01 september 2008

HeilsuleysiÉg fékk slæma flensu í apríl og lá í hálfan mánuð. Þegar ég átti að vera að stíga upp úr henni var Gulla að koma í heiminn og mín heilsa fór einhvernveginn úr aðalhlutverki.

Þegar komið var fram í júní og við að flytja lenti ég í því að fá inngróna tánögl, allsvæsið tilfelli og þurfti að fara á sýklalyf í nokkra daga. Þá tók ég eftir því að þrálátur hósti og ræskingar sem voru orðinn eins og gamall vani - hurfu tímabundið. Svo smám saman byrjaði þetta aftur og versnaði hægt og bítandi.

Fyrir utan hóstann átti ég það til að eiga erfitt með svefn vegna hryglu- eða blísturshljóðs þegar ég andaði. Stundum fékk ég stingandi verk í ennið, eins og á milli augnanna eða aðeins ofar. Verkinn drap ég með ibuprofen dag eftir dag og lét hann fara í taugarnar á mér.

Svo fyrir réttri viku gafst ég upp og pantaði tíma hjá heimilislækninum mínum. Ein ástæða þess að ég hafði beðið svona lengi var sú að ég hef ekkert sérstaka reynslu af þessum lækni. Þeir sem hitta mig reglulega vita að ég hef átt í vandræðum með öndunafærin í nokkur ár, er oft að fá slæma flensu og ýmsar sýkingar. Alltaf hefur viðkvæðið hjá lækninum verið það sama: taka það rólega, drekka mikinn vökva (OK, það hefur svosem aldrei staðið á því hjá mér!) og bíða eftir að mér batni. Sýklalyf? Aldrei.

Nema nú fór ég og sagði lækninum mínar farir ekki sléttar, lýsti þróun mála yfir sumarið og sagðist orðinn langþreyttur á að vera langveikur.

Og viti menn: ég fékk uppáskrift á sýklalyf, einnig astmapúst sem ég átti að taka kvölds og morgna, ennfremur fyrirmæli um að fara aftur að nota daglega sterasprey í nef sem ég hef átt á kantinum síðan ég fór í minnistæða aðgerð hjá pabba þjóðhetjunnar Óla Stef, en sá er háls- nef og eyrnalæknir.

Nú er ég á fimmta degi á þessum kúr og lítið hefur batnað. Læknir sagði mér í dag að ég þyrfti að fara í sneiðmyndatöku til að kortleggja nákvæmlega hversu mikið af drullu er í hausnum á mér.

Ég vonast til að fá afrit af myndunum á tölvutæku formi til birtingar hér!

1 ummæli:

Hildur Gísladóttir sagði...

Mikið verður gaman að sjá inn í hausinn á þér, hef lengi verið að velta fyrir mér hvað sé í gangi þar inni....!