Ég er þreyyytttuuur!!!!

Þetta voru engir smá tónleikar í gær. Við æfðum stíft í heila þrjá daga (kunnum flest lögin sæmilega síðan í fyrra og vorum búnir að hlusta á þau sem bættust við, hver í sínu horni) en það er mun minna en þegar við vorum að bögglast við þetta í fyrra. Útkoman varð miklu meira lifandi og hrátt stöff heldur en síðast, þegar þetta hljómaði kannski full nákvæmlega eins og Purrkur Pillnikk.

Alltaf sama stressið í manni, þegar húsið var tómt klukkan hálfellefu var ég sannfærður um að enginn myndi koma. Svo smám saman tíndist fólk inn og þegar hið hrútleiðinlega upphitunarband byrjaði að spila þá tók fólk að streyma inn. Þeir sem hafa einhverja reynslu af rokki segja að það sé alltaf þannig, að um leið og hljómsveitir byrji að spila, þá komi fólkið. Þeir sem vilji bíða eftir fullu húsi fari aldrei á svið.

Dass af seleb-liði var á staðnum. Friðrik Erlingsson (sem var í Purrknum), Þorsteinn J, Heiða í Unun.

Spiluðum 24 lög. Tók allt of stuttan tíma. Okkur fannst öllum þegar við föttuðum að það væru ekki nema 3-4 lög eftir að við værum rétt að byrja. Næst dugar ekkert minna en að minnsta kosti 35 lög. Helst fjörutíu.

Mjög góður salur. Áðurnefnd Heiða hélt salnum gangandi af miklum krafti. Fagn fór stigvaxandi með hverju lagi. Lokalagið (Óvænt) breytti staðnum í fokking war zone. Gólfið fyrir framan svið var allt í einu orðið eitt og hálft tonn af öskrandi og iðandi mannakjöti.

Og djöfull er þetta nú fábjánalega gott band sem er í þessu með mér. Helgi er ridiculously góður trommari, Flosi afkáralega góður á bassa og Pétur sýndi það og sannaði að ég hef aldrei almennilega fattað hvað hann er undirfurðulega mikið tónlistarséní. Þegar rokk-goð eins og Flosi úr Ham segir við mann eftir gigg (um Pétur) : Já, ég er náttúrulega svo miklu takmarkaðri sem tónlistarmaður og þarf að hafa svo miklu meira fyrir þessu...

Tek það fram að Flosi sagði þetta ekki. Það var samt eitthvað svona nokkurn veginn í áttina, en ég var ekki kominn niður á jörðina fyrr en tveimur eða þremur klst seinna þannig að ég get ekki alveg ábyrgst að ég muni orðalagið hjá honum.

Talandi um að koma niður á jörðina, eftir gigg labba ég út á Smiðjustíg og mæti lítilli þrýstinni íturvaxinni júffertu sem er nýkomin með bílpróf (eða ég veit það ekki, allavega rétt skriðin á bílprófsaldurinn) sem strunsar foxill út af Hverfisbarnum - en þar var einhvers konar framhaldsskólaball - með tómt bjórglas í hendi. Greinilega eitthvað fúl og grýtir glasinu hátt í loft upp í vegg á gamla Habitat-húsinu. Glasið smellur í veggnum, dettur beint niður á stétt...

... og brotnar ekki. Ég gat ekki stillt mig og gargaði af hlátri. "Djöfull ertu lame!" kallaði ég. Hún hló aðeins. Mundi svo að hún átti að vera í fýlu og strunsaði á brott.

Annað highlight kvöldsins: Flosi tilkynnir í miðju prógrammi að hann þurfi að pissa. Fattar svo hversu gersamlega un-rock'n'roll það er og spyr mig hálf skömmustulega: Má það?

Ég spyr salinn. Salurinn er ekki á einu máli. En ég man þá að til er lag með PP sem heitir Tíminn og er bara trommur og rödd. Þannig að Flosi fær að pissa á meðan við Helgi gerum laginu skil. Það tekur 23 sekúndur.

Enn eitt highlight: Flosi byrjar á bassanum í "Vondur strákur" á meðan Pétur er enn að stilla strengi. Salurinn þarf að bíða eftir gítarlínunni...

...og byrjar þá bara að syngja hana fyrir okkur á meðan Pési tjúnar sig.

Jæja, svo fórum við á Grand Rokk til að ná okkur niður, en þá var hringt og spurt hvort við ætluðum ekki að forða græjunum okkar frá því að verða undir bjór og kynlífi því ellefan var að fyllast af subbulegum lýð. Þannig að við máttum gera svo vel og rogast með níðþungt drasl upp á efstu hæð hússins, en þar hefur Össur vert útbúið súperflotta prívat aðstöðu fyrir eftirpartí. Þar var setið langt fram undir morgun og látið helvíti spekingslega.

Enda var ég fokking þreyttur í morgun.

Næsti kafli í þessari sögu gæti orðið Airwaves. Það er samt ekki alveg öruggt ennþá þannig að ekki segja neinum frá, ókei?

Ummæli

Nafnlaus sagði…
uuuu... jó! Gleymdiru ekki að minnast á eitt celebið! ;)

En já þetta var mjög gaman þótt ég náði bara endanum á tónleikunum en ég fékk að vera vitni af þessu crazyness sem fór þarna í gang undir lokin. Það var gaman að fylgjast með.

Án efa skemmtilegasti partur kvöldsins hjá mér!

Takk fyrir mig.

Kv. MM
Nafnlaus sagði…
Þetta var djöfull gaman og ég hef ehgji enn fengið leið á þessu. Sammála með stutt prógramm, var rétt byrjaður að hitna en svona er það nú alltaf. Verðum fljótlega í sambandi varðandi Airwaves og nú þýðir ekkert annað en fá Morðingjana með.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu