Leikhús allra landsmanna

Nágrannar okkar í Peðinu telja margir að séu með besta og flottasta leikhús landsins. Það var því með vott af tilhlökkun sem ég fór þangað í gær í þeim erindagjörðum að kanna tæknibúnað í Kúlunni (sem ég hélt að héti enn litla sviðið, sýnir hvað ég fer oft í leikhús núorðið...) því ég á að sjá um tæknimál fyrir sýningu Draumasmiðjunnar þar í næstu viku.

Oft hef ég verið starfsmaður gestkomandi leiksýninga og það víða um heiminn. En þetta er í fyrsta sinn sem ég kem sem gestur í Þjóðleikhúsið. Aðbúnaðurinn er sem hér segir:

Þegar ég kem í hús til að skoða tækniaðbúnað eru á staðnum nokkrir ljóskastarar sem ekki má hreyfa því það er verið að nota þá í annarri sýningu. Það er talið að hægt sé að útvega mér nokkra kastara telji ég það nauðsynlegt. Mér er ráðlagt að tala við ljósameistara ríkisins, sem heitir Lárus og er gamall vinur minn og samstarfsmaður úr hinu leikhúsinu, þarna rétt hjá Kringlunni.

Við þurfum skjávarpa í sýninguna. Það er skjávarpi til staðar en talið er að það verði búið að fjarlægja hann í næstu viku til notkunar í annarri sýningu. Þegar ég lýsi trausti mínu til stofnunarinnar að eiga fleiri en einn skjávarpa er flissað og spurt hvort ég viti ekki hvað eru margar sýningar í gangi í húsinu.

Ljósaborð er ekki til staðar. Ekki er vitað hvers konar ljósaborð verður útvegað, aftur er mér bent á Lárus.

Ég fer á heimasíðu Þjóðleikhússins til að finna netfang Lárusar. Eftir nokkra leit gefst ég upp og hringi.

"Þjóðleikhúsið góðan dag."
- "Já góðan daginn, er hægt að fá samband við Lárus Björnsson ljósamann?"
"Hef nú ekki séð hann Lárus í dag."
- "Nú? er hann með netf..."
"Tla að prófa að hringja inn til hans."
...
"Þjóðleikhúsið góðan dag."
- "Já, ég var að reyna að fá samband við hann Lárus. Það svarar ekki."
"Nei. Það svarar ekki hjá honum. Get ég skilað einhverju?"
- "Já, endilega, en er hann með netfang?"
"Gnablik."
...
"Það er lalliljos at gémeil púnktur com."
- "Takk fyrir. En gætirðu kannski tekið skilab..."
Klikk - dút dút dút dút...

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu