01 júní 2009

Ævintýraferð

Í lok febrúar ákváðum við hjónin að þegar kæmi að hvítasunnu væri kominn tími á helgarferð í sumarbústað. Þar sem Kvistur er fullkaldur svo snemma sumars (hvorki rafmagn né heitt vatn) þá kýldum við á pöntun í gegnum Kennarasamband Íslands og fengum okkur hús með öllu á Flúðum.

Líður nú og bíður.

Eftir strembna vinnuviku var föstudeginum að ljúka og aldrei slíku vant sníkti ég mér far til Reykjavíkur, nánar tiltekið í Skeifuna þar sem Bílaleiga Akureyrar er til húsa. Fékk þar einn lítinn Yaris og hélt vestur á bóginn að sækja fjölskyldu og farangur.

Það var svo ekki fyrr en upp úr átta um kvöldið sem við komum að húsinu og sáum okkur til mikillar skelfingar að fyrir framan voru tveir bílar og ljós inni. Við guðuðum á gluggann og sögðumst telja okkur eiga húsið um helgina. Fólkið sem fyrir var tók þessu með jafnaðargeði, sagði að nú um hvítasunnuhelgina færu fram skipti á húsinu þar sem umsjá með því færðist frá Kennarasambandinu yfir til Eimskipafélags Íslands. Þessi ruglingur hefði komið fyrir áður og væri kennurum að kenna.

Þá tóku við nokkur snörp símtöl og við fengum að vita að engin önnur hús væru laus, um mistök hjá KÍ væri að ræða og þar þætti mönnum þetta mjög leiðinlegt. Okkur byðist gisting á hóteli á Flúðum ásamt fríum mat í sárabætur meðan verið væri að vinna úr flækjunni en ekkert annað hægt að gera fyrir okkur í bili.

Ég var þá einnig spurður hvar ég væri að kenna.

Í Norðlingaskóla, svaraði ég.

Stutt þögn. Þessi sem var að fá verðlaunin frá forsetanum?

Sá hinn sami, sagði ég.

Má ég hringja í þig eftir tuttugu mínútur, spurði konan og ég kvaddi stuttur í spuna og lagði á.

Gistiheimilið reyndist hið huggulegasta og þar var stjanað við okkur eins og kóngafólk. Svo hringdi síminn aftur. Það hafði komið á daginn að Eimskipafélagsmenn lugu eins og þeir voru langir til og við áttum réttinn á húsinu. Þau yrðu komin út fyrir hádegi næsta dag og við fengjum endurgreitt.

Það rættist og úr varð þessi fíni laugardagur í bústað með kolagrilli og heitum potti (ekki rafmagns og ekki nudd eins og heima en flottur samt) - Chris, Hildur og Óðinn bættust í hópinn og við spiluðum Bíóbrot langt fram á nótt.

1 ummæli:

Hildur Gísladóttir sagði...

Takk fyrir síðast!