11 júlí 2007

Skrifræði: Verst fyrst

Alla föstudaga í júlí eru svokallaðir götulistadagar á Ísafirði. Hinir og þessir lista- og handverksmenn selja varning og listaverk og leikhópurinn minn, Morrinn, skemmtir gestum og gangandi.

Síðastliðinn fimmtudag leit ég við á bæjarskrifstofu Ísafjarðar og gekk að afgreiðsluborðinu.

"Góðan daginn, ég heiti Björn og sé um leikhópinn Morrann. Nú eru að hefjast götulistadagar og við þurfum að komast í rafmagnstenglana sem eru á Silfurtorgi."

Jahá, sagði konan í afgreiðslunni og tók upp símann. Sagðist ætla að hringja í tæknideildina. Þar svaraði enginn svo hún tók lykil og bað mig elta sig að dyrum tæknideildar sem voru hinumegin á ganginum. Þar inni sat maður við skrifborð og ég kynnti mig.

"Góðan daginn, ég heiti Björn og sé um leikhópinn Morrann. Nú eru að hefjast götulistadagar og við þurfum að komast í rafmagnstenglana sem eru á Silfurtorgi."

Jahá, sagði maðurinn og hugsaði málið nokkra stund. Svo sagði hann mér að hann héldi að ég þyrfti að snúa mér til Orkubús Vestfjarða því þeir hefðu með rafmagn að gera. Svo ég fór í símann og hringdi í Orkubú Vestfjarða:

"Góðan daginn, ég heiti Björn og sé um leikhópinn Morrann. Nú eru að hefjast götulistadagar og við þurfum að komast í rafmagnstenglana sem eru á Silfurtorgi."

Augnablik, ég skal gefa þér samband við Ragnar.

"Góðan daginn, ég heiti Björn og sé um leikhópinn Morrann. Nú eru að hefjast götulistadagar og við þurfum að komast í rafmagnstenglana sem eru á Silfurtorgi."

Jahá, sagði Ragnar og kom af fjöllum. Sagði mér svo að ég ætti sennilega að hringja í Skúla rafvirkja. Ég er ekki að grínast. Ég hringdi í uppgefið númer en ekki svaraði þó Laddi.

"Góðan daginn, ég heiti Björn og sé um leikhópinn Morrann. Nú eru að hefjast götulistadagar og við þurfum að komast í rafmagnstenglana sem eru á Silfurtorgi."

Jahá, sagði Skúli og glotti. Þú þarft að snúa þér til tæknideildar á bæjarskrifstofu Ísafjarðar. Þar er geymdur lykill að tenglaskápnum. Nú var mér nóg boðið og ég ákvað að fá mér bjór og bíða til morguns. Daginn eftir fór ég beint upp á tæknideild og þá sat annar maður við annað skrifborð en í gær.

"Góðan daginn, ég heiti Björn og sé um leikhópinn Morrann. Nú eru að hefjast götulistadagar og við þurfum að komast í rafmagnstenglana sem eru á Silfurtorgi."

Jahá, sagði maðurinn og tók upp símann. Hringdi og spurði einhvern hvar lykillinn góði væri geymdur. Var sagt að hann væri sennilega í áhaldahúsi bæjarins. Spurði mig hvort ég væri ekki á bíl en ég neitaði því. Þá bauðst hann til að hringja á undan mér í áhaldahúsið því hann Óli, sem þar vinnur, væri stundum soldið þver við menn sem kæmu þangað fyrirvaralaust og vildu eitthvað. Reyndi nokkrum sinnum en alltaf var á tali hjá Óla. Greinilegt að fleiri vissu að það væri skynsamlegast að hringja á undan sér. Ég gafst upp og sagðist ætla að biðja Atla hjá vinnuskólanum að sækja lykilinn því hann væri á bíl. Hringdi í Atla sem sagðist ætla að bjarga málunum fyrir hádegi.

Í hádeginu hringdi ég í Atla sem sagðist hafa farið í áhaldahúsið og þar hefði honum verið sagt að það þyrfti ekki neinn sérstakan lykil á tenglaskápinn, bara 12 millimetra topplykil. Spurði hvort ég ætti ekki örugglega topplyklasett. Bauðst svo til að lána mér sitt þegar ég sagðist ekki hafa tekið með mér topplyklasett að sunnan, hefði ekki gert ráð fyrir að það væri nauðsynlegt þegar maður vinnur með unglingum að leiklist.

Seinna um daginn var topplyklasettið komið, í fínni tösku sem ég greip og skundaði á Silfurtorg. Opnaði töskuna og í henni voru toppar af öllum stærðum og gerðum en engin sveif. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að gá hvort 12mm toppurinn passaði á lásinn. Það gerði hann ekki. Hins vegar var leikur einn að opna tenglaskápinn með puttunum þannig að nú gat ég komist í rafmagn.

2 ummæli:

Immagaddus sagði...

Alltaf í stuði.

Word verification dagsins er.
nbcly.
Sem er stærðin á puttanum sem þú þarft.

Anna sagði...

Hahahahahahaaha