Topp tuttugu hljómsveitir - fyrsti hluti

Bjó til svona lista í fljótheitum, gæti vel verið að hann muni breytast enda eru svona hlutir oftast háðir hita augnabliksins. En hér koma sæti frá 11-20 eins og mér finnst þau vera akkúrat núna.

20. Sólstafir. Ég er ekki lengur mikill rokkari í mér en ég sá þessa drengi á Airwaves í fyrra og á löngum og leiðinlegum laugardegi þar sem hvert þungarokksógeðið rak annað voru þeir langskemmtilegastir. Spiluðu ekki nema þrjú lög en voru hátt í þrjú korter að því. Á tímabili var lengsta rokklagið hjá þeim orðið eins og grjóthart teknó. Fór líka fjótlega út í búð og keypti plötuna og hlusta oft á hana ennþá.

19. Þú og ég. Það komst í tísku þegar ég var unglingur að hata og fyrirlíta allt sem Gunnar Þórðarson gerði og það er auðvitað satt að margt af því sem hann bjó til eftir að Hljómar hættu er tómt rusl. Gaggó Vest, öll sólóplatan "Í loftinu," Lummurnar og vísnaplöturnar eru tóm steypa. En honum tókst að búa til diskó á heimsmælikvarða og við eignuðumst okkar eigin Donnu Sömmer þar sem var flugfreyjan feitlagna, Helga Möller. Pjúra klassík sem meiraðsegja Palla tókst ekki að eyðileggja þegar hann gerði kover.

18. Oxzmá. Reyndar væri réttast að nefna Langa Sela og Skuggana líka hér. Listaskólapönk af bestu gerð þótt þeir gæfu lítið út af efni og ég næði aldrei að sjá Oxzmá á tónleikum. Sá hins vegar Skuggana nokkrum sinnum og þetta var geðveikt rokkabillí. Skemmtilegt líka hvað margir úr bandinu hafa orðið áberandi á öðrum sviðum síðan þá, hvort sem er sem Ölstofueigendur, Sódómugerðarmenn, leikmyndateiknarar eða Apparatsorgelleikarar.

17. T-World. Íslenskt house og teknó hefur ekki alltaf risið hátt. Þegar vel tekst upp er það oftar en ekki of hart til að maður meiki það nema vera illa beyglaður (Exos til dæmis) og þegar það heppnast illa er fátt verra (Housebuilders, Súrefni, ýmislegt með Gus Gus). Það hefur alltaf fylgt teknósenunni að fjasa um hvað draslið sem er búið til í dag er ekki eins og í gamla daga. Í þeim anda tilnefni ég T-World sem eina fulltrúa elektrónískrar danstónlistar á listann minn. Og ég sem held svo voða mikið uppá house-tónlist!

16. Morðingjarnir. Önnur hljómsveit sem ég sá á Airwaves í fyrra og alveg yndislegt afturhvarf til gamla pönksins. Haukur spilaði með okkur félögunum í PP á Grand Rokk um daginn og reyndist bæði frábær bassaleikari, úrvalspönkari og ljúfmenni í þokkabót. Eina hljómsveitin sem fær mig til að ganga í þvílíkan barndóm að ég er með barmmerki merkt þeim á jakkanum mínum.

15. Baraflokkurinn. Fyrsta band af nokkrum sem kemur frá Rokk í Reykjavík-tímabilinu. Á árunum 1981-82 voru þeir alltaf ein af topp fimm hljómsveitum landsins. Sumir kynnu að nefna Þeysarana frekar en ég sleppi þeim hér því þeir voru svo helvíti óútreiknanlegir, misjafnir og stundum svo artí fartí að maður fékk heiftarlega vindverki. Baraflokkurinn var svona band sem maður vissi alltaf hvar maður hafði. Og lög eins og I don't like your style voru sándtrakk við heilt sumar norður á Akureyri sem líður mér seint úr minni. Geðveikt band.

14. Bang Gang. Aðallega hér út af einni plötu, sem var nánast stanslaust í spilaranum þegar við Rósa vorum að skjóta okkur saman. Svo hitti ég líka Barða í partíi á bar í London fyrir nokkrum árum og komst að því að hann er sniðugur gaur. Maður sem getur látið Ester Talíu hljóma sexý hlýtur að vera af öðrum heimi. Ég hef ekki mikið hlustað á annað stöff með Bang Gang en þessa einu plötu, en það sem ég hef heyrt stendur því dóti fyllilega á sporði. Meiraðsegja kover af Supremes lagi var flott.

13. Unun. Súpergrúppa frá helvíti. Heiða auðvitað snilldarsöngkona, dr. Gunni og Jonni Daisy Hill frábært songwriting team með Þór Eldon á kantinum. "Æ" er plata sem alltaf kemur manni í stuð. Bara grátandi skömm (e. crying shame) að hljómsveitin skuli ekki enn vera til. Hún gekk að nokkru leyti aftur í Eurovision í fyrra og leið fyrir þann heimóttarskap Íslendinga að hlusta ekki á lögin sem eru send í keppnina. Ég get svarið það að við hljótum sem þjóð að vera með sjónvarpið á mute þegar við kjósum í Eurovision. Enda sendum við alltaf bara það fyrirbæri sem er vinsælast hjá 9 ára stelpum og 39 ára einstæðum mæðrum þjóðarinnar á hverjum tíma.

12. XXX Rottweilerhundar. Það eru ekki margar plötur sem fá mann til að tárast yfir þeim listrænu hæðum sem þær ná. Rapp á íslensku, ekki lúðalegu breiðholtskjaftæði heldur kjarnyrtu og beinskeyttu níði, sílspikuð bít undir og það óviðjafnanlega "chutzpah" að blanda rappi á DÖNSKU í pakkann og fá íslenska unglinga til að fíla það - "jeg klipper dine fingre med en fuckin' havesaks!" - þetta verður ekki leikið eftir í bráð. Seinni platan náði þeim ólíklega árangri að vera sennilega betri diskur þótt hún væri ekki með sömu læti og sú fyrri. Plús það að sviðsframkoma á tónleikum gaf manni harðar geirvörtur. Kjaftshögg á geisladiski.

11. Daisy Hill Puppy Farm. Oft hörmulegir live, látið mig vita það, ég var á allmörgum tónleikum. Stebbi og Óli heitinn áttu það til að vera aðeins of drukknir á sviði. Hins vegar náðu þeir einhverjum galdri þegar þeir tóku hávaðann sinn upp. Ég var svo lánsamur að fá að stjórna upptökum á einu lagi sem fór á Snarl-spólu árið 1986 eða 1987. Og meiraðsegja sú upptaka er svakaleg. Tólf tommu platan þeirra var einhver óræð blanda af Mary Chain, Phil Spector, Dinosaur jr. og tjah, Velvet Underground kannski. Textar sem voru svo stjúpid að þeir voru djúpir: "I feel so tough, can't get enough, I feel so mean, I'm seventeen... and we'll rule the world, me and my peroxide girl..."

Næst: topp tíu. Watch this space.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu