Hektískur dagur

Ekki í dag, því dagurinn í dag hefur verið hreint út sagt frábær - er enn í vinnunni og þetta er einn af þeim dögum þegar það er virkilega gaman að vinna þar sem ég vinn. Nóg um það, ég ákvað að blogga soldið í nöldurtóni og verð því að hætta þessari helvítis jákvæðni.

Í gær var semsagt rokið í vinnuna, síðan heim, þaðan í VÍS að sækja barnabílstól, þaðan út á Nes að hitta parketkall sem átti að gera tilboð í að pússa parketin okkar, síðan heim því það var komin hjúkka í heimsókn að skoða Gullu, síðan í Húsasmiðjuna því mig vantaði gólflista í nýju íbúðina, síðan heim að sækja Rósu og Gullu, síðan til mömmu með Gullu í pössun meðan við Rósa fórum að versla. Við fórum fyrst í Heimilistæki því okkur vantar þurrkara en þurrkarinn sem þar hafði verið til sölu og okkur langaði í var uppseldur, þá fórum við í BabySam og keyptum barnavagn, stóðum svo eins og tékkneskir leirkallar úti á bílaplani og reyndum að finna út úr því hvernig vagninn átti að leggjast saman til að hann kæmist í skottið á Yaris. Næst fórum við í Björninn að skoða borðplötu á baðherbergið, svo í Innréttingar og Tæki til að panta baðskápana og þá vorum við orðin svöng svo við fórum á KFC. Þá lá leiðin í 1928 í Kópavogi til að kaupa símaborð, eldhúsborð og stóla, en þar á eftir fórum við á lagerinn í Húsasmiðjunni því að gólflistinn sem ég hafði ætlað að kaupa um morguninn hafði ekki verið til í búðinni. Næst á dagskrá var að fara með listahelvítið út á Nes því hann komst sko EKKI fyrir í Yaris. Svo var farið heim til mömmu að sækja krakkann og skutla þeim mæðgum heim eftir að hafa að vísu fyrst komið við í Hagkaup og Ríkinu úti á Nesi. Þá fór ég niður á Grand Rokk að sækja símvirkann sívirka, Gunnar Goða, sem kom með út á Nes til að laga símasnúrur sem ég hafði klippt í sundur í ógáti. Þegar honum hafði svo aftur verið skutlað á Grand Rokk (þegar ég var búinn að nota tímann meðan hann lagaði víra til þess að fjarlægja stormjárn og lakka bréfalúguna svarta) fór ég heim, eldaði mat, borðaði og svo fórum við með Gullu í vagninum út í Austurbæ að horfa á nemendur mína leika Kardemommubæinn á hálftíma. Að því búnu fórum við heim en ég strax út aftur til að horfa á seinni hálfleik af tapleik ÍA gegn FH.

Og ég var þreyttur í morgun.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu