Flutningur framundan?

Nú eru um fjórir og hálfur mánuður þar til erfinginn kemur í heiminn. Fróðir og reyndir menn hafa sagt mér að það verði mjög fljótt að koma í ljós að 53,6 fermetrar í kjallara í Norðurmýri sé ekki að virka. Rósa var treg til í fyrstu en mér hefur (að ég held) tekist að sannfæra hana um að skynsamlegast sé að drífa sig út kompunni áður en krílið verður of stórt.

Sem betur fer erum við vel sett í fæðingarorlofsmálum, með fyrirvara um að ég fái að gera það sem mig langar, en planið er svona:

Barnið kemur í heiminn seinni part maímánaðar 2008, um leið og ég er að detta í sumarfrí.
Rósa ætlar að taka ársleyfi (það er víst hægt að taka heilt ár á hálfu kaupi í stað þess að taka hálft ár á heilu kaupi).
Ég ætla að taka mína þrjá mánuði strax að loknu sumarfríinu og svo að fara í tveggja mánaða launalaust leyfi, þannig að ég fer ekki aftur að vinna fyrr en í janúarbyrjun 2009.
Þegar Rósa kemur aftur til starfa úr sínu ársleyfi, verð ég akkúrat að detta í sumarfrí á nýjan leik. Sem þýðir að litla kvikindið verður með báða foreldra heima með sér fyrstu 7 mánuðina, og annað hvort foreldrið heima næstu 7 mánuði á eftir. Þannig að við erum að tala um dagmömmu frá og með ágúst 2009.

Pælingin hjá mér er þessi: þegar kemur að þessum seinni 7 mánuðum verð ég fyrst að vinna og svo Rósa. Flutningar eru erfiðir og þeim fylgir álag. Því tel ég að betra sé að nota tímann meðan við erum bæði í barneignarfríi til að spá í að selja, kaupa og flytja. Það gæti verið sniðugt að stefna að því að standa í þessu næsta haust, þegar maður er (vonandi) aðeins kominn í rútínu með litla skrímslið.

Hvað finnst ykkur?

Ummæli

Þetta hljómar allt afskaplega vel skipulagt hjá ykkur. Erfitt að segja fyrr en barnið er mætt á svæðið og hvernig gengur fyrstu mánuðina. Ef þið hafið ekkert að gera bæði tvö og hangið bara yfir sofandi barni er um að gera að skella sér í dæmið. Myndi halda þessu opnu í báða enda frekar en binda sig við tímasetningar. well, you asked for peoples opinions...
By the way þá er sónarmyndin ekkert smá fín og skýr. Ekki fékk ég svona fínar myndir og sá aldrei neitt út úr þeim fyrr en eftir leibeiningar og útskýringar frá fagfólki!
Nafnlaus sagði…
Sammála Hildi með að skoða bara málið þegar þar að kemur. Síðan getið þið tekið ykkur mig til fyrirmyndar og bara skellt ykkur í málið án þess að vera of mikið að hugsa um það. :) Hvert er stefnan tekinn með staðsetningu??
Mjög sammála varðandi sónarmyndina. Þegar við fengum fyrstu myndina þá þóttumst við alveg sjá allt saman, stóðum síðan frammi á gangi og snérum myndinni fram og til baka og skildum ekkert í henni.
Bjössi sagði…
Það er nú bara þannig að fallegt fólk býr til falleg börn sem sjást vel á sónarmyndum og hananú!

Word verification dagsins er:
rnpvqyyb
Sem þið hafið báðar sagt í miðjum hríðum.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu