Hamingja



Við erum flutt á Nesið! Það gerðist í síðustu viku og við erum á kafi í pappakössum og perustæðum að koma okkur fyrir. Tölum mikið um að við ætlum að taka því rólega og ekkert að stressa okkur á því þó það taki dálítinn tíma að koma okkur fyrir en samt erum við á útopnu frá morgni til kvölds alla daga. Það er komin hefð fyrir því að enda hvern dag með (late) kvöldgöngu um Nesið og veðrið hefur þvílíkt verið að leika við okkur að það er bara rugl.

Ólýsanleg tilfinning að vera kominn á bernskuslóðir.



Kettirnir eru í essinu sínu, þeim leist ekkert á blikuna fyrst þegar við komum með þá, enda heimakærir með afbrigðum. Keli ætlaði beint heim á Mánagötu aftur en Pjakkur faldi sig úti í horni og grét beiskum tárum. Klukkutíma síðar voru þeir búnir að átta sig á hreina loftinu og fuglasöngnum og orðnir þvílíkt sáttir. Minnir mann soldið á þegar þeir fara með okkur í sumarbústaðinn - það hlýtur að vera hrikaleg skítafýla í Norðurmýri ef maður er dýr með jafn næmt lyktarskyn og kettir.



Gulla dafnar vel, við fórum með hana í sex vikna skoðun um daginn - sjö mínútna labbitúr héðan á Heilsugæsluna - og hún taldist með afbrigðum heilbrigð. Orðin þessi líka hlussa, heil 4,35 kíló enda drekkur hún álíka mikið af móðurmjólk á dag og ég af bjór. Amman svona líka dugleg að passa fyrir okkur ef við þurfum að skjótast í BYKO eða eitthvað, svo fórum við með hana í fjölskylduboð til Bjössa frænda míns í Norðlingaholtinu og hún sló auðvitað í gegn.

Soldill munur á ekki nema sex vikum:



Svo er Páski víst að giftast á laugardaginn. Ég tók að mér að sjá um tækjabúnaðinn, hljóðkerfi og míkrófóna og eitthvað svoleiðis, og við Georg erum að pæla í að taka smá skemmtiatriði. Mental note: muna eftir myndavélinni.

Eini gallinn við að vera svona duglegur að flytja og vesenast í nýju íbúðinni: ég er með nýtt met í fjölda marbletta. Ef ég færi í sund yrði örugglega hringt í Stígamót vegna gruns um að Rósa væri að beita mig ofbeldi.

Já, og var ég búinn að minnast á að ég er kominn í sumarfrí? Og að þegar ég er búinn í sumarfríi þá fer ég í barneignarfrí? Og að þegar ég er búinn í barneignarfríi þá fer ég í launalaust leyfi í mánuð? Og að þegar sá mánuður er liðinn þá er komið jólafrí?

Semsagt: ég þarf næst að mæta í vinnu árið 2009. Toppiði það!

Ummæli

Eftir rétt tæplega 10 klst er ég komin í frí og mun ALDREI mæta aftur í þessa vinnu! Ég er svo mikið fyrir að toppa hlutina...
Til lukku með bæði barn og bú.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu