08 maí 2007

Sunnudagar

Úff hvað þeir geta orðið slæmir, sérstaklega þessi í fyrradag. Vorið komið, mánaðamót og allar örlagafyllibytturnar eiga enn fullt eftir af laununum sínum og búnar að vera íðí síðan á fimmtudag.

Þurfti að standa dagvaktina á Grand og var orðinn þreyttur strax um þrjúleytið. Lætin voru samt rétt að byrja.

Eftir vinnu fórum við hjónin á Vitabar að fá okkur borgara og bjór. Þar var ástandið enn verra. Á næsta borði við okkur sat ungt par. Gæinn skrapp á klósettið og blindfullur Pólverji notaði tækifærið og vatt sér að stúlkunni og bablaði eitthvað við hana á pólsku. Hún fitjaði upp á trýnið og sagði honum að fara en hann skildi auðvitað ekki bofs. Svo kom strákur og vippaði Pólverjanum í burtu í einu vetfangi.

Svo stillti blindfull eldri kona sér upp við barinn hjá borðinu okkar. Spurði hvaða rauðvín væri til. Sagði að sig langaði í eitthvað gott rauðvín. Bósjólei eða eitthvað slíkt. Hefur væntanlega verið að plana að halda hátíð. Bardaman benti á röð af nákvæmlega eins flöskum af ódýru argentínsku sulli og sagði að þetta væri það eina sem til væri. En hvað áttu annað? spurði sú fulla og var ekki að ná þessu. Svo kom maðurinn hennar og fór að gera sig breiðan, ákvað einhverra hluta vegna að eiga eitthvað sökótt við strákinn á næsta borði, gekk upp að honum og lét dólgslega. Bardaman reyndi af veikum mætti að biðja hann kurteislega að láta matargesti í friði en alltaf sneri hann aftur, þangað til ég kallaði til stráksa hvort við ættum ekki að fara með manninn út og ganga frá honum. Sá fulli horfði illskulega á mig en ég urraði bara til baka og hann hopaði á hæli. Enda eflaust best geymdur á hæli. Svo fór hann að belgja sig við bardömuna og sakaði hana um að hafa stolið af sér vodkaflöskunni sem hún hafði selt honum rétt áður.

Note to self: ekki selja blindfullum geðsjúklingum vodkaflösku á sunnudegi.

Þá vatt stelpan á grillinu sér fram í sal til að hjálpa til að leita að vodkaflöskunni. Tók eftir hjónum sem voru sofnuð í sætum sínum innst í matsalnum. Vakti þau og bað þau að koma sér út. Fann loks vodkaflöskuna inni á klósetti - fullikall hafði laumað sér þangað inn til að fá sér sjúss og gleymt henni - og kom í hendur á réttmætum eiganda sem nú var enn einu sinni við það að hjóla í strákgreyið. Bardaman tók upp símann og hringdi á lögregluna en um leið renndi leigubíll í hlað, en sá hafði verið pantaður fyrir þessa ólátabelgi nokkrum mínútum áður. Hjónin sem voru sofnuð í horninu voru nokkrar mínútur að koma sér út og viti menn, einmitt þegar þau yfirgáfu staðinn mætti löggimann og tók þau, en hitt liðið sem var með miklu meiri læti, slapp burt í taxanum.

Note to self: borgari og bjór á Vitabar er fín hugmynd, en bara á virkum dögum.

1 ummæli:

ABG & JKK sagði...

Note to self! Muna eftir að láta Feitabjörn ekki vita þegar maður er í bjór og borgara í næsta húsi !!