04 júlí 2007

Málfræði - máltilfinning

Jens Guð veltir upp áhugaverðri pælingu, eða það finnst mér allavega, þegar hann segir frá kvenfanga sem kærir yfirvöld fyrir að banna sér að gamna sér með kynlífsleikfangi.

Skítt með titrarann, það sem er spennandi við málið er spurningin hvort maður eigi að nota persónufornafnið hann eða hún um kvenfanga. Fangi er jú karlkyns nafnorð en ljóst er að um konu er að ræða. Þannig að:

Kynsveltur kvenfangi hefur kvartað formlega við fangelsismálayfirvöld vegna þess að henni er meinað að hafa kynlífsleikfang í fangelsinu.

Og Jens bætir þessu við:

Í ... setningunni á út frá ströngustu málfræðireglum að standa honum í stað henni. Kristján heitinn Eldjárn, fyrrverandi forseti, sannfærði mig um að í svona tilfellum eigi að brjóta regluna. Þó að rætt sé um kvenfanga (hann fanginn) þá er kona til umræðu. Ég skrifa því um hana en ekki hann.

Svo kemur í athugasemdum eitthvað um málfræðina og Jens svarar:
.
Mitt viðhorf til þessarar málfræðireglu er ekki viðurkennt. En ég aðhyllist það. Þórarinn Eldjárn, sonur Kristjáns, er sammála föður sínum. Hann hefur bent á að eðlilegra sé að tala um þau þegar átt er við foreldra, karl og konu. Málfræðireglur eru eitt og máltifinning er annað

Samt hélt ég nú að orðið foreldri væri hvorugkynsorð - foreldrið? eða hvað? En ég er sammála karlinum. Orðið kærustupar er ágætis dæmi um þetta. Ef maður talar um kærustupar (sem er hvorugkynseintölunafnofð) segir maður varla "það" eða hvað?

Eins og í þessu dæmi:

Hafiði heyrt um kærustuparið frá Keflavík sem áttu ekki til hnífs og skeiðar? Ja, hún lifði þó alltént af.

Hér ætti samkvæmt reglum að segja "sem átti" þar sem um eintölu hvorugkyn er að ræða. En við erum að tala um karl og konu. Sem sagt: þau.

Engin ummæli: