27 október 2009

Ferðin til Slóvakíu - 1. kafli

Suma daga vaknar maður í vondu skapi. Þegar vekjaraklukkan er stillt á 4:20 og gærkvöldið fór í að klára ódýrustu hvítvínsflöskuna í ríkinu er ekki von á góðu. Samt var ég alveg sæmilega civil við frúna sem vakti mig þegar vekjaraklukkunni hafði mistekist. Leigubíllinn sem ég hafði pantað og sagt að koma kl. 4:45 kom heilum tveimur mínútum of seint og þá byrjaði suðan að koma upp, hægt og rólega. Hafði nákvæmlega engan húmor fyrir kommenti bílstjórans um að hann rataði lítið á Nesinu og urraði á hann að betra væri að fara til hægri en vinstri. Enda eru allar beygjur á Seltjarnarnesi hægri beygjur. Smá pólitískur húmor þarna. Ha ha. Á BSÍ var biðröð og klukkuna vantaði fjórar mínútur í fimm. Styttist í brottför og mannhelvítið á undan mér í röðinni var með einhvers konar miðaígildi sem afgreiðslustúlkan kannaðist ekki við. Enn kraumaði bara rólega á mér. Mosi Frændi var settur í gang í i-podinum og sjálf rútuferðin leið hratt og vel. Þegar ég ætlaði að standa upp og ganga frá borði var hins vegar einhver helvítis kellingartussa sem hleypti mér ekki fram á gang heldur tróð sér fram fyrir mig. Nú varð ég fyrst reiður. Tékkaði inn á methraða og lenti á eftir sömu kellingu í röðinni við öryggishliðið. Þurfti að taka sjálfan mig taki því augnaráðið eitt lét mig eflaust líta út sem versta hryðjuverkamann. Næsta skref var að fá sér í svanginn. Skiltið við veitingasöluna blasti við: IGS. Ég var kominn á fremsta hlunn að neita að borga matinn í mótmælaskyni. Mundi svo að þetta stendur fyrir Icelandair Ground Services. Ég var að rugla saman við AGS.

Engin ummæli: