Íslensk kjötsúpa

Það næðir um mann þessa dagana, bæði af því að það er að koma hrímkalt haust og líka af því að hvar sem maður kemur heyrir maður "klakk-klakk-klakk" í fallandi dómínókubbum.

Alla þessa viku hefur til dæmis enginn hringt í mig og boðist til að senda ráðgjafa um viðbótarlífeyrissparnað í heimsókn til mín. Undanfarin 4 ár hefur ekki verið flugufriður en nú er eins og geitungabú hafi verið fjarlægt.

Þá er ráð að elda hina sígildu íslensku kjötsúpu.

Kaupi inn í hana í dag en elda á laugardaginn. Það er bæði betra að hafa allan daginn fyrir sér og láta hana malla lengi, en líka verður kjötið betra ef það fær að þiðna í rólegheitum í ísskáp.

Það þarf eitt kíló af súpukjöti (ætli maður láti sér ekki nægja 2.fl. að þessu sinni), súpujurtir, salt og pipar, hálfan lauk, stóra rófu, nokkrar gulrætur og slatta af kartöflum.
Kjötið er sett í pott og suðan látin koma upp. Þegar fitan fer að mynda froðu á yfirborði vatnsins þarf að fleyta henni af með skeið og gefa sér góðan tíma í það. Svo saltar maður og setur súpujurtirnar út í ásamt lauknum. Þetta þarf að sjóða í að minnsta kosti 40 mínútur en klukkutími er alveg í lagi þannig að nú má fá sér bjór og kíkja á sjónvarpið. Þegar maður er orðinn virkilega svangur er grænmetinu bætt útí og látið sjóða í 15-20 mínútur eftir því hve gróft það er skorið. Sumum finnst gott að hafa brauð með en ég sleppi því yfirleitt. Drekkið ískaldan bjór með.

Ummæli

Og hvenæar á maður svo að mæta...?
Bjössi sagði…
Hvað, ætlarðu að passa fyrir okkur á meðan við borðum?
ég get passað og borðað á sama tíma - ég er kona!!! hahaha
Unknown sagði…
ég er matargat matargat... Íslensk kjötsúpa...

nú þegar kreppir að og sumir eru sestir á grjótharðann skólabekkinn þá kæmi sér afar vel að....

og þegiðu svo.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu