Ferðin til Slóvakíu - 5. kafli
Eins og mig hafði reyndar grunað var planið eftir hádegi að við útlendinarnir settumst niður með aðalskipuleggjanda verkefnisins og leggðum plön um aðkomu okkar, bæði að málþingi sem á að halda hér næsta haust, svo og heimsóknum frá Slóvakíu til okkar landa. Fyrst var rætt um málþingið og hvað við teldum að gæti komið sér vel fyrir Slóvaka að læra af okkur. Það var pínulítið erfitt þar sem yfirskrift málþingsins tengir saman tvö málefni sem okkur Norðurlandabúum (og frönsku júffertunni) þykja alls ótengd en eru mjög náin í slavneskum huga, en það eru annars vegar einelti og hins vegar aðlögun fatlaðra nemenda í skólakerfinu. Skipuleggjandinn hristi höfuðið þegar við vildum ræða um aðlögun þroska- og geðfatlaðra og sagði að slíkt væri alls ekki hægt. Hváði svakalega þegar við sögðum honum að þetta viðgengist í okkar löndum. Öllu erfiðara var þegar danska frúin sem vinnur mikið í málefnum sem tengjast mansali, vændi og kynbundnu ofbeldi, vildi koma með fyrirbyggjandi innlegg í slóvakíska menntakerfið í formi kynfræðslu. Kæmi aldrei til mála, sagði aðal, enda hefur kaþólska kirkjan hreðjatak á menntayfirvöldum og bannar allt slíkt. En niðurstaðan var að lokum ásættanleg fyrir alla og nú bíður mín að fá stjórnendur og sérkennsluteymi Norðlingaskóla að samþykkja það sem ég hef ákveðið fyrir þeirra hönd. Hlakka til að taka þann slag.
Þá var komið að því að ræða heimsóknir Slóvaka til Norðurlandanna. Það kom í okkar hlut að taka við sex framhaldsskólanemendum sem verða svo “heppnir” að vinna námsferð til Íslands í rit- og málverkasamkeppni um einelti og fötlun. Þessi hluti fundarins gekk fljótt og vel fyrir sig. En þá vandaðist málið. Nú þurfti að ræða fjármál, fjölda launaðra daga, skiptingu á milli framlags okkar sem “experts” – sem er kostað af EFTA – og sem “partners” – sem er kostað af DAFNE, sem eru samtökin sem standa fyrir þessu öllu saman. Það eru semsagt ekki slóvakísk menntayfirvöld eins og ég hélt, heldur DAFNE sem er NGO (non-governmental organization) sem hefur mest verið að starfa í forvörnum og félagslegum vandamálum. Ég var eins og álfur út úr hól í þessari umræðu en kellingarnar þrjár söltuðu skipuleggjandann trekk í trekk og ég sat bara og kinkaði kolli ábúðarfullur. Þegar niðurstaða lá svo loks fyrir var farið að tala um dagsetningar á málþingi og heimsóknum. Málþingið var okkur sagt að væri í júní svo ég skrapp niður á herbergi til að kíkja á skóladagatalið og finna út hvenær kennslu lyki í Nolló. Þegar ég kom aftur upp var skipuleggjandinn með egg á andlitinu (ekki bókstaflega) því hann hafði verið að rugla og þetta átti að vera í október. Úr varð að málþingið verður 27-29/9 árið 2010 og Nolló má senda tvo fulltrúa. Meira um það síðar. Eða ekki. Heimsókn hinna heppnu framhaldsskólanema verður þremur vikum fyrr eða 6-9/9 og allt í góðu með það. Nú var komið að lokum vinnudagsins og hóparnir sem höfðu verið að vinna saman fluttu skýrslur um störf sín. Þegar kom að okkur stóð skipuleggjandinn upp og flutti ódauðlega ræðu um hvað við hefðum verið dugleg. Kom þá á daginn að dagsetningarnar pössuðu engan veginn því það væri allt of stuttur tími til að velja sigurvegara í keppnina á haustönn. Eftir mikið japl og jaml og fuður þar sem nánast hver einasti viðburður hafði verið færður var endað á því að flýta samkeppninni þannig að þessar dagsetningar standa. Þetta var svei mér þá eins og að maður væri á starfsmannafundi í Nolló að ræða dagsetningu á árshátíð.
Ummæli