06 júní 2009

Tímarnir brjálast og mennirnir með

plötudómur eftir Jón Agnar Ólason

Það er kunnara en frá þurfi að segja að samfélagsleg óáran er jafnan fyrirtaks gróðrarstía fyrir listsköpun hverskonar, og sú fjárhagslega óöld sem ríkt hefur hér á landi undanfarin misseri hreinlega æpti á að bálreið pönksveit sprytti upp úr tíðarandanum með hnefasteytingum og uppréttum löngutöngum. Þrír bráðvaskir kennarar úr Norðlingaskóla, þeir Björn, Þráinn og Björn, hafa hér svarað kallinu með látum, eins og pönks er von. Hljómsveitin heitir Blóð og platan, sem er fjögurra laga stuttskífa, nefnist Fólkið heimtar Blóð.

Platan er semsé öll innblásin af ástandinu og nöfn laganna, að ekki sé minnst á textana sjálfa, bera hug meðlimanna glöggt vitni. Tónlistin er aukinheldur öll hin hráasta og eflaust tekin upp í saltvondri striklotu. Ekki er plötuumslagið síður hrátt, ljósrituð mynd af forviða kettlingsræksni sem líkast til var látinn hlusta á upptökustundir Blóðs frá upphafi til enda; hlustendur munu margir hverjir reka upp stór augu því þeir Blóðbræður skafa ekki utan af því nema síður sé.

Platan hefst á besta laginu af þeim fjórum, "Icesave". Fyrirtaks ræflarokk hér á ferð með bráðsmellnum texta og grípandi laglínu. "Höfðatorg" er hinsvegar þunglamaleg lagasmíð og auðgleymd. "HFF" (lesendur fara nærri um hvaða landsfræga heróp er hér skammstafað) byrjar á bassaplokki beint upp úr laginu "Isolation" með Joy Division áður en leikar æsast með myljandi gítar og framangreindu Austurvallarherópi. Öðrum texta er ekki til að dreifa og þriggja gripa laglínana er jafn knöpp og söngurinn. Loks er að nefna "Vélinda" en það er hljóðrænt séð ágætis æfing í pönki beint upp úr kokkabókum Sex Pistols, að því marki að söngurinn hljómar sem Johnny Rotten hafi lært íslensku og tekið lagið með sveitinni. Textinn er óvægið níðkvæði um fyrrverandi forsætisráðherra Íslands (þeir kumpánar klykkja út með línunni "Vonum að þér batni seint!") og gangi pönk almennt út á smekkleysu þá hefur hljómsveitin Blóð náð markmiði sínu með bravúr.

Í það heila þokkalegasta pönkmúsík, brokkgeng en á sína spretti. Óskandi væri að fleiri lög væru í sama gæðaflokki og úrvalsgott upphafslagið hvar þeir kyrja "I save, you save, we all save for Icesave," en illu heilli er því ekki að heilsa.

Engin ummæli: