24 ágúst 2008

Hvað á barnið að heita?Í gær skírðum við Guðlaugu Helgu. Réttara sagt, það kom hávaxinn guðsmaður í heimsókn og skírði hana upp úr vígðu kranavatni. Þetta var alveg svakalega hátíðleg og flott athöfn og séra Sigurður Grétar hafði sérstaklega á orði að sálmasöngurinn hefði ekki verið flottari í annarri heimaskírn sem hann hefði... hvað segir maður? Framkvæmt? Kannski ekki skrítið því við vorum með þaulreynt kórafólk í veislunni: Geiri tengdó, Helga tanta, Haddi og Agla og svo auðvitað Þóra sem söng einsöng í lokin með sinni nýuppgötvuðu barítónrödd. Ástríður mamma hennar sá svo um veisluföngin (hún kom sterk inn með eftirrétt í brúðkaupsveislunni okkar enda landsfrægur gúrmekokkur og kondítór) og allir voru ánægðir.
Afi og amma í góðum fíling. Skírnarkjóllinn er úr móðurfjölskyldu Rósu en Haraldur Árnason langafi hennar (sem rak Haraldarbúð í Pravda-húsinu í Austurstræti sem nú er brunnið) lét sauma kjólinn í London og þótti merkilegt á sínum tíma. Flestöll börn í ættinni hafa verið skírð í honum síðan og sem betur fer komst litla svínið í hann þótt það stæði tæpt.
Og svo verður maður að fá að fara úr svona apabúningi og chilla þegar maður er búinn að vera rosalega duglegur að halda kjafti meðan stóri maðurinn í kjólnum talaði og talaði og talaði...

3 ummæli:

Hildur Gísladóttir sagði...

Til hamingju með skírnardaginn!

Immagaddus sagði...

Til hamingju með skírnina.

Ps.
Áttu vigða vatnið ennþá?

Staðfestingarorðið er.
xpgoiz.
Sem er hljóðið sem heyrist þegar
vígðu vatni er skvett á vampírur.

Nafnlaus sagði...

thanks for sharing...