Blíða og brjálæði í bústaðnum
Þannig var nefnilega að tröppurnar upp að bústaðnum reyndust vera orðnar ormamatur - grautfúnar í gegn og tók mig ekki nema um fimm mínútur að rífa draslið þegar við höfðum ákveðið að nú þyrfti að endurnýja tröppurnar. Ég bauð mig fram til verksins og fékk þau svör hjá þeim gamla að ég skyldi algerlega sjá um alla ákvarðanatöku varðandi verkið.
Svo komst ég að því á næstu dögum að sú merking sem hann leggur í þau orð er önnur en íslensk máltilfinning myndi gefa nokkrum heilvita manni tilefni til, því hann hefur hringt fimm sinnum á dag með yfirlýsingar stórorðar, ábendingar misvitrar og stundum hreinasta heilaspuna þegar hann hefur gleymt því hvað okkur fór í milli í síðasta samtali. Það tók til dæmis heilan dag að koma honum í skilning um að Húsasmiðjan ætlaði bara að selja okkur timbrið í tröppurnar, ekki saga það niður í viðeigandi lengdir, hvað þá smíða dótið fyrir okkur. En á myndinni má sjá hvernig mannvirkið mun líta út. Þarna er bara búið að saga timbrið niður í þannig lengdir að það komist í bíl gamla mannsins. Svo á eftir að snyrta það til í hárréttar lengdir og festa saman. Ég set svo mynd hér af dæminu þegar verkinu er lokið. Sem betur fer er til nóg auka timbur í kross á leiði þess gamla, ef ég skyldi nú missa þolinmæðina og kæfa hann með púða.
Ummæli