, mikil fylling í bragðinu, rammt eftirbragð, mann langar strax í annan og þessi kemur manni í jólabjórskapið, engir flugeldar en mjög góður eins og endranær.
4,5*


Ölvisholt jólabjór - (5%, 439 kr) 
Nei hættu nú alveg! Síðustu tvö ár hef ég skammast yfir því að þessu ágæta brugghúsi hafi ekki tekist að búa til sannan jólabjór, þeir hafa veriði óspennandi og einhvern veginn vantað allan neista. En það þýðir ekki að rjúka bara í kryddhilluna í Tiger og hrúga bara einhverju út í bruggið! Það er af þessu skrýtið blómabragð og lykt, sem samt virkar ekki ekta. Og jólabjór á ekki að bragðast eins og gerviblóm. 
2*


Föröya jólabryggj - (5,8%, 365 kr) 
Frændur vorir hafa tekið það til sín sem ég benti þeim á fyrir tveimur árum og vanda sig nú betur eftir að hafa hreinlega sleppt því að senda okkur jólabjór í fyrra. Nú er hann bara þokkalegur, sætt bragð sem minnir á amerískt cream soda, það er alveg hægt að drekka nokkra svona, frambærilegt kæru frændur. Mættuð samt alveg hugsa þennan miða með jólastjörnunni aðeins betur.
2,5*


Santa paws - (4,5%, 444 kr) 
Bretinn hefur nú ekki mikið verið að ota sínum tota á jólabjórmarkaðnum fram að þessu, enda vita allir að matar- og drykkjusiðir þeirrar þjóðar meika ekki nokkurn sens. En viti menn! Hér er eitthvað sem gengur upp, bragðið er pínulítið eins og ensk jólakaka með þurrkuðum ávöxtum, svo er keimur sem minnir á marzípan og möndlur, bara nokkuð góður bjór sem maður gæti sötrað með konfektinu milli jóla og nýjárs,
3*


Snowball saison - (8%, 865 kr)  
Hér er annar sem ég hélt að hlyti að vera breskur en í ljós kom að hann er frá Danaveldi. Harla óvenjulegur bjór og ekki vondur, smáskýjaður og með berjabragði, það er líka smá IPA keimur, bleikt greipaldin og beiskt eftirbragði, fínasti bjór en það sem verður honum að falli (fyrir utan verðið) er að hann er ekki sérlega jólalegur  
3*


Tuborg Christmas Brew - (5,6%, 369 kr) 
Svona getur gerst þegar maður veit ekki hvað maður er að drekka. Yfirleitt þamba ég marga svona á hverri aðventu í danska barnum en við blindsmökkun reyndist hann í einu orði sagt ömurlegur. Kannski er maður bara orðinn svona samdauna lyktinni á þeirri ágætu búllu. Fyrstu kynni af þessum bjór eru nefnilega sú að hann lyktar eins og pissubleia. Svo smakkar maður og þetta er bara vont, Ekki vont-gott, heldur bara vont-vont.
0,5*


Albani - (7%, 329 kr) 
Þessi leynir á sér, en ekki á góðan hátt .Hann er rosalega dökkur á lit þannig að maður heldur að nú komi eitthvað trít en bragðið því miður bara fúlt eins og staðið vatn í skúringafötu eftir subbulegt partí. Áferðin á bjórnum og froðan minnir á sápu og í ofanálag er eins og bjórinn klessist við góminn. Alls ekki spes. 
1*


Viking Jóla Bock - (6,2%, 419 kr)
Æjjji, það munaði einhver veginn svo litlu en bokkanum mistekst að þessu sinni. Fyrst virðist allt vera eins og það á að vera, reykjarlykt og fallegur litur og bragðið lofar góðu, en það er bara fyrsti sopinn. Maður er eiginlega ekki einu sinni búinn að kyngja honum þegar efasemdirnar vakna. Bíddu, var þetta eitthvað almennilegt? Eða er þetta bara bjór sem langar svo voða, voða mikið að vera jólabjór að maður fellur fyrir ákafanum? Sorrý, gengur kannski betur næst.
2*


Mikkeller Hoppy Christmas - (7,8%, 881 kr) 
Oj bara! Þetta er í fyrsta lagi enginn jólabjór, veit ekki alveg hvað þetta er en það er ekki átta hundruð áttatíu og einnar krónu virði. Þetta er skýjað á lit og reynir að líta út og bragðast eins og sumaröl en er bara vont, fullt af alls konar bragðtegundum í alls konar litum en þetta er regnbogi ljótleikans og vonbrigðanna.
0*


Viking jólabjór - (5%, 319 kr) 
Ja hérna hér, hvað getur maður sagt um svona sull. Hann leynir á sér, sem betur fer því hann lyktar ekki neitt, virkar goslaus og flatur við fyrstu sýn en reynist síðan gosmikill og hressandi og léttur. Þannig hafa litlar væntingar platað mann til að halda að þetta sé í lagi. Bragðið reynir eitthvað smá að höfða til manns en endar samt á frekar slöppu eftirbragði.
2*


Royal xmas white - (5,6%, 279 kr)  
For helvede! Þetta byrjar á lykt sem einna helst er eins og smábarn hafi borðað stóran blámygluost og skitið honum beint í glasið, þessi bjór lofar ekki góðu og stendur við hvert orð. Einhvers staðar þarna í bakgrunninum er bragð af heslihnetu en það er ekki bragðið af sjálfri hnetunni heldur muldum skeljum sem notaðar eru í gervibragðefni. Hvenær ætla ég eiginlega að hætta að kaupa og smakka þennan bjór á hverju ári?
0*


Egils malt jólabjór - (5,6%, 329 kr) 
Ó hvað þetta er mikill munur! hann lætur ekki mikið yfir sér í glasinu, lítil lykt, lítið gos, en hann er mjööög smúúúþ. Ekta jólastemmning eins og þjóðin hefur viljað hafa það síðan Framsóknarflokkurinn var stofnaður. Þessi bjór passar jafnvel með hangikjöti, harðfiski og hamborgarhrygg með ananassneiðum - þá myndi maður líklega setja dropa af Mix út í. Passar líka með sætindum, myndi bragðast vel með súkkulaðiköku, má ég fá meira takk! Þessi ágæti jólabjór hefði alveg getað sómt sér vel sem jólabjór ársins, en ég endurtek, óvenju gott ár í ár.
4,5*


Steðji jólabjór - (5,3%, 392 kr)  
Svei mér, þessi er bara skrambi góður líka - hann er ljós að lit en minnir á bragð af bjór sem væri dekkri en þessi og það er eitthvert nammibragð þarna á bakvið sem er erfitt að festa fingur á. Skemmtilega óvenjulegur bjór og sker sig úr, maður gæti alveg slátrað nokkrum svona.
3,5*


Jóla Kaldi - (5,4%, 410 kr) 
Vinir mínir á Árskógssandi hafa því miður verið á niðurleið með jólabjórinn sinn undanfarin ár, þótt aðrir bjórar frá þeim svíki ekki. Þessi er afar óspennandi, með sama sítrusbragðinu og allir hinir keyrslubjórarnir (Viking, Gull og Thule), frekar slappt eftirbragð sem skilur bara eftir einhverja minniháttar beiskju, eins og maður hafi týnt debetkortinu sínu.
1,5*


Hoppy Christmas - (7,2%, 740 kr)  
Annar bjór frá sama brugghúsi og áðurnefndur Santa paws en þessi ríður ekki feitum hesti frá jólunum í ár. Það er gríðarlega sterk lykt af spíra og bragðið eftir því - minnir á eftirsjáanlegt kústaskápakelerí í vinnustaðapartíi og maður vill þetta aldrei aftur.
0,5*


Þvörusleikir - (7%, 636 kr) 
Svo er hægt að gera sterkan bjór sem meiðir mann ekki, Þvörusleikir hagar sér eins og sannur íslenskur jólasveinn og sparkar í mann eins og múlasni - áfengisbragðið er áberandi en ekki vont og það er nógu margt annað í gangi til að athyglin fari annað. Fjölskrúðugt bragð sem situr eftir sem brennd eik og alls konar, bara mjög góður bjór. Einu sinni enn: það er bara svo rosalega gott ár í ár, annars hefði þessi líklegast unnið.
4,5*


Jóli - (6,3%, 489 kr) 
Nei og aftur nei! Svona á ekki að fara að þessu. Eins og kryddhilluárásin í hinum Ölvisholtsbjórnum hafi verið kláruð og svo hafi fundist tvær kryddtegundir sem höfðu gleymst. Því miður eru þær ekki af hinu góða, mikill keimur af lakkrís en það er lakkrís sjálfs andskotans, svo er allt of mikill kanill og maður veit ekki hvort maður er staddur hjá tannlækni eða útfararstjóra.
0*


Jóla Gull - (5,4%, 359 kr) 
Af öllum þessum fjöldaframleiðslubjórum er líklegt að þessi hafi vinninginn þegar kemur að því að fylla á kælinn svona á hversdagsbasis heima hjá mér. Hann er alveg hinn þokkalegasti, smá málmbragð og karamella og ekki eins mikið að missa sig í sítrusinn eins og keppinautarnir frá Vífilfelli. Þetta fer svosem ekkert á jólakortalistann hjá manni en bara svona alltíkei bjór.  
2,5*


Royal xmas blue - (5,6%, 279 kr) 
Á dauða mínum átti ég von! Talandi um svona alltíkei bjóra þá er þessi akkúrat svoleiðis. Hann gerir svosem ekkert sérstakt en er samt ekki slæmur sem slíkur, inoffensive með smá epla keim og að mínu mati það besta sem komið hefur í lítilli útsöludós frá vinum okkar í Danmörku.
2*


Gæðingur jólabjór - (4,6%, 398 kr) 
Namminammi! Einn bjórinn enn sem hefði verið fullsæmdur af titlinum jólabjór ársins en gott ár og blablabla.... hann er dökkur og skýjaður, í bragðinu eru brennd eik og karamella, hann er kannski ekki alveg á pari með hinum rauðmerktu bjórunum en hefur það fram yfir þá að þrátt fyrir aðeins viðburðasnauðara bragð er hægt að drekka annan strax á eftir. Sem getur verið kostur.
4*


Red hook winterhook - (6%, 498 kr)  
Njeeeeh.... þessi er ekki alveg að gera sig. Hann lofar góðu, er mjög dökkur og lyktar vel, bragðið er sterkt og höfugt, en frekar ruddalegt og fer eiginlega ekkert í gang.  Í stuttu máli er þetta er ekki sérstaklega áhugaverður bjór. 
2*

Jólabjór ársins 2014 að mati Feitabjarnar:


Almáttugur Steðji Jólaöl - (6%, 489 kr) 
Vá hvað mér var skemmtilega brugðið! Hér eru allar fæðutegundir nammigríssins; lakkrís, súkkulaði og karamella. Fyrsta bragðið er öflugt og kemur á óvart og auk þess lifir það lengi, lengi í munninum, í hjartanu, í sálinni.
Svo verður að nefna hvað bjórinn lítur vel út og ilmar vel, frábær bjór í alla staði 
5*

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu