24 febrúar 2009

Ferðasaga

Þetta var hin fínasta ferð. Byrjaði að vísu ekki gæfulega - flugrútan lenti í árekstri í Kópavoginum og það var ansi löng bið eftir nýrri rútu og maður var orðinn tæpur á taugum að kannski myndi maður missa af fluginu. En svo kom rútan og allt féll í ljúfa löð. Það var fátt gert á föstudegi annað en fara á hótelið og í bælið en laugardagurinn var svo tekinn snemma og ráðist í verslunarleiðangur. Sá skilaði fínni myndavél í hús sem mun leysa af garminn sem var keyptur í brúðkaupsferðinni forðum daga. United megastore var einnig heimsótt og þar fékk ég hlut sem mér hefði aldrei dottið í hug að væri til - smekkur fyrir litla svínið með United merki! Treyjan sem mig langaði í var ekki til en í staðinn keypti ég hvíta stuttermatreyju með "Vidic 15" á bakinu og  var þokkalega sáttur með það. Því næst var farið á pöbb og snæddur týpískur enskur pöbb lönsj meðan horft var á Chelsea leik sem fór því miður ekki nógu vel því þeir unnu Aston Villa. Eftir þann leik var haldið áleiðis á Old Trafford þar sem ég fékk ótrúlega góð sæti í fimmtu röð rétt við varamannabekkinn. Það var fögur sjón þegar Ryan Giggs tölti eftir hliðarlínunni til að hita upp og beygði sig fram til að teygja á skinkuvöðvunum og maður horfði á stinnasta rass sem Wales hefur alið. Leikurinn var skemmtilegur og vannst og ekki var stemmningin verri á Bishop Blaize eftir leik þar sem var mikið drukkið og sungið. Verst að "ferðafélagarnir" höfðu ákveðið fyrr um daginn að sleppa leiknum til að geta einbeitt sér að drykkju af fullum krafti þannig að ég var einn á báti. Það kom ekki að sök og mér fannst gaman. Sunnudagurinn átti að fara í ráp um miðborg Manchester en hinir vitleysingarnir voru búnir að panta limmósínu til að skutla sér á Anfield og ég stóðst ekki freistinguna og fór með. Hefði að vísu hugsanlega endurskoðað þá ákvörðun hefði ég vitað strax að þeir voru lítið búnir að pæla í að útvega sér miða á leikinn og þessi ferð varð því nokkuð snautleg. Í staðinn fyrir að sjá leik á Anfield þurfti ég að sitja með kófdrukknum vitleysingum á subbulegum pöbb í subbulegri borg. Heimamenn reyndust þó gestrisnir mjög og bjargaði það deginum (og kvöldinu). Það var ekki hátt risið á mönnum í limmunni á leið aftur til Manchester (nema á mér auðvitað) og drengirnir enduðu í koju áður en kvöldfréttir voru byrjaðar. Ég yfirgaf þá þess vegna og hélt áleiðis heim á hótel með viðkomu á nokkrum öldurhúsum. Þá var kominn mánudagur og nú þurfti að eyða peningum. Ég byrjaði á því að kaupa mér forláta apple tölvu en verðmunurinn á slíkum grip milli landa er slíkur að hann borgaði ferðakostnað, gistingu, miða á leik og myndavélina góðu. Svo varð maður auðvitað að kaupa eitthvað á litla svínið og það endaði í tveimur kílóum af bleikum fötum úr Hennes og Mauritz. Rósa fékk ilmvatn og ég tvo geisladiska en að öðru leyti var deginum eytt á mínum uppáhaldsstað í Manchester sem kenndur er við Shakespeare en þar er stunduð veitingastarfsemi. Enn hitti ég vitleysingana sem kröfðust þess að ég yrði þeim samferða í limmunni út á flugvöll en ég afþakkaði pent og tók bara mína lest enda búinn að kaupa miðann og setja farangurinn í geymslu á brautarstöðinni. Flugið heim var svo áfallalítið og rútan komst í heilu lagi til Reykjavíkur. Lokapunktur ferðarinnar var hins vegar soldið kátlegur því ég fann hvergi húslyklana mína og þurfti að vekja frúna með látum enda komin rauðanótt. Í morgun vaknaði ég svo slappur og ákvað að fara ekki í vinnuna enda örþreyttur eftir mikla og erfiða ferð.

Engin ummæli: