Jólabjórrýni feitabjarnar 2013


Síðasta kaupstaðarferð fyrir jól og þar sem ekki er að treysta á ríkið á Dalvík (sem gengur undir nafninu “hreinsunin”) þá var ekki um annað að ræða en heimsækja Heiðrúnu og sjá hvort úrval ársins væri allt komið í hús.  Og viti menn! Það er augljóst að jólabjórrynin hjá mér í fyrra hefur skilað nokkrum árangri. Föröya Jólabryggj verður víst ekki í boði í ár. Þeir hafa lært að skammast sín helvískir. Mikkeller okurbjórarnir sem ég varaði við í fyrra eru heldur ekki til. Það er nú aldeilis notaleg tilfinning að vita að maður er hér að gera samfélaginu gagn, auk þess að skemmta fólki og leiðbeina því í hinum krefjandi frumskógi lífsins sem hið mikla úrval jólabjóra er.

Hugsanlega munu fleiri tegundir koma í verslanir fyrir jólin, en ólíklegt er að þær nái alla leið norður á Dalvík. Ef ég get mun ég bæta þeim við síðar en ef ekki þá verða þessar átján að duga.

Vísindalega þenkjandi vinur minn spurði mig út í rannsóknarsnið og ég get ljóstrað því upp að hér var um blindpróf að ræða þar sem þrír bjórar voru smakkaðir í senn og bornir saman. Reynt var að hafa áþekka bjóra í hverri þrenningu og réð handahóf því í hvaða röð var smakkað úr glösunum. Allir bjórar voru úr glerflösku þar sem því var viðkomið en ódýru dönsku bjórarnir eru aðeins fáanlegir í litlum dósum. Þá er einn bjór nýr á markaði aðeins fáanlegur í stórri dós en það er Thule jólabjór eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Átján tegundir, það er reyndar sami fjöldi og í fyrra og ég sé að birting rýninnar ber upp á nákvæmlega sama dag. Skemmtileg festa að færast yfir þessa ómissandi jólahefð þjóðarinnar sem jólabjórrýni feitabjarnar óneitanlega er. Það er líka gaman að segja frá því að í langflestum tilfellum eru bjórarnir ekki eins og síðast, en það mun nú allt koma í ljós. Vindum okkur í þetta:

Carl’s Jul (5,6%, 315 kr.) – Þennan man ég ekki eftir að hafa smakkað hér á landi en frændur okkar Danir fengu mig einu sinni í heimsókn um jólaleytið og þá man ég eftir að hafa slafrað í mig eplaskífum á bar við Nýhöfn og skolað þeim niður með rosalega góðum jólabjór af krana sem einmitt var Carl’s Jul. Nú veltir maður því fyrir sér hvort stemmningin sé svona stór hluti af upplifuninni að þegar engar eru eplaskífurnar og bjórinn kominn í litla dós (alltaf hættumerki hjá jólabjór) þá er hann bara leiðinlegur eins og óboðinn síröflandi sessunautur í langri flugferð. 1 ½ *

Albani Julebryg (7%, 329kr.) – Annar danskur dósabjór sem hefur oftast verið sá skásti af dönsku dósabjórunum um jólin. Nú hittir hann ekki í mark. Reyndar væri ofsagt að hann hafi nokkurn tíman hitt í mark, frekar troðið sér fram hjá manni eins og fullur gaur sem fattar ekki að það er röð við þennan bar. Það er ekkert bragð og engin lykt af þessum bjór og hann skilur jafn lítið eftir sig og dönskutíminn í áttunda bekk þegar kennarinn útskýrði af hverju annarrarpersónufornafnið væri skrifað með stórum staf. ½ *

Thule Jólabjór (5,4%; 379 kr. í stórri dós) – Nýliði á markaðinum og maður fattar ekki alveg tilganginn. Þarf annan fjöldaframleiddan miðlungsgóðan sullbjór með smá fílakaramellubragði? Nei, ekki fílakaramellu, það er meiri klassi yfir þeim en þessu gutli. Makkintoss frekar. Allir fá sér makkintoss um jólin, nema snobbhænsn eins og ég sem vilja frekar Lindu konfekt. Það eina góða sem gæti hlotist af þessari viðbót í flóruna er að mögulega verður hægt að fá jólabjór eftir fimmtánda desember. Alls ekki vondur bjór, en heldur ekkert sérstakur þótt maður muni eflaust eiga svona í kæli megnið af aðventunni. 2 ½ *

Jólagull (5,2%, 349 kr.) – Talandi um fjöldaframleiðslu þá kom þessi bjór skemmtilega á óvart í fyrra og varð einmitt sá sem var til í kæli hjá mér í það skiptið. Því er ekki að heilsa í ár. Hann hefur hækkað í verði en bragðast eins og það hafi verið bætt út í hann gúlsopa af vatni. Þunnur og bragðlaus, þannig að maður fær sér ósjálfrátt stærri sopa næst, til að finna fyrir einhverju, bara einhverju! Og sá stóri sopi gerir ekkert nema staðfesta að þetta er vondur bjór. Egils gull er auðvitað versti bjór jarðar og það er kannski bara ágætt, svona fyrir heimsmyndina, að jólasullið sé jafnvont. Talandi um samfélagsleg áhrif mín er reyndar ánægjulegt að nefna í þessu samhengi að nú fást fleiri tegundir af kældum bjór í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. 1 *

Tuborg Christmas Brew (5,6%, 359 kr.) – Af hverju er nafnið á ensku? Vita Danir ekki hvað við lítum fáránlega mikið upp til þeirra og elskum allt sem danskt er? Eru þeir alveg ligeglad? Ligeglad er mjög misskilið orð hjá okkur mörlöndum. Við tengjum það við einhverja ímyndaða afslöppun frænda okkar en hin sanna merking orðsins er afar neikvæð og þýðir í raun það sama og að vera drullufokkingsama. Þetta lærði ég af spjalli við sjö ára stelpu í Kolding í sumar og það á vel við að nota það núna. Þessi bjór gerir mig ligeglaðan, með öðrum orðum: mér stendur á sama. Hann er grunsamlega líkur Thule jólabjórnum að mörgu leyti, jafnvel dósin utan um þann íslenska er mjög lítið dulbúin eftirherma. Því fær þessi bjór sömu einkunn. 2 ½ *

Viking Jólabjór (5%, 309 kr.) – Lyktin lofar góðu en bragðið er vonbrigði. Á árum áður var þetta aðalísskápsbúinn hjá mér en í fyrra mistókst hann að einhverju leyti og sama vonda bragðið er enn ríkjandi. Svo óspennandi bjór að ég fékk minni háttar ritstíflu eftir síðustu setningu og þurfti að fá mér kaffisopa og hugsa málið. Afrakstur þeirra hugsana er sá að mér tókst að finna eitt jákvætt sem hægt er að segja um þennan bjór. Hann er ekki eins vondur og Jólagull. En það segir eiginlega allt sem segja þarf. 1 ½ *

Harboe Jule Bryg (5,7%, 269 kr.) – Heyrðu, þessi er bara allt í lagi! Nú er ég hissa. Aðalsmerki þessa bjórs hefur ávallt verið hið lága verð, rétt eins og hjá Landsvirkjun, en þeim hefur tekist að hækka hann um tuttugu kall á milli ára án þess að nokkur maður taki eftir því. Veit ekki hvort verðhækkunin hefur áhrif á upplifunina en maður á þannig minningar tengdar þessum bjór að manni varð hugsað til Jack Nicholson í The Shining þegar hann fer í sleik við líkið á baðherberginu. En svo var þetta bara allt í lagi. 2 *

Royal Xmas Blue (5,6%, 279 kr.) – Bragðast eins og bananastöng, sagði félagi minn þegar hann smakkaði. Skýringin: yfirþyrmandi gervibragð. Ekki alvöru bjór, ekki alvöru jólaneitt. Hundvondur eins og alltaf. Eftirbragð dauðans, bókstaflega eins og að smakka hræ af útdauðu dýri. Ég hef í alvöru hugleitt að sleppa því að dæma þessa tvo bjóra sem ár eftir ár eru þeir verstu í boði, en spennan að vita hvor er verri varð mér ofraun. 0*

Royal Xmas White (5,6%, 279 kr.) – Þessi bjór er eiginlega alveg eins og sá blái, bara ekki alveg eins mikið. Hann er bragðminni, með daufara eftirbragð, minni gervikeim, ljósari á litinn…. Í stuttu máli þá er hann vondur á sama hátt en gengur ekki jafnlangt. ½ *

Jóla Kaldi (5,4%, 395 kr.) – Besti jólabjór ársins 2012 og það er skemmst frá því að segja að hann stendur ekki undir væntingum í ár. Þær væntingar voru auðvitað heilmiklar og hér er alls ekki á ferðinni vondur bjór. Reyndar er þetta besti bjórinn hingað til en hér er að sjálfsögðu fjallað um bjórana í sömu röð og þeir voru smakkaðir, að því undanskildu að besti bjórinn er geymdur þar til síðast. Ég var búinn að smakka jólakalda á prýðilegu kaffihúsi á Dalvík – enda bruggaður í sveitarfélaginu – og þar hafði ég strax haft ákveðnar efasemdir. Hann er rammari en áður og eftirbragðið ekki nógu gott. Fyrst hélt ég að mögulega væri þörf á að þrífa slöngurnar á bjórdælum kaffihússins en það kemur á daginn að sama óbragðið situr eftir þegar maður smakkar flöskubjórinn. Þetta er alveg ágætur bjór en nær ekki sömu hæðum og undanfarin tvö ár. 3 ½ *

Steðji Jólabjór (5,3%, 379 kr.) – Já, sæll! Hér fær maður trít sem kemur á óvart en því miður þá er eins og góða bragðið fylgi bara fyrsta sopanum. Það er bragð sem minnir á hreindýrapaté, ég er ekki að grínast! Gosinnihaldið er hins vegar frekar mikið og bjórinn er fljótur að missa tötsið og verður aldrei eins spennandi og við fyrstu kynni. Dálítið eins og að hitta konu á bar og taka allt í einu eftir því að hún er búin að missa augnhárin ofan í bjórinn sinn. 3*

Ölvisholt Brugghús Jólabjór (5%, 439 kr.) – Sunnlenskir bjórar eins og Skjálfti eru í miklu uppáhaldi hjá mér og það er mér ekki ljúft að tilkynna að annað árið í röð misheppnast jólabjórinn hjá þeim selfirsku. Það er eins og þeim sé fyrirmunað að ná upp jólastemmningu í framleiðsluna hjá sér. Fyrsti sopinn er reyndar ekki svo slæmur en svo læðist fram frekar óspennandi eftirbragð. Vonandi tekst þeim betur upp næst. 2 ½ *

Viking Jóla Bock (6,2%, 409 kr.) – Namm! Bokkinn er virkilega góður í ár. Það hefur ekki alltaf tekist að gera þennan ágæta bjór eins og hann á að vera og ég man að í fyrra fór hann alveg í klessu. En núna siglir hann nárnákvæmt milli skers og báru, ekki of rammur og ekki of daufur. Fullt af karamellubragði sem nær að harmónera við biturleika áfengisins. Maður beið hálfpartinn eftir einhverju skítaeftirbragði en það kom aldrei. Mjög ánægjulegt að endurnýja kynni við þennan góða bjór sem hafði eitthvað verið að leiðast afvega. Eins og að hitta fyrrverandi kærustu sem hefur lagt af og segir manni strax í óspurðum fréttum að hún sé einhleyp. 4 *

Gæðingur Jólabjór (4,6%, 398 kr.) – Annar alvörubjór hér á ferð. Hann er bragðríkur, fullur og frískandi og hefur aðeins dregið úr áfergjunni síðan í fyrra. Til dæmis er áfengismagnið umtalsvert minna en á síðasta ári og það skilar sér í mun betri bjór. Anna Björns hlýtur að hafa talað við hann (prik fyrir þann sem fattar þennan referens!) – en hann er ennþá kannski aðeins of bragðmikill fyrir suma, soldið eins og Elton John. 3 ½ *

Einstök Doppel Bock Jólabjór (6,7%, 429 kr.) – Fyrsti kossinn, fyrsta víman, fyrsta skiptið sem maður smakkaði Einstök jólabjór. Dásamleg stund og bjórinn er enn alveg óskaplega góður bjór þótt nýjabrumið sé farið. Það er farið í ferðalag um bragðlaukana sem er lengra en maður á von á, fjörugt og fjölbreytilegt bragð sem er enn að koma á óvart eftir að maður kyngir. Fjögurra rétta máltíð svífur í gegnum hugann: möndlugrautur – rjúpa – eplabaka með ís – koníakstár. Einstök jólabjór er eins og beikonsamloka að því leyti að um leið og maður er búinn þá langar mann í meira. Eins og síðustu ár verður þessi bjór hafður með hangikjötinu á jóladag og ég á erfitt með að ímynda mér hvers kyns töfradrykkur það væri sem myndi komast í þá hefð hjá mér í staðinn fyrir þennan yndislega bjór. 4 ½ *

Stúfur (2,26%, 1400 kr.) – Það leit út fyrir að ég myndi missa af þessum brandara. Stúfur var uppseldur í öllum vínbúðum landsins og mér var sagt að hann kæmi ekki aftur. Brandarinn er hreint út sagt frábær. Þriðji jólabjórinn frá Borg brugghúsi heitir eftir þriðja og minnsta jólasveininum og var því hafður einum tíunda úr prómill frá því að vera pilsner. Ég veit reyndar ekki hvort hægt er að mæla áfengismagn svo nákvæmlega að hægt sé að fullyrða að Stúfur megi ekki vera til sölu í Bónus, en það er aukaatriði, brandarinn er jafngóður. Sem betur fer átti ég leið um krá í miðborginni þar sem hægt var að kaupa Stúf á uppsprengdu verði en hann var víst eitthvað ódýrari í ríkinu. Þannig gat ég komist að raun um að brandarinn er mun vandaðri og langsóttari, því hér er á ferðinni stórfurðulegur drykkur sem bragðast alls ekki eins og bjór. Það er keimur af mó, reyk og eik og maður gæti haldið að þetta væri viskí frekar en jólabjór. Þannig er maður plataður upp úr skónum, sem er einmitt það sem ekta íslenskur jólasveinn á að gera. Það er samt erfitt að verjast þeirri hugsun að þessi jólabjór væri mun betri ef áfengismagnið væri meira. 2 *

Giljagaur 14.1 (10%, 2290 kr. í gjafaöskju með glasi) – Sá hefur haft gott af því að liggja í tunnu í heilt ár. Hann var góður í fyrra, þótt hann hafi kannski verið full dramatískur, en nú er hann búinn að eldast og þroskast. Hann virðist nánast þykkur eins og smúþí en það er bara tálsýn. Bragðið er fullt af óvæntum uppákomum sem þó virðast einhvern veginn fyrirsjáanlegar, eins og blíðyrði sem svikull elskhugi hvíslar í eyra þér og þú veist að þetta er allt saman lygi, þér er bara alveg sama. Þú munt sjá eftir þessu á morgun en það er seinni tíma vandamál. 4 *

Jólabjórinn 2013:


Egils Malt Jólabjór (5,6%, 369 kr.) – Góðir gestir: Jólamaltið er komið aftur! Og það er alveg hrikalega gott að þessu sinni. Það er bragð af vanilluís, trönuberjum og púrtvíni, en maltið er líka leikandi létt og hressandi, eiginlega léttara á bragðið en venjulegt maltöl.  Alveg stórkostlega vel heppnaður mjöður og kemur manni samstundis í bæði jólaskap og stuð. Algjört sælgæti gott fólk, gleðilega hátíð! 5*


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu