Póstur númer fimm hundruð!

Það sem maður hefur nú getað bullað í öll þessi ár! Man ekki einu sinni nákvæmlega hvenær ég byrjaði að blogga en þó man ég að ég var staddur á Hressó með bjór í annarri og tölvuna í hinni.

En það var nú samt ekki erindið heldur hitt, að sýna fleiri myndir af tilvonandi slotinu. Hér er stofan, gluggar vísa út á Miðbraut í austurátt. Borðstofan sést þarna til vinstri og á bak við vegginn sem sjónvarpið stendur við er eldhúsið.


Á þessari mynd sést betur hvernig eldhúsið liggur, það er hægt að ganga inn í það úr tveimur áttum, frá borðstofunni og líka þarna vinstra megin við sjónvarpið. Þegar maður fer að pæla í því þá er ljóst að við þurfum að fá okkur stærra sjónvarp, he he!



Hér má svo sjá stofuna úr hinni áttinni. Dyrnar sem glittir í bak við sófann liggja inn að svefnálmunni og það sem mér finnst grúví er að þarna er hægt að loka þeirri álmu algerlega af, til dæmis þegar fólk er í heimsókn og barn eða börn eru sofandi. Leðurhornsófinn okkar er ekki alveg eins voldugur og þessi svarti en mun nú samt örugglega sóma sér sæmilega.





Nú svo er það eldhúsið, hér úr einni átt, það rétt sést inn um dyrnar í borðstofuna hægra megin.

Og hér úr hinni áttinni, þar sem er þessi fíni borðkrókur. Gluggar í eldhúsi vísa báðir út á Hæðarbraut (sem áður hét Valhúsabraut en því var breytt þegar gatan sem hét Skólabraut var klofin í tvo hluta sem nú heita Valhúsabraut og Kirkjubraut en um leið var hluta Melabrautar breytt í Skólabraut þannig að það þurfti að endurraða húsnúmerum á þeim hluta Melabrautar sem átti að halda áfram að heita Melabraut - svo heldur maður að Reykjavík sé í ruglinu!) og eru í norðurátt.

Hér er svo svefnálman, séð úr dyrunum fram í stofu. Vinstra megin sést inn í annað barnaherbergið, hitt er við hliðina á því en út úr mynd. Fyrir miðju er hjónaherbergið og það rétt sést í dyrnar inn á bað þarna hægra megin.

Baðherbergið lítur svona út:

Hér er annað barnaherbergið...

...og hér er hitt...

Svo er hér að lokum hjónaherbergið og þarna bak við rúmið eru dyr út á forláta sólpall.

Og hér er að lokum sá sólpallur.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Feitibjörn tekur pásu

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022