16 júní 2007

Sagnfræðipönk

Þetta gamla fífl þykist geta ákveðið hvaða hljómsveitir fólk megi kjósa um svo úr verði niðurstaða um merkustu hljómsveit Íslandssögunnar. Samt er hann ekki með meira vit í kollinum en svo að hann nefnir bæði Sigurrós (geeeeeiiiiisssssp!) og Sykurmolana en ekki Purrk Pillnikk. Kannski maður ætti að þakka fyrir að hann fari ekki að tala um Gusgus. Það skrítnasta er samt að hann setur inn á sinn topp tíu eitthvað fyrirbæri sem heitir Gyllinæð. Nú veit ég lítið um gyllinæð þótt ég þekki að minnsta kosti tvo "unga" menn sem gætu frætt mig en ég kunni ekki við að hringja í þá og spyrja svo ég gúgglaði bara. Þar fékk ég að vita að gyllinæð gæti verið sársaukafull, henni fylgdi kláði og erfiðleikar að koma hnútunum inn í endaþarminn.

Vita skátarnir af þessu?

En allavega, er þetta merki um góða hljómsveit? Þegar maður tékkar á niðurstöðum hjá gamla fíflinu kemur í ljós að "hljómsveitin" Gyllinæð hefur fengið álíka mörg atkvæði og meðlimir eru í bandinu. Segir það okkur ekki eitthvað.

Vinur minn Haukur, bassaleikari í Morðingjunum (og PP) kommentar hjá gamla fíflinu og segist hafa kosið Þey, sem er í sjálfu sér virðingarvert. Samt komst ég að því þegar ég klikkaði á linkinn á Hauk að hann er líka úti að skíta. Á sinni bloggsíðu er hann búinn að telja upp topp tíu plötur Íslandssögunnar og ég er hjartanlega ósammála honum að flestu leyti. Sem þýðir að öllu leyti nema því að hann nefnir plötuna Miranda með Tappa Tíkarrassi, sem ég myndi tæpast setja inn á topp tuttugu hjá mér, en segir - réttilega - að ballaðan "Get ekki sofið" á þeirri plötu sé ein sú magnaðasta sinnar tegundar. Erfitt að vera ósammála því.

En ég hlýt að setja peningana mína þar sem kjafturinn er og birti hér bráðum minn eiginn topptíu lista yfir íslenskar plötur og hljómsveitir. Bara svo þið getið vitað hvað snýr upp og niður, veslings litlu flón.

Engin ummæli: