Dagur frá helvíti

Nú er stutt síðan við þurftum að yfirgefa Mánagötuna svo fasteignasalinn gæti haldið opið hús. Það kom einn áhugasamur kaupandi og sú kom aftur í fyrradag með her manns - fagmenn sem eru sérfræðingar í að finna galla á fasteignum. Ég get ekki mikið kvartað yfir því, við notuðum einn slíkan þegar við vorum að skoða eignir úti á Nesi.
Nema hvað, sérfræðingur nokkur hafði miklar áhyggjur af ástandi klóaklagna hjá okkur. Hefur sennilega lesið Mýrina eftir Arnald. Fólkið lét í það skína að heimsókn lokinni að ef við gætum sýnt fram á að lagnirnar væru í lagi gætum við átt von á tilboði frá þeim. Þannig að ég tók upp símann og pantaði klósettkafara. Sem kom í gær, kvað upp þann úrskurð að rörin væru í einu orði sagt ónýt og labbaði svo út með 27 þúsund krónur í vasanum.

Kemur sér að maður er prókúruhafi hússjóðs. Læt hann allavega borga þennan 27 þúsundkall. Það sem verður öllu dýrara verður að laga þessi skítarör. Það þarf samþykki allra í húsinu og það lítur út fyrir að kostnaður verði eitthvað í kringum 200 þúsund á hverja íbúð. Spurning hvort þetta sé tryggingamál en ég efast einhvernveginn um það. Það jákvæða er að það eru þrjár íbúðir í húsinu til sölu og það er hagur þeirra sem eru að reyna að selja að geta sagt að lagnir séu nýlega endurnýjaðar.

Því miður tókum við einnig eftir því í gær að Pjakkur hafði ekki skilað sér heim um nóttina og er enn týndur. Það er erfitt að trúa því að eftir níu ár sé hann farinn frá okkur en við lifum í voninni að hann sé ekki dauður heldur innilokaður einhversstaðar og komi aftur. Verst að við erum að plana að flytja á mánudaginn. Hann hefur einu sinni áður horfið svona og þá birtist hann eftir rúman sólarhring, við vonum það besta.

Dagurinn hafði líka byrjað í panikk í gær, við höfðum tekið eftir því að það blæddi úr naflastúfnum á henni Gullu okkar í fyrrakvöld en í gær hafði blæðingin færst í aukana svo við ákváðum að hafa samband við heilsugæsluna. Fengum loksins að fara með hana þangað og þá var hún orðin bólgin og aum af því að okkur hafði ekki verið kennt almennilega að þrífa í kringum naflastrengsendann sem bráðum fer að detta af.


Svo til að kóróna allt saman þá hringdi í mig nágranninn í nýja húsinu á Nesinu og tjáði mér að hann væri símasambandslaus. Það reyndist vera mér að kenna, því við ætlum að fá okkur ljósleiðaratengingu inn hjá okkur og munum því ekki notast við hefðbundna símatengla. Ég tók mig því til og fjarlægði alla þrjá tenglana sem voru í íbúðinni, og klippti á vírinn sem liggur upp á efri hæð án þess að gera mér grein fyrir því. Hringdi í Vodafone og var sagt að það kostaði 11 þúsund krónur að fá símvirkja og það væri viku bið.

Sem betur fer þekki ég símvirkja sem er til í að kíkja út á Nes á eftir og redda þessu fyrir mig.

Ég var einmitt þar í morgun með her manns að þrífa, því nú er málararæksnið loksins að verða búið að sparsla og pússa og byrjaður að mála, þannig að íbúðin þarf að vera laus við allt ryk. Ég er búinn að vera meira og minna með ryksuguna á lofti þar í þrjár vikur og hún gaf sig endanlega í morgun, svo ég neyddist til að fara í BYKO og kaupa nýja. Sem betur fer var hún ekki dýr.

Nú, og fyrst maður er byrjaður að blaðra hérna þá er kannski rétt að nota tækifærið og auglýsa eftir nauðsynjavörum fyrir barnafólk. Er einhver sem á til dæmis barnavagn, burðarrúm eða einhver leikföng fyrir svona lítil kríli? Endilega látið vita.

Ummæli

iskoppa sagði…
One child's drum, unused, still in its original wrapper. If you collect, you get it for free!!!

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu