Yfir mér hvílir bölvun
Helgarbíltúr dagsins var martröð. Nei, við höfum ekki eignast bíl en kerlingaruglan hún móðir mín er erlendis og lét mig passa bílinn fyrir sig á meðan - aðallega til að geta heimtað að ég næði í sig um miðja nótt en það er önnur saga.
Tilgangur ferðarinnar var þríþættur: að kaupa inn fyrir páskaboðið á morgun, skoða heita potta og fara með 60 myndir af litla svíninu í framköllun. Byrjuðum á því, fórum í Fuji í Skipholti. Lokað. Þá var stímt í Skeifuna í Pixla. Lokað. Fokkit, tökum Hagkaup fyrst við erum hérna. Það tók hálftíma ef skottúr í Ríkið Skeifunni er talinn með. Litla svínið aðeins tekið að ókyrrast. Næst Húsasmiðjan þar sem við sáum gullfallegan pott. Stóðum og skoðuðum hann í tuttugu mínútur án þess að einn einasti starfsmaður virti okkur viðlits. Reyndum að hóa og kalla, jafnvel leita uppi menn í álitlegum rauðum flíspeysum en án árangurs. Enginn vildi selja okkur potthelvítið. Ákváðum að gefa skít í Húsasmiðjuna og fara í Arctic Spas á Kleppsvegi. Lokað en miði á dyrinni sem á stóð: opið laugardaga kl. 12-15. Klukkan var 11:52. Korteri síðar var orðið augljóst að miðinn á dyrinni átti ekki við um þennan tiltekna laugardag. Þannig að við í Kringluna - sem ég hata - og stóðum eftir smástund eins og þvörur þar sem Hans Petersen var einu sinni en nú er komin fatabúð.
Svo kemur maður heim og Liverpool er að vinna.
Sjitt!
Ummæli