21 nóvember 2007

Paría

...heitir leikrit eftir Strindberg sem fjallar um útskúfað fólk.

Sýningin mín á Heddu Gabler féll ekki í kramið hjá gagnrýnendum. Kemur mér ekki á óvart, eins og vinnan við sýninguna þróaðist - samt ekki við hæfi að segja frá því strax, meðan sýningin er enn á fjölunum. En mér fannst bara helvíti gaman að fá svona sterk viðbrögð við því hvernig ég nálgaðist þetta verk.

Meðal bestu kommenta var í Fréttablaðinu þar sem krítíker var ekki hrifinn af leikurunum en fannst leikmyndin góð. Stakk svo upp á því að leikmyndin fengi að standa og aðrir leikarar spreyttu sig á leikritinu. Mér fannst þetta svo góð hugmynd að ég var næstum búinn að stinga upp á því við pródúsentinn að við gerðum þetta í alvöru. Ég myndi þá vinna í klukkutíma með hverjum leikara, það yrði hvíslari fyrir hvern leikara sem myndi mata öllum texta í gegnum headset og svo yrðu leikararnir bara að standa sig. Leikhússport with a twist. Svo mundi ég að pródúsentinn leikur líka Heddu Gabler svo hún myndi sennilega ekki taka þessari hugmynd vel.

Í Mogganum var ég skammaður fyrir að setja verkið upp án leikstjórnar, sem var alltaf ætlun mín - semsagt að treysta textanum og söguþræðinum fyrir því að hreyfa við áhorfendum. Gagnrýnandinn var alveg brjálaður yfir því að ég skyldi gera þetta svona, en endaði dóminn á því að segja að þrátt fyrir þessa "veikleika" uppfærslunnar þá hafi áhorfendur setið, hlustað og notið textans, þannig að þetta hefur kannski virkað hjá mér. Það er líka talað um í þessum dómi að þegar leikritið var frumsýnt í fyrsta sinn hafi brotist út slagsmál. Svoleiðis gerir fólk auðvitað ekki nútildags en mér tókst þó allavega að pirra einn krítíker.

Svo kom DV og þar stóð að leikhópur eins og við ættum ekki að setja upp svona verk heldur frekar vera raunsæ á eigin krafta og getu og setja upp eitthvað sem við ráðum við. Einmitt. Þannig verða nefnilega listamenn til, með því að gera bara það sem þeir vita að þeir kunna. Ekkert of krefjandi takk. Svo fer líka heilmikið púður í að skamma Þjóðleikhúsið fyrir að sýna ekki verk eins og það sem við settum upp. Við fáum samt ekkert kredit fyrir að fylla upp í það tómarúm sem sú ákvörðun Þjóðleikhússtjóra býr til.

Djöfull er gaman!

Engin ummæli: