Memento Mori pt9

Þegar ég var nýfluttur til London árið 1994 bjó ég á hryllilegum stað sem heitir King's Cross. Fékk að sofa á gólfinu hjá vinafólki þangað til varanlegt húsnæði fyndist. Það var löng leið í skólann og strax byrjað að vinna frameftir kvöldum. Eitt kvöldið tók ég lestina og fór úr við Notting Hill Gate. Labbaði svo í gegnum Notting Hill hverfið áleiðis að annarri stöð sem heitir Ladbroke Grove.

Ef einhver hefur séð myndina Notting Hill þá gefur hún alranga mynd af því hvernig er að labba gegnum þetta hverfi á kvöldin. Ég var eins túristalegur og hægt var, með skólatöskuna á bakinu og litla beltistösku um mittið. Þrír svartir gæjar stóðu á götuhorni og fylgdust með mér nálgast.

"Weed?" spurði einn þeirra þegar ég gekk framhjá og þeir röltu af stað með mér. Ég hváði, þeir tala með skrítnum hreim þarna í Notting Hill, enda flestir ættaðir úr Karíbbahafinu.

"You wanna buy some weed, mon?" endurtók hann en annar greip í handlegginn á mér og stýrði mér inn í húsasund. Áður en ég vissi af var sá þriðji byrjaður að gramsa í skólatöskunni minni. Nú vildu þeir bara fá pening en ég sagðist ekki vera með neina peninga á mér. Sem var reyndar lygi.

Allt í einu var einn kominn með hníf á loft. "You wanna die, mon?"

En þá tók annar eftir beltistöskunni, opnaði rennilásinn og fann tíu punda seðil. Nokkrum andartökum síðar voru þeir allir horfnir. Ég áttaði mig á því að nú þyrfti ég að finna hraðbanka til að eiga fyrir lestinni heim svo ég varð að labba til baka sömu leið og ég kom. Eftir að hafa tekið út úr hraðbankanum ákvað ég að finna sjoppu og kaupa mér sígarettupakka.

Það kom mér á óvart að ég gat varla kveikt í sígarettunni, hendurnar skulfu svo mikið.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu