Menntamál

Jæja börnin góð.

Nú fer að líða að því að ég taki mitt næsta skref á menntabrautinni. Hún er orðin löng og ströng og nær yfir margar menntastofnanir og mörg lönd. Ég nenni ekki að telja allt upp hér en fjandinn hafi það, á dauða mínum átti ég von en ekki þessu:

24. janúar á ég að mæta á námskeið í brjóstagjöf.

Hugsum þetta aðeins, pælum aðeins í því : ég á að mæta á námskeið í brjóstagjöf.

Miðað við videóið í færslunni hér að neðan (sem er skylduáhorf druslurnar ykkar!) þá mætti halda að einhver gæti hafa fengið þá ranghugmynd að ég færi að mjólka bráðum.

Fyrir nú utan það hvað ég hef fitnað yfir hátíðirnar.

En: hvaða ástæða gæti hugsanlega verið fyrir því að ég þyrfti að fara á námskeið í athöfn sem ég mun aldrei stunda? Ég verð að viðurkenna að ég hváði þegar Berglind ljósmóðir sagði að ég ætti að koma með á þetta námskeið. Hún deplaði ekki auga heldur tilkynnti okkur að velgengni brjóstagjafar bókstaflega stæði og félli með því hvort kallinn mætti með á þetta námskeið.

Og ég hef verið að hugsa: hvað meinarðu????

Nema hvað, ég held að ég hafi fundið skýringuna. Setjum svo að fyrir einhverjum árum hafi Mæðravernd byrjað að bjóða upp á námskeið fyrir verðandi mæður svo þær stæðu ekki eins og bjánar með hann Pálma litla í höndunum og vissu ekkert hvernig ætti að fóðra kvikindið. Væntanlega hafa slík námskeið í upphafi notast við litlar smábarnadúkkur svo konurnar gætu æft sig í því hvernig best væri að halda á krílunum meðan þau svolgruðu í sig lífsmjólkina.

Snemma hafa sennilega konur byrjað að kvarta (eins og þær gera.... stundum, skulum við segja) yfir því að þegar þær hafi verið komnar með alvöru barn þá hafi það hegðað sér allt öðruvísi en dúkkan sem notuð var á námskeiðinu.

Og þá hafa ljósmæður farið að hugsa.... og velt því fyrir sér hvort völ væri á sjálfboðaliðum sem væru fáanlegir til þess að mæta á námskeið í brjóstagjöf og sjúga brjóstin á verðandi mæðrum eins og þeir ættu lífið að leysa.

Og hafa auðvitað dottið niður á þá lausn að fá pabbahelvítin til að leggja eitthvað af mörkum til tilbreytingar.

Sem auðvitað hefur verið auðsótt mál.

Djöfull hlakka ég til.

Sérstaklega ef svo vill til að einn pabbinn forfallast og við þurfum að fara í nýjan varíant af stólaleiknum. Enskumælandi menn myndu eflaust kalla það "Musical Tits"

Ummæli

Hvað er þetta Bjössi minn, þú átt svo auðvelt með að "get in touch with your feminine side", þú brillerar á brjóstagjafanámskeiði!
Nafnlaus sagði…
Sæll Bjössi - kíki alltaf öðru hvoru hingað inn - mjög "fróðlegt" allt saman. Til hamingju með væntanlegan erfingja.
kveðja Bára
Nafnlaus sagði…
Oh það er svaka leiðinlegt á þessu brjóstagjafanámskeiði. En til hamingju með barnið. :D

Allt gott að frétta af Mörtu minni (hún er að verða 10 mánaða)og ég er búin að vera að kenna spænsku frá því í Október.

Ég ákvað að kíkja á leiðarbloggið þitt og þá fann ég þessa síðu.

Hafðu það gott

Kveðja Thelma

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu