Borg óttans

Ísafjörður kvaddi mig með tárum fyrir nokkrum dögum og ég dreif mig suður í afskaplega góðum félagsskap - lenti við hliðina á Hildi vinkonu minni í flugvélinni og við skemmtum okkur við spjall og nutum útsýnisins. Í huganum gekk ég svo í the mile high club.

Verslunarmannahelgin var róleg hjá landsmönnum og ég er engin undantekning. Var farinn í bæinn þegar banaslysið varð á Laugarvatnsvegi en við vorum sko í sumarbústað þarna rétt hjá. Það dó líka einn í okkar bústað en sem betur fer reis hann upp við dogg (hvað er dogg?) daginn eftir svo við gátum haldið heim.

Vikan er svo frekar busy hjá manni, við Rósa fórum í bíó í gær að sjá Simpsons (með ensku tali, natch) og hún var bara fín. Myndin það er að segja. Rósa var frekar hversdagsleg. Í kvöld förum við á Draggkeppni Íslands (TM) og er það í fyrsta sinn ever sem ég mæti á þá keppni sem óbreyttur áhorfandi. Ég hef semsagt mætt tvisvar sem keppandi, einu sinni sem skemmtiatriði, fjórum sinnum sem listrænn stjórnandi en í kvöld læt ég mér nægja að horfa á.

Svo var ég að byrja í nýju vinnunni minni í dag, en ég er orðinn grunnskólakennari við Norðlingaskóla (ekki morðingjaskóla) sem er einn nýjasti grunnskólinn í Reykjavík og er staðsettur milli Breiðholtsbrautar og Rauðhóla. Og reikniði nú! Það er byrjað snemma í þessum skóla enda ekki búið að byggja hann ennþá. Þetta eru bara svona vinnuskúrar og verður þannig næstu tvo vetur áður en ný bygging verður formlega vígð haustið 2009. Sjáum til hvort ég verði ennþá starfsmaður þegar kemur að því en samt á ég frekar von á því.

Ég kom líka heim með nýtt leikfang úr vinnunni í dag því starfinu fylgir splunkuný fartölva, Levono Thinkpad sem er að hlaða sig akkúrat núna en ég byrja að leika mér að henni á morgun.

Fleira er ekki í fréttum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu