Ísland 2030

Árið 2030 var Sjálfstæðisflokkurinn í mikilli baráttu gegn andstæðingum sínum. Baráttu sem virtist vera töpuð. Færustu sérfræðingar Flokksins sáu að upphafið að endalokunum var á árabilinu 2003-2004 þegar DO lenti í mótbyr og flúði úr ráðherraembætti í Seðlabankann.
Til að breyta þessari óhagstæðu fortíð var ákveðið að senda vélmennið Skaftenegger aftur í tímann til ársins 2003 - forritaðan til að styðja Foringjann í baráttunni við Andófsöflin og um fram allt að fá Foringjann til að hætta við að hætta. Vélmennið var forritað til að lofsyngja Foringjann við hvert tækifæri og hvetja aðra til trúar á hann. Það mátti búast við góðum undirtektum því Foringjadýrkun var talsvert útbreidd trúarbrögð á þessu tímaskeiði.
Skaftenegger komst heilu og höldnu aftur í tímann en fljótlega kom í ljós að eitthvað var bogið við þau viðbrögð sem hann fékk við trúboðinu. Í hvert skipti sem hann dró upp Morgunblaðið og lofsöng Foringjann fór fólk ýmist að hlæja eða að fussa og sveia. Brátt sýndi það sig að mistök höfðu verið gerð við fínstillingu tímavélarinnar. Hann hafði verið sendur til ársins 2009 í stað 2003. Því miður var Skaftenegger dálítið frumstæð útgáfa af vélmenni og ekki hægt að endurforrita hann á hraðvirkan hátt og losna þannig við Foringjadýrkunina.
Til að bregðast við þessu og reyna að kveikja á nauðsynlegum díóðuljósum inni í höfði Skafteneggers voru gerðar margar vélmennisútgáfur af DO og einnig sendar aftur í tímann. Sumar útgáfurnar lofsungu útrásarvíkinga með húrrahrópum meðan aðrar vöruðu við þeim í lágværum en alvarlegum tón. Lokamarkmiðið var að rugla stýrikerfi Skafteneggers það mikið að hann mundi setja af stað hjá sér innbyggt sjálfseyðingarferli þegar hann teldi að förin hefði misheppnast.
Því miður leiddi þetta ferli hins vegar til stórstyrjaldar milli mismunandi útgáfa af DO og á nýjum vinnustað hans þurfti að byggja sérstakt búr utan um þær til að starfsfólkið sæi þær ekki beinlínis rífast og slást sín á milli.
Þrautalendingin varð sú að fresta framtíðinni endanlega og festa þjóðfélagið inni í lokaðri tímalykkju - svokallaðri Icesavelykkju - þar sem sömu hlutir endurtóku sig aftur og aftur með örlitlum tilbrigðum - án þess að nein raunveruleg breyting yrði á nokkrum hlut.
Ein óvæntastasta afleiðingin af þessu síðasta herbragði varð sú að vélmennið Skaftenegger fékk nýjan tilgang og kom allt í einu að raunverulegu gagni. Inni í lokaðri hringrás tímalykkjunnar fengu margþvældar og bragðlausar tuggur hans um Foringjann á sig ákveðinn raunveruleikablæ og hjálpuðu til við að beina athygli fólks frá því hversu undarlegt það væri að sömu hlutirnir væru að gerast aftur og aftur á landinu og að ekkert breyttist í raun - sama hversu mikill tími virtist líða. Þessi velgengni Skafteneggers náði að lokum svo langt að ákveðin tegund af rökvillu þar sem rökræður eru hindraðar með því að hengja sig í afmarkaða frasa um menn og málefni fékk nafnið Terminator Logic út frá gælunafni hins þrautseiga og geðþekka vélmennis.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu