Lítill heimur

Fyrir allmörgum árum var ég í leiklistarskóla í London. Nokkrir strákar úr skólanum settu saman fótboltalið og við fórum saman í Regent's Park þar sem strákar úr öðrum leiklistarskóla hittu okkur og við settum á einn kappleik.

Ég var í marki. Okkar lið var mun betra, við lentum að vísu undir með marki úr vítaspyrnu en jöfnuðum fljótlega og komumst svo yfir. Seint í síðari hálfleik, þegar staðan var orðin 5-2 fyrir okkur voru hinir í sókn og ég fór í glannalegt úthlaup og hirti boltann af tánum á þeirra manni.

Sem bölvaði mér í sand og ösku. Á íslensku.

Kom á daginn að þetta var hann Doddi. Við erum víst skyldir í báðar ættir - mamma hans og pabbi minn eru náskyld, sömuleiðis pabbi hans og mamma mín. Við ólumst báðir upp á Nesinu en höfðum til þessa aldrei hist.

Nú var ég að frétta að hann er með barn hjá sömu dagmömmu og ég.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu