28 október 2009

Ferðin til Slóvakíu - 4. kafli

Morguninn hófst á því að enn lét ég þjónustufólk skamma mig – fór semsagt í morgunmat og settist ekki við rétt borð. Umhugsunarefni hvaða augum landsmenn líta þjónustustörf. Fundurinn fór afskaplega hægt af stað. Ég hafði látið vita kvöldið áður að ég þyrfti að komast í prentara svo ég gæti haft glærupunktana mína við hendina meðan ég talaði. Var sagt að mæta bara vel tímanlega og þessu yrði kippt í liðinn svo ég var mættur klukkan átta en þá kom á daginn að eina tölvan á hótelinu sem var með USB-tengi var læst inni á skrifstofu hótelstjórans sem ekki væri væntanlegur fyrr en klukkan níu. Einmitt þá sem fundur átti að hefjast. Ég beið því rólegur og þegar hótelstýran (sem hún reyndist vera) var mætt fór ég inn á skrifstofu til hennar en hún gat ekki fyrir nokkra muni skilið hvað ég átti við með “print out notes pages” – hún vildi prenta handout semsagt. Nú voru góð ráð dýr því þótt hún leyfði mér að setjast við tölvuna voru allar leiðbeiningar á slóvakísku. Með ótrúlegu harðfylgi tókst mér að finna út á nokkrum sekúndum hvaða orð Slóvakar nota yfir “glósur” og breytti prentun í svart-hvítt í þokkabót til að spara tíma. Greip svo heftara af borðinu – við andköf stýrunnar yfir framhleypni minni – og stormaði inn á fund. Þar hlýddi ég á allsherjar kynningu á verkefni því sem hér er verið að hleypa af stokkunum, fílaði mig eins og hjá Sameinuðu Þjóðunum með túlk í heyrnartóli þegar talað var á slóvakísku. Loks var komið að mér að segja frá Nolló og skemmst frá því að segja að fundargestir hrifust mjög – fyrir utan dönsku og norsku kellingarnar sem mér sýndist telja sig vita meira um framgang skólamála á Íslandi en ég – og sennilega rétt hjá þeim. Sú norska spurði mig reyndar þegar ég var sestur: Er du lærer i din skole, eller rektor? Sem mér fannst hrós. Áfram hélt svo kynning á slóvakísku og í heila tvo tíma hlýddi ég á fyrirlestur um minnstu framkvæmdaeiningar og verkaskiptingu sem auðvitað kom mér nákvæmlega ekkert við. Nú eftir hádegið á að fara í gang hópavinna við frekari skipulagningu – þótt mér sýndist reyndar allt vera skipulagt í þaula – og ég veit ekki hvað í ósköpunum ætlast er til að ég leggi til málanna, sérstaklega þar sem aðeins þrír af öllu slóvakíska stóðinu tala orð í ensku. En það kemur í ljós síðar.

Engin ummæli: