29 október 2009

Ferðin til Slóvakíu - 6. kafli

Í morgun var byrjað á því að sýna okkur stutta kvikmynd. Sú var verk fransks nema í kvikmyndagerð sem vann með náminu sem stuðningsfulltrúi. Þjónustuþeginn var unglingur með vöðvarýrnun sem var meðal þeirra fyrstu sem voru teknir inn í franska menntakerfið þegar þeir byrjuðu á slíku. Skemmst er frá að segja að drengur virtist vera mun hæfileikaríkari sem stuðningsfulltrúi en sem kvikmyndagerðarmaður en hinum slóvakísku vinum mínum þótti myndin afar merkileg og dældu á okkur útlendingana spurningum um alls konar hluti sem þessum málum tengjast. Persónulega tókst mér held ég best upp þegar ég hélt ræðu um að fram undan væri áratuga barátta við að breyta hugarfari þjóðarinnar. Það þyrfti að byrja núna að hleypa nemendum með sérþarfir inn í skólakerfnið og sennilega yrði það auðveldast á leikskólastiginu. Það yrði þó ekki fyrr en leikskólabörn nútímans yrðu fullorðin og stofnuðu fyrirtæki sem eiga mætti von á að eitthvert pláss yrði fyrir fólk með sérþarfir á vinnumarkaðnum.

Hluti verkefnis þess sem við erum að ýta úr vör er að til stendur að framleiða fræðslumynd um hvernig aðlögun barna með sérþarfir á að ganga fyrir sig. Meðal annars verður tekið upp efni í heimsóknum Slóvaka til Norðurlandanna og notað í myndina. Nolló er semsagt á barmi heimsfrægðar. Restin af morgninum fór í þankahríð um innihald og efnistök og skemmst frá því að segja að mér tókst að lauma ansi miklum Nollóisma inn í ferlið. Það verður spennandi að sjá á vordögum 2011 hvort eitthvað af því skilar sér í myndina þegar hún er tilbúin.

Framundan er afslöppun það sem eftir lifir dags, skoðunarferð um Zilina, sundsprettur og kannski nuddpottur og svo endar með því að maður þarf að drulla sér í koju því það er ræs klukkan hálffimm að staðartíma - sem er hálffjögur að íslenskum.

Engin ummæli: