Yfir mér hvílir bölvun

Helgarbíltúr dagsins var martröð. Nei, við höfum ekki eignast bíl en kerlingaruglan hún móðir mín er erlendis og lét mig passa bílinn fyrir sig á meðan - aðallega til að geta heimtað að ég næði í sig um miðja nótt en það er önnur saga.

Tilgangur ferðarinnar var þríþættur: að kaupa inn fyrir páskaboðið á morgun, skoða heita potta og fara með 60 myndir af litla svíninu í framköllun. Byrjuðum á því, fórum í Fuji í Skipholti. Lokað. Þá var stímt í Skeifuna í Pixla. Lokað. Fokkit, tökum Hagkaup fyrst við erum hérna. Það tók hálftíma ef skottúr í Ríkið Skeifunni er talinn með. Litla svínið aðeins tekið að ókyrrast. Næst Húsasmiðjan þar sem við sáum gullfallegan pott. Stóðum og skoðuðum hann í tuttugu mínútur án þess að einn einasti starfsmaður virti okkur viðlits. Reyndum að hóa og kalla, jafnvel leita uppi menn í álitlegum rauðum flíspeysum en án árangurs. Enginn vildi selja okkur potthelvítið. Ákváðum að gefa skít í Húsasmiðjuna og fara í Arctic Spas á Kleppsvegi. Lokað en miði á dyrinni sem á stóð: opið laugardaga kl. 12-15. Klukkan var 11:52. Korteri síðar var orðið augljóst að miðinn á dyrinni átti ekki við um þennan tiltekna laugardag. Þannig að við í Kringluna - sem ég hata - og stóðum eftir smástund eins og þvörur þar sem Hans Petersen var einu sinni en nú er komin fatabúð.

Svo kemur maður heim og Liverpool er að vinna.

Sjitt!

Ummæli

The Mysterious One sagði…
Ég lenti í þessu sama fyrir jól þegar ég þurfti að framkalla fyrir skólann. Fór á fjóra staði og alls staðar búið að loka. Mæli með framköllunarpleisinu í mjóddinu (Fljót þjónusta).

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu