19 júlí 2008

Laun heimsins eru vanþakklæti

Það var drifið í því að aka austur í vikunni og nýjar tröppur smíðaðar. Sem betur fer hélt sá gamli sig til hlés en það átti svosem eftir að breytast. Alls fór einn týpískur vinnudagur í þetta, en ég var semsagt um átta klst. að ljúka verkinu.

Það átti reyndar enn eftir að bæta nokkrum skrúfum við handriðið þegar ég hætti en þar sem borvélin mín var orðin batteríslaus þá var ákveðið að það myndi klárast í næstu ferð.

Í morgun var svo rjómablíða og við með lánsbíl til umráða þannig að við ákváðum að skella okkur austur. Ég lauk þá við tröppusmíðina og fór upp í brekku að taka mál af annarri tröppu sem þar er yfir girðingu og er orðin ansi fúin. Tröppuna þarf að nota þegar maður fer upp að læk til að tengja eða aftengja vatnið í bústaðinn.

Annað sem við tókum okkur fyrir hendur í ferðinni var að fara í eldhúsið og fleygja ónýtum matvælum. Við fundum sósujafnara frá 1991, 1995 og 1999; Aromat, Season-all og Köd/Grillkrydderi frá 1994, 1997, 2001 og 2003; bláberjasúpu frá 2003; nokkrar krukkur af krækiberjasultu og -saft sem ekki voru dagsettar en litu ekki út fyrir að vera frá þessari öld; og fjóra litla plastbrúsa af sítrónusafa sem voru frá 1998, 2001, 2002 og 2004. Þegar upp var staðið fylltum við heilan svartan ruslapoka af útrunnu drasli.


Og nú rétt áðan hringdi karluglan. Kominn austur og alveg brjálaður yfir því að við skyldum henda sítrónusafanum. Ætlaði hann að nota hann í kvöld? Neinei, en það er óþarfi að henda svona dóti, þetta endist í hundrað ár. Hefur hann reynslu af því að eiga sítrónusafabrúsa í hundrað ár? Nei, hélt ekki. Fyrst sítrónusafinn frá 1998 á að endast til 2098, var þá nokkur ástæða til að kaupa þrjá nýja brúsa á undanförnum 10 árum? Nei.

Ég held að ég leyfi helvítis karlfíflinu að smíða tröppuna yfir girðinguna sjálfur.

Engin ummæli: