12 maí 2007

Gummi vinur minn var að senda mér þetta og vill að sem flestir lesi:

Kæru kollegar.

Mig langar að biðja ykkur að gera leiklistinni og sjálfum ykkur lítinn greiða.

Eins og þið vitið eflaust flest þá varð ríkisútvarpinu nýlega breytt í opinbert hlutafélag (ohf) með tilheyrandi skipulags og mannabreytingum. Eitt það fyrsta sem nýskipaðri yfirstjórn datt í hug að gera til að spara, var að leggja niður útvarpsleikhúsið. Hallmar Sigurðsson, leiklistarstjóri útvarpsins er nú að sannfæra þriðja fjármálastjórann á fimm árum um að útvarpsleikhúsið sé gimsteinn sem þurfi að standa vörð um.

Ég veit ég þarf ekki að tíunda fyrir eldri félögum mikilvægi útvarpsleikhússins en ég hreinlega veit ekki hvort að yngri félögum er það ljóst.

Útvarpsleikhúsið geymir sögu íslensks leikhúss sennilega betur en flest annað. Þar eru varðveittar upptökur frá árdögum íslensks atvinnuleikhúss og samfleytt til dagsins í dag.

Útvarpsleikhúsið frumflytur milli 12 & 20 leikrit á ári af öllum stærðum og gerðum, frá stuttum einþáttungum upp í 20 þátta seríur.

Útvarpsleikhúsið endurflytur milli 30 & 40 leikrit ári

Þess utan framleiðir útvarpsleikhúsið fléttuþætti um íslenska leiklist.

Úr dagbókarkönnunum má lesa að það eru aldrei færri en 5000 manns sem hlusta á flutning í útvarpsleikhúsinu, sem er ríflega tvöföld meðalaðsókn að sviðsverki.

Á sunnudagsútsendingar útvarpsleikhússins kl 13 á sunnudögum hlusta að jafnaði um 10.000 manns

Á sakamálaseríur sumarsins hlusta umtalsvert fleiri, aldrei færri en 15.000 manns á hvern þátt.

Öll útvarpleikverk eru aðgengileg inn á vef ríkisútvarpsins í 2 vikur eftir að þeim er útvarpað. Sláðu inn http://ruv.is smelltu á tákn efst á síðunni þar sem mynd er af hátalarakeilu og stendur rás1. Þar er dagatal, þú velur mánaðardag. Þá birtist dagskrá þess dags og allt sem er bláletrað og undirstrikað geturðu hlustað á.

Útvarpsleikhúsið sendir út kl 22 á fimmtudögum og kl 13 á sunnudögum

Hlustun á útvarpsleikhúsið hefur verið að aukast jafnt og þétt undanfarin þrjú ár.

Útvarpsleikhúsið hefur gert mikið af því að flytja ný og fersk verk, bæði innlend og erlend og hefur verið ötult við að gefa ungum leikurum, leikstjórum og höfundum tækifæri.

Ég er nýkominn af árlegri ráðstefnu útvarpsleikhúsa á norðurlöndum, hvar ég var ásamt Hallmari Sigurðssyni og Einari Sigurðssyni tæknimanni. Það er ljóst að allstaðar hafa útvarpsleikhúsin verið að verja tilverurétt sinn og standa misvel að vígi í hörðum heimi markaðsvæðingar. Útvarpsleikhús norska ríkisútvarpsins virðist standa hvað best og er búið að vinna þrekvirki í að öðlast aftur góðan sess meðal norsku þjóðarinnar. Á sakamálaseríu norska útvarpsleikhússins sem flutt var um síðustu páska hlustuðu að meðaltali 700.000 manns á hvern þátt. Ég ætla ekki að tíunda allt það sem kom fram á þessari ráðstefnu hér og nú en nokkuð vil ég taka fram.

Ég held að við, leikarar, leikstjórar og höfundar getum unnið útvarpsleikhúsinu mikið gagn með lítilli fyrirhöfn. Við þurfum að tala meira um það og vera stoltari af því. Oft hef ég séð að leikarar og leikstjórar minnast ekki á vinnu sína í útvarpsleikhúsinu í viðtölum í blöðum og ljósvakamiðlum, ég hef staðið sjálfan mig að því. Við listamenn erum hipp og kúl og erum vinsæl í viðtöl ýmiskonar, ef við komum því áleiðis að okkur finnist útvarpsleikhúsið hipp og kúl held ég að við náum hlustendum að viðtækjunum.

Á ráðstefnunni komu fram bráðsnjallar hugmyndir til að kynna útvarpsleikhús fyrir börnum og öðrum nýjum hlustendum. Ætlunin er að láta reyna á nokkrar þeirra, ef útvarpsleikhúsið starfar áfram.
Útvarpsleikhús hefur aldrei verið vinsælla hjá yngstu kynslóðunum í Noregi en einmitt nú

Það er eitt og annað í bígerð hjá útvarpsleikhúsinu til að mæta breyttum högum fólks. Þjóðfélagið hreyfist hraðar nú en áður að minni um að fólk geti gefið sér tíma til að setjast niður á ákveðnum tímum og hlusta ótruflað.

Nútímafólk þarf að geta hlustað þegar það hefur tíma. Sjálfur segi ég að fátt finnst mér betra orðið en að hlusta á útvarpsleikrit í bílnum, það er ótrúlegt hvað maður eyðir miklum tíma í bíl orðið.

Unnið er að því að gera útvarpsleikrit aðgengileg á podcast formi (hlaðvarpi), nú þegar er hægt að hlaða niður Sakamálseríu síðasta sumars Tíma Nornarinnar inn á http://podcast.is/

Hugmyndin er að hafa nokkuð úrval titla aðgengilegt á netinu og hreyfingu á þeim, þannig að hlustendur hafi nokkuð val um hvað þeir vilja hlusta á, þá þeir hafa tíma.

Til stendur að gera nokkuð átak í útgáfu útvarpsleikrita á geisladiskum.


Allt þetta krefst einhverrar endurskoðunnar á samningum við listamenn en ég held að það sé bara vel. Það þarf að finna á því lausn hvernig við hyggjumst mæta nýjum miðlum, hvernig verður greitt fyrir flutningrétt gegnum vefinn og hlaðvarp. Þessir miðlar eru kominr til að vera og eiga bara eftir að auka vægi sitt á komandi árum.

Mér skilst að hið nýja ríkisútvarp ohf. ætli sér hvort eð er að semja upp á nýtt við leikara, leikstjóra, höfunda og aðra listamenn, líka fyrir sjónvarp.

Útvarpsleikhús er svo sannarlega ekki deyjandi form, ekki frekar en tónlist. Nýjir miðlar eru ekki heldur að fara að drepa útvarpsleikhúsið frekar en tónlist.

Mannskepnan elskar sögur og hljóðheim og er með innbyggðan sýndarveruleika. Við elskum að það sé nóg skilið eftir handa ímyndunaraflinu.

Lokaðu augunum og sjáðu

Stöndum vörð um útvarpsleikhúsið, tökum það með okkur í sviðsljósið þeagar það á við, þó ekki væri nema sjálfra okkar vegna.

Guðmundur Ingi Þorvaldsson

Engin ummæli: