Endalaust páskahret
Hér tók svo við mikið japl, jaml og fuður. Steini vert var í símanum að spjalla við kunningja sinn sem á skurðgröfu (já) meðan hinir og þessir besserwisserar (af þeim er alltaf nóg á Grand) tjáðu sig um skoðanir sínar á því hvernig best væri að leysa Gordíonshnútinn.
Úr varð að prófað var að taka borðið í sundur. Því næst var handriðið fjarlægt úr stigaganginum. En allt kom fyrir ekki. Einn eða tvo varahluti var hægt að bera upp á loft en borðið sjálft var ekki að fara neitt frekar en fæðingarblettur á melanómusjúklingi.
OK, þetta var ósmekklegt, sorrý pabbi!
En það var brugðið á það ráð að hringja aftur í gæann á gröfunni. Sem mætti á svæðið vígreifur og hress og byrjaði að reyna að fikra sig inn á lóð knæpunnar í því skyni að lyfta billjarðborðinu upp í skóflunni að glugga á efri hæðinni og koma því þar inn.
Þess ber að geta að glugginn veit inn í eldhús Grand Rokk (já, það er einhvers konar eldhús á Grand en örvæntið ekki, þar er aldrei... ALDREI eldaður matur) - og allsendis óvíst hvort borðið kæmist úr eldhúsinu og inn í salinn þar sem því var ætlað að standa. En það var talið seinni tíma vandamál.
Grafan átti í mestu vandræðum með að komast leiðar sinnar. Ástæður voru þrjár, annars vegar tvær veglegar aspir sem lokuðu fremri hluta portsins, en hins vegar hið margfræga reykingatjald sem hýst hefur margan ógæfumanninn síðan fíklunum var úthýst í fyrra. Menn létu það ekki á sig fá heldur mölvuðu ótrauðir gluggann í eldhúsinu.
Þá fékk einn spekingurinn hugljómun, rétt í þann mund sem gröfugaurinn hvarf inn í sólsetrið: það þarf auðvitað enga gröfu, við jafnhöttum bara helvítið.
Og átta fyllibyttur (alls 659kg) tóku sig til og lyftu billjarðborðinu upp að glugganum meðan aðrar tvær fyllibyttur (alls 136kg) reyndu sitt besta að hífa það inn um gluggann.
Þá tók við snúningur og tilfæringar að koma draslinu úr eldhúsinu og inn í sal. Mér til mikilla vonbrigða tókst það, því þetta hafði allt saman verið svo skemmtilegt. En vitandi hvernig Grandarar virka (og hugsa.... þegar þeir á annað borð hugsa) þá vissi ég að nú var þetta búið. Nú yrði borðið ekki hreyft aftur í bráð.
Við bíðum enn eftir að billjarðborðið verði sett saman og því fundinn staður á meðal hinna rándýru húsgagna efri hæðar sem Steini vert fjárfesti í í fyrra eða hitteðfyrra. Þá bíðum við einnig eftir því að borð númer tvö og þrjú komi í hús. Glugganum á efri hæð hefur verið lokað með spónaplötu en hana má eflaust mölva, okkur öllum til skemmtunar.
Ummæli
Gagnrýnandi