Rúm - mál

Stundum finnst manni að maður sé vel liðinn og öllum líki vel við mann. Á öðrum stundum er eins og maður sé litinn hornauga úr öllum áttum og launráð plottuð bak við vingjarnleg bros.

Nú fer ég bráðum að koma heim frá Ísafirði í síðasta sinn þetta sumarið og þegar ég lít um öxl finnst mér að allir hafi tekið mér vel og fundist ég skemmtilegur og klár. Eða hvað...?

Í gær fór ég og tók þátt í spurningakeppninni á Langa Manga. Ég var hálf miður mín þegar ég kom á staðinn og ástæðan tengist atburði sem ég mun segja frá eftir smástund. En allavega, ég var ekki með makker og átti eitthvað erfitt með að komast í gírinn, var eiginlega kominn á þá skoðun að betra hefði verið að fara á tónleikana með KK og Magga Eiríks sem voru líka í gærkvöldi.

Nema hvað, kona nokkur gaf sig á tal við mig þar sem ég sat einn við borð með Thule og kúlupenna. Hún spurði hvort mig vantaði liðsfélaga og ég sagði sem var, að ég hefði engan en væri svo sem sama. Ef hana vantaði makker væri ég samt alveg til í það. Úr varð að ég fór og settist við annað borð með vinahópi hennar en þar var allt í einu ein kona orðin ein í liði eftir að ég kom. Skítt með það, hugsaði ég, nenni ekki að benda á það.

Nú og við unnum auðvitað. Nú hef ég unnið þessa ágætu keppni hér fyrir vestan alls fjórum sinnum í sex tilraunum. Skárra record en á Grand þar sem ég hef unnið tvisvar (eða þrisvar, man ekki alveg) í um það bil fimmtíu tilraunum.

Víkur nú sögunni að atburði fyrr um kvöldið sem kom mér í uppnám. Þannig er að ég hef stundum minnst á það við fólk sem ég hef kynnst hér í bænum að gistiaðstaða mín hérna sé fyrir neðan allar hellur. Skítabæli er eina orðið yfir það. Ég hef til dæmis ekki getað eldað neitt í sumar, einfaldlega vegna þess hvað eldhúsið er ógeðslegt. Nú, til að koma sér að efninu þá hringdi í mig maður þegar ég var á leið vestur síðastliðna helgi og sagði mér að þau hjónin væru á leið út úr bænum og að ég mætti gista heima hjá þeim í nokkra daga ef ég vildi, gegn því að ég fóðraði kött og naggrís. Því hef ég undanfarna daga lifað í vellystingum praktuglega, allt þangað til í gærkvöldi að maðurinn - sem er einn þeirra sem ég hef kynnst hvað best hér í bænum, enda er hann eigandi Langa Manga - hringir og segir að þau séu að leggja af stað vestur og verði komin um nóttina, hvort ég sé ekki til í að færa mig í gestaherbergi í kjallaranum.

Ég fer þangað niður, skoða herbergið, líst vel á það og sest á rúmið. Og rúmið lætur undan og brotnar í tvennt undan rassinum á mér.

Eftir að ég kom aftur í húsið í gærkvöldi setti ég kubb undir rúmið til að halda því uppi og lagðist til svefns, eftir að hafa stillt vekjaraklukkuna mína á 7:55. Ég átti ekki að mæta í vinnu fyrr en kl. 13 en á fætur fór ég, læddist út og í Húsasmiðjuna þar sem ég keypti vinkla, skrúfur og skrúfjárn. Fór svo til baka og gerði heiðarlega tilraun til að laga rúmið. Það gekk nú svona og svona. Jæja, svo pakkaði ég saman dótinu mínu og arkaði af stað í skítabælið þar sem ég sá fram á að eyða síðustu vikunni hér vestra.

Þegar þangað var komið fór ég inn í herbergið mitt og skreið upp í rúm, hugsandi mér gott til glóðarinnar að geta nú lagt mig í klukkutíma eða svo áður en ég færi í vinnuna.

Nema hvað, ég lagðist í poll. Á heimilinu eru fjórir kettir og það hafði verið migið fjórum sinnum í rúmið mitt. Einn pollur fyrir hvern kött, hugsaði ég, áður en ég spratt á fætur og hóf ræsti- og þvottaaðgerðir sem áttu eftir að standa fram á kvöld.

Einn pollur fyrir hvern kött.

Nú, eða einn pollur fyrir hvern bjórkassa sem ég hef unnið.

Fríkað karma.

Ummæli

Bullukollur sagði…
Hmmm . . . . Það getur verið varhugavert að leggjast til hvílu hjá ókunnugum. Sumir sofa í bílnum . . .
Bjössi sagði…
En ég á ekki bíl!!!

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu