Í kóngsins, í kóngsins, í kóngsins köbenhavn

Það hefur tekið fjóra daga en nú er ég hættur að vera þreyttur. Eins og Lurch myndi segja, "seriously chilled" og meiraðsegja farinn að sofa út á morgnana.

Fyrsta kvöldið var skrítið. Við Nikki fórum út strax og ég var búinn að leggja frá mér bakpokann. Ætluðum á stað sem heitir Operaen en þar var lokað svo við enduðum á Woodstock, sem er Grand Rokk þeirra Stínubúa. Við kjöftuðum svo mikið að við drukkum ekki nema 3 flöskubjóra þótt klukkan væri orðin æði margt þegar við urðum skyndilega hræddir og ákváðum að forða okkur.

Á ég að útskýra?

Við höfðum sem sagt látið okkur í léttu rúmi liggja þótt dj-inn spilaði átta afmælissöngva í röð, þótt alltíeinu hafi setið subbulegur Íslendingur við hliðina á okkur og þótt annar hver maður á staðnum hafi verið að reyna að selja okkur eitthvað sem við höfðum auðvitað enga þörf fyrir. En þegar þriggja laga syrpa með Frankie Goes to Hollywood varð til þess að grænlensk kelling skellti sér út á gólf og fór að dansa, þá runnu á okkur tvær grímur á mann, sem sagt fjórar grímur alls. Ekki það að grænlenskar kellingar megi ekki dansa eins og annað fólk, en þessi dansaði ekki eins og annað fólk dansar. Hún dansaði eins og annað fólk slæst.

Mér er alvara, hún kýldi, hrinti og sparkaði í allar áttir, þar til hún var orðin ein á dansgólfinu. Þá tók hún eftir mér, þar sem ég sat í makindum og spjallaði við Nikka. Og labbaði til mín og fór að nudda sér upp við mig. Þá ákváðum við semsagt að kalla þetta kvöld.

Ég var svo ekki orðinn alveg nógu chillaður þannig að ég vaknaði fyrir allar aldir á föstudaginn. Doro var farin í vinnuna en við Nikki fórum af stað og þvældumst eitthvað um fram að hádegi en þá þurfti hann að fara að vinna og ég að fara og leggja mig. Kvöldinu eyddum við svo með vinum þeirra í hönnunarbúð sem selur alls konar svalt drasl. Meðan búðin er opin sitja hjónin sem eiga hana mest allan daginn á bakvið, reykja og drekka og spjalla við vini sína. Þegar búðin lokar halda þau svo áfram að gera það sama. Þarna liðu margir klukkutímar af tómu bulli og miklum hlátri. Nikki hafði varað fólkið við mér, sagt að þau mættu alls, alls ekki minnast á að ég væri dvergur. Svo urðu þau rosa hissa þegar ég mætti, 178 cm á hæð, og spurðu hvers konar dvergur þetta væri nú eiginlega. Ég svaraði ískaldur að ég væri með gerfifætur. Við kvöddum hjónin með söknuði þegar garnir voru farnar að gaula og fórum á veitingastað þar sem við hittum annað par sem Nikki og Doro þekkja, endaði með að við sátum og kjöftuðum við þau þangað til seint. Fengum svo að kíkja í fornbókabúð sem gæinn á, þar hefði ég léttilega getað eytt nóttinni en í staðinn fórum við bara heim að sofa, södd lífdaga.

Laugardagurinn hófst með hjólatúr niður að strönd og langri leit að hjóli til að stela því hjól Doro, sem ég fékk lánað, reyndist vera algert drasl. Næst fórum við á Istedgade og fundum Freddy's Bar, sem er Grand Rokk þeirra Isteda. Þar settum við met sem seint verður slegið, í Trivial-Pursuit-vél staðarins. Það er víst dregið mánaðarlega og verðlaunin eru 15, 10 og 5 bjórar fyrir efstu 3 sætin. Samkvæmt því eigum við inni 30 bjóra á staðnum. Gamla metið í Tribbanum var 38,500 stig en metið sem ég setti var 127,750. Geri aðrir betur. Sem ég og gerði, því á næsta bar tókst mér að vinna Nikka tvisvar í pool. Og ég sem get ekkert í pool. Chillunin greinilega að byrja að virka. Eftir kebab hittum við svo vinnufélaga Nikka sem er sviss-tyrkneskur og heitir að mig minnir Chuklut eða eitthvað slíkt. Hann bauð okkur heim til sín í Pizzu og þaðan fórum við í heimsókn til vinar hans sem rekur veislusal í gömlu pakkhúsi. Þar reyndist vera 600 manna írösk brúðkaupsveisla í gangi, sem við fylgdumst með úr spilavítinu á efri hæðinni. Mjög súrt. Eftir það heimsóttum við Öddu vinkonu og sátum hjá henni heillengi meðan Nikki rifjaði upp gamla dj-takta. Gerðum svo þau mistök að ætla í bæinn. Ætluðum að fara á Jolene, sem er staðurinn hennar Dóru Takefusa, en þótt klukkan væri ekki nema hálftvö þegar við komum var búið að loka. Sem er mjög slæmt þegar það er miði á dyrinni þar sem stendur að opið sé til kl. 2. Ekki satt. Laga þetta, Dóra mín. Við enduðum kvöldið á Dunkel sem er bráðskemmtilegur staður rétt við Hovedbanegården.

Í gær tókst mér svo í fyrsta sinn að sofa út og fór ekki fram úr fyrr en að verða eitt. Þvílíkur lúxus. Hvenær ætli það gerist næst? Verð allavega að reyna að sofa út nokkrum sinnum áður en maímánuður rennur upp og ég sef aldrei framar............ hehe

Nikki fyllti nýja I-podinn minn af tónlist og ég fór í bæinn eitthvað að væflast um. Keypti ódýra vínflösku á leiðinni heim og við stútuðum henni með matnum. Fórum svo á Operaen, sem hafði verið upphaflega ætlunin á fimmtudag, þar reyndist vera jam-session frá helvíti í gangi, stelpur í massevis og brjálað stuð. Fyndið atriði þegar tvær stelpur sem voru að dansa rétt hjá okkur litu yfir til okkar og bentu svo greinilega á mig og fóru eitthvað að gera sig breiðar í danshreyfingum, nú átti aldeilis að veiða. Þá skipti ég pollrólegur um hönd á bjórnum, þannig að giftigarhringurinn sást. Og þær lyppuðust niður, settust á gólfið og stóðu ekki upp fyrr en við vorum farin.

Og mikið djöfull er ég feginn að hafa tekið frí í dag líka, þarf ekki að mæta í vinnu á mánudegi heldur get slappað enn meira af og flogið heim í roligheden í kvöld. Skidefedt!

Ummæli

Nafnlaus sagði…
það var greinilega gaman í köben .... þú heppinn !!
búhú, mig langar líka til köben og dansa við grænlenskar kellingar. bring it on!
Immagaddus sagði…
Af hverju er kebab skrifað með litlu Kái.
Mér finnst þetta lítilsvirðing við Tyrkjan sem þið gerðuð eitthvað við.
Ef maðurinn heitir Kebab á að skrifa það með stóru Kái.

Wordverification dagsins er: oasidgb.
Sem er héraðið sem hann var frá.
Nafnlaus sagði…
Ég er sár

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu