22 júlí 2007

Heyannir

Nú hef ég verið utanbæjar mestallt sumarið. Kom heim í heimsókn fyrir hálfum mánuði og fékk sjokk þegar ég sá garðinn heima. Hefði þurft að kaupa mér geit og setja hana á beit.

Í staðinn fór ég í BYKO með debetkort hússjóðs og keypti nýja sláttuvél. Samkvæmt ráðleggingum sölumanns leigði ég mér líka sláttuorf sem ég notaði til að vinna á mesta grasinu.

Sem var helvíti mikið.

Eftir hálftíma puð var ég farinn að örvænta um að ég gæti yfirhöfuð klárað að slá garðinn áður en ég fengi hjartaáfall en svo kíkti ég undir sláttuorfið og það vantaði helvítis vírinn.

Keyrði aftur í BYKO, fékk vír, fór aftur heim og hélt áfram að slá. Nú gekk það greitt og vel.

Svo þegar ég hafði fyllt þrjá stóra plastpoka af heyi var kominn tími á að vígja nýju sláttuvélina. Akvað samt að fara fyrst og fá mér bjór. Hitti Immagaddus. Sagði honum að ég væri nýbúinn að kaupa nýja sláttuvél. Hann benti mér á eitt. Það væri gagnslaust að vera með safnpoka á sláttuvélum. Það þyrfti að hætta að slá á fimm mínútna fresti og tæma. Alveg eins gott að sleppa pokanum og raka bara.

Sem reyndist rétt í fyrsta skiptið sem ég sló.

Í dag sló ég svo aftur. Búinn að vökva garðinn daglega í viku, grænt gras farið að spretta í gegnum sviðna sinuna sem safnast hefur saman í sumar. Og viti menn.

Safnpokinn dugði.

Þannig að. Immagaddus. Það er ekkert að safnpokanum þínum. Hann tekur alveg nógu mikið hey.

Ef þú slærð oftar en tvisvar á sumri.

Engin ummæli: