Ferðin til Slóvakíu - 7. kafli

Skoðunarferð um Zilina leiddi í ljós að það er hægt að fara úr öskunni í eldinn. Ég var búinn að minnast á að hinn sovéski byggingastíll sem blasti við mér í höfuðborginni hafi farið í taugarnar á mér. En innan um kirkjur, kastalarústir og aðrar merkar byggingar í Zilina er nú verið að slá upp hverri kringlunni á fætur annarri og sagði leiðsögumaðurinn okkur frá því að fundist hefðu mannvistarleifar frá miðöldum þegar byrjað var að grafa fyrir risastóru bílastæðahúsi í miðborginni. Réttur maður fékk rétta upphæð og jarðýturnar héldu áfram eins og ekkert hefði í skorist. Við vorum sem sagt bara tvö eftir í bænum af ráðstefnugestum, ég og miðaldra frönsk kona sem hefur unnið með þeim slóvakísku í fjöldamörg ár. Þegar hinni stórskemmtilegu skoðunarferð var lokið nennti ég ekki alveg að þvælast með henni um bæinn í búðarleiðangri þannig að ég afsakaði mig, fór í stuttan leiðangur uns ég fann Grand Rokk þeirra Zilina-búa. Munurinn var helst sá að bjórinn kostaði sem nemur 150 íslenskum krónum og það mátti reykja inni. Eftir tvo bjóra og fjögur hóstaköst hélt ég áfram og endaði í barnafataverslun hvar ég hitti þá frönsku. Við ákváðum að fá okkur einn drykk og ná svo sjö-lestinni aftur heim á hótel. Eða réttara sagt aftur til Rajecke Teplice, sem er lítill ferðamannabær hvar hótelið er staðsett. Ekki vildi samt betur til að við fórum úr lestinni á stöð sem kallaðist Rajecke Teplice en fundum hótelið engan veginn. Stoppuðum loks ungan mann á sportbíl sem sendi okkur rétta leið. Þegar við loks komumst á hótelið sat þar Marian, sem er aðalskipuleggjandinn, en hann hafði gert sér aukaferð eftir að hafa snætt kvöldverð með fjölskyldunni og svæft börnin, bara til þess að færa mér flösku af slóvakísku rauðvíni. Maður klökknaði nú bara. Nújæja, eftir enn einn risakvöldverðinn – Slóvakar eru miklir matgæðingar, borða góðan mat og mikið af honum – voru það þrír bjórar á hótelbarnum, þar sem afgreiðslustúlkan var farin að brosa allan hringinn þegar hún sá mig koma (ég gaf henni ágætis þjórfé) og svo var lagst í koju. Vekjaraklukkan í gemsanum stillt á 4:45 og góða nótt. Einhverntímann undir morgun vaknaði ég, greip gemsann og gáði hvað tímanum liði. Rétt rúmlega fjögur. Fram að pissa. Leit svo á armbandsúrið sem sagði mér að klukkan væri tíu mínútur yfir fimm. Ég hafði nefnilega stillt armbandsúrið á mið-evrópskan tíma en ekki gemsann. Eins gott að ég var búinn að pakka, dreif mig í fötin og fram í anddyri þar sem taugaveiklaður bílstjóri beið eftir mér. Sem betur fer náði ég rútunni og sú var ekkert slor. Allt öðruvísi en blikkdósin sem ég þurfti að kúldrast með þegar ég var á leið hingað. Ég gat meiraðsegja hallað aftur sætinu og lagt mig stundarkorn. Í ofanálag var rútan á undan áætlun til Bratislava þannig að ég náði rútu til Vínar sem var rétt að fara, hefði annars þurft að bíða í tæpan hálftíma hjá ungfrú Ikarus. Nú búinn að tékka mig inn og bíð þess að kallað verði um borð eftir tæpa tvo tíma.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu